laugardagur, 29. apríl 2006

Fór í viðtal vegna vinnunnar

og fékk nánari upplýsingar um starfið. Hefði sennilega komið sterklega til greina ef ég hefði sjálf haft áhuga og getað byrjað sem fyrst. En ákvað að á þessum tímapunkti þá væri þetta ekki rétta starfið fyrir mig - ef ég hefði verið einstæð móðir þá hefði ég ekki getað leyft mér að bíða eftir rétta starfinu (þá hefði ég ekki heldur haft efni á því að vinna sem stundakennari en það er nú önnur saga). Þannig að ég ætla að bíða enn um sinn og sjá hvort það dúkkar ekki eitthvað upp. Bara vera bjartsýn!

Kátir strákar


Afmæli Ísaks, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég var að hlaða niður myndum úr myndavélinni og rakst þá meðal annars á þessa mynd sem tekin var í afmælinu hans Ísaks um miðjan mars. Þeir voru búnir að vera á fullu úti í leikjum strákarnir og þá var nú aldeilis hressandi að fá sér ís til að kæla sig niður ;-)

miðvikudagur, 26. apríl 2006

Sá á kvölina sem á völina

Fékk óformlega fyrirspurn frá ráðningarskrifstofunni í dag varðandi vinnu. Ætti að vera ægilega glöð en málið er bara að þessi vinna er þess eðlis að ég þyrfti að vinna frekar mikið með tölur - og ég er svona skrýtin að hafa lært viðskiptafræði en hafa engan áhuga á tölum og fjármálum yfirhöfuð. Svo er þetta 8-16 vinna en mig langar helst í ca. 80% vinnu (já ég veit að ég er kröfuhörð). Kosturinn er aftur á móti sá að ég þekki konu sem vinnur á sama vinnustað og veit að hún hefur verið mjög ánægð þarna. Gallinn er sá að ég þyrfti að byrja sem fyrst og mig langar nú mest að vera í fríi í sumar, a.m.k. fá almennilegt sumarfrí. Æ, ég veit það ekki, sakar auðvitað ekki að fá nánari upplýsingar. Svo er ég auðvitað hrædd um að fá ekki neitt að gera ef ég ætla að bíða fram á haust. Þetta er stuð!

Er með hellur í eyrunum

eftir sundið í morgun. Það rifnaði nefnilega stykki úr sundhettunni minni þegar ég var að setja hana á mig og ég neyddist til að synda "berhöfðuð". Sem var mjög undarleg tilfinning, mér fannst hárið á mér fljóta um alla laug (frekar fyndið þar sem ég er stutthærð) og það sem verra var, eyrun á mér fylltust af vatni. Það er svo skrýtið að þegar maður er búinn að venja sig á ákveðna hluti eins og að vera með sundhettu í sundi (sem var reyndar upphaflega keypt til að hlífa litaða hárinu mínu) eða hjálm á reiðhjóli þá verður maður alveg ómögulegur ef þessir hlutir eru ekki til staðar. Mér finnst ég t.d. hálf nakin ef ég er ekki með hjálm þegar ég er að hjóla og fer helst ekki á reiðhjólið án hans. Sú staðreynd gerir það reyndar að verkum að ég get aldrei farið á hjóli í sund. Ástæðan: Jú, ef ég set hjálm á höfuðið á mér meðan hárið er ennþá rakt eyðileggst hárgreiðslan! Segið svo að það sé ekki erfitt að vera kona.

þriðjudagur, 25. apríl 2006

Ekkert smá yndislegt

þegar sólin skín meðan á morgunsundsprettinum stendur. Að vísu skín hún beint í andlitið á mér því hún er ekki komin svo hátt á loft klukkan átta á morgnana - en hún er yndisleg engu að síður.

mánudagur, 24. apríl 2006

Prufaði að skanna gamla mynd


Hver skyldu þetta nú vera?

Svart og hvítt

Ég er jafn þreytt/orkulaus í dag og ég var dugleg/full orku um helgina. Undarlegt hvað sama manneskja getur verið breytileg! Breyttist umsvifalaust í sófadýr þegar ég kom heim úr vinnunni og komst með naumindum í búðina að kaupa í matinn. Er nú samt ekki frá því að ég sé að hressast núna, a.m.k. tímabundið...

Sem er ágætt því ég ætlaði eiginlega að gera tilraun til að koma skannanum í samband við tölvuna mína. Hef reynt það einu sinni áður, án árangurs, en mig langar svo ógurlega að geta skannað inn gamlar myndir og filmur að ég ætla að prufa aftur. Svo þarf ég líka að læra betur á myndavél heimilisins, kann bara að stilla á auto og smella af en það væri gaman að kunna eitthvað meira fyrir sér. Ég var að reyna að átta mig á því um daginn af hverju ég hef gaman og ljósmyndun var eitt af því sem kom upp í hugann. Þannig að nú er bara að fara að taka myndir í gríð og erg!

sunnudagur, 23. apríl 2006

Hef verið illa haldin af þrifnaðar- og tiltektaræði

um helgina. Ég ryksugaði alla efri hæðina og Valur þá neðri, svo þreif ég klósettin, skúraði eldhúsgólfið og lagaði til í skápum og skúffum. Setti föt í poka sem eiga að fara í Rauða krossinn og ógnaði Val með fyrirspurnum um hvað ætti að gera við ýmis gömul föt sem hafa reynst honum vel í gegnum tíðina en hann er hættur að nota. Helst vill hann geyma þetta allt saman, enda nýtinn maður. Hins vegar er skápapláss af fremur skornum skammti miðað við þetta stóra hús og ég sé minni tilgangi í að geyma alla mögulega hluti. En ég virði það að allir eru ekki sama sinnis og ég - farga aldrei neinu án leyfis!

Svo er ég ekkert skárri en Valur að því leyti að sum föt geymi ég. Föt sem hafa eitthvað tilfinningalegt gildi s.s. stúdentsdragtin mín sem Valur gaf mér og fjólublár prjónakjóll sem var fyrsta flíkin sem hann gaf mér. Auk þess einn sparijakki sem ég keypti síðasta haustið okkar í Tromsö. Þá var ég ólétt og fór á stúfana til að leita að einhverri utanyfirhöfn og datt óvart inn í dýra verslun sem auglýsti allt á hálfvirði af því búðin var að flytja. Ég sá þennan jakka, kolféll fyrir honum og keypti hann, þó ég gæti ekki mátað hann nema lauslega þar sem kúlan á maganum á mér hindraði það. En ég átti eftir að nota hann mikið síðar meir, þannig að ég sá ekki eftir kaupunum. Hins vegar er hann náttúrulega löngu dottinn úr tísku, aðallega vegna þess að sniðið er svo vítt en nú er allt svo aðsniðið. Ég bíð bara í ca. tíu ár, ætli tískan verði þá ekki komin í hring?

laugardagur, 22. apríl 2006

Alltaf þegar ég hef þörf fyrir að koma skipulagi á hugsanir mínar

hellist yfir mig löngun til að taka til í skápunum á heimilinu. Mér finnst þetta svolítið fyndið - en það bregst ekki að mér líður betur eftir góða tiltekt í skápunum. Allra best er það ef ég get losað eitthvað úr þeim og annað hvort hent eða farið með í endurnýtingu. Einhverjir fleiri sem svona er ástatt um?

fimmtudagur, 20. apríl 2006

Gleðilegt sumar!


Þyrnirós, originally uploaded by Guðný Pálína.

þriðjudagur, 18. apríl 2006

Fyrsta skrefið

í átt að nýrri vinnu var tekið í dag. Ég fór inn á mannafl.is og fyllti þar út heljarinnar skráningareyðublað. Tók eilífðartíma og samt var ég með allar upplýsingar við höndina. Gallinn við svona stöðluð eyðublöð er að ekki er gert ráð fyrir nægilega mörgum svarmöguleikum alls staðar. Til dæmis gat ég skráð að ég hefði stundað sjúkraliðanám en ég gat ekki skráð að ég hefði útskrifast sem sjúkraliði, skildi það nú ekki alveg.

Skref nr. tvö verður svo tekið á morgun en þá á ég bókað viðtal við ráðgjafa hjá Mannafli - spurning hvernig það fer. Ég er alveg hrikalega léleg við að "selja" sjálfa mig - en það gengur víst allt út á það í dag. Mér hættir frekar til að draga úr eigin getu og hæfileikum í stað þess að ýkja þá. Þannig lagað myndi ég (samkvæmt fræðunum) passa vel inn í hollenska menningu en illa inn í þá bandarísku.

En nú er best að hætta þessu bulli og halda áfram að vinna!

Bjargaði blóminu mínu frá bráðum bana

með því að mæta til vinnu í dag. Hef ekki sést þar síðan Ísak varð veikur í byrjun síðustu viku. Er nú ekkert að drepast úr dugnaði hins vegar, ætla að fara heim og fá mér kaffi með bóndanum og reyna að vera duglegri eftir hádegið. Það er eini gallinn við að taka sér svona langt frí, það er svo hrikalega erfitt að koma sér í gírinn aftur.

sunnudagur, 16. apríl 2006

Sudoku

er nú meiri tímaþjófurinn. Er búin að liggja yfir einni svona gátu í nánast allan dag og gafst ekki upp fyrr en ég var búin að leysa hana. Þá helltist yfir mig samviskubit fyrir að fara svona illa með tímann - sem er jú fáránlegt því ég er ekki beint sú hressasta í dag og ekki mjög líklegt að ég fari eins og Ajax stormsveipur um húsið meðan þannig er ástatt.

laugardagur, 15. apríl 2006

Ísak er aðeins að hressast

enda búinn að vera veikur síðan á mánudag. Hann er samt óttalega slappur og ekki til stórræðanna ennþá. En ég hins vegar vaknaði upp í morgun með höfuðverk og beinverki. Hélt reyndar bara að þetta væru mínir venjulegu stoðkerfisverkir (skemmtilegt orð sem er notað þegar kellingar eins og ég eru með verki í skrokknum en greinast ekki með gigt...), fannst þeir reyndar óvenju slæmir en skrifaði það á reikning skíðanna í gær. Treysti mér engan veginn í fjallið og ekki heldur í sund en lufsaðist út að ganga með eiginmanninum. Verkjaði í skrokkinn í hverju skrefi en þrjóskaðist áfram um stund. Hafði ætlað að ganga út að golfvelli en sá að mér þegar ég fann hvernig þrekið þvarr óðum og við snérum fljótlega við. Hresstist þó aðeins við að fá mér te og brauð. Þurfti svo að keyra Val upp að öskuhaugum (nei ég er ekki að henda honum á haugana ;-) því honum datt í hug að ganga annað hvort á Súlur eða inn á Glerárdal. Fann þá að heilastarfsemin var heldur ekki í lagi, var viðbragðssein og sljó við aksturinn en komst báðar leiðir slysalaust sem betur fer. Þetta er nú meira stuðið! Loks þegar Ísak er að koma til þá er ég orðin eins og slytti. Er samt hvorki með hálsbólgu né hósta, bara svona hrikalega slöpp og með beinverki. Og við sem ætluðum suður á morgun...

föstudagur, 14. apríl 2006

Loksins kom að því

að ég náði rétta jafnvæginu á skíðunum. Ég hef verið með hálfgert ástar-haturs samband við Fjallið því ég er ekkert sérlega góð á skíðum og mitt eina markmið hefur verið að komast niður brekkuna án þess að detta. Hef alltaf vitað að það var vegna þess að ég var ekki að finna rétta jafnvægið í líkamanum en mér hefur heldur ekki tekist að gera neitt með þá vitneskju. Við Valur skelltum okkur á skíði klukkan níu í morgun, um leið og það opnaði, en Ísak var því miður veikur heima og Andri svaf. Svo langaði Val að renna sér aðeins í Strýtunni og ég sat bara í sólbaði á meðan og horfði á hitt skíðafólkið renna sér. Fylgdist m.a. með tveimur skíðamönnum sem komu ofan úr Strýtu og renndu sér áfram niður eftir. Tók eftir því hvernig þeir hölluðu sér áfram og liðu algjörlega áreynslulaust um brekkuna. Eftir tvær ferðir var Valur búin að fá útrás fyrir mestu Strýtu-þörfina og við héldum áfram að renna okkur. Og bingó! Allt í einu gat ég rennt mér og hafði það á tilfinningunni að ég réði fullkomlega við skíðin - ég hefði getað skíðað endalaust og brekkan var alltof stutt. En þvílíkur munur, þarna tókst mér allt í einu að taka það sem heilinn á mér vissi og túlka það með líkamanum. Gaman að þessu ;-) En við stoppuðum ekki lengi uppfrá, vorum í ca. einn og hálfan tíma og þegar við vorum að fara var allt að fyllast af fólki. Skyldi engan undra, veðurblíðan var þvílík.

miðvikudagur, 12. apríl 2006

Loks búin með Alt for damerne og komin upp úr sófanum

- eða þannig... Ég er nú yfirleitt alltof fljót að lesa tímarit og þess vegna var ég mjög ánægð þegar bókasafnið fór að bjóða upp á fjölbreytta flóru tímarita til útláns. Slepp þá við samviskubitið sem myndast þegar ég kaupi mér (rán)dýrt tímarit og er búin að lesa það á innan við hálftíma. En ég hef sem sagt afar gaman af því að lesa hin ýmsu tímarit. Alt for damerne er þó í ákveðnu uppáhaldi vegna þess að þar eru oft viðtöl við fólk (oftar en ekki konur) sem hefur breytt um atvinnu eða farveg í lífinu og blómstrar í því sem það er að gera.

Einu sinni var t.d. viðtal við konu sem alla tíð hafði unnið í fiskvinnslu en þurfti að hætta því þegar hún fékk ofnæmi fyrir fiski. Hún hafði alltaf haft gaman af því að taka myndir og ákvað að drífa sig í nám í ljósmyndun. Gekk svona rosalega vel í náminu, fékk verðlaun við útskriftina og er komin á fullt í tískuljósmyndun í dag.

Í öðru blaði var viðtal við konu sem hafði verið í mjög spennandi starfi hjá útgáfufyrirtæki en fékk svo háan blóðþrýsting sem engin skýring fannst á. Eftir ótal rannsóknir töldu læknar að streita hlyti að liggja að baki og ráðlögðu henni að fara í sjúkraleyfi. Í leyfinu byrjaði hún að skrifa barnabækur og lifir af því í dag.

Í blaðinu sem ég var að lesa s.l. föstudag var viðtal við hjón sem höfðu átt þrjár líkamsræktarstöðvar en selt þær þegar þau fengu tilboð frá bandarískri líkamsræktarkeðju sem var of gott til að hafna. Þau seldu sem sagt stöðvarnar fyrir rúmar 50 milljónir danskra króna og ætluðu bara að hafa það náðugt það sem eftir væri. Keyptu sér stórt einbýlishús við sjóinn og íbúð í Cannes en þeim hundleiddist og þjáðust af þunglyndi. Þegar þeim bauðst skömmu síðar að kaupa þrjá veitingastaði í Kaupmannahöfn slógu þau til og hafa ekki séð eftir því. Það skrautlegasta við þessa sögu var að hvorugt þeirra æfði líkamsrækt meðan þau áttu líkamsræktarstöðvarnar og þegar þau keyptu veitingastaðina höfðu þau ekki hundsvit á góðum mat því þau höfðu lifað á skyndibitafæði í 17 ár!

Nóg um það, páskarnir eru víst framundan. Það eina sem er skipulagt á þessum bæ er að skreppa suður í fermingarveislu hjá bróðursyni Vals. Meiningin er að fara af stað seinni part páskadags og koma heim á þriðjudegi. Hins vegar er Ísak orðinn veikur og spurning hvernig þetta fer hjá okkur. Hann er rayndar búinn að sofa meira og minna í heilan sólarhring núna og hitinn hafði greinilega minnkað þegar hann vaknaði í morgun svo það er aldrei að vita nema pestin sé eitthvað að brá af honum.

Og nú er ég búin að skrifa þvílíka langloku að lesendur dauðsjá örugglega eftir því að hafa reynt að vekja mig til bloggskrifa á ný ;-)

föstudagur, 7. apríl 2006

Ég hef alltaf lúmskt gaman af stjörnuspám

þó ég taki þeim líka alltaf með hæfilegum fyrirvara. En einhvern tímann skráði ég mig á lista hjá astrology.com og fæ síðan alltaf senda stjörnuspá dagsins í tölvupósti. Oft finnst mér hún passa ótrúlega vel við það sem ég er að hugsa og hafa t.d. komið nokkuð margar undanfarið í tengslum við atvinnumál eða breytingu á högum mínum - sem hittir jú vel í mark þessa dagana.

Þegar ég vaknaði í morgun var ég svo þreytt að mig langaði mest að senda strákana í skólann og halda áfram að sofa. Sem ég hefði vel getað gert þar sem ég var ekki með kennslu í dag (stærsti kosturinnn við núverandi starf er það hvað ég ræð tíma mínum mikið sjálf) en ég lufsaðist á fætur og í sund þar sem ég nennti ekki að synda nema tuttugu ferðir í stað þrjátíu. Kom heim um hádegið og keyrði Andra upp í KA heimili en hann var að fara í keppnisferðalag í handbolta til Reykjavíkur. Átti að mæta á fund eftir hádegið en honum var frestað og síðan hef ég ekki gert neitt af viti, bara hengslast um húsið og fundist ég eiga að gera eitthvað gáfulegt en ekki orðið neitt úr verki.

Áðan fékk ég svo stjörnuspá dagsins senda og hún hljóðar svo: "Your body wants to relax, but your brain wants to stay busy. What to do? Listen to your body. Slow down just long enough to really recuperate. After all, what's the point of all that work if you get sick from it?"

Nú er ég komin með fullgilda afsökun fyrir því að henda mér upp í sófa með Alt for damerne!

fimmtudagur, 6. apríl 2006

Leikur að orðum

Ég fór að kaupa kattamat í dag, sem er kannski ekki í frásögur færandi út af fyrir sig. En ég þarf alltaf að kaupa "alvöru" mat handa þeim þ.e. ekki þýðir að kaupa það sem fæst í matvöruverslunum s.s. Kitekat því Máni fær niðurgang af svoleiðist mat og Birta fitnar. Í síðustu skipti hef ég keypt mat í Blómavali (reyndar í gæludýraverslun sem er inni í Blómavali og ég man ekki nafnið á í augnablikinu) en í dag nennti ég ekki þangað og ákvað að fara í búð sem er hérna rétt hjá og heitir Gæludýr og furðufiskar. Þar var 20% afsláttur af öllu sem tengdist hundum og köttum og ég keypti einn poka af mat og klórubretti (sem þau eru nú ekki ennþá búin að uppgötva tilganginn með). Á leiðinni í bílinn var mér litið á matarpokann og það rann allt í einu upp fyrir mér að hann var pínulítill og myndi nú ekki endast lengi. Það sem ég hugsaði var: "Þetta er ekki einu sinni upp í nös á ketti" en um leið og ég hafði sleppt hugsuninni gat ég ekki annnað en hlegið að því hvað þetta orðtak átti vel við í þetta sinn. Kannski finnst engum öðrum en mér þetta fyndið en það er þá líka allt í lagi ;-)

þriðjudagur, 4. apríl 2006

Mamma og Ásgrímur


mammaogasgrimur.jpg, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég var að laga til í tölvunni minni og rakst þá á þessa mynd sem Hrefna tók af mömmu og manninum hennar, honum Ásgrími á 80. ára afmælinu hans fyrir rúmum tveimur árum. Af því ég veit að mamma les bloggið mitt og hún hefur örugglega ekki séð þessa mynd áður þá tek ég mér það bessaleyfi að birta myndina hér.

mánudagur, 3. apríl 2006

Við Valur og Ísak vorum mætt í sund

klukkan átta í gærmorgun, á sunnudagsmorgni takið eftir! Ástæðan fyrir því var nú reyndar hálf skondin. Ég vaknaði nefnilega og fannst að það hlyti að vera orðið þónokkuð framorðið því mér leið eins og ég væri útsofin. En ég nennti ekki að reisa mig upp í rúminu og snúa mig nánast úr hálslið til að sjá hvað klukkan væri. Það er bara klukka Vals megin og hann snýr henni alltaf á ská frá sér þannig að það krefst meiri háttar fimleikaæfinga af minni hálfu að líta á klukkuna.

Nema hvað, þar sem ég ligg með lokuð augun heyri ég að hann fer á klósettið svo ég reisi mig upp og athuga hvað klukkan er. Sýnist hún vera tuttugu mínútur yfir átta svo ég hugsa með mér að það sé um að gera að drífa sig á fætur og í sund. Klæði mig og segi Vali frá fyrirætlun minni. Hann hikaði í smá stund en ákvað svo að koma með. Það var ekki fyrr en ég var komin fram í eldhús að ég sá að klukkan var ekki nema hálf átta. Þá var ég búin að bjóða Ísaki að koma með okkur í sundið, sem hann þáði. Því miður opnar sundlaugin ekki fyrr en klukkan átta um helgar svo við þurftum að bíða róleg þangað til. Hins vegar höfðum við sundlaugina nánast út af fyrir okkur!