fimmtudagur, 31. ágúst 2006

Leitið og þér munuð finna

Já, að sjálfsögðu fann ég blessaða bókina, þýðir ekkert að gefast upp...

Þoli ekki þegar hlutir gufa upp

á að því er virðist yfirnáttúrulegan hátt. Að sjálfsögðu er það yfirleitt maður sjálfur sem hefur lagt þá frá sér á vitlausan stað - en sama hvað maður leitar þá finnur maður ekki hlutinn sem um ræðir. Í þetta skiptið er það lítil bók sem ég skrifa í matreiðsluuppskriftir. Það er nú svo skrýtið með það að þó eiginmaðurinn sé aðal kokkurinn á heimilinu þá safna ég líka uppskriftum. Kannski kökur og smáréttir fái þó meira pláss en heimilismatur, skal ekki segja. En nú ætla ég að vera með konuklúbb á föstudaginn og þá vantar mig blessaða uppskriftabókina - sem er gufuð upp! Ekki þar fyrir, það eru heilu bílfarmarnir af matreiðslubókum og blöðum til í húsinu, en ég vil samt finna bókina MÍNA.

miðvikudagur, 30. ágúst 2006

Nú er úti veður vott

verður allt að klessu.
Ekki á hún Gunna gott
að gifta sig í þessu.

Ekki er ég á leiðinni í brúðkaup en þessi vísa kom upp í hugann þegar ég sat og horfði út um gluggann. Það er svona "þægileg" rigning úti og alveg blankalogn, sem sagt fallegt rigningarveður. Ég ætla að drífa mig út að ganga á eftir (í nýja regnjakkanum að sjálfsögðu :-)

Félagar mínir, þau Birta og Máni, eru hins vegar ekki hrifin af þessu veðri og þeirra viðbrögð eru að sofa megnið af sólarhringnum. Eiginlega er ég bara fegin því þau gera þá ekki eins mikið af sér á meðan. Þau hafa nefnilega tekið upp á þeim ósóma að "merkja" húsið svo það sé nú alveg ljóst hver eigi heima hér. Það bar svolítið á þessu í fyrrasumar en ekkert í vetur. Svo byrjaði fjörið á nýjan leik nú í sumar. Þau eru ekki að pissa í þeimi skilningi, heldur spreyja smá skvettu á veggina (sem svo lekur niður á gólf) en afleiðingin er sú sama: ólykt. Sérstaklega ef skaðinn uppgötvast ekki í tíma.

Þannig að ég er stöðugt á varðbergi og keypti sérstakt lyktar- og blettaeyðandi spray til að nota í þessu samhengi. Ef ég næ að uppgötva "slysið" nógu snemma og get notað þetta efni þá kemur hvorki lykt né blettur. En það tekst ekki alltaf. Það er líka hægt að kaupa Feliway (lyktarhormón) sem á að virka róandi á ketti og láta þá hætta þessu en það efni er rándýrt og mér fannst það nú ekki virka neitt rosalega vel í fyrra þegar við prófuðum það.

Hins vegar gengur þetta náttúrulega ekki svona, ég er að breytast í einn stresshnút út af þessu og það er búið að takmarka aðgang kattanna að stórum hluta hússins, sem fer gríðarlega í taugarnar á þeim (sérstaklega Birtu þó). Ætla að tala við dýralækni og sjá hvort einhver fleiri ráð eru í stöðunni. Er ekki alveg tilbúin að láta lóga þessum heimilismeðlimum vegna þessa - en mun líklega neyðast til þess ef ekki finnst einhver lausn. Þetta er erfitt líf!

þriðjudagur, 29. ágúst 2006

Hef ekkert að segja - og ætti því að þegja

En lífið er ekki svo einfalt að maður geri alltaf það sem maður ætti að gera - og þess vegna blogga ég í dag.

Er búin að endurheimta eiginmanninn úr veiði, sonum okkar til mikillar ánægju því þá fá þeir loks ætan bita á matmálstímum á ný. Ég er búin að átta mig á því að þeir eru orðnir alltof góðu vanir og matur sem þótti frambærilegur hér áður fyrr, þykir það ekki lengur, því sælkerakokkurinn er alltof oft með eitthvað gott að borða. Sem dæmi má nefna þá keypti ég heilgrillaðan kjúkling með frönskum og gosi á tilboði í Hrísalundi um helgina og þeir snertu varla á þessum "kræsingum". Frönskurnar þóttu vondar og kjúklingurinn þurr! Og ég var sú eina sem borðaði tikka masala sósuna (úr krukku) með. Heimatilbúin pítsa féll reyndar vel í kramið en svokallað "hátíðarkjöthakk" gerði það hins vegar ekki. Það þarf alla vega enginn að efast um mikilvægi fjölskylduföðursins hér á heimilinu :-) Mín verk s.s. að þvo þvottinn, laga til og þrífa, falla hins vegar óhjákvæmilega í skuggann, en svona er þetta víst bara...

Annars hafði ég lúmskt gaman af því þegar nýráðinn forstöðumaður Ferðamálaseturs hringdi í mig vegna heimasíðu stofnunarinnar. Hann hafði frétt að ég hefði verið að vinna í síðunni í fyrrasumar og hélt að ég væri algjör gúrú í þessum efnum (smá djók!). Ég fór og kíkti á hann i morgun og sá að það sem hann var að bögglast með hafði ég ekki heldur getað leyst í fyrra. Ég var hins vegar svo heppin að fá aðstoð hjá honum Jóa sem var þá að leysa af á Gagnasmiðjunni en er nú útskrifaður tölvunarfræðingur. Þannig að ég gat ekki annað en sagt manninum eins og satt var, að mér hefði nú ekki tekist þetta á eigin spýtur heldur fengið aðstoð. Hann vildi þá vita hjá hverjum og nú er bara spurning hvað hann gerir við þær upplýsingar, hvort Jói greyið fær símtal...

mánudagur, 28. ágúst 2006

Hver er að þramma á brúnni minni?

Leikið við lækinn


Leikið með vatn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Nýji regnjakkinn minn


Við Skálanes, originally uploaded by Guðný Pálína.

er í svolítið skærum litum eins og sjá má á þessari mynd. Ég hafði samt ekki reiknað með allri þeirri athygli sem ég fæ út á jakkann. Fór út að ganga í gær og það var horft svo mikið á mig að ég fór hálfpartinn hjá mér. Akureyringar eru reyndar þekktir fyrir að horfa mikið á náungann, en þetta var eiginlega "too much". Jakkinn er samt afskaplega þægilegur, lipur og mátulega hlýr.

sunnudagur, 27. ágúst 2006

Fersk í morgunsárið

Það er eitthvað alveg sérstakt við það að fara í sund snemma á morgnana um helgar. Nánast enginn í lauginni og eitthvað svo mikil ró yfir öllu. Ég hjólaði í sundið (hef verið bíllaus síðan á fimmtudaginn og finnst það fínt!) og fannst ég vera alveg hrikalega fersk. Stefni svo að því að fara út að ganga seinna í dag. Önnur verkefni dagsins eru að klára að fara yfir próf í markaðsfræðinni og laga til í húsinu. Og aldrei að vita nema ég baki eina köku eða svo...

föstudagur, 25. ágúst 2006

Flutningur milli herbergja

Þegar Hrefna byrjaði í menntaskóla á sínum tíma þótti okkur nauðsynlegt að hún fengi almennilegt skrifborð. Því var keypt handa henni nýtt borð en sá galli fylgdi gjöf Njarðar að það komst ekki fyrir í herberginu hennar. Þess vegna upphófust hinir mestu hreppaflutningar. Hrefna fékk herbergið sem við hjónin höfðum verið í (það er stærsta herbergið á hæðinni), Andri fór inn í hennar gamla herbergi og við fórum í herbergið sem Andri hafði verið í (sem er reyndar hjónaherbergið samkvæmt teikningu). Þessu fylgdi smá málningarvinna því Hrefna vildi fá nýjan lit á sitt herbergi og við skiptum líka um lit á hjónaherberginu.

Ísak var áfram í minnsta herberginu þar til Hrefna flutti að heiman en þá var aftur skipt um herbergi, Ísak fór í Andra herbergi, Andri í hjónaherbergið og við í stærsta herbergið aftur. Ég fékk Ísaks herbergi sem vinnuherbergi og er alsæl með það. Sit þar inni í þessum töluðu (skrifuðu) orðum.

Nú er Andri að hefja menntaskólanám í haust og erfir gamla skrifborðið hennar systur sinnar. Bindum við vonir við að hann sýni lit og fari að læra heima þegar hann fær betri aðstöðu til heimanáms. En hjónaherbergið rúmar hins vegar ekki svo mikið, því einn veggur fer undir skáp og á öðrum er gluggi og stór ofn. Þannig að enn á ný þurfti að breyta um herbergi, og í það fór gærdagurinn hjá okkur mæðginum. Í þetta sinn var þó ekkert málað en engu að síður er þetta ótrúlega mikið rask og töluverð vinna að færa öll húsgögn á milli, þrífa og nota tækifærið og grisja úr skápum og hillum. En hann er núna kominn með fínustu aðstöðu, sér skrifborð og sér tölvuborð, og svo fékk hann stóra kommóðu undir fötin sín.

Eini gallinn er sá að þó ég eigi ekki mikið af fötum (alveg satt!) þá er skápurinn í hjónaherberginu þess eðlis að það rúmast ekki vel í honum og hann er ekki stór á nútíma mælikvarða. Þannig að fötin mín komast ekki öll fyrir í mínum hluta skápsins og ég sé fram á að þurfa að fá mér kommóðu til að hafa við fótagaflinn á rúminu. Það verður reyndar pínu þröngt en sleppur samt alveg. Og MALM kommóðurnar frá IKEA eru rosalega rúmgóðar - þannig að ég ætti að verða í góðum málum :-)

Dóttir mín er reyndar þeirrar skoðunar að það sé hvergi skipt jafn oft um herbergi eins og hér í Vinaminni - spurning hvort það er rétt hjá henni?

fimmtudagur, 24. ágúst 2006

Máttur bloggsins

Um leið og Hrefna fékk að vita að hún hefði komist inn í læknisfræðina í Kaupmannahöfn byrjaði fjörið að leita sér að húsnæði. Hún fór á netið og skráði sig hjá einhverri leigumiðlun og las jafnframt allar auglýsingar sem hún fann annars staðar. Ekki hafði hún haft heppnina með sér þegar stúdentaíbúðum var úthlutað, enda langur biðlisti þar. En skömmu síðar var ég að leita að einverju á netinu og sló leitarorðinu upp á Google (man ekki lengur að hverju ég var að leita enda er það aukaatriði í þessu samhengi ;-) Nema hvað, ég lenti þá inni á einhverri bloggsíðu og ætlaði að fara að loka henni þegar ég sá tengil á Vaðbrekkuætt í tenglasafni hjá viðkomandi manneskju. Þetta vakti forvitni mína því vinkona okkar er af Vaðbrekkuætt og ég vissi að það hafði nýlega verið ættarmót hjá þeim. Smellti á tengilinn og sá að þarna var að finna ýmsar upplýsingar um ættina s.s. ættartré. Einnig var listi yfir þá ættingja sem voru með bloggsíður. Ég smellti af rælni á eitt nafnið á listanum. Þetta var kona og yfirskriftin á nýjasta blogginu hennar var eitthvað í þá áttina að biðin væri á enda, dóttir hennar hefði komist inn í læknisfræði í Köben. Þetta fannst mér ansi skondin tilviljun svo ég smellti mér inn á síðu dótturinnar. Þar voru sömu fréttir að finna, en auk þess kom í ljós að hún og kærastinn voru búin að fá íbúð en þau vantaði meðleigjanda því þetta var svo stór íbúð og kostaði 8 þús. danskar á mánuði. Þessar upplýsingar lét ég síðan ganga áfram til dóttur minnar og hún er núna farin að leigja með þessum krökkum! Segið svo að bloggið svínvirki ekki :-)

þriðjudagur, 22. ágúst 2006

Ég tók þessa mynd af krökkunum


Systkinin, originally uploaded by Guðný Pálína.

í dag í tilefni þess að Hrefna var að flytja til Danmerkur. Andri stendur neðar í tröppunni heldur en Hrefna og Ísak til að leyfa Hrefnu að "vera stærst". Hún er ekkert voðalega ánægð með það hvað bróðir hennar er orðinn mikið stærri en hún. En hann er reyndar orðinn stærri en við foreldrarnir svo hún þarf nú ekki mikið að kvarta... En það voru blendnar tilfinningar að fylgja henni á flugvöllinn. Stolt yfir því að "litla" stelpan mín er orðin svona stór en jafnframt söknuður yfir því að hún er að flytja til útlanda og ég kem ekki til með að hitta hana mikið næstu sex árin (að minnsta kosti). En þetta er víst gangur lífsins og hægt að gleðjast yfir því að hún skuli vera að fara að gera það sem hana langar til.

mánudagur, 21. ágúst 2006

Það er mesta furða

að ég skuli ekki vera orðin hnöttótt í laginu:

- ég borða þegar ég er svöng
- ég borða þegar ég er stressuð
- ég borða þegar ég er þreytt
- ég borða þegar ég er leið
- ég borða þegar ég mig vantar orku
- ég borða þegar ég sit lengi við vinnu
- ég borða fyrir framan sjónvarpið á kvöldin

Það er nánast bara þegar ég er svöng sem ég borða hollan mat, hin fæðan samanstendur af óhollustu s.s. súkkulaði, sætindum og kexi. Hef þó reynt að bæta við hnetum, fræjum, gulrótum og einstaka ávöxtum en hef enga sérstaka fíkn í svoleiðis hollustu...

Um daginn var viðtal í Fréttablaðinu við bandarískan þingmann sem kom hingað til lands til að halda fyrirlestur um næringu og heilbrigðan lífsstíl. Þingmaðurinn vill meina að af því við borðum svo mikið af óhollustu og mat sem er svo mikið unninn að hann skortir öll næringarefni, þá kalli líkaminn í sífellu á meiri mat því hann fær ekki þá næringu sem hann þarfnast. Og við bregðumst við með því að borða meiri óhollustu... Ekki gott mál og mesta furða hvað við mannfólkið getum farið illa með þennan eina líkama sem okkur áskotnast í vöggugjöf.

Ég er alltaf að reyna að borða hollari mat í heildina séð (og Valur eldar hollan mat, bara svo það sé á hreinu, það er ég sjálf sem sé um að koma óhollustunni inn fyrir mínar varir). Þó skortir mikið uppá að ég nái 5 skömmtum af ávöxtum og grænmeti á hverjum degi. En ég held áfram að reyna...

föstudagur, 18. ágúst 2006

Ekki þurfti mikið að gerast

til að ég kæmist út úr þessu doða-ástandi sem hefur verið á mér síðustu dagana. Ég fékk símhringingu frá háskólanum þar sem ég var beðin að taka að mér að búa til + fara yfir ágústpróf í markaðsfræðinni. Strax og ég var komin með eitthvað svona "áþreifanlegt" verkefni þá fylltist ég orku (a.m.k. tímabundið) þó ekki ætlaði ég nú að skila prófinu af mér fyrr en á mánudaginn. Þá var aftur haft samband frá háskólanum. Einn nemandi hafði skráð sig í ágústpróf í neytendahegðun og nú þarf að búa til próf í hvelli því prófið er á þriðjudagsmorguninn. Og eins og alltaf þá get ég ekki bara drifið mig í að gera hlutinn sem þarf að gera, nei fyrst þarf ég að laga til, setja í þvottavélina og gera alla (nei ekki alla, bara suma) hlutina sem ég hefði getað gert í vikunni en var of framtakslaus til að gera :-) En nú er ég farin að semja próf...

Ekki þurfti mikið að gerast

til að ég kæmist út úr þessu doða-ástandi sem hefur verið á mér síðustu dagana. Ég fékk símhringingu frá háskólanum þar sem ég var beðin að taka að mér að búa til + fara yfir ágústpróf í markaðsfræðinni. Strax og ég var komin með eitthvað svona "áþreifanlegt" verkefni þá fylltist ég orku (a.m.k. tímabundið) þó ekki ætlaði ég nú að skila prófinu af mér fyrr en á mánudaginn. Þá var aftur haft samband frá háskólanum. Einn nemandi hafði skráð sig í ágústpróf í neytendahegðun og nú þarf að búa til próf í hvelli því prófið er á þriðjudagsmorguninn. Og eins og alltaf þá get ég ekki bara drifið mig í að gera hlutinn sem þarf að gera, nei fyrst þarf ég að laga til, setja í þvottavélina og gera alla (nei ekki alla, bara suma) hlutina sem ég hefði getað gert í vikunni en var of framtakslaus til að gera :-) En nú er ég farin að semja próf...

fimmtudagur, 17. ágúst 2006

Þegar ég var lítil

datt mér einhvern tímann í hug að verða rithöfundur þegar ég yrði stór. Samdi nokkrar sögur og ljóð og var ekkert smá montin þegar saga eftir mig var lesin upp í Stundinni okkar, þegar ég var ca. 11 ára. Þrátt fyrir þessa góðu byrjun á ferlinum - og þrátt fyrir að draumurinn um að skrifa hafi kannski aldrei verið langt undan - hef ég gert flest annað en að skrifa.

Ég hætti í menntaskóla og fór í staðinn í sjúkraliðanám, eignaðist dóttur, vann sem sjúkraliði, skellti mér aftur í skóla og tók stúdentinn, flutti til Noregs, vann sem sjúkraliði, eignaðist son, gifti mig, stundaði nám í sálfræði, vann sem sjúkraliði, flutti til Íslands aftur, eignaðist annan son, var heimavinnandi, stundaði nám í viðskiptafræði, var atvinnulaus í eitt ár, stofnaði fyrirtæki og starfrækti  í tæp tvö ár, fór að kenna við háskólann, hætti að kenna... Þessa dagana er ég án vinnu og eftir að hafa verið ein með sjálfri mér í nákvæmlega fjóra daga er mér farið að leiðast. Samt er Ísak heima á daginn (fyrir utan fótboltaæfingar og leiki með félögunum) og aðrir fjölskyldumeðlimir eru heima eftir klukkan fjögur. Hið sama gilti þegar ég var atvinnulaus, mér leiddist alveg óskaplega. Nú skyldi maður halda að sá sem hefur allan þennan frítíma geti notað hann í eitthvað gáfulegt s.s. að þrífa húsið, reita arfa í garðinum, setja myndir í myndaalbúm, sauma nýjar eldhúsgardínur, laga til í skápum ofl. ofl. Verkefnin bíða í hrönnum og ég - ég geri nánast ekki neitt af viti.

Ég er fyrir löngu búin að komast að því að til að geta "virkað" eðlilega þarf ég samneyti við fólk. Þarf vissan skammt af örvun til að koma heilanum í gang. Og nú er ég loks að koma að því sem er mergurinn málsins með þessum pistli mínum: Ég gæti aldrei starfað sem rithöfundur, setið alein fyrir framan tölvuna lungann úr deginum án samveru við annað fólk. Það dugar mér ekki að fara í sund á morgnana og hitta svo engan fyrr en klukkan fjögur á daginn. Þegar ég var að kenna þá var það yfirleitt svo að ég var bara með kennslu tvisvar til þrisvar í viku, restina af tímanum sat ég inni á skrifstofu (ein) og var að undirbúa kennsluna, fara yfir verkefni o.s.frv. Og mér leiddist það alveg hörmulega. Fimmtán mínútna kaffitími á hverjum morgni dugði ekki til að slá á þörf mína fyrir mannleg samskipti, og ekki hafði ég tíma til að hanga hálfan daginn í kaffi.

Ergo: Eg þarf að vinna á vinnustað þar sem ég hitti margt fólk!

Bíllinn okkar er þeim eiginleikum gæddur

að láta vita þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá honum. Til dæmis ef einhver lokar ekki hurðinni hjá sér nógu vel þá koma skilaboð á skjá um að farþegahurð sé opin. Fyrr í sumar komu skilaboð um að það þyrfti að fara með bílinn í þjónustuskoðun. Þriðjudag í þessari viku fór ég loks með bílinn á verkstæðið. Í viðbót við skoðunina þurfti að skipta um framrúðu því sú gamla brotnaði í steinkasti á íslenskum þjóðvegi, og eins þurfti að athuga einhverjar leiðslur því öryggið sem stýrir farþegasætinu frammí var alltaf að springa. Þetta gekk nú allt saman þokkalega en þeir voru samt heilan dag að stússast í bílnum.

Nema hvað, í morgun þegar ég var að fara í sund kviknaði rautt aðvörunarljós í mælaborðinu og skilaboð birtust á skjánum "Coolant low. Stop engine now." Ég verð að viðurkenna algjöra vankunnáttu mína varðandi bílvélar - ég vil bara geta komist milli staða og langar sem minnst að vita um starfsemi vélarinnar. En "coolant" datt mér helst í hug að væri einhvers konar kælivökvi og ég þorði ekki annað en fara með bílinn rakleiðis á verkstæðið til að tékka á þessu. Ja, ekki alveg rakleiðis þó, fór fyrst í sundið... Mikið sem strákurinn sem tók á móti mér á verkstæðinu skammaðist sín fyrir hönd sinna manna þegar ég sagði honum hvers kyns var. Jú, "coolant" var frostlögur og þeir hefðu átt að fylla á hann við skoðunina en hafði yfirsést það. Þannig að ég fékk fría áfyllingu af frostlegi og gat síðan ekið áhyggjulaus heim á leið.

þriðjudagur, 15. ágúst 2006

Mikið sem maður verður steiktur i höfðinu

af að vafra um á netinu. Hef setið fyrir framan tölvuna megnið af deginum (tja kannski aðeins orðum aukið...) og er komin með hausverk og augnverk - þokkalegt! Er ekki bara málið að drífa sig út að ganga og hrista þennan tölvusjúkdóm af sér?

mánudagur, 14. ágúst 2006

Ikke ble det noe blogg ifra Norge

en nú erum við Ísak komin heim aftur og hér kemur eitt stykki blogg:

Ég heyrði það strax í flugvélinni á útleið að ég var farin að stirðna í norskunni - fékk það betur staðfest þegar ég fór að tala við mág minn og vantaði alveg hrikalega mikið af orðum, a.m.k. fyrst í stað. Hófst handa við að lesa norsk tímarit hjá systur og smám saman skánaði ástandið. Var orðin nokkuð sleip í lok heimsóknarinnar og var þá jafnvel farin að hugsa á norsku - sem aftur gerði það að verkum að ég mundi ekki einföldustu íslensk orð... ekki einfalt mál sem sagt. Ég verð að segja að ég dáist að henni systur minni fyrir það hvað hún talar enn góða íslensku eftir ca. 25 ára dvöl í Noregi.

Annars var þetta afskaplega notaleg ferð og það besta var að sjálfsögðu að hitta Önnu og geta spjallað við hana. Ég vorkenni mér stundum hálfpartinn fyrir það hvað fjölskyldan er sundruð um allar jarðir (ég á Akureyri, mamma í Keflavík, Anna í Noregi og Palli bróðir í Danmörku) en svona er þetta bara - og fyrir vikið verður bara enn skemmtilegra að hittast!

Það eina sem plagaði mig var hitinn, sem var í kringum 30 gráður megnið af tímanum. Þrátt fyrir óhemju vatnsdrykkju þjáðist ég af svima (sem eiginmaðurinn segir mér að sé einkenni vökvaskorts) og var bara alveg að kafna úr hita til að byrja með. Þetta er eiginlega hálf tragískt, hér á Íslandi dreymir mann um hlýrra loftslag en svo þegar maður fær þá ósk sína uppfyllta þá nær maður ekki að njóta þess heldur verður bara slappur og aumingjalegur. Ég gerði amk. tvær tilraunir til að sitja úti í sólinni og lesa, svona til að fá smá lit á kroppinn, en gafst fljótlega upp í bæði skiptin og flúði inn í hús.

Dagskráin í Noregi einkenndist af því að gera eitthvað fyrir synina s.s. að fara í Askim badeland og Tusenfryd skemmtigarðinn + út að borða á pítsustað. En við fórum líka á Notodden bluesfestival og hlýddum þar á tónleika með Gary Moore og smá verslunarleiðangur í Ski storsenter (þó ekki "shop till you drop" í þetta sinnið) og ég rölti um á Karl Johann meðan Anna skrapp í vinnu á miðvikudeginum.

Heima á ný tekur síðan dagsdagleg tilvera við aftur með öllum þeim viðfangsefnum sem henni fylgja. Þessa dagana ber þó hæst sú staðreynd að einkadóttirin er að flytja utan til náms og er það tregablandin tilhlökkun. En þetta er víst gangur lífsins - og nútíma samskiptamöguleikar s.s. skype gera fólki kleift að vera í daglegu sambandi ef því er að skipta - svo við hljótum að lifa þetta af öll sömul :-)

miðvikudagur, 2. ágúst 2006

Ætti að vera byrjuð að pakka

því ég er að fara í flug klukkan tólf - en er í einhverju undarlegu ástandi og nenni engu. Verð hjá Hrefnu í dag en svo kemur Ísak suður á morgun og við fljúgum til Noregs á föstudagsmorguninn. Þannig að það er ólíklegt að nokkuð verði bloggað á næstunni (ja nema ég stelist í tölvuna hjá Önnu systur...).

Annars á minn elskulegi eiginmaður afmæli í dag - til hamingju með daginn!