sunnudagur, 31. desember 2006

Húsbóndinn enn í eldhúsinu...

eitthvað að fást við mat... á meðan sit ég bara á mínum rassi og geri nánast ekki neitt af viti. Á ennþá eftir að hengja upp úr einni þvottavél, leggja á borð, laga aðeins til í stofunni, klæða mig í sparifötin og snyrta. Hef verið ótrúlega löt og drusluleg í dag og dauðfegin að hafa verið úthýst úr eldhúsinu fyrir löngu síðan. Ef ég hefði átt að elda matinn í kvöld hefði heimilisfólk sjálfsagt ekki átt von á lambafillé með bordelaise sósu í aðalrétt og heimatilbúnum ís með súkkulaðisósu í eftirrétt. En sem betur fer bregst bóndinn ekki frekar en fyrri daginn, hann stendur sína plikt og það með sóma. Þannig að nú er best að taka sig saman í andlitinu og fara að sinna sínum eigin verkum s.s. að klára eitthvað af því sem upp var talið hér að framan.

Að lokum langar mig að óska fjölskyldu, vinum og bloggvinum gleðilegs nýs árs og megi árið 2007 færa ykkur farsæld og gleði.

Það getur verið afar skemmtilegt að fylgjast með

samskiptum kattanna okkar, þeirra Birtu og Mána. Þau liggja náttúrulega og sofa megnið úr sólarhringnum eins og katta er siður og oftar en ekki samankurluð. Þó gerir Máni nokkuð sem Birta gerir aldrei og það er að troða sér undir teppi og sængur og sofna þar. Yfirleitt líður ekki á löngu þar til Birta er komin og nusar af honum í gegnum rúmteppið, snýr sér í nokkra hringi á meðan hún finnur besta staðinn en leggst síðan hálft í hvoru ofan á hann. Þar liggja þau svo í sátt og samlyndi þar til Mána er orðið mátulega heitt undir teppinu og ákveður að nú sé kominn tími til að færa sig um set. En þegar hann kemur undan teppinu er það hans fyrsta verk að reka Birtu í burtu og leggjast svo nákvæmlega þar sem hún lá áður, enda er það væntanlega hlýjasti staðurinn á rúminu. Hún reynir af hóflegri bjartsýni að liggja sem fastast og sýna reiðisvip en lætur alltaf undan og færir sig uppá skrifborð á meðan Máni kemur sér fyrir. Þegar hún er svo viss um að hann sé örugglega kominn í ró færir hún sig í áttina að honum, afar varlega því ef hún kemur of snemma rekur hann hana aftur burt, og leggst svo álíka varlega við hliðina á honum. Síðan sofna þau bæði sætum svefni sem getur varað klukkustundum saman ef enginn kemur og truflar þau.

laugardagur, 30. desember 2006

Palli, Guðný og Anna


Palli, Guðný og Anna, originally uploaded by Guðný Pálína.

Það heyrir til tíðinda að við systkinin komum öll saman - hvað þá að tekin sé mynd af okkur saman - og þar af leiðandi datt mér í hug að birta þessa mynd sem var tekin í áttræðisafmæli mömmu í september síðastliðnum. Að vísu vorum við öll rauðeyg á myndinni en með því að fikta í einhverju myndvinnsluforriti tókst mér að eyða rauða litnum. Spurning samt hvort við erum eitthvað skrýtin til augnanna eftir þá meðferð, en það skrifast þá alfarið á vankunnáttu mína í þessum efnum ;-)

Er svo glöð

yfir því hvað ég jafnaði mig fljótt í bakinu. Uppgötvaði að ég gat synt bæði skrið- og bakskriðsund þrátt fyrir verkinn og held að það hafi aldeilis gert mér gott. Hver svo sem ástæðan er hef ég að minnsta kosti aldrei náð mér af bakverk á svona stuttum tíma áður :-) Því miður er Kiddi hennar Sunnu núna kominn með í bakið svo þetta er greinilega að ganga hér í götunni... sendi honum hér með batakveðjur.

Er sem sagt í voða góðum gír í augnablikinu, búin að fara í sund í morgun með bóndanum (hann dreif mig á lappir, ég hefði örugglega snúið mér á hina hliðina og haldið áfram að sofa ef hann hefði ekki ætlað í sund líka), búin að fá mér ágætis brauð úr Bakaríinu við brúna, búin að klippa bóndann (vikuleg klipping með sauðaklippunum... ;-) búin að þvo eina þvottavél og setja í aðra og svo ætla ég að fá mér heilsubótargöngu á eftir (ganga í vinnuna). Sem sagt góð byrjun á góðum degi!

föstudagur, 29. desember 2006

Rólegheit

Er í vinnunni og það er svoooo rólegt. Nokkuð sem er víst eðlilegt svona skömmu eftir jól. Gott að slappa aðeins af eftir allan hasarinn í desember en það er auðvitað miklu skemmtilegra að vera í vinnunni þegar er mikið að gera. Reyndar eru næg verkefni fyrir höndum; vinna í heimasíðunni (ákveða uppsetningu og setja inn vörur, markmiðið er að það verði hægt að versla á síðunni), gera áætlanir, færa bókhald, reyna að ná í skottið á þeim sem raða í plássin á Glerártorgi (erum að spá í að reyna að komast þangað inn þegar torgið verður stækkað)... og örugglega eitthvað fleira. En það eina sem ég nenni að gera í augnablikin er að lesa mér til um vörurnar sem við erum að selja, blogga og borða sælgæti (Sunna þú veist þá af hverju Makkintossið er að klárast ;-) Held að ég láti þetta gott heita, er frekar andlaus í augnablikinu.

fimmtudagur, 28. desember 2006

Smásál

Ég var að átta mig á því hvað ég er mikil smásál - í dag að minnsta kosti, vonandi ekki alla daga. Vorkenni sjálfri mér fyrir að vera illt í bakinu með bilað hné þegar það eru svo margir sem hafa það miklu verra. Sá til dæmis að Gurrí vísaði á bloggsíðu ungrar konu sem var valin Íslendingur ársins af tímaritinu Ísafold. Þessi kona er þrítug og þriggja barna einstæð móðir, er veik af krabbameini og er þar að auki búin að missa bæði móður sína og systur úr arfgengum sjúkdómi. Ég tek hér með mitt fyrra kvörtunarblogg til baka og ætla í í staðinn að gleðjast yfir öllu því góða sem lífið hefur uppá að bjóða.

Eins og farlama gamalmenni

Eitt tekur við af öðru, ég var loks að skána í hnénu (hætt að vera bólgin, bara með verki þegar ég fer út að ganga) þegar ég fékk hnykk á mjöðmina/mjóbakið þegar ég var að stíga út úr bíl í gær og hökti um í dag eins og... ja mig skortir eiginlega orð til að lýsa því. Það sem ég skil ekki alveg er hvernig kona á besta aldri sem syndir daglega getur verið svona mikill aumingi. En það þýðir víst ekki að velta sér upp úr því, ég hef fengið í bakið áður og það lagast, þarf bara að vera þolinmóð enn og aftur... var ég nokkuð búin að segja áður að þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið?

miðvikudagur, 27. desember 2006

Hrefna, Andri og Ísak jólin 2006

Það er erfitt að ná góðri mynd af þremur einstaklingum á sama tíma - en þessi svona sleppur fyrir horn... ;-)

þriðjudagur, 26. desember 2006

Gleymdi að segja frá því

að það er ekki enn búið að skreyta piparkökurnar og ekki heldur búið að gera "kúkinn".  Svona fór um sjóferð þá!

Fékk nokkrar bækur í jólagjöf

og hef legið í þeim í gær og í dag. Afleiðingin eru tvö þreytt augu - ég gleymdi nefnilega að nota gleraugun mín við lesturinn. Gleymi nær alltaf að nota þau heima, man bara eftir þeim þegar ég er að vinna við tölvuna. Enda get ég auðveldlega lesið án þeirra, fæ bara verki í augun eftirá...

Annars er ég eins og svefngengill í dag, fór snemma að sofa í gær og svaf alltof lengi frameftir. Vaknaði að vísu klukkan sex í morgun þegar eldri sonurinn var að fara í háttinn en sofnaði aftur og svaf alveg til klukkan ellefu. Þrátt fyrir að hafa farið í (örstuttan) göngutúr og borðað dýrindis eplapæ húsbóndans líður mér enn eins og vörubíll hafi ekið yfir mig. Valur hins vegar ætlar út að hlaupa með nýja púlsúrið sem ég gaf honum í jólagjöf og hefur verið hinn sprækasti í dag. Munar sennilega um það að hann vaknaði tveimur tímum á undan mér í morgun þar sem hann þurfti að mæta í vinnu.  Það væri hins vegar synd að segja að ég væri spræk, á í mestu erfiðleikum með að halda augunum opnum.........

sunnudagur, 24. desember 2006

Komin í jólafrí :-)

Og mikið sem það er nú gott!  Jólaverslunin gekk afar vel fyrir sig í Pottum og prikum, við Sunna skiptum með okkur vaktinni og svo var Nanna að vinna hjá okkur alla seinni partana síðustu vikuna. En engu að síður er ég orðin hálf lúin og það verður gott að fá nokkurra daga hvíld, borða og sofa... ;-) Kannski ég nái meira að segja að prjóna nokkrar umferðir og jafnvel lesa eina bók eða svo.

þriðjudagur, 19. desember 2006

Er alveg punkteruð

og það er ekki spurning hvort er gáfulegra, að blogga eða fara að sofa. Hins  vegar er spurning af hverju maður velur alltof oft þann valkostinn sem er síður gáfulegur í svona kringumstæðum? Jólin eru alveg að skella á, eða það finnst mér að minnsta kosti, og við á síðustu stundu með þetta allt saman... vorum að búa til jólakortin í tölvunni í kvöld (þ.e. Valur bjó þau til, ég var aftursætisbílstjóri, eins og þeir eru nú skemmtilegir) en ekki gafst tími til að skrifa inní þau. Eigum líka eftir að klára eina gjöf sem á að fara suður og pakka þremur suðurlands-gjöfum en eins og alþjóð veit væntanlega þá er síðasti öruggi skiladagur fyrir póst og pakka innanlands á morgun. Hvað eigum við nú eftir fleira? Jú, við eigum eftir að kaupa jólagjafir handa börnunum og hvort öðru, eftir að kaupa í matinn, eftir að baka úr piparkökudeiginu sem við Ísak bjuggum til í kvöld, eftir að búa til "kúk" (sem er marsipan-núggat-súkkulaðihjúpuð sælgætisrúlla sem Valur kallar þessu skemmtilega nafni), eftir að búa til jólaísinn, eftir að kaupa jólatré, eftir að skreyta húsið.....  og þá held ég að þetta sé svona nokkurn veginn upptalið.  En jólin koma nú alltaf sama hvort maður er tilbúinn eða ekki og alltaf hefst þetta allt að lokum. Stundum hefur jólamaturinn reyndar dregist nokkuð fram á kvöldið, eins og árið sem við vorum að taka efri hæðina á húsinu í gegn og eldhúsinnréttingin kom í hús á Þorláksmessu. En svo höfum við líka haldið jólin á Þorláksmessu einu sinni, þegar við bjuggum í Bergen í Noregi og Valur var á vakt á aðfangadag. Þannig að við erum ýmsu vön í jólahaldinu :-)

laugardagur, 16. desember 2006

Einmitt þegar

ég hugsaði með hryllingi til þess að fá ekki einn einasta frídag fram að jólum datt Sunnu það snjallræði í hug að við skiptum með okkur helginni. Hún tók þess vegna daginn í dag og ég verð að vinna á morgun. Þetta voru reyndar ójöfn skipti því opnunartíminn á morgun er tveimur tímum styttri en í dag - en ég verð bara að bæta henni það upp síðar. Það er búið að vera alveg hellingur að gera og um daginn kom kona í búðina sem sagðist hafa heyrt að þetta væri best geymda leyndarmálið á Akureyri - ekki slæmt það!

Annars hefur bloggið enn einu sinni sannað mátt sinn því eftir að hafa minnst á það á blogginu um daginn að okkur vantaði aðstoð í Pottum og prikum fyrir jólin þá birtist Nanna, elsta dóttir Fríðu, og sótti um vinnu. Nú er hún byrjuð hjá okkur og stendur sig með miklum sóma. Gaman að þessu :-)

miðvikudagur, 13. desember 2006

Klukkan er 01.11 og ég er andvaka

í sennilega fjórða skiptið á stuttum tíma. Sofnaði reyndar uppúr ellefu en vaknaði rétt fyrir miðnættið við það að eldri sonurinn var að æla (vona hans vegna að hann sé ekki kominn með einhverja magapesti) og gat bara ómögulega sofnað aftur. Ekki eru það áhyggjurnar sem eru að sliga mig heldur er ég bara eitthvað svo upptjúnnuð þegar ég ætla að fara að sofa á kvöldin. Hugurinn á fljúgandi ferð og engin leið að slappa af. Þyrfti að læra innhverfa íhugun eða eitthvað álíka til að geta tamið hugann. Man reyndar þegar ég skrifa þetta að ég á einhvers staðar geisladisk með rigningarhljóði sem er rosalega róandi að hlusta á en veit ekki hvar ferðageislaspilarinn er. En eftir að hafa bylt mér í klukkutíma ákvað ég að fara á fætur í smá stund og endaði í tölvunni... hvar annars staðar...

Annars voru Gunna og Matti, foreldrar Vals hérna hjá okkur frá föstudegi og þar til í dag. Það var afskaplega gaman að fá þau í heimsókn en tilefnið var áttræðisafmæli Gunnu, sem hún hafði ekki orku í að halda uppá og stakk því af norður í land. Svo kemur Hrefna frá Köben á morgun og það verður nú aldeilis gaman að sjá hana aftur :-)

Jæja, kannski ég reyni að leggjast aftur, það er ekkert grín að vera svona andvaka, maður verður svo agalega úldinn daginn eftir.

fimmtudagur, 7. desember 2006

Ég hefði betur sleppt því

að vera að monta mig af því hérna um daginn að vera byrjuð svo snemma á jólaverkunum. Keypti jú jólafötin á Ísak og tvær jólagjafir og síðan ekki söguna meir. Setti reyndar upp jólagardínur í eldhúsið núna í kvöld en er ekki byrjuð að baka neinar smákökur og það þykir sonunum báðum hin mesta hneisa. Að auki finnst þeim yngri við vera alveg sérlega léleg í að skreyta húsið að utan, sem og garðinn. Einhvern tímann var hann líka búinn að biðja um að fyrir þessi jól yrði bakað piparkökuhús - og ég sagði svona hálfpartinn já við þeirri ósk. Hm, hvað er aftur langt til jóla??? Okkur Sunnu vantar nauðsynlega einverja góða konu til að vinna með okkur í búðinni núna í desember og svo til afleysinga en það gerist lítið í þeim málum hjá okkur. Óttast að við verðum að standa vaktina sjálfar og þá geta það nú orðið langir dagar. Annars kom umfjöllun um Potta og prik í Akureyrarblaðinu sem fylgdi Mogganum í dag og við vorum ánægðar með það. Við meira að segja litum alveg ágætlega út á myndinni sem birtist með greininni, myndin hefði þess vegna mátt vera stærri... ekki á hverjum degi sem maður myndast vel ;-)

laugardagur, 2. desember 2006

Nú er öldin önnur...

Andri fór á árshátíð MA í gærkvöldi. Hann skutlaði sér í jakkafötin, blés á sér hárið og var tilbúinn, en stelpurnar þurftu að fara í förðun, greiðslu og galakjóla... eða svona næstum því. Ég var í kvennaklúbb í gær og þar var dóttirin á bænum að fara á árshátíðina, alveg stórglæsileg, og þá fórum við mömmurnar að rifja upp hvernig þetta var þegar við vorum í MA. Það var engin förðun, engin greiðsla og kjólarnir voru kapítuli út af fyrir sig. Einhverjir prjóna- eða flauelskjólar, alveg hrikalega ömmulegir eitthvað. Ég var nú reyndar í buxum og peysu á minni einu árshátið í þessum skóla en man vel eftir panikk ástandinu þegar ég fór í bæinn og  var að leita að einhverju til að vera í.

Annars:
- gerðum við laufabrauð í dag ásamt Sunnu, Kidda og þeirra + okkar börnum
- sat tafla föst í hálsinum á mér í morgun í nærri þrjú korter - og það var ekki gott
- er ég með bólu á tungunni - og það er ekki heldur gott
- er ég að skána í hnénu
- settum við upp jólaljós í stofunni í dag
- komst ég ekki í sund í morgun út af þessu háls-veseni
- er ég alveg að sofna og klukkan er bara 22.43 á laugardagskvöldi
- eru tengdó að koma í heimsókn um næstu helgi
- þurfum við að standa skil á virðisaukaskattinum eftir þrjá daga og ég hef ekki komið nálægt bókhaldi síðan ég lærði það fyrir sex? árum síðan
- er ætlunin að setja upp jólagardínur í eldhúsinu á morgun
- ætti ég kannski að gera jólakrans til að hafa við útidyrnar
- hef ég ekkert meira að segja