þriðjudagur, 28. september 2010

Ein ég sit og sauma

... eða þannig. Prjóna reyndar og svo er ég ekki heldur ein, Valur situr gegnt mér og Máni liggur á púða í sófanum hjá mér. Ég er að reyna að halda áfram með mína eiturgrænu peysu en það gengur heldur hægt sökum þessarar millirifjagigtar sem fer alltaf að hrjá mig aftur þegar ég held að nú sé hún búin.

Ljósmyndaferðin var mjög fín, fyrir utan veðrið, sem skiptir jú auðvitað máli þegar verið er að mynda landslag. Við ókum sem leið lá á Blönduós og áfram að Þingeyrum í Vatnsdal. Þar ætluðum við að skoða kirkjuna en var lokuð. Berglind ræddi við konu sem kom þar aðvífandi og fékk símanúmer hjá kirkjuverðinum en hann var þá staddur í einhverri smölun og konan hans bara heima. Við fórum þá næst í Vatnsdalinn en þegar hér var komið sögu var komin úrhellisrigning og frekar erfitt um vik að taka myndir. Við reyndum nú samt að láta það ekki á okkur fá og fórum nokkrum sinnum út úr bílnum og smelltum af í gríð og erg. Svo ókum við líka aðeins uppá Grímstungu- og Haukagilsheiði en snérum við því við vissum ekki hvert leiðin lá. Eftir að við komum úr Vatnsdalnum datt okkur í hug að athuga aftur með kirkjuvörðinn og hann var þá kominn heim. Við fórum heim til hans og sóttum lykil að kirkjunni og fórum svo og skoðuðum hana. Þetta er glæsileg kirkja með örgum fallegum munum frá því í kringum 1650. Þegar við skiluðum lyklinum var okkur boðið í kaffi á sveitabænum. Ekki skorti gestrisnina á þeim bænum, svo okkur fannst ekki annað hægt en þiggja það.

Að kaffinu loknu ókum við á Blönduós en þar höfðum við leigt gistingu yfir nóttina. Byrjuðum reyndar á því að fara á Pottinn og pönnuna og fá okkur kvöldmat. En svo fórum við í sumarbústaðinn sem við leigðum og skoðuðum ljósmyndatímarit, spiluðum og fórum í heitan pott fyrir nóttina.

Daginn eftir var hætt að rigna en komið hávaðarok. Við fórum niður að ós Blöndu, niðri við sjó, og tókum einhverjar myndir þar, en svo skildi leiðir. Þær hinar fóru á Vatnsnesið en ég fór með rútunni til Akureyrar. Mig dauðlangaði nú að fara með þeim á Vatnsnesið því þar er fallegt, en á sama tíma vissi ég að það væri ekki skynsamlegt. Var bara voða sátt við ferðina því þetta eru skemmtilegar konur og við hlógum mikið og það var létt yfir öllum.

Svo er alltaf gott að kynnast nýjum konum því með árunum þá hættir manni til að umgangast alltaf sama fólkið og ef það flytur í burtu eins og gerst hefur með ansi margt vinafólk okkar Vals, þá þekkir maður bara alltaf færri og færri. Sem er ekki nógu gott.

föstudagur, 24. september 2010

Það eru til ráð við öllu nema ráðaleysi

sagði pabbi oft, og ég er ekki frá því að þetta hafi verið rétt hjá honum. Eftir að hafa verið nálægt því að hætta við að fara í ljósmyndaferðina af því mér fannst þetta svo óyfirstíganlegt allt saman, datt ég niður á gott ráð. Ég ætla að fara með þeim í fyrramálið og vera með þeim fram á sunnudagsmorgunn. Þá tek ég rútuna frá Blönduósi til Akureyrar um hádegisbilið og verð komin heim um hálf þrjú. Kemst meira að segja á kóræfingu og alles :) Það myndi vera alltof mikið fyrir mig að vera tvo daga á ferðalagi eins og ástandið er á mér núna, svo þetta er bara prýðileg lausn. Þó svo ég missi af því að ljósmynda í Vatnsdalnum og á fleiri stöðum í Húnavatnssýslunni. Maður verður stundum að velja og hafna.

fimmtudagur, 23. september 2010

Fallegt haustveður í dagEarly autumn morning, originally uploaded by Guðný Pálína.
Jæja nú er best að blogga fyrir Hrefnu mína svo hún hafi eitthvað að lesa á kvöldin í Kenya.

Það er bara brjálað að gera hjá frúnni þessa dagana. Ég er í sjúkranuddi einu sinni í viku og finn að það gerir mér gott. Er aðeins að liðkast og vöðvabólgurnar að minnka. Sú sem er að nudda mig lærði í Kanada og hún veit greinilega sínu viti.

Svo erum við að hittast nokkrar ljósmyndaskvísur og ætlunin er að fara í ljósmyndaferð um helgina. Leggja af stað á laugardagsmorgni og fara í Skagafjörðinn / á Skagann. Gista svo á Blönduósi um nóttina og fara í Vatnsdalinn og hugsanlega á fleiri staði á sunnudeginum. Þetta er allt gott og blessað, nema hvað ég hef verið svo slæm af vefjagigtinni undanfarið að ég treysti mér varla í tveggja daga ferð. Erfiðast er að vera partur af hópi og þurfa að fylgja prógrammi sem maður stjórnar ekki sjálfur. Þolið er nú ekki meira en svo að í morgun fór ég út að taka myndir og var alveg búin á því eftir klukkutíma. Mér hafði dottið í hug að ég gæti bara verið á mínum eigin bíl og þá gæti ég t.d. bara farið heim þegar/ef ég væri alveg búin á því á sunnudagsmorgninum - en ég veit það ekki. Það er auðvitað miklu skemmtilegra að vera allar saman í bíl þar sem við verðum nú bara fjórar. Æ jæja, þetta kemur bara allt í ljós.

En já svo er reyndar líka kóræfing á sunnudaginn klukkan fimm og ef ég verð í ljósmyndaferð þá kemst ég ekki á kóræfingu. Meinið er að mig langar ekki að missa af henni, svo ég er í smá klemmu með þetta allt saman.

Núna á eftir er ég svo að fara að hitta vinkonur mínar, þær Hafdísi og Bryndísi, í hádegismat. Við ætlum að fara á nýja staðinn í menningarhúsinu og það verður bæði spennandi að koma þangað og mjög gaman að hitta þær. Við kynntumst þegar Hafdís var leiðbeinandinn okkar Bryndísar í lokaverkefninu í viðskiptafræðinni og höfum reynt að halda sambandi síðan. Það hefur þó verið afar stopult einhverra hluta vegna, en alltaf jafn gaman þegar við hittumst.

Annars er veðrið úti alveg hreint yndislegt núna. Það var við frostmark í morgun en sólin yljar allt og einhverjar hitagráður eru á mælinum núna þó þær séu ekki margar. Ég kippti myndavélinni með mér í töskuna þegar ég fór í sundið í morgun og fór smá myndarúnt eftir sund. Þessi mynd er tekin niðri á eyri eins og sjá má á göngubrúnni. Ég var svo heppin að það kom flugvél og flaug þarna yfir einmitt þegar ég var á leið í bílinn aftur. Það er miklu skemmtilegra að hafa einhverja svona "aukahluti" á myndunum en það tekst nú ekki alltaf. Svo tók ég líka fleiri myndir af bænum frá ólíkum sjónarhornum og einhverjar þeirra eiga sjálfsagt eftir að rata hingað inn síðar.

mánudagur, 20. september 2010

Mikið er ég glöð að hafa drifið mig í kórinn

Vissulega er þetta erfitt í byrjun og enn sem komið er finnst mér upphitunin skemmtilegasti hluti kóræfingarinnar. En það er bara vegna þess að þá getur hver sungið með sínu nefi og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort ég er örugglega í réttri rödd. Erfiðast finnst mér að æfa nýju lögin þegar hver rödd syngur ólíkt og ég er óörugg með það hvort ég held mig á réttum stað eða ekki. Finnst að konurnar við hliðina á mér ættu að syngja aðeins hærra svo ég heyri þetta betur... Hehe, nei bara að grínast. Í gær gerðist það að ég var of nálægt konunum í sópran 1 og fór að elta þær í staðinn fyrir sópran 2. Svo færði ég mig og þá gekk þetta aðeins betur en ég sé samt að ég þarf að troða mér betur inn í miðjan sópran 2 hópinn næst. Hins vegar líður mér svo vel þegar ég syng og fæ heilmikið orkubúst út úr þessu. Svo mikið að ég get ekki sofnað á sunnudagskvöldum af því ég er svo upprifin. En það hlýtur nú að lagast.

Ég ætlaði reyndar að leggja mig aftur í morgun þegar Ísak var farinn í skólann, en gat heldur ekki sofnað þá. Það hafði nú eitthvað með þá staðreynd að gera að mér var svo kalt á fótunum. Það er greinilega kominn tími til að taka fram vetrarsængina og hitateppið mitt. Já svo þarf ég að prjóna á mig nýja ullarsokka, eða prjóna nýtt neðan á þessa rauðu sem eru orðnir götóttir.

Svo er líka kominn tími til að taka til í fataskápnum. Setja sumarfötin í geymslu og taka vetrarfötin fram. Mér finnst ágætt að skipta þessu svona gróflega, þó svo að auðvitað gangi megnið af fötunum allt árið um kring. Enda búum við nú á Íslandi þar sem ætíð er allra veðra von.

Ég var eiginlega með tvö verkefni í huganum sem ég ætlaði að ljúka áður en ég færi í vinnuna.  Að taka til í fataskápnum og baka kryddbrauð. Það var nú bara einhver della sem ég fékk í höfuðið og satt best að segja er ég varla að nenna að baka núna. Þannig að það er spurning hvernig það endar. Svo er náttúrulega þetta klassíska, að taka úr uppþvottavélinni, þvo þvott o.s.frv. Æ já og svo þyrfti ég endilega að komast út í smá labbitúr. Fór ekkert í sund í morgun. Þannig að það er best að hætta þessu rausi og standa upp frá tölvunni...

laugardagur, 18. september 2010

Akureyri í gærMy hometown, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já það var ekki hægt að kvarta undan veðrinu í gær - og reyndar ekki í dag heldur ef út í það er farið. Eftir sund og morgunmat í gærmorgun fór ég út með myndavélina. Það var svo yndislegt veðrið, en hitinn var nú ekki nemar 4 gráður þegar ég fór út. En það gildir víst að reyna að nota þessa góðviðrisdaga eins og hægt er. Segi ég og horfi á góða veðrið út um gluggann. Ég var að vinna frá tíu til tvö í dag og fór svo í bæinn. Þar settist ég inn í Eymundsson, fékk mér kaffi og fletti tímaritum. Mér finnst voða notalegt að eiga stundum smá "quality time" með sjálfri mér. Svo fór ég og fjárfesti í stærri brjóstahaldara, því stellið framan á manni stækkar náttúrulega í takt við allt hitt. Reyndar var nú eiginlega markmiðið að fara út að hjóla og líklega geri ég það þegar ég er hætt þessu pári.

Valur fór í ljósmyndaferð að Aldeyjarfossi í dag (enn einu sinni, hehe). Hann er nú á heimleið og fær örugglega að klára að elda þegar hann kemur heim. Það er lambahryggur í matinn, mikill uppáhaldsmatur minn, og ég er búin að setja hann í ofninn. En það er best að Valur geri sósuna, hann er algjör sósusnillingur.

Annars er fátt í fréttum. Ég fer á kóræfingu nr. 2 á morgun. Um miðja vikuna fékk ég allt í einu áfall yfir því hvað ég væri nú búin að koma mér út í. Mér óx svo í augum að kunna ekki að lesa nótur, af því í síðasta tíma fór öll orkan í að reyna að fylgjast með á nótnablaðinu, og ég söng voða lítið. Fullkomnunaráráttan aðeins að láta á sér kræla. En já ég kveð hana bara í kútinn og þetta hlýtur að koma smám saman. Svo er ég líka búin að vera alveg gjörsamlega ónýt af gigtinni síðustu tvær vikurnar og fór að hugsa sem svo að ég gæti örugglega ekki verið í þessum kór af því heilsan er svona léleg - en ég blæs nú bara á það líka. Maður getur ekki bara grafið sig lifandi þó þessi gigt sé að gera mér lífið leitt.

Og já nú er ég búin að tæma sarpinn í bili.

miðvikudagur, 15. september 2010

Bolla, bolla, bolla

Já þetta er nú meira fjörið að fitna svona. Við erum ekki að tala um að ég sé orðin svo feit að ég kjagi, bara nokkrum kílóum þyngri en ég er vön að vera. Og já, ég er óvön því að vera svona "mikil". Sem dæmi má nefna að þegar ég sit í gufubaðinu í sundlauginni, með báða fætur uppi á bekknum, þá fletjast lærin á mér út og þegar ég horfi á þau  þá bara þekki ég þau engan veginn sem mín eigin læri. Og talandi um sundið þá hef ég reyndar smá áhyggjur af því að sundbolurinn muni rifna utan af mér, enda krefst það nú þónokkurra átaka að komast í hann.

Í dag tróð ég mér í gallabuxurnar mínar. Ég komst í þær með nokkuð góðu móti og gat rennt upp og alles (þökk sé þeirri staðreynd að þær eru úr stretch-efni). Það sem næst gerðist er að fyrir ofan strenginn myndaðist þetta líka fína möffins sem náði allan hringinn og sást mjög vel þar sem ég var í frekar þröngum bol að ofanverðu. Nánast allir mínir bolir eru frekar þröngir, enda keyptir þegar ég var einu númeri minni...

En já í buxunum hef ég svo sem verið í dag en engu að síður er það nokkuð ljóst að annað hvort þarf ég að minnka aftur hið snarasta eða fjárfesta í nýjum buxum. Einhvern veginn hef ég ekki alveg trú á því að mér takist að grenna mig í hvelli, sérstaklega þar sem ég bara get ekki farið í megrun. Ég hef aldrei hugsað jafn mikið um mat og í þau örfáu skipti sem ég hef reynt að grenna mig. Úff, púff og æ, æ. Og mér sem finnst svo hræðilega leiðinlegt að máta gallabuxur!

P.S. Það er kannski eins gott að taka það fram að ég hef ekki þungar áhyggjur af þessari þyngdaraukningu minni. Þetta rennur örugglega af mér um leið og fer að vera meira að gera í vinnunni fyrir jólin. Ef ég væri mjög miður mín yfir ástandinu þá væri ég líklega ekki að skrifa um þetta hér ;-)

Nú er ég alveg búin að gleyma hvað ég ætlaði að segjaDreamy, originally uploaded by Guðný Pálína.
Gleymna Guðný ;-) En já ég var búin að hugsa upp eitthvað til að blogga um en það hefur greinilega ekki verið merkilegt því það er ekki séns að ég muni hvað það var. Þar sem ég er nú sest við tölvuna mun ég engu að síður bulla eitthvað eins og mín er von og vísa.

Ég fór í sund í morgun og synti heilar sex ferðir. Eftir að hafa byrjað af þessum mikla krafti um daginn (að synda tíu ferðir daglega í viku) fékk ég svo miklar vöðvabólgur að ég neyddist til að draga úr fjölda ferða. Sjúkranuddarinn sem er að reyna að losa mig við alla mína vöðvahnúta ráðlagði að ég myndi bara synda 4-6 ferðir næstu tvær til þrjár vikurnar. Úff, mér líður eins og algjörum aumingja að synda svona lítið þegar ég er á annað borð komin ofan í laugina, en það er heldur ekki gott að verkja óendanlega mikið í skrokkinn, svo ætli ég fari ekki að ráðum hennar. Stundum þarf maður á því að halda að heyra sannleikann frá öðrum þó svo að maður viti þetta allt.

Það hefur verið alveg skelfilega rólegt í vinnunni það sem af er september og ég á pínu erfitt með mig í öllum þessum rólegheitum. Bæði vegna þess að þá fer ég að hafa áhyggjur af afkomunni, og eins fer mér hreinlega að leiðast þegar ég hitti svona fáa viðskiptavini. Það eru takmörk fyrir því hvað maður nennir að þurrka af og vinna í pappírum. Enda hef ég heldur ekki getað unnið í bókhaldinu vegna verkjanna í síðunni. Mér skilst að þessi rólegheit séu ekki bara hjá okkur. Áðan var ég að spjalla við konu sem var nýkomin að sunnan og hún hafði heyrt í fjórum ólíkum verslunum að um leið og september skall á þá hafi bara öll verslun dottið niður. Já já, en svo styttist í október og jólasalan byrjar jafnvel aðeins þá, þannig að þetta fer allt að hafast.

Annars er ég í fríi í dag og ætla að reyna að njóta þess. Þarf reyndar að byrja á því að fara á pósthúsið og sækja sendingu fyrir búðina. Ég ætlaði nú að gera það í gær en tókst að steingleyma því. Svo á ég pantað í lit og klippingu klukkan tólf og það fer nú alltaf dágóður tími í það stúss. Já og ferð í Bónus er líka á dagskránni, þannig að mér mun að minnsta kosti ekki leiðast í dag ;-)

þriðjudagur, 14. september 2010

Þyrfti að fara að fá mér morgunmat

en er ekki að nenna því. Aðallega vegna þess að ég veit ekkert hvað mig langar í. Hm, kannski ég spæli mér bara egg í morgunmat, eða geri egg í brauði. Er orðin hálf leið á haframjöli og langar ekki í kaldan ávaxtabúster því mér var hálf kalt eftir sundið. Já ég veit, mjög merkilegar pælingar. En ég þarf að fara að gera eitthvað plan með mataræðið hjá mér svo þetta endi ekki bara í brauði og mjöli alla daga. Suma daga er það haframjöl á morgnana, brauð í hádeginu og brauð í kaffinu og það er alltof mikið. Ég hef þá trú að allt þetta brauðát sé ekki gott fyrir mann - en það er hægara sagt en gert að kenna gömlum hundi að sitja. Jamm og jæja, en nú er ég orðin verulega svöng, svo ég er farin.

laugardagur, 11. september 2010

Hornafjarðarmagi

Já nú rekur kannski einhver upp stór augu. Hornafjarðarmagi - hvað er nú það? Þannig er mál með vexti að þegar ég var lítil stelpa þótti mömmu á einverjum tímapunkti ég vera með útstæðan maga. Mamma er ættuð úr Hornafirði og líklega hefur stór magi verið í ættinni (a.m.k. minnir mig að amma hafi verið með fremur útstæðan maga). Þannig að mamma sagði einhverju sinni við mig að ég væri með Hornafjarðarmaga. Ég tók þessu nú ekki sem sérstakri upphefð og varð meira að segja fremur sár við mömmu, sem hefur án efa ekki meint neitt illt með þessu, heldur bara verið að reyna að staðsetja mig einhvers staðar á ættboganum. En já mér fannst það ómögulega geta verið mér til framdráttar að vera með stóran maga sem þar að auki gengi undir svona stóru nafni. Síðan leið tíminn og maginn á mér hefur nú verið nokkuð til friðs í gegnum tíðina. Það er helst að hann hafi stækkað í kringum meðgöngur barnanna en þess á milli hefur hann bara verið ágætlega sléttur og ekki sérlega útstæður. Þar til núna nýlega. Nú hef ég fitnað svo mikið að maginn hefur öðlast sjálfstætt líf. Stinnur og fínn af fitu stendur hann út í loftið og viti menn... ég er komin með Hornafjarðarmaga enn á ný ;-)

föstudagur, 10. september 2010

Varúð vælubíllinn!!


Sum nýyrði í íslensku eru nú eiginlega frekar skondin, eins og þetta að nota orðið, "vælubíll" þegar einhver er að kvarta. En já ég er sem sagt aðeins að kvarta núna. Skal samt reyna að koma með eitthvað jákvætt líka til mótvægis.
Neikvætt:
- Er aftur komin með verki í millirifjasvæðið hægra megin og ferlega svekkt með það. Í morgun fór ég í sund eftir að hafa sleppt því í tvo daga. Hélt að það væri kannski óhætt ef ég myndi taka með mér blöðkur og nota aðallega fæturnar. En viti menn það sem ég græddi á því að nota blöðkur voru verkir neðst í spjaldhrygginn hægra megin. Þannig að nú er hægri hliðin meira og minna öll undirlögð.
- Ég er svo hræðilega stífluð í nefinu / nefholunum, án þess þó að vera kvefuð.
- Ég er svooo þreytt og búin að vera í allan dag. Við erum að tala um svona þreytu þar sem ég get varla hugsað mér að fara í vinnuna því bara tilhugsunin að þurfa að standa í lappirnar veldur mér kvíða. Enda var ég fljót að henda mér uppí rúm þegar heim var komið.
-Dett í kvíðakast yfir mínu heilsufarsástandi - og það er ekki til að bæta ástandið.

Jákvætt:
+ Valur dreif sig í ljósmyndaferð að Dettifossi í dag, þó að ég væri að vinna og kæmist ekki með honum. Sem er frábært.
+ Valur málaði útihurðina í vikunni og einnig útihurðina niðri. Svo er hann byrjaður að mála kassann utan af gasinu, svo nú er að verða búið að mála allt sem hægt er að mála hér utanhúss.
+ Ég er að spá í að fara á kóræfingu á sunnudaginn hjá Kvennakór Akureyrar - ef ég koksa ekki á því... Mig hefur lengi langað í kór, tja eða bara að syngja öllu heldur og þá er kór víst leiðin til þess. Vona bara að þessi nefstífla mín verði skárri. Já og svo veit ég reyndar ekkert hvernig þetta fer fram ef ný kona vill byrja í kórnum. Hvort það er einhvers konar inntökupróf eða?
+ Ég er búin að mæla mér mót við Hafdísi og Bryndísi vinkonur mínar í þarnæstu viku. Við ætlum að hittast í hádegi og spjalla saman. Þegar ég hugsa um það væri náttúrulega gáfulegra að hittast að kvöldi til svo við getum spjallað almennilega saman án þess að hafa áhyggjur af klukkunni, en það verður bara síðar.
+ Ég er búin að panta miða fyrir fjölskylduna í leikhús þann 6. nóvember, að sjá Rocky horror, í Hofi. Það verður örugglega gaman.

Jamm og jæja, svo mörg voru þau orð. Vælubíllinn kveður að sinni.

fimmtudagur, 9. september 2010

Já já, annað hvort í ökkla eða eyra

eins og venjulega hjá mér. Nú blogga ég án afláts í einhverja daga - spurning hvað það endist lengi. En Hrefna mín hlýtur að vera glöð með það, hún hefur þá eitthvað að gera frá kl. 18 á kvöldin... Þannig er mál með vexti að þær stöllur verða að vera komnar í hús fyrir myrkur og eiga ekki að vera úti eftir kl. 18. Þá eru þær sem sagt bara tvær og verða að hafa ofan af fyrir sér í húsi þar sem rafmagnið er alltaf að detta út. Já það er áskorun, ekki er hægt að segja annað.

En svo ég segi nú strax eitthvað jákvætt þá er ég betri af þessari millirifjagigt - og er þakklát fyrir það. Í staðinn er bara ógurleg leti/þreyta að hrjá mig. Ég byrja ekki að vinna fyrr en kl. 14 í dag og finnst tíminn ótrúlega lengi að líða núna, þó vissulega gæti ég haft ýmislegt fyrir stafni. Ég fór ekki í sund í morgun af því ég vildi hvíla handlegginn/síðuna betur og þá fékk ég heldur ekki hressandi áhrifin af því að byrja daginn á sundferð.

Fyrst las ég aðeins blöðin, svo lagði ég mig aftur, fór á fætur aftur og kláraði að lesa blöðin á meðan ég borðaði morgunmat. Prófaði að borða lífrænt skyr og er spennt að sjá hvernig það fer í mig. Þetta venjulega verður nefnilega eins og steinn í maganum á mér. Já, og svo sit ég bara hér... Þyrfti að koma mér í sturtu og jafnvel setja í eina þvottavél, taka úr uppþvottavélinni og helst koma mér út að ganga eða hjóla. Hm, mér sýnist ég bara vera komin með ágætis áætlun, best að framfylgja henni ;-)

miðvikudagur, 8. september 2010

6 ára blogg-afmæli um þessar mundir

Það er nú eiginlega bara nokkuð gott finnst mér. Þó vissulega hafi bloggfærslum farið fækkandi hin síðari ár. Ég kíkti aðeins á færslu frá því í ágúst 2004 og sá að þá hafði ég fengið nýja fartölvu til umráða. Hún dugði í rúm fimm ár - og dugar reyndar enn - en er orðin afar hægvirk. Ég fékk jú nýja tölvu í janúar á þessu ári, svo það er bara Ísak sem notar þá gömlu endrum og sinnum.

En já, það sem ég vildi sagt hafa, er að í þessari 6 ára gömlu bloggfærslu er ég að tala um að vonandi fari ég að skrifa meira með nýrri tölvu. Og þá meina ég svona skáldskap og þess háttar skrif. Ekki reyndist ég nú sannspá þar, því miður. Stundum finnst mér eins og ég eyði ótakmarkaðri orku og tíma í að forðast að skrifa. Held jafnvel að ég hafi farið í viðskiptafræðina m.a. til að "þurfa ekki" að láta á það reyna hvort ég gæti skrifað eitthvað af viti. En á sama tíma er eins og það að skrifa hafi verið í blóðinu á mér alveg frá því ég var krakki. Hvers vegna í ósköpunum lætur maður þá ekki bara á það reyna? Mér er eiginlega fyrirmunað að skilja það.

Gáseyri í haustlitum


Ég er í smá pirringskasti núna og kannski ekki gott að vera að blogga akkúrat þá. En svo ég fái nú bara útrás fyrir það sem er að gera mig brjálaða þá kemur runan hér:
- Aðal vandamálið er að ég er að drepast úr millirifjagigt, eða er með bólgnar vöðvafestur í hægri síðunni, og þessu fylgja alveg ótrúlega miklir verkir. Svona eins og tannpína eiginlega og gerir mér erfitt um vik að nota hægri hendina því þetta er eins og allt í kringum axlarliðinn með leiðni út í handlegginn.
- Kettirnir eru að gera mig brjálaða með sínum endalausa óþrifnaði. Húsamerkingar, ælur, hár út um allt og sú staðreynd að endalaust þarf að þrífa kattaklósettið. Ég hugsa að ég væri löngu búin að losa mig við þau ef Ísak væri ekki á heimilinu, hann verður voða sár við mömmu sína þegar ég tala illa um kettina.
- Annað rusl og óhreinindi í húsinu - sem fylgja því að hér býr fólk... Einhverra hluta er það orðið miklu meira atriði í mínum huga hin síðari ár að hafa tiltölulega hreint og helst sem minnst rusl í kringum mig. En mikið óskaplega sem það er erfitt að viðhalda því.
- Já og kemur á óvart! Ég er aftur dottin í síþreytuástand - eða að minnsta kosti mjög mikla þreytu. Var nokkuð góð fyrstu tvo dagana eftir að við komum frá Kanada en svo bara BÚMM kom fílinnn og trampaði mig niður og þar er ég bara. Hef samt reynt að berjast gegn þessu með því að fara í sund á morgnana og það virkar pínu pons, en ekki nógu mikið.
- Gigtin hefur líka verið að hrjá mig en það gæti verið vegna þess að ég er byrjuð í sjúkranuddi og konan var nú reyndar búin að vara mig við að þá færi allt af stað.
- Hm, held bara að listinn sé tæmdur í bili. Mikið var nú gott að ausa aðeins úr sér, held bara að mér sé strax farið að líða aðeins betur ;-)

mánudagur, 6. september 2010

Haust - eða næstum því ...

Já mér varð litið út um gluggann og þá fannst mér allt í einu orðið pínulítið haustlegt úti. Sem er afar undarlegt ef haft er í huga að grasið er ennþá grænt, laufið á trjám og runnum er ennþá grænt og enn má sjá einhverjar blómstrandi plöntur. En í augnablikinu er rigning og þungskýjað, skólarnir eru byrjaðir og líklega er haustið rétt handan við hornið.

Hm, annars veit ég eiginlega ekki alveg af hverju ég settist fyrir framan tölvuna og opnaði bloggið mitt. Hef ekkert sérstakt að segja í dag. Æ já nú man ég að ég þarf að kaupa kattamat. Hann er víst alveg búinn. Það er reyndar svo ágætt að það fæst matur í Jóni Spretti, en þar er opið langt fram á kvöld, svo maður þarf ekki að lenda í stresskasti þó gleymst hafi að kaupa mat á venjulegum opnunartíma hjá dýralæknunum. Það þýðir ekkert fyrir mig að ætla að kaupa handa þeim matinn sem fæst í kjörbúðunum, þau verða bara ekki södd af honum.

Við Valur erum í hálfgerðu átaki að reyna að vera duglegri að gera hluti umfram þessa venjulegu, vinna, borða og sofa. Það gengur nú bara nokkuð vel enn sem komið er. Við erum m.a. búin að kaupa kort á fjóra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, og svo fórum við á tónleika á Græna hattinum á laugardagskvöldið. Þar spilaði Baraflokkurinn en sú hljómsveit var vinsæl þegar ég var svona ca. 15-20 ára. Flestir meðlimir hennar eru svona nokkurn veginn á aldur við mig og ég kannast við nokkra þeirra. Við höfðum bara voða gaman af því að fara og aldrei að vita nema við förum á enn fleiri tónleika í vetur. Það er alltaf gaman að hlusta á lifandi tónlist.

En já, ég er víst að fara í nudd á eftir og þarf að kaupa í matinn fyrst, svo það er best að hætta þessu rausi um ekki neitt.