fimmtudagur, 24. ágúst 2006

Máttur bloggsins

Um leið og Hrefna fékk að vita að hún hefði komist inn í læknisfræðina í Kaupmannahöfn byrjaði fjörið að leita sér að húsnæði. Hún fór á netið og skráði sig hjá einhverri leigumiðlun og las jafnframt allar auglýsingar sem hún fann annars staðar. Ekki hafði hún haft heppnina með sér þegar stúdentaíbúðum var úthlutað, enda langur biðlisti þar. En skömmu síðar var ég að leita að einverju á netinu og sló leitarorðinu upp á Google (man ekki lengur að hverju ég var að leita enda er það aukaatriði í þessu samhengi ;-) Nema hvað, ég lenti þá inni á einhverri bloggsíðu og ætlaði að fara að loka henni þegar ég sá tengil á Vaðbrekkuætt í tenglasafni hjá viðkomandi manneskju. Þetta vakti forvitni mína því vinkona okkar er af Vaðbrekkuætt og ég vissi að það hafði nýlega verið ættarmót hjá þeim. Smellti á tengilinn og sá að þarna var að finna ýmsar upplýsingar um ættina s.s. ættartré. Einnig var listi yfir þá ættingja sem voru með bloggsíður. Ég smellti af rælni á eitt nafnið á listanum. Þetta var kona og yfirskriftin á nýjasta blogginu hennar var eitthvað í þá áttina að biðin væri á enda, dóttir hennar hefði komist inn í læknisfræði í Köben. Þetta fannst mér ansi skondin tilviljun svo ég smellti mér inn á síðu dótturinnar. Þar voru sömu fréttir að finna, en auk þess kom í ljós að hún og kærastinn voru búin að fá íbúð en þau vantaði meðleigjanda því þetta var svo stór íbúð og kostaði 8 þús. danskar á mánuði. Þessar upplýsingar lét ég síðan ganga áfram til dóttur minnar og hún er núna farin að leigja með þessum krökkum! Segið svo að bloggið svínvirki ekki :-)

Engin ummæli: