föstudagur, 28. júlí 2006

Komin heim aftur

úr frábærri ferð austur á land. Ekki var nú farið sérlega víða enda var það ekki tilgangur ferðarinnar en þetta var sem sagt afskaplega ljúf og góð ferð. Til að gleðja lesendur síðunnar (eða þannig) fylgir hér hóflega löng ferðalýsing og þeir sem ekki hafa áhuga á slíkum lýsingum geta hætt að lesa hér með...

Mánudagur:

Vöknuðum heima í Vinaminni og tókum okkur til í rólegheitum. Meiningin var að tjalda í Atlavík um kvöldið en langt var um liðið síðan tjaldið hafði verið notað síðast. Fannst það þó, ásamt svefnpokum og vindsængum, á vísum stað í bílskúrnum. Lögðum við svo af stað austur um eittleytið en fyrst þurfti frúin að koma við í 66 gráður norður og kaupa sér létta peysu því heitt var í veðri og ljóst að þykka flíspeysan væri "too much" í hitanum.

Fyrsta stopp var á Skútustöðum í Mývatnssveit en þar var keyptur ís til að halda upp á það að við værum í sumarfríi saman fjölskyldan. Reyndar aðeins þrír fimmtu hlutar hennar því Hrefna og Andri voru bæði í vinnu og komust þ.a.l. ekki með.

Áfram var ekið en ekki svo lengi því við höfðum ákveðið að á og borða nestið okkar á Möðrudal á Fjöllum. Þar var yfir 25. stiga hiti og ég var að kafna úr hita en á sama tíma var alveg yndislegt að vera þarna og horfa á tilkomumikla fjallasýnina.

Við hefðum í raun alveg getað hugsað okkur að vera þarna áfram en Atlavík beið... svo við héldum áfram og komum til Egilstaða um fimmleytið. Fórum í Bónus og Kaupfélagið og versluðum í kvöldmatinn + einnota grill til að elda á. Brunuðum svo í Atlavík og eftir að hafa beðið árangurslaust eftir tjaldverði fundum við okkur stað til að tjalda á.

Ég þurfti nú aðeins að horfa á tjaldið og rifja upp hvernig á að setja það saman en Valur (sem hefur mun meira verkvit en ég) þurfti ekkert að rifja upp. Þá var komið að því að elda en þegar til átti að taka kviknaði ekki í einnota grillinu. Það varð okkur til happs að rétt hjá okkur var kona sem ég hafði verið með í konuklúbbi fyrir mörgum árum síðan og þau hjónin lánuðu okkur sitt ferðagasgrill og björguðu þannig máltíðinni.

Næsta mál á dagskrá var að blása upp vindsængurnar. Byrjað var á þeirri minni og í fyrstu leit þetta ágætlega út en svo sáum við að loftið lak allt úr henni. Ástæðan var sú að stærðar rifa var þvert yfir vindsængina en við höfðum ekki tekið eftir henni þegar við pökkuðum í bílinn. Þannig að vindsængin sú fór í tunnuna ásamt einnota grillinu.

Það gekk betur að blása upp vindsæng númer tvö og að því loknu fórum við í gönguferð upp að Ljósárfossi sem er þarna skammt frá. Komin til baka aftur fórum við að taka okkur til í háttinn og fann ég þá fljótt að rassinn á mér nam við tjaldbotninn, þ.e.a.s. vindsængin var ekki alveg að virka. Valur tók að sér að sofa á einangrunardýnu sem var með í för, í stað vindsængurinnar sem lenti í ruslinu.

Ekki leið þó á löngu þar til við gerðum okkur grein fyrir því að ekki yrði um svefn að ræða alveg á næstunni. Fólkið í nágrenni við okkur hafði verið að drekka öl og vín frá því fyrir kvöldmat og ekkert lát var á þeim gleðskap þó á mánudagskvöldi væri. Fór það svo að Ísak sofnaði fljótt en við Valur vöktum lengur og ég gat ekki sofnað fyrr en um þrjúleytið en þá hætti fjörið.

Framhald síðar...

Engin ummæli: