Eins og velflestir hafa gert sér grein fyrir eru skólarnir byrjaðir að nýju, með tilheyrandi foreldrafundum og fjöri. Ég mætti á einn slíkan fund nú í vikunni þar sem verið var að kynna skólastarf vetrarins. Þegar leið að lokum fundarins kvaddi ein mamman sér hljóðs og spurði hvernig kennaranum litist á ákveðna kennslubók í stærðfræði. Ég kveikti strax á perunni þegar hún nefndi bókina því kvöldið áður hafði ég setið með sveittan skallann að reyna að aðstoða Ísak við heimanámið.
Áður en lengra er haldið ber þess að geta að Ísak þarf nánast aldrei aðstoð við að læra heima, hann sér alveg um þetta sjálfur. En í þetta sinnið gekk honum illa að kljást vð ákveðið reikningsdæmi þar sem m.a. átti að teikna hring og inn í hann sexhyrning, sem aftur átti að skipta í jafnhliða þríhyrninga, og loks átti að mæla stærð hornanna á þríhyrningunum. Þetta tók nú töluvert á mig enda hefur stærðfræði aldrei verið mín sterka hlið en að lokum var það drengurinn sjálfur sem kláraði dæmið.
Kennarinn kannaðist ekki við að krakkarnir hefðu átt að leysa sérlega flókið dæmi heima og sótti bókina til að athuga hvað málið snérist um. Ekki kannaðist mamman við bókina sem kennarinn kom með og ég sá strax að þetta var ekki bókin sem Ísak hafði verið að læra í. Hann hafði verið með verkefnabók sem tilheyrði þessari og ég sagði kennaranum það. Þá kom upp úr kafinu að strákarnir okkar báðir og einn í viðbót höfðu tekið vitlausa bók með sér heim. Ekki var búið að fara í efnið sem dæmið fjallaði um og þar af leiðandi ekki nema von að þeim gengi illa að leysa það.
Þegar ég áttaði mig á því hvernig í öllu lá og varð hugsað til þess hvað ég eyddi miklum tíma í að klóra mér í höfðinu yfir þessu dæmi, fannst mér þetta allt saman eitthvað svo fyndið að ég sprakk úr hlátri og átti erfitt með að hætta að hlægja. Hinir foreldrarnir horfðu á mig og hafa örugglega ekkert skilið hvað var svona fyndið - enda veit ég það varla sjálf...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli