sunnudagur, 30. desember 2007

Valur stakk uppá að við færum út að taka myndir


IMG_5004, originally uploaded by Guðný Pálína.

í rokinu. Við fórum meðal annars niður á Eimskipafélagsbryggju og Hoefner bryggju og tókum nokkrar myndir. Hann var með þrífót en ég tók fríhendis. Myndirnar tókust nú misvel eins og gengur en þetta var samt fín ferð hjá okkur.

"Ekkert ferðaveður er á Suður- Vestur- og á Norðurlandi"

Þessi setning er tekin af vef Vegagerðarinnar kl. 11.59 þannig að við hefðum greinilega verið veðurteppt í Reykjavík ef við hefðum farið suður eins og ætlunin var. Já stundum er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.

laugardagur, 29. desember 2007

Ákvarðanir

eru miserfiðar, allt frá því að vera mjög auðveldar (eins og hvaða tegund af tannkremi við ætlum að kaupa) uppí að vera mjög erfiðar (eins og þegar við erum að ákveða hvað við ætlum að "verða þegar við verðum stór"). Það tímabil sem fer í hönd þegar við erum að ákveða milli tveggja eða fleiri valkosta getur stundum verið erfitt, eins og sést best á málshættinum sem allir þekkja "sá á kvölina sem á völina".

Við Valur lentum í hálfgerðri krísu í gær og í dag þegar við vorum að ákveða hvort við ættum að fara suður í brúðkaup bróðurdóttur hans sem er haldið núna í kvöld, laugardagskvöld. Við höfðum svo sannarlega ætlað okkur að fara og vorum bæði búin að skipuleggja frí frá vinnu vegna ferðarinnar. Fyrst var reyndar ætlunin að fara á föstudegi og heim á sunnudegi en meðal annars vegna Andra og Ísaks sem vildu stoppa sem styst í Reykjavík ákváðum við að fara frekar í dag og heim á morgun. Þá bar svo við að veðurspáin fyrir sunnudaginn var afar leiðinleg, spáð var roki/stormi og rigningu og ekki spennandi tilhugsun að keyra heim í slíku veðri. Sérstaklega þar sem snjór er núna yfir öllu og ljóst að yrði mjög hált þegar færi að hlána. Valur þurfti að vera kominn norður þann 30. því hann er á vakt á sjúkrahúsinu þann 31. og þá var aðeins eftir sá kostur að keyra heim um nóttina, eftir að hafa verið í veislunni. Ég gat varla hugsað mér að keyra norður um miðja nótt um hávetur. Fyrir utan að komast hvergi á klósett (og ég er ekki beint með samkvæmisblöðru) og að þetta færi ekki vel með bakið á mér (sem er slæmt fyrir) þá væru líka fáir á ferli ef eitthvað kæmi uppá hjá okkur.

Skynsemin sagði okkur að best væri að fara hvergi en hins vegar langaði okkur bæði afskaplega mikið að mæta í veisluna, þannig að við vorum í úlfakreppu. Valur lá á netinu og skoðaði veðurspár og færð á vegum og við vonuðum að spáin myndi breytast til hins betra. En í morgun var alveg sama spáin og ákvörðun endanlega tekin um að vera heima. Þrátt fyrir að við vitum bæði að þetta hafi verið skynsamlegasti leikurinn í stöðunni þá erum við bæði hálf ósátt við þetta og hálf vængbrotin eitthvað. Jamm og jæja, svona fór um sjóferð þá.

miðvikudagur, 26. desember 2007

Smá jólavæmni í gangi...

Valur fór hálf partinn í klessu yfir þessari mynd- og textabirtingu hér fyrir neðan. Fannst ég sjálfsagt vera með óþarfa fagurgala. En sem sagt, bara smá jólavæmni í gangi hjá mér og ég fer nú ekkert að taka þetta til baka ;-)

Og fallegi maðurinn minn

Með jólagjöfina sem hann fékk frá Kidda (hinum megin er mynd af Landrover jeppanum sem nefnist Tuddinn í daglegu tali).

Fallegu börnin mín


Fallegu börnin mín, originally uploaded by Guðný Pálína.

Jólin komin og farin... eða næstum því

Búðarkonan var hvíldinni fegin, sofnaði ekki ofan í súpuna á aðfangadagskvöld (enda engin súpa í matinn) en féll nærri því í ómegin sökum hita og þreytu þegar verið var að útdeila pökkunum. Var áfram þreytt í gær, jóladag, og leið eins og afturganga um húsið megnið af deginum þrátt fyrir að hressast um stund eftir gönguferð með æskuvinkonu sinni. Svaf nærri tólf tíma síðustu nótt og var ægilega ánægð í svolitla stund þar sem hún hélt að nú væri hún úthvíld. Var svo hress að hún stakk uppá gönguferð með bóndanum og út fóru þau í snjóinn og rokið. Síðasti hjalli leiðarinnar reyndist henni hins vegar ofviða. Um litla brekku var að ræða og snjóþæfingur gerði henni svo erfitt fyrir að þegar heim var komið leið henni eins og hún hefði verið í fjallgöngu, alveg úrvinda og illt í baki og hné. Já, nú er illt í efni og ljóst að búðarkonan verður að taka sjálfa sig í algjöra yfirhalningu á nýju ári. Góðu fréttirnar eru þær að það var mikið verslað í Pottum og prikum fyrir jólin og búðin greinilega að stimpla sig inn hjá bæjarbúum.

Að öðru leyti ganga jólin fyrir sig eins og við er að búast. Hamborgarahryggur, hangikjöt og humar eru á matseðlinum og heilar tvær smákökusortir. Engar tertur, engin fjölskylduboð, bara konfekt og afslöppun. Valur fékk skemmtilega bók, viðtalsbók við rithöfunda, sem ég hef haft gaman af að glugga í. Búin að lesa viðtöl við Kristínu Mörju Baldursdóttur og Guðrúnu Helgadóttur og hlakka til að lesa meira. Fleiri bækur rötuðu í hér í hús og búið að lesa sumar og fletta öðrum en aðrar eru óopnaðar.

Hrefna og Erlingur eru varla komin fyrr en þau eru að fara aftur til Danmerkur. Það er próf hjá henni 2. janúar og dugar víst ekki að slæpast lengur... Þau ætla að keyra suður yfir heiðar fyrri partinn á morgun og út seinnipartinn. Aðstandendur eru pínu stressaðir yfir veðri og færð en vonandi gengur allt vel hjá þeim.

Mikið er ég annars fegin að daginn skuli vera farið lengja aftur!

miðvikudagur, 19. desember 2007

Ég hef örugglega áður bloggað um tilviljanir

því ég hef einhverra hluta vegna afskaplega gaman af ýmis konar tilviljunum. Eins og t.d. einu sinni þegar ég var að koma keyrandi heim og mætti eintómum silfurlituðum bílum. Um daginn var ég í barnaafmæli (eins og lesendur þessa bloggs vita líklega) og í afmælinu voru aðrir fullorðnir, auk mín, mamma barnsins, móðursystir, amma, nágrannakona og loks samstarfskona mömmunnar úr háskólanum. Í dag komu svo mamman og móðursystirin í búðina til mín, skömmu síðar kom nágrannakonan líka í búðina, og þegar ég fór í Hagkaupp í kvöld hitti ég þar konuna úr háskólanum. Ég hef enga þeirra hitt síðan í afmælinu og fannst það skemmtileg tilviljun að rekast á þær allar sama daginn (tja nema ömmuna sem var farin heim á Akranes).

Annars er ég að reyna að standa mig í stykkinu þessa dagana sem móðir skólabarns en það gengur misvel. Gærkvöldið fór í að prenta út jólakort handa rúmlega 50 bekkjarfélögum Ísaks og ég var barasta nokkuð ánægð með að hann skyldi geta mætt með kortin á réttum tíma í skólann. Á morgun eru svo stofujól hjá honum og þá er ætlast til þess að öll börnin mæti með smákökur en kakó fá þau í skólanum. Hér er búið að baka tvær smákökusortir og allar kökurnar eru því miður búnar... Mér tókst að redda málinu með því að stinga uppá að hann færi með laufabrauð með sér í skólann - og keypti líka einn poka af piparkökum sem hann fer með líka. Ég held nú hreinlega að þetta sé í fyrsta skipti sem svona illa er statt í smákökumálum heimilisins svo stuttu fyrir jól. Þannig að nú er víst mál til komið að bretta uppá ermarnar og baka!

laugardagur, 15. desember 2007

Eftir að hafa verið strandaglópar í hálfan sólarhring

á Kastrupflugvelli komust Hrefna og Erlingur loks heim í nótt. Lögðu svo af stað keyrandi norður um sexleytið í morgun og voru orðin ansi framlág þegar þau komu á leiðarenda um hádegisbilið. Það var gott að knúsa hana dóttur sína þegar hún loksins kom :-)

föstudagur, 14. desember 2007

Brjálað veður fyrir sunnan

og ekkert flogið til eða frá landinu enn sem komið er, ef ég hef skilið útvarpið rétt. Hrefna og Erlingur eru að koma heim frá Danmörku í dag þannig að nú er bara að vona að veðrið gangi niður seinni partinn svo það verði ekki seinkunn á fluginu þeirra.

Get ekki sofnað...

er hreinlega of þreytt held ég, ef það er þá hægt (að geta ekki sofnað af því maður er of þreyttur). En dagurinn í dag var eiginlega frekar skrýtinn, ég var einhvern veginn svo illa upplögð og byrjaði vinnudaginn á því að gera mistök þegar ég var að reyna að leiðrétta mistök gærdagsins (já, já, ég veit að þetta er frekar óskiljanlegt) og svo rak hvað annað, nema hvað þetta voru svo sem engar stórar gloríur sem ég gerði af mér, sem betur fer.

Ísak hefur verið veikur, er búinn að vera heima í þrjá daga og verður heima á morgun líka. Hann er nú voða duglegur að hafa ofan af fyrir sér og hefur meðal annars horft á ógrynni af James Bond myndum sem til eru hér í húsinu. Sem er eins gott því ekki er mamma hans mikið heima. Ég reyndi að gera eins og þessir foreldrar sem tala um að það séu gæðin en ekki magn samverustundanna sem skipta máli, og bakaði smákökur með honum í fyrrakvöld. Er samt með smá samviskubit yfir því að vera svona lítið heima þessa dagana - en pabbi hans ætlar að taka sér frí eftir hádegi á morgun - og ég á frí á laugardaginn, þannig að þetta stendur allt til bóta.

sunnudagur, 9. desember 2007

Vinna, vinna, vinna...

Eins gott að mér finnst gaman í vinnunni :-) Skemmtilegust eru samskiptin við viðskiptavinina en tímafrekast er að panta vörur og taka uppúr kössum. Mér finnst í rauninni ekkert leiðinlegt í þessu starfi, nema þá rólegir dagar þegar lítið er að gera, þannig að ég er auðvitað hæstánægð í vinnunni þessa annasömu desemberdaga.

Fína hugsunin mín um að vera búin að gera sem mest í nóvember var nákvæmlega það, fín hugsun. Enn á eftir að kaupa eitthvað af jólagjöfum og við erum bara búin að baka eina sort af smákökum. Sem er eiginlega kostur því mér finnast smákökur svo hrikalega góðar, sérstaklega mömmukossar, og þegar freistingin er komin nálægt mér þá er erfitt að standast hana. Við erum t.d. með sælgæti núna í búðinni fyrir viðskiptavinina og ég stelst alltaf í það annað slagið, þrátt fyrir ásetning um annað. Reyndar borða ekki jafn mikið og ég myndi gera ef ég væri ekki í nammi"bindindi". Svo er ég búin að finna nokkrar hollar smákökuuppskriftir og á örugglega eftir að prófa einhverjar þeirra.

fimmtudagur, 6. desember 2007

Vá, hvað er stutt til jóla

Hvað verður eiginlega um tímann? Þetta líður svo rosalega hratt allt saman. Ég var t.d. í afmæli í gær hjá 2ja ára stelpuskottu og mér finnst svo stutt síðan mamma hennar var að kenna, kasólétt, í háskólanum. Annars var það nú eiginlega bara fyndið að upplifa svona smábarnaafmæli á nýjan leik, ég er greinilega alveg komin út úr þessu. Lenti í stökustu vandræðum með að kaupa gjöf handa litlu dömunni, það eru 22 ár síðan ég átti stelpu á þessum aldri og ég hafði ekki hugmynd um hvað þessi aldurshópur væri að leika sér með. Horfði í smá stund á barbídúkkur en komst að þeirri niðurstöðu að líklega væru hún heldur ung fyrir svoleiðis. Endaði á því að kaupa Fischer Price leikföng (dúkkuna Dóru, lítið hús, rennibraut ofl - sem kostaði ekki nema 1.299 í Hagkaup þrátt fyrir allt innihaldið) sem ætluð voru 3ja ára og eldri. Hafði reyndar smá áhyggjur af því að mamman myndi halda að ég vissi ekki hvað barnið væri gamalt, en alla vega þá gat ég ekki séð betur en þetta félli vel í kramið hjá litlu skottunni.

Nanna, dóttir Fríðu bloggara og maraþonhlaupara, bjargaði mér með því að vinna fyrir mig svo ég komst í afmælið. Mér hefði þótt leiðinlegt að komast ekki því mér var boðið í 1 árs afmælið í fyrra en þá var ég að vinna og gat ekki mætt.

En nú er best að fara að elda grjónagrautinn sem á að vera í kvöldmatinn!

miðvikudagur, 5. desember 2007

Enn komin hláka

Það er nú meira hvað veðurfarið hér er óstöðugt. Mikið vildi ég bara hafa snjóinn í friði, það er líka miklu bjartara þegar hann er. Til dæmis þá sé ég manninn sem ber út Fréttablaðið mun betur þegar það er snjór... Hann klæðist dökkum fötum, ber engin endurskinsmerki, gengur oft á miðri götunni og í tvígang hef ég verið nálægt því að keyra á hann í því kolsvartamyrkri sem er þegar snjóinn vantar.

Annars finnst mér alveg hrikalega erfitt að vakna á morgnana núna, verð sjálfsagt að vera duglegri að sitja í dagsljósslampanum mínum - eða fara fyrr að sofa á kvöldin...

sunnudagur, 2. desember 2007

Annað blogg fyrir Hrefnu ...

Já, það þarf víst ekki mikla glöggskyggni til að sjá að ég er ekki í miklu bloggstuði þessa dagana. Andinn einhvern veginn ekki yfir mér. Þannig að þetta verður bara svona í punktaformi:

- Við Valur og Ísak skárum út + bökuðum laufabrauð ásamt Sunnu, Kidda og börnum á föstudagseftirmiðdag, og gekk það bæði hratt og vel fyrir sig. Á sama tíma var Andri að skemmta sér á árshátíð MA.

- Svo hjálpuðumst við Valur að við að þvo glugga í eldhúsi og stofu á laugardaginn og hengdum upp jólagardínur og jólaljós í gluggana í stofunni. Mér leið strax betur að því loknu og fannst ég ekki jafn léleg húsmóðir og áður.

- Það hefur verið nóg að gera í vinnunni að undanförnu og greinilegt að fleiri leggja leið sína í Potta og prik heldur en fyrir ári síðan, sem er afar jákvætt og skemmtilegt.

- Leiðinda kvefpesti hefur verið að angra heimilisfólk hér undanfarið, fyrst var ég veik, svo Valur og loks Andri. Svo hafa magaverkir verið að herja á karlpeninginn en ég hef sloppið við þá, sem betur fer.

- Kettirnir hafa sloppið við veikindi og sofa stóran hluta sólarhringsins, eins og þeirra er vani á þessum árstíma.

- Ég er að reyna að bæta þolið með því að synda spretti í morgunsundinu, með þeim árangri að tveir karlmenn hafa talað um það að þeir vildu ekki etja kappi við mig í lauginni (hehe) því ég fari svo hratt... Ég segi þeim að ég sé bara svona hraðskreið með blöðkurnar en finnst hólið ekki slæmt ;-)

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Jólablað Fréttablaðsins

kom inn um lúguna í dag og ég fletti í gegnum það með þeim árangri að mér fannst ég allt í einu alveg hræðilega léleg húsmóðir.

sunnudagur, 25. nóvember 2007

Gott að kúra


Gott að kúra, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hér sést hvar köttunum finnst allra best að kúra, í kjöltunni á mér og ef það er ekki pláss þar, þá ofan á maganum á mér (eða hvar sem hægt er að troða sér). Kosturinn við þetta fyrirkomulag er að mér verður a.m.k. ekki kalt á meðan ég er með svona hlýja ábreiðu :-)

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Þrátt fyrir fögur fyrirheit

um að vera búin að kaupa allar jólagjafirnar fyrir lok nóvembermánaðar er ég bara búin að kaupa eina einustu gjöf og hún fékkst í Pottum og prikum. Ég er nú ekkert rosalega sátt við þessi afköst (eða skort á afköstum öllu heldur) en aðalvandamálið er að velja viðeigandi gjafir handa hverjum og einum. Ég er alveg sérstaklega hugmyndasnauð þegar kemur að því að finna gjafir handa strákum, ungum sem öldnum. Mér bara dettur ekkert spennandi í hug. Það eru allir í kringum okkur orðnir það stálpaðir að ekki er hægt að fara í næstu dótabúð og kaupa leikföng - það eina sem maður veit pottþétt að strákar gera er að vera í tölvuleikjum en ég vil ekki kaupa svoleiðis. Arg og garg, þetta er nú meiri höfuðverkurinn.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Valur var svo elskulegur

að þvo fyrir mig bílinn á sunnudaginn en svo er komin asahláka og bíllinn þar af leiðandi orðinn drulluskítugur aftir, fúlt!

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Nennti ekki að vera lengur veik

og dreif mig í vinnuna í dag, þrátt fyrir að vera frekar þokukennd í hugsun, a.m.k. framan af. Það rjátlaðist reyndar fljótt af mér því það var svo mikið að gera. Stanslaus straumur fólks í búðina og mér finnst svo skemmtilegt í vinnunni þegar það er svoleiðis. Hins vegar var ég orðin svolítið hás í lok dags, eftir að tala svona mikið.

Og akkúrat núna er ég að hugsa um það hversu heppin ég er að vinna hjá sjálfri mér, fyrir utan að hafa ekki einhvern brjálaðan yfirmann að tuða í mér þá get ég leyft mér að blogga um vinnuna ;-) Þrátt fyrir að ég telji mig frekar auðvelda í samstarfi þá þykir mér ekki verra að þurfa ekki að taka við fyrirskipunum frá öðrum, það fór alveg skelfilega í taugarnar á mér þann stutta tíma sem ég starfaði sem sjúkraliði hvernig sumar hjúkkurnar fengu kikk út úr því að skipa sjúkraliðunum fyrir verkum á sem allra leiðinlegasta máta. En það er nú eins og alltaf misjafn sauður í mörgu fé. En alla vega þá hentar það mér mjög vel að vinna bara í samstarfi við aðra, þar sem báðir eru jafnir.

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Skárri af beinverkjunum en ennþá slöpp

og þung í höfðinu ef einhver skyldi hafa verið að spá í það...

Ég var nógu veik í gær til að sofa en núna hengslast ég bara um húsið, of hress til að sofa en of slöpp til að gera nokkurn skapaðan hlut af viti. Hef undanfarinn klukkutíma eða svo verið að lesa blogg nokkurra krabbameinsveikra kvenna (ekki spyrja mig af hverju) og það sem situr eftir í huganum, fyrir utan ótrúlegan dugnað þeirra og hugrekki, er fjárhagsstaða krabbameinssjúklinga. Fólk sem er að berjast fyrir lífi sínu ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af peningamálum, hið sama gildir um aðra langveika og aðstandendur þeirra. Hér þurfum við Íslendingar standa okkur betur!

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Pestargemlingur

Ég skildi ekkert í því í gær hvað ég varð þreytt við minnstu áreynslu en skýringin er sú að ég hef greinilega nælt mér í einhverja ólukkans pesti. Fór ekki í vinnuna í dag og hef bara legið í rúminu lungann úr deginum með beinverki og höfuðverk. Er náttúrulega ekki að nenna þessu en hver nennir svo sem að vera veikur?

Hún á afmæli í dag...

hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún Hrefna
hún er 24ra ára í dag

Til hamingju með daginn elsku Hrefna mín frá okkur öllum hér heima á Fróni :-)

mánudagur, 12. nóvember 2007

Ertu 40?

Þessari spurningu var skellt framan í mig þegar ég kom úr sturtunni í sundlauginni í morgun og ætlaði að fara að klæða mig. Þar sem ég á afmæli í dag varð ég alveg hvumsa, hvernig gat konan við hliðina á mér vitað að ég átti afmæli? Ég komst að þeirri niðurstöðu að það gæti hún ekki og þá hlaut að vera önnur skýring á spurningunni? Eftir að hafa brotið heilann í smá stund og örugglega horft svolítið undarlega á hana komst ég að niðurstöðu, á nákvæmlega sama tíma og hún umorðaði spurninguna ... "Ertu í skáp nr. 140?" spurði hún og þá fór ég að skellihlægja, ekki af því spurningin væri svo fyndin heldur af því mér varð hugsað til þess hversu skrýtinn svipurinn á mér hlyti að vera og hversu skilningssljó hún hlyti að halda að ég væri. Þannig að ég sagði svo allir heyrðu "Nei, en ég er 43ja, ég á nefnilega afmæli í dag." Og svo hlógum við allar hjartanlega :-)

sunnudagur, 11. nóvember 2007

Hrefna hér kemur blogg ;-)

Já læknanemanum fannst víst mamma sín standa sig illa í blogginu svo hér kemur heiðarleg tilraun til að bæta úr því.

Helstu fréttir dagsins eru þær að ég er fallin! Það er að segja, ég er búin að borða bæði sykur og hvítt hveiti þrjá daga í röð...

Byrjaði á föstudaginn í erfidrykkju Petreu frænku minnar, þar sem ég stóðst þó Hnallþórurnar en fékk mér tvær sneiðar af smurbrauðstertum (úr hvítu brauði) í staðinn. Seinna um daginn fór ég í konuklúbb þar sem boðið var uppá margar gerðir af "bruchettum" úr hvítu snittubrauði og súkkulaðiköku. Skemmst er frá því að segja að ég fékk mér hvoru tveggja. Og til að kóróna daginn þann var pítsa frá Greifanum í kvöldmat og ég fékk mér að sjálfsögðu líka pítsu. Jamm, það held ég nú. Í gær stóð ég mig nú bara nokkuð vel framan af en a.m.k. ein sneið af Djöflatertu rataði á diskinn minn í kaffinu og þrjú After eight súkkulaði enduðu ævina í mínum maga um kvöldið. Þá var nákvæmlega engin mótstaða af minni hálfu, ég vorkenndi sjálfri mér fyrir gríðarlegt ofnæmiskast sem ég hafði fengið fyrr um daginn (var að klóra hundi og fékk þvílíkan allsherjar kláða í kjölfarið) og einnig var skrokkurinn á mér sérlega slæmur (vegna vefjagigtarverkja), þannig að um hreint og tært huggunarát var að ræða. Og til að kóróna þetta allt saman hef ég innbyrt tvær sneiðar af Djöflatertu í dag og keypti (og borðaði) þar að auki eitt súkkulaðistykki þegar ég fór í Bónus áðan...

Þrátt fyrir þessa hrösun hef ég ákveðið að vera góð við sjálfa mig (þ.e. ekki hugsa neitt um það að mig skorti sjálfsstjórn o.s.frv.) heldur hugsa bara að á morgun sé nýr dagur og þá geti ég haldið áfram að borða hollan mat. Það finnst mér ansi flott hjá mér :-)

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Eftir að hafa verið á þeytingi í tvo daga

er hugurinn á mér svo ofvirkur að ég næ ekki að slaka á og sofna. Hvað er þá betra en setjast fyrir framan tölvuna og blogga aðeins? Aðalfréttin er sú að við eigendur Potta og prika skrifuðum undir leigusamning í Reykjavík og ætlum að flytja búðina á Glerártorg þegar það verður stækkað. Þessi ákvörðun var tekin að vel yfirlögðu ráði og við trúum því að fyrirtækið nái að blómstra í stærra húsnæði þar sem hægt verður að bæta við vöruúrvalið og fleira fólk á leið hjá. Það hefur háð okkur svolítið hvað verslunin er lítil í dag (þó það sé viss sjarmi fólginn í því) og viðskiptavinir kvarta undan því að gleyma okkur þarna í Strandgötunni. Þannig að það eru spennandi tímar framundan, við þurfum að fara á fullt að láta hanna búðina og undirbúa allt saman þannig að hægt sé að innrétta í aprílmánuði, en formleg opnun verður 2. maí. Jamm, nóg að gera á næstunni, jólaösin og svo Glerártorg - bara gaman að því!

mánudagur, 5. nóvember 2007

Beðið eftir flugi

Við Sunna erum að fara í innkaupaferð fyrir Potta og prik og ætluðum að leggja af stað kl. 9.25 en því miður er seinkunn á fluginu svo það fer ekki fyrr en 11.15. Það er hálf leiðinlegt að bíða svona og í stað þess að nota tímann í eitthvað gáfulegt er ég bara að hangsa. Er hálf þreytt eitthvað og það hefði verið afskaplega gott að vita um þessa miklu seinkunn í gærkvöldi og geta sofið lengur en ég vaknaði klukkan sjö og dreif mig í sund. Sá fyrst þá að það voru skilaboð frá flugfélaginu í símanum mínum (sem höfðu verið send um tíuleytið í gærkvöldi) en þá hafði ég ekki heyrt neitt píp því ég geymi hann venjulega í töskunni minni yfir nóttina. Æ, jæja, best að hætta þessu tuði og fara að pakka.

miðvikudagur, 31. október 2007

Það ætlar að ganga erfiðlega að ná hinum fullkomna espresso

Við erum sem sagt farnar að selja espresso-kaffivélar í Pottum og prikum, og ég er að reyna að ná upp einhverri hæfni í að hella uppá gott kaffi. Það gengur misvel, svo ekki sé meira sagt. Alltaf þegar ég held að nú sé ég orðin útlærð í þessu, hef sem sagt náð einum virkilega góðum bolla, þá mistekst næsta uppáhelling... Ég drekk nú eiginlega ekki kaffi en hvað leggur maður ekki á sig fyrir bisnessinn ;-)

þriðjudagur, 30. október 2007

Það biðu örugglega 50 bílar

fyrir utan dekkjaverkstæðið þegar ég kom keyrandi á sumardekkjunum í fljúgandi hálku. Ég gat ekki séð að það væri neins staðar laust pláss fyrir einn bíl í viðbót og ákvað að bíllinn minn gæti alveg eins staðið áfram í bílskúrnum heima eins og í þessari kös. Til að nýta ferðina skrapp ég í Sportver og keypti vettlinga á Ísak og rölti inn í Nettó í leiðinni. Tók bara litla körfu af því ég ætlaði ekki að gera nein stórinnkaup en alltaf bættist meira og meira í körfuna því ég mundi alltaf eftir einhverju fleiru sem vantaði. Þegar ég var svo að seta vörurnar í ísskápinn heima velti ég um koll safafernu sem stóð þar opin, og það sullaðist ávaxtasafi út um allt. Skemmtilegt!

Var bara alein í sundlauginni um tíma í morgun

Það hefur orðið einhver breyting á bæði fólki og tímasetningum frá því í fyrravetur og einhvern veginn annar rytmi í þessu öllu saman. Sumar konurnar sem ég voru á sama tíma og ég í búningsklefanum eru farnar að mæta fyrr, aðrar seinna og enn aðrar hættar að mæta. En sundið sem slíkt stendur alltaf fyrir sínu, þrátt fyrir bólgið hné og aðra annmarka mína. Svo þegar ég kem heim þá er mér fagnað af köttunum sem eru hálfpartinn lagstir í hýði enda veturinn að skella á af alvöru. Stundum vildi ég óska að ég gæti lagst í hýði yfir veturinn, mér finnst myrkrið svo leiðinlegt (ég fyllist alltaf hálfgerðum kvíða á haustin þegar fer að dimma, eins fáránlegt og það er). Þyrfti að breyta hugarfarinu gagnvart myrkrinu. Gera eins og allir hinir, kveikja á kertum og njóta skammdegisins (held nú samt að ég þurfi að taka mig verulega mikið á til að það verði að veruleika). Jamm og jæja, maður lifir þetta víst allt saman af og fyrr en varir verða komin jól, svo páskar og svo vorar á ný :-)

mánudagur, 29. október 2007

Haust í Berlín - Vetur á Akureyri

Það var mjög fínt í Berlín, við gistum á virkilega góðu hóteli og ekki spillti fyrir að það var mjög vel staðsett. Veðrið var milt haustveður, ca 8-10 gráður en sólin lét ekki sjá sig (manni varð þó hvorki of heitt né of kalt) og við röltum um borgina, sátum á kaffihúsum, fórum þrisvar út að borða, kíktum í búðir (2 peysur voru nú allur afraksturinn hjá mér) og (einhverra hluta vegna) aðeins á eitt einasta safn, DDR safnið sem greinir frá lífi fólks í Austur-Þýskalandi fyrir fall múrsins, og var afar fróðlegt að sjá. Eitthvað hljótum við að hafa gert fleira sem ég man ekki í augnablikinu, en aðaltilgangi ferðarinnar (sem var að hafa það gaman saman, slappa af og fá smá upplyftingu í hverdaginn) var að minnsta kosti náð :-)

þriðjudagur, 23. október 2007

Fjör, fjör og aftur fjör

Við Valur erum að fara suður seinni partinn á morgun og til Berlínar snemma á fimmtudagsmorguninn. Eins og það sé ekki nógu spennandi eitt og sér, þá er Ísak búinn að æla þrisvar núna í kvöld og stóra spurningin hvort þetta er eitthvað tilfallandi eða meiriháttar æluveiki. Í viðbót þá er ég með bólgið hægra hné en eins og allir vita þá fer maður ekki í borgarferð nema vel skóaður og helst með heila limi því mikið er gengið. Annað mál er einnig í deiglunni núna sem ekki er hægt að ræða um á blogginu (að svo stöddu) sem veldur töluverðri streitu þessa dagana, svo það er sem sagt mikið fjör. Verður maður ekki bara að trúa því að allt fari á besta veg?

mánudagur, 22. október 2007

Litadýrð á himni


Litadýrð á himni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Það má eiginlega segja að himininn hafi staðið í ljósum logum seinni part laugardagsins. Samspil vindsins, skýjanna og sólarinnar sem var að setjast bjó til hinar ótrúlegustu myndir sem breyttust í sífellu. Hér er aðeins eitt sýnishorn. Líklega hefði ég þurft að vera með þrífót til að geta gert þessu almennileg skil.

laugardagur, 20. október 2007

Þegar unglingurinn var spurður

hvort hann væri búinn að laga til í herberginu sínu, svaraði hann: "svona 70%". Þetta svar kom í kjölfarið af nýrri reglu sem mamman á heimilinu kynnti til sögunnar í dag, að á laugardögum skyldi lagað til... Já, og vel að merkja var unglingurinn kominn út á tröppur, á leið út í bíl, þegar hann var spurður þessarar spurningar. Þegar mamman situr svo í herberginu hans og er að blogga, lítur hún í kringum sig og hennar mat á tiltektinni er að hann hafi lagað til ca. 60%. Það fer víst ætíð eftir sjónarhorninu hverju sinni fólk metur hlutina... :-)

fimmtudagur, 18. október 2007

Er hálf "lost" eitthvað í dag

Hvort sem það er vegna síðbúinnar þreytu eftir sýninguna, eða bara vegna þess að ég byrjaði ekki daginn á því að fara í sund eins og venjulega. Ísak var að fara í samræmt próf, þurfti þess vegna ekki að vakna fyrr en klukkan átta og ég ákvað að láta það eftir mér að sofa aðeins lengur fyrir vikið. Vaknaði samt fyrir sjö þegar klukkan hringdi hjá Val og gat ekkert sofnað aftur. Eftir að Ísak var farinn í skólann væflaðist ég um húsið og kom mér ekki að því að gera neitt gáfulegt. Las blöðin og hékk í tölvunni en svo um tíuleytið bað menntaskólaneminn mig að skutla sér í skólann og þá fór ég út í Kjarnaskóg og gekk rösklega einn hring. En ekki dugði það nú til að koma blóðinu í mér almennilega á hreyfingu og ekki hafði ég orku til að gera fleira af viti. Tja, nema þvo eina vél af þvotti. Nú styttist hins vegar í að ég þurfi að fara að vinna þannig að það er eins gott að fara að taka sig saman í andlitinu.

Það styttist líka í Berlínarferðina, ein vika til stefnu. Það verður gaman að bregða sér út fyrir landsteinana enda erum við að fara með skemmtilegu fólki. Bara stór galli að búa úti á landi og þurfa alltaf að bæta ferðum til og frá Reykjavík við ferðalagið.

þriðjudagur, 16. október 2007

Þá er sýningin afstaðin og allt gekk vel

Það var mikið fjör á sýningunni og alveg ný upplifun fyrir mig að taka þátt í svona viðburði. Ég hafði haft áhyggjur af því fyrirfram að við þyrftum að "veiða" fólk inn í básinn til okkar en það var nú aldeilis ekki raunin. Fólk hafði mikinn áhuga á að skoða vörurnar og við komumst ekki einu sinni í pásu þessa 6 tíma sem sýningin var opin bæði laugardag og sunnudag. En það var bara ánægjulegt og ég fann ekki fyrir þreytu þrátt fyrir loftleysi, hita og hávaða (tja ekki fyrr en í gær og í dag... ).

Annars er hálf leiðinlegt veður, kalt og snjóföl á jörðu í morgun með tilheyrandi hálku. Tvær konur í sundi voru að tala um það að Akureyringar kynnu þó allavega að keyra í hálku (þ.e. aka hægt) og höfðu greinilega samanburðu úr höfuðborginni. Ég sem sagt syndi enn á morgnana en minna hefur farið fyrir þeim áætlunum mínum að fara líka í ræktina. Veit ekki alveg hvað ég á að gera í því máli.

Gengur hins vegar bara furðu vel að sleppa sykri og hvítu hveiti úr mataræðinu og er duglegri að borða ávexti og grænmeti. Það kemur reyndar ennþá yfir mig alveg skelfileg löngun í sykur þegar ég er þreytt eða stressuð en í gær uppgötvaði ég þurrkaðar apríkósur sem eru mjög sætar á bragðið en hafa bara blóðsykurstuðul uppá 43 (minnir mig) og hækkar því ekki blóðsykurinn hratt eins og hvítur sykur gerir.

föstudagur, 12. október 2007

Sykurfíknin lætur á sér kræla

þessa dagana. Það er afskaplega slæmur ávani að vera sífellt að narta í eitthvað sætt þegar maður er þreyttur eða stressaður - en einmitt þennan ávana hef ég. Í dag uppfylli ég bæði þreytu og streitu skilyrðin (auk PMS) og hef átt ansi erfitt með mig. Hnetu- og rúsínublanda sem ég fann í búrinu hefur bjargað mér í bili, held hins vegar að ég hafi borðað yfir mig af þessu góðgæti, er hálf ómótt eitthvað...

Matur-inn 2007 um helgina

Já, okkur Sunnu leiðist ekki, afmælisveisla um síðustu helgi og þátttaka í sýningu þessa helgi. Það er sem sagt sýning í Verkemenntaskólanum sem félagið Matur úr héraði stendur fyrir. Okkur var boðið að taka þátt og það var varla hægt að segja nei við tilboði um að kynna Potta og prik fyrir þúsundum gesta :-) En það er heilmikil vinna sem fylgir þessu, bara það að ákveða hvaða vörur við ætluðum að vera með og panta þær tók ótrúlega mikinn tíma. Svo þurfum við að reyna að gera básinn okkar fallegan í dag og raða í hann í fyrramálið áður en sýningin hefst klukkan ellefu. Hún er opin frá 11-17 bæði laugardag og sunnudag og ég hugsa að ég verði mjög fegin á sunnudagskvöldið þegar þessu lýkur. En þetta verður örugglega mjög gaman.

laugardagur, 6. október 2007

Vel heppnuð afmælisveisla

Við ætluðum að hafa opið frá 11-16 í Pottum og prikum í dag, og mættum við Sunna klukkan hálf ellefu til að hella uppá kaffi og gera klárt. Við vorum hins vegar varla komnar inn úr dyrunum en það byrjaði fólk að streyma inn og þar af leiðandi varð smá seinkunn á veitingunum því við komumst hreinlega ekki til að hella uppá og sækja afmælistertuna í Bakaríið við brúna. En það hafðist nú á endanum og það var stöðugur straumur fólks í búðina fram til hálf fimm. Mikið af nýjum viðskiptavinum líka, svo það var nú aldeilis gaman að því. Og allir kátir og glaðir og við Sunna að sjálfsögðu einnig. Valur leit við og hjálpaði okkur að kynna nýju kaffivélarnar sem við erum að byrja að selja (frá Kaffiboði við Barónsstíg) og Kiddi kom brunandi með tertuspaða sem okkur hafði báðum tekist að gleyma heima... Í kvöld fórum við fjölskyldan svo út að borða á Strikið, höfðum ekki komið þangað síðan staðurinn hét Fiðlarinn, og það kom ánægjulega á óvart. Sem sagt, hinn besti dagur að kvöldi kominn og framundan að horfa á eins og eina James Bond mynd í heimabíóinu í kjallaranum :-)

miðvikudagur, 3. október 2007

Reynitrén eru svo falleg á þessum tíma árs,


Reyniber, originally uploaded by Guðný Pálína.

eru reyndar orðin enn fallegri síðan þessi mynd var tekin, en hér voru jú berin í aðalhlutverki. Það er búið að vera yndislegt haustveður hér í dag og í gær, alveg eins og maður vill hafa það.

Annars er ekki mikið að frétta... ég keypti mér nýjan sundbol um daginn sem reyndist of stuttur á mig þegar til kom - spælandi .... og svo er afmælisveisla hjá Pottum og prikum á laugardaginn. Vonandi kíkja sem flestir í kaffi til okkar, verðum með opið frá 11-16 :-)

mánudagur, 1. október 2007

Pottar og prik 1. árs í dag

Já hugsa sér, eitt ár er liðið frá því við Sunna gerðumst verslunareigendur, mikið sem tíminn flýgur. Þetta hefur bara verið hinn skemmtilegasti tími og allt gengið vel, bæði samstarf okkar Sunnu og svo hafa viðskiptavinirnir tekið okkur vel og verið jákvæðir út í vörurnar sem við erum að selja. Nú er bara að halda áfram að vaxa og dafna :-)

sunnudagur, 30. september 2007

Hvað á maður (kona) að gera þegar letin er að drepa hana?

Er málið að reyna að rífa sig upp og detta í eitthvað dugnaðarkast, þvo bílinn, nýta sér 20% afslátt í snyrtivörudeildinni í Hagkaup, baka brauð, laga til í geymslunni... ?

Eða einfaldlega að láta eftir sér að vera löt?

laugardagur, 29. september 2007

Litadýrð í bakgarðinum

Náttúran breytir ört um svip þessa dagana og það eru eiginlega forréttindi að fá að fylgjast með þessum umbreytingum. Ég tók þessa mynd áður en ég fór í vinnuna í morgun og ætlaði svo að fara eftir vinnu og taka fleiri haustlitamyndir. Þessa þrjá tíma á meðan ég var í vinnunni var glampandi sól og hið fallegasta veður en það stóð á endum að þegar ég var komin í bílinn og ætlaði í myndatökuferð þá dró ský fyrir sólu...

fimmtudagur, 27. september 2007

Súlur með hvíta hettu


Súlur með hvíta hettu, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já svona litu Súlur út á þriðjudagsmorguninn. Hvíti liturinn er nánast horfinn aftur en það er gaman að fylgjast með litabreytingum á haustin. Ef vel er að gáð má líka sjá að lyngið í brekkunum fyrir neðan Fálkafell er komið í haustlitina.

Er ekki frá því að orkan sé mun stöðugri yfir daginn

síðan ég dró stórlega úr sykur- og hveitiáti. Og það sem meira er, mig langar ekkert sérlega mikið í sykur, hélt að þetta yrði miklu erfiðara. En þetta hollustuátak mitt hefur þó ekki komið í veg fyrir að ég næði mér í haustpestina sem herjað hefur á syni mína undanfarna daga. Þeir eru sem sagt báðir heima í dag en ég er í vinnunni en hálf drusluleg eitthvað. Verð vonandi fljót að hrista þetta af mér.

sunnudagur, 23. september 2007

Nýi uppáhaldsstaðurinn hennar Birtu


er þvottakarfa sem áður hýsti dökkan þvott. Lokið brotnaði af henni fyrir langa löngu og ég saknaði þess svo sem ekkert. Hins vegar skildi ég ekkert í því þegar við komum heim frá Spáni og ég var að setja í þvottavél, hvað það var rosalega mikið af kattarhárum í óhreina þvottinum. Það tók mig langan tíma að hreinsa það mesta úr með límrúllu áður en ég gat sett í vélina. En ég komst fljótlega að því hvernig í pottinn var búið. Kannski hefur Birta fundið til notalegrar öryggistilfinningar að liggja ofan á fötum með lyktinni af okkur? Hver svo sem ástæðan er þá er hún svo að segja "flutt" ofan í körfuna, þrátt fyrir að það hljóti að vera vissum erfiðleikum háð að komast ofan í hana því hún er frekar há og mjó og ég er búin að taka öll föt uppúr henni nema vinnubuxurnar hans Andra frá því í sumar. Hrefna sagðist hafa séð í dýraþætti í danska sjónvarpinu að kettir hefðu meiri þörf fyrir að upplifa öryggi þegar þeir yrðu gamlir, og Birta er nú að verða átta ára. Þannig að nú vantar mig nýja þvottakörfu...

fimmtudagur, 20. september 2007

Kvennaklúbbur á döfinni

og ég þarf að upphugsa einhverjar veitingar. Verkefni sem mér reynist alveg nógu erfitt alla jafna en í þetta sinnið er það enn erfiðara. Ég er nefnilega í smá hollustuátaki og er að reyna að sleppa sykri og ýmsum matvörum sem ég veit að fara illa í mig. Þá er það spurningin, á ég að hafa eingöngu hollusturétti í klúbbnum (sem krefst vinnu við að finna hollar uppskriftir og jafnframt er fólgin áhætta í því að vera með nýjungar sem maður hefur ekki smakkað)? Eða á ég að reyna að hafa gamla og þægilega rétti sem ég þarf ekki að hafa alltof mikið fyrir og sleppa því þá bara að borða það versta? Þriðji möguleikinn er að breyta uppskriftum og gera þær hollari, t.d. með því að nota hrásykur í staðinn fyrir hvítan (en þá borða ég samt sykur...). Hm, þetta er flókið. En ég þarf eiginlega að ákveða mig núna svo ég geti farið í búð og keypt inn og helst bakað eins og eina köku áður en ég fer til tannlæknis kl. eitt.

Í gær fékk ég nefnilega þá verstu tannpínu sem ég hef fengið um árabil. Það er einhver tönn að stríða mér, tönnin sjálf er samt ekki skemmd heldur telur tannlæknirinn að rótin sé hugsanlega dauð - ef ég hef skilið hann rétt - en ég skil ekki hvernig dauð rót getur framkallað svona mikla verki. Ég var stödd í heimsókn hjá vinkonu minni þegar fjörið byrjaði en reyndi að láta á engu bera, alveg þar til það var ekki hægt lengur því mér leið eins og hægri hluti kjálkans stæði í ljósum logum. Fór heim og tók tvær verkjatöflur, þar af eina parkódín, og hélt að það hlyti að slá á verkinn. Ekkert gerðist og mér leið bara verr ef hægt var. Tók aðra parkódín og svo enn aðra og var áfram að steindrepast í munninum. Datt í hug að hringja í tannlækninn og biðja hann hreinlega að deyfa mig en hann var þá á leið á fund og gaf mér í staðinn tíma í í dag. Þá settist ég inn í stofu og hlustaði á slökunartónlist og reyndi að slaka á og smám saman minnkaði verkurinn og áhrif allra parkódíntaflanna komu fram. En þetta verkjakast hafði þá staðið í þrjá og hálfan tíma og ég var gjörsamlega búin á því á eftir. Ekki get ég hugsað mér aðra eins verki aftur í bráð, svo ég neyðist víst til að taka boði tannlæknisins um að rótardrepa tönnina. Brr, fæ hroll við tilhugsunina.

sunnudagur, 16. september 2007

Haust-tiltekt

Ég fæ alltaf þörf fyrir að laga til í skápum og skúffum á vorin og haustin. Það er reyndar misjafnt hversu aðkallandi þessi þörf er og hvað ég tek mikið í gegn en ég safna allavega ekki jafn miklu drasli á meðan. Í morgun fór ég í gegnum innihaldið í forstofuskápnum og ýmislegt fékk að fjúka. Vetrarskór og skíðabuxur af Ísak síðan í fyrra og hittifyrra, hvort tveggja orðið of lítið á hann, stakir vettlingar, derhúfur sem enginn notar o.s.frv. Svo var það nú ætlunin að mála forstofuna við tækifæri en það er nú spurning hvenær maður er í stuði... Heyrði í Önnu systur í vikunni og þau eru í dugnaðarkasti að taka í gegn þvottahúsið, verst að ég get ekki skroppið til hennar í kaffi og fylgst með breytingunum en það er víst heldur langt á milli okkar til að það sé mögulegt. Jamm og jæja, best að hætta þessu rausi og halda áfram að vera dugleg :-)

þriðjudagur, 11. september 2007

Komin heim frá Spáníá


Gaman saman, originally uploaded by Guðný Pálína.

og eins og sjá má á þessari mynd þá áttum við virkilega góðar stundir í Barcelona. Veðrið var yndislegt, sól og 22-30 stiga hiti og við bara slöppuðum mest af og höfðum það gott. Kíktum aðeins á Mírósafnið og kirkjuna hans Gaudís, löbbuðum einu sinni niður "Römbluna", heimsóttum heimavöll Barca fótboltaliðsins og rúntuðum pínu í túristastrætó en létum annars hefðbundnar túristaslóðir eiga sig. Vorum mikið á ströndinni sem var ca. 200 metra frá íbúðinni sem við leigðum og þar voru nánast bara Spánverjar fyrir utan okkur. Sem sagt, hið besta frí og við hefðum gjarna viljað vera lengur... :-)

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Það styttist í Barcelonaferðina

og í dag fékk ég ábendingu frá "innfæddum" um tvær verslanir sem selja svipaðar vörur og við í Pottum og prikum, svo það er um að gera að kíkja þangað. Spurning hvort Valur og strákarnir geti ekki farið að skoða fótboltavöll á meðan (eða eitthvað...). En þetta var nú annars svolítið fyndið. Það komu tvær konur í búðina sem voru að skoða Pulltex vínvörurnar og spurðu hvaðan þær vörur væru. Frá Spáni sagði ég (samskiptin fóru fram á ensku). Þær voru eitthvað efins um það og þá mundi ég eftir því að í vörubæklingi sem við eigum er skrifað nafn sölumanneskjunnar og undir því stendur Barcelona. Ég sýndi þeim bæklinginn og þegar þær sáu hann sögðu þær báðar "Aaa, Barþelona" með þvílíka spænska hreimnum, brostu og sögðu svo: "We are from Barcelona". Þá stóðst ég ekki mátið og svaraði: "And next saturday I am going to Barcelona". Það fannst þeim skemmtileg tilviljun og fóru sem sagt að segja mér frá tveimur búðum þar sem ég skyldi endilega skoða. Þær skrifuðu niður nöfnin á búðunum og staðsetningu, svo ég myndi nú örugglega finna þetta. Og áður en þær fóru létu þær mig hafa nöfn sín og símanúmer og okkur er velkomið að hafa samband við þær ef við þurfum einhverja aðstoð eða upplýsingar. Ekkert smá indælar.

mánudagur, 27. ágúst 2007

Nokkuð skemmtilegt gerðist í vinnunni í dag

Inn í búðina kom útlent par og þegar ég spurði hvort ég gæti aðstoðað sögðust þau bara vera að skoða. Stuttu síðar rak maðurinn auga í mæliskeiðar frá Dalla Piazza og spurði hvernig þær væru að seljast. "Bara ágætlega" svaraði ég og þá sagðist hann hafa hannað þær. Ég var nú eiginlega alveg hissa en tókst svona í grófum dráttum að halda andlitinu. Við spjölluðum töluvert saman og þau skoðuðu allt í búðinni, tóku myndir af sumu (með mínu leyfi) og keyptu líka nokkrar vörur. Alveg á fullu í vinnunni þó í fríi væru. Hann á vöruhönnunarfyrirtæki í New York og er núna að hanna vörulínu fyrir kokka. Það var rosa gaman að spjalla við þau og smá krydd í tilveruna að fá að hitta "hönnuðinn bak við vöruna". Hann hrósaði líka búðinni og úrvalinu hjá okkur, sagði að þetta væru "high end" vörur, svo ekki spillti það nú fyrir :-)

sunnudagur, 26. ágúst 2007

Gaman þegar vel gengur

Já, Ísak og félagar í 5. flokki KA gerðu sér lítið fyrir og komust áfram á Íslandsmótinu og keppa því við FH um Íslandsmeistaratitilinn í Reykjavík um næstu helgi. Það er aðeins einn galli á gjöf Njarðar, fyrirliðinn sjálfur er að fara til Barcelona með foreldrum sínum og því lítur allt út fyrir að hann geti ekki keppt úrslitaleikinn. Fyrst átti leikurinn að fara fram á fimmtudegi en var frestað til helgarinnar en nákvæmur leiktími er enn ekki á hreinu.

En hvernig sem úrslitin verða þá eru strákarnir þegar sigurvegarar í mínum huga því þeir unnu Völsung í gær (sem þeir höfðu áður tapað fyrir) og í dag kepptu þeir við Fylki (sem þeir töpuðu fyrir 1-5 á föstudaginn) og börðust eins og ljón allan tímann og voru ráðandi aðilinn í leiknum sem endaði með jafntefli. Það var mikil gleði ríkjandi á KA vellinum þegar ljóst var að strákarnir voru komnir í úrslit, kátir strákar og stoltir foreldrar sem samglöddust afkvæmunum. Þjálfararnir sjá nú fram á að þurfa að snoða sig - höfðu víst heitið því ef svona færi ;-)

En það er svo merkilegt með það að þegar við pöntuðum ferðina út héldum við að hún myndi ekki rekast á neitt nema skólann hjá Ísak en eins og staðan er núna þá missir Andri af æfingabúðum á Selfossi í handboltanum og Ísak missir hugsanlega af því að leika með liðinu sínu. Nú er bara að vona að æfingabúðunum verði frestað og fótboltaleikurinn verði snemma á laugardeginum (flugið til Barcelona fer kl. 16.40) ...

laugardagur, 25. ágúst 2007

Byrjaði daginn á því að liggja í leti

eða allavega vera löt, þó ég lægi kannski ekki í rúminu nema til klukkan níu. Ísak var að fara að spila fótboltaleik og ég nennti ekki að gera neitt gáfulegt þar til leikurinn byrjaði. Hélt reyndar að það væri um ellefuleytið en þegar betur var að gáð þá hófst hann ekki fyrr en 12.50. Þannig að ég hafði nægan tíma í mínu letikasti. Gáði til veðurs áður en ég fór á leikinn og sá engin rigningarský nema langt í burtu í norðrinu, svo ég sleppti því að fara í regnjakka og lét leðurjakkann duga. Veðurspárhæfileikar mínir reyndust hins vegar frekar endasleppir í þetta sinn, þegar leikurinn var um það bil hálfnaður skall á kröftug norðanátt og úrhellisrigning og regnjakkinn hefði komið í góðar þarfir. En KA strákarnir létu rigninguna ekki slá sig út af laginu, voru aldeilis í essinu sínu í leiknum og skoruðu 10 mörk, þar af skoraði Ísak tvö. Þannig að þeir eru komnir í áttaliða úrslit í Íslandsmótinu og keppa við Völsung í fyrramálið kl. tíu.

Annars hafði ég mælt mér mót við vinkonu mína seinnipartinn, við ætluðum að kíkja á dagskrá Akureyrarvöku, sem við og gerðum. Þá var að vísu hætt að rigna en ég dúðaði mig í flíspeysu og regnjakka þrátt fyrir það. Við röltum um miðbæinn, frekar stefulaust og kíktum inn þar sem okkur datt í hug. Það var svo sem ekkert sérstakt sem vakti athygli mína öðru fremur og vinkonan varð fljótt þreytt því hún er með brjósklos í bakinu. Þannig að við fórum heim til hennar og spjölluðum yfir kaffi/tebolla í góða stund.

Ég átti samt eftir að fá meiri félagsskap því um kvöldmatarleytið hringdi síminn og kona spurði mig hvort ég vissi hver hún væri. Mér heyrðist þetta vera Didda, mamma stráks í bekknum hans Ísaks, en ekki var það nú rétt hjá mér. Kannski ekki skrýtið að ég skyldi ekki þekkja röddina því þetta var hún Helga (sem bjó í Tromsö um leið og við en býr nú á Sauðárkróki) og ég hef ekki hitt hana nema ca. þrisvar síðustu 12 árin. En hún var sem sagt stödd á Akureyri og kíkti í heimsókn. Það var virkilega gaman að fá hana og við röbbuðum lengi saman. Þegar við bjuggum í Tromsö þá komu hinir Íslendingarnir í stað stórfjölskyldunnar og samskiptin voru mikil en rofnuðu því miður eftir að heim kom. En þrátt fyrir að langur tími líði á milli þá er alltaf jafn gaman að hittast og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Ef einhvern skyldi undra að ég hef hvergi minnst á eiginmanninn í tengslum við þessa upptalningu á viðburðum dagsins þá er það vegna þess að hann er farinn í síðustu veiðiferð sumarsins og verður fram á mánudag.

Hér með læt ég þessu maraþonbloggi lokið og sleppi því að birta nokkrar ljósmyndir í þetta sinn :-)

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Ég fór í einn eina göngu/ljósmyndaferðina í gær


Síðdegi, originally uploaded by Guðný Pálína.

og prófaði aðra linsu en ég hef verið með. Átti í smá erfiðleikum með að nota hana til að byrja með en svo gekk það smám saman betur. Í þetta sinn fór ég uppá Glerárdal og gekk aðeins uppí brekkurnar, svona eins og ég væri að fara að ganga á Súlur. Þar var hellingur af aðalbláberjum og ég stóðst ekki mátið og tíndi í munninn en hafði því miður ekkert ílát undir þau. Spurning að drífa sig aftur fljótlega áður en þau klárast öll. Þegar ég var að fara var kona komin í berjamó.

miðvikudagur, 22. ágúst 2007

Sit hér og færi bókhald

en það er nokkuð sem mér hefði aldrei dottið í hug að ég ætti eftir að sinna. Fannst bókhald ein af leiðinlegri námsgreinunum í háskólanum og þar fyrir utan þá var okkur bara kenndur ákveðinn grunnur og allt saman fært í höndunum, þannig að mér fannst ég eiginlega ekki kunna neitt að áfanganum loknum. En eitthvað hefur þó greinilega setið eftir og hluti vinnunni minni felst í að færa bókhaldið fyrir Potta og prik. Svona er þetta víst, engin veit sína ævina fyrr en öll er :-)

Handan götunnar hamast iðnaðarmenn við að reisa nýtt menningarhús okkar Akureyringa, með tilheyrand hávaða og látum. Hávaðinn er mismikill en ég tók eftir því áðan þegar allt hljóðnaði (þeir hafa farið í hádegismat) hvað hann er samt alltaf í bakgrunninum. Svolítið lýjandi stundum.

Annars er Hrefna að fljúga út til Danmerkur í dag og er smá taugatitringur í gangi vegna þess. Það er pínu erfitt að yfirgefa fjölskylduna og föðurlandið en það gengur nú örugglega fljótt yfir þegar hún er komin út og byrjuð í skólanum aftur.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Vinstra megin - ekki hægra megin

Andri var svo góður að benda mömmu sinni á að hún hafði ruglað saman hægri og vinstri í pistlinum hér á undan. Tenglarnir á mataruppskriftirnar eru sem sagt vinstra megin á síðunni ásamt öðrum tenglum en ekki hægra megin eins og ég sagði. Einhverra hluta vegna geri ég stundum þessa vitleysu, þ.e. rugla saman hægri og vinstri, skil ekkert í því.

sunnudagur, 19. ágúst 2007

Sumarið senn á enda...

eða þannig. Sumarfríið er amk. á enda hjá mörgum, skólinn byrjar hjá fótboltastráknum á þriðjudaginn, læknaneminn fer aftur út til Köben á miðvikudaginn og þrátt fyrir hlýindi í dag þá er að verða hálf haustlegt eitthvað (æ, eða kannski fannst mér það bara í norðanáttinni sem hefur verið ríkjandi undanfarið). Sumar plöntur í garðinum eru þó enn í fullum blóma og minna mann á að það er misjafnt hvenær plöntur (og fólk) blómstra. Sumir eru bara seinni til en aðrir og það þarf ekki að vera neitt slæmt.

Valur hefur verið á fullu við að prófa nýjar uppskriftir í sumar og í kvöld fáum við mexíkóskar kjötbollur. Það er alltaf gaman að prófa nýja rétti og hann hefur auglýst eftir uppástungum frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Kjötbollurnar voru sem sagt eiginlega mín hugmynd, Hrefna er búin að koma með uppskrift að afrískum kjúklingarétti, Valur sjálfur hefur komið með marga nýja rétti en Andri og Ísak eiga ennþá eftir að leggja sitt af mörkum. Í tilefni af þessum endurnýjaða matreiðsluáhuga setti ég inn nokkra tengla á matarvefi hér til hægri. Kannski maður finni eitthvað sniðugt þar?

föstudagur, 17. ágúst 2007

Friðsæld


Friðsæld, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hundatjörn (held ég að hún heiti) í Krossanesborgum.

Hef verið dugleg að fara út að ganga undanfarið

og finn hvað það gerir mér gott. Samt svolítið skrýtið eiginlega, að það hefur mun meiri/betri áhrif á mig að ganga úti á víðavangi heldur en t.d. á göngustígunum í Kjarnaskógi. Skil það ekki alveg því maður er jú úti í náttúrunni í báðum tilvikum. Ég fór reyndar í Kjarnaskóg í gær en gekk uppá klettana fyrir ofan skóginn og vappaði þar um í góða stund. Um daginn fór ég upp í Fálkafell og í morgun fór ég í Krossanesborgir. Nú vantar mig bara uppástungur að fleiri gönguleiðum hér í nágrenni bæjarins :-) Þetta væri þó ennþá betra ef skrokkurinn á mér væri ekki alveg svona mikill gallagripur. Hægra hnéð hefur verið að hrella mig í sumar (alveg frá því ég gerði tilraunir með að fara út a skokka) og er núna bólgið (að aftan, takið eftir því, finnst það hálf undarlegur staður).

Annars er ég í vinnunni, rólegt akkúrat í augnablikinu, en búin að hafa nóg að gera í dag og í gær við að selja Magnaða moppuskaftið. Við auglýstum það í síðustu Extra sjónvarpsdagskrá og fengum þvílíku viðbrögðin. Aldeilis ánægjulegt. En nú er best að hætta þessu rausi og fara að vinna.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Eltingaleikur


Eltingaleikur, originally uploaded by Guðný Pálína.

Það var rosa stuð hjá þeim :-)

Hrafnaflug


Hrafnaflug, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór út að ganga í dag á meðan Valur var að elda matinn (ég er sem sagt alveg eins og kallarnir í gamla daga sem mættu bara á svæðið þegar maturinn var tilbúinn). Langaði að komast út í náttúruna og ákvað að ganga upp í Fálkafell. Fór ekki beinustu leið heldur vappaði á milli þúfna og tók myndir af ýmsu sem fyrir augu bar. Reyndar tókst mér að gleyma húfu og vettlingum heima en var svo heppin að hitta konu sem ég vann með í Heimahjúkrun fyrir tuttugu árum síðan og hún lánaði mér eyrnaband og bjargaði mér alveg. Það var nefnilega ansi napurt í norðanáttinni því hitinn var ekki nema 8 gráður. En sem sagt, þarna átti ég bara góða stund með sjálfri mér og myndavélinni (sem var nú að stríða mér, fæstar myndirnar voru í fókus, það sá ég þegar heim var komið).

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Afrekaði að sofa til klukkan ellefu

(ef afrek skyldi teljast) og hef verið eins og klessa það sem af er degi af þeim sökum. Var undirlögð í skrokknum og voða lúin eitthvað og nennti engan veginn að keyra á Krókinn til að vera viðstödd seinni mótsdaginnn. Fékk svo samviskubit yfir því, þannig að það var svolítið erfitt að vera til í smá tíma í dag. Ákvað að rífa mig upp úr þessum aumingjaskap og dreif mig í sund þó ég nennti því engan veginn. Það var samt virkilega gaman því þar hitti ég stelpu (hm, eða konu, allt eftir því hvernig á það er litið) sem ég æfði með sund í gamla daga. Hef ekki séð hana síðan þá, held ég bara. Mér tókst með herkjum að synda minn venjulega skammt og kom uppúr lauginni ögn hressari en ég fór ofan í hana. Kom heim og borðaði skyr með miklum rjóma og linsoðið egg (spurning hvort það er ellimerki - hef aldrei getað hugsað mér að borða linsoðin egg fyrr en núna nýlega) og tók svo góðan skurk í eldhúsinu. Tók úr uppþvottavélinni, setti í hana aftur, þurrkaði af borði og bekkjum og á bara eftir að ryksuga. Þurfti smá pásu áður en ég vind mér í þá iðju. Það þarf nefnilega að ryksuga alla efri hæðina, ekki bara eldhúsið. Meira hvað þetta ryk skal alltaf koma aftur og aftur...

laugardagur, 11. ágúst 2007

Vinna, Króksmót og lengri leiðin heim

var þema dagsins hjá mér. Ísak lagði af stað á Króksmót (fótboltamót sem haldið er á Sauðárkróki eins og nafnið gefur til kynna) fyrir sjö í morgun en hvorugt okkar foreldranna fylgdi honum þá. Valur var að fara að veiða í Fnjóská og ég var að fara að vinna. Mér fannst samt ótækt annað en sjá einhverja leiki, svo ég fékk hana Önnu (sumarafleysingakonu hjá okkur) til að leysa mig af í vinnuni klukkan hálf eitt. Áður en ég lagði af stað á Krókinn kom ég við í hverfisbúðinni á eyrinni (sem ágætur Pólverji er búinn að blása lífi í að nýju) og keypti mér orkudrykk og pólkst sælgæti, einhvers konar afbrigði af Prins pólói, nema hvað þetta var með karamellubragði. Þetta bjargaði mér reyndar alveg á leiðinni því ég hafði smurt mér nesti en tókst að gleyma því í vinnunni... alltaf jafn "bright".
Ísak var glaður að sjá mömmu sína og ég horfði á tvo leiki og þeir þá unnu báða. Eru efstir í sínum riðli eftir daginn. Svo gerði ég tilraun til að heimsækja konu sem ég þekki á Króknum en hún var ekki heima og þá lagði ég í hann aftur til Akureyrar. Datt í hug að það gæti verið gaman að keyra aðra leið heim og fór sem sagt Fljótin og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar. Það var rigning og súld á leiðinni en samt svakalega fallegt um að litast og ég saknaði þess að hafa ekki myndavélina meðferðis. Á Ólafsfirði gerði ég aðra misheppnaða tilraun til að heimsækja vinafólk en þegar það tókst ekki hélt ég áfram og í gegnum göngin. Þar var brjáluð traffík og ég komst að því að einbreið göng virka ekkert rosalega vel í mikilli umferð, var á taugum alla leið í gegn. Á Dalvík var allt troðið af fólki og bílum enda Fiskidagurinnn mikil nýafstaðinn og ég sniglaðist þar í gegn. Svo gekk nú umferðin betur til Akureyrar og heim er ég kommin í tómt hús, tja ekki alveg tómt reyndar, kettirnir fögnuðum mér eins og þeim einum er lagið :-)

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Svaf frameftir í morgun

og var bara ekkert eftir mig eftir gönguferðina (smá strengir í lærunum teljast varla með). Var að vinna seinni partinn en eftir kvöldmat fórum við Valur að vinna í garðinum við að reita arfa og snyrta svolítið til. Öll rigningin um daginn hafði afar vaxtarhvetjandi áhrif á arfann og tími til kominn að ráðast á hann. Mikið sem það er nú gott fyrir sálina að vinna í garðinum :-) Annars hefur þetta verið tíðindalítill dagur - er það ekki þannig að engar fréttir séu góðar fréttir?


Þessi mynd var tekin við upphaf gönguferðarinnar í gær, að bænum Hrauni í Öxnadal. Spurning hvort það mætti ekki snyrta grasið aðeins?

mánudagur, 6. ágúst 2007

Lét mig hafa það í dag

að lufsast upp að Hraunsvatni ásamt bóndanum. Ég var frekar þreytt þegar við lögðum af stað og þurfti virkilega að hafa fyrir því að hreyfa annan fótinn fram fyrir hinn megnið af leiðinni. Við fórum upp hjá bænum Hrauni í Öxnadal, beint af augum upp þúfur, hóla og hæðir og það tók okkur töluverðan tíma að komast að vatninu. Valur var með GPS tæki með sér og mældi leiðina, ég ætlaði varla að trúa því að þetta hefðu bara verið 2,6 kílómetrar en það er náttúrulega ekki sama hvort gengið er á jafnsléttu eða í hæðóttu landslagi.

Annað sem kom okkur á óvart var magn mýflugu á leiðinni og meira að segja Valur sem er öllu vanur í þeim efnum kommenteraði flugurnar oftar en einu sinni. En hann stóð sig eins og hetja að bíða eftir "gömlu" konunni sinni og sem sagt, við komumst alla leið. Fórum reyndar ekki alveg niður að vatninu, þar var hópur fólks og vð vorum svo mikilir félagsskítar að við nenntum ekki að hitta það.

Það varð úr að við gengum niður að Hálsi (mun styttri leið, tæpur kílómetri) og fengum okkur kvöldverð á veitingastaðnum Halastjörnunni. Í og með vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að ganga eitt skref til viðbótar en einnig vegna þess að Valur hefur í allt sumar hugsað sér gott til glóðarinnar að borða þarna. Það var vel tekið á móti okkur, jafnvel þó við útskýrðum að við værum peningalaus, bíllinn með peningaveskinu væri á næsta bæ, og við fengum afskaplega ljúffengan mat. Eftir matinn skutlaði veitingamaðurinn Val yfir að Hrauni á meðan ég beið og drakk te. Svo gerðum við upp skuldir okkar og ókum heim í kvöldsólinni.

Á Hjalteyri


Matching red, originally uploaded by Guðný Pálína.

Við Valur fórum í ljósmyndaferð út á Hjalteyri í gærdag. Hann var með þrífót og gerði alls kyns tilraunir inni í yfirgefnu verksmiðjuhúsi en ég var á ferðinni úti við þar sem ég tók m.a. þessa mynd. Það var algjör tilviljun að rauðklædd kona birtist hjá vitanum einmitt þegar ég var að taka myndir af honum, en rauði jakkinn hennar tónar flott við rauða litinn á vitanum :-)

föstudagur, 3. ágúst 2007

Gaman í vinnunni

Það hefur verið stríður straumur fólks í Potta og prik undanfarnar vikur og ekkert nema jákvætt um það að segja. Margir eru að koma í fyrsta skipti en svo erum við líka komnar með svokallaða fastakúnna, þ.e. trygga viðskiptavini, og það er alveg frábært. Og það er svo skemmtilegt að vera í vinnunni þegar er mikið að gera. Maður fær tækifæri til að spjalla við fullt af fólki og fyrir manneskju eins og mig, sem hefur gaman af því að hitta fólk, þá er þetta draumastarf :-)

Tíminn flýgur víst ekki alveg svona hratt...

Ég bætti við einu ári í gær þegar ég sagði að við hjónin hefðum verið gift í 18 ár, þau eru víst bara 17. Miðaði við aldurinn á Andra og fannst allt í einu sem sonurinn væri orðinn ári eldri en hann er. Heilastarfsemin ekki alveg uppá sitt besta...

Annars var afmæliskaffi í gærkvöldi og við steingleymdum að taka myndir. Þetta er náttúrulega engin frammistaða! En þar voru bóndanum færðar ýmsar gjafir og má segja að hæst hafi borið ullarsokkar og gúmmískór sem Kiddi og Sunna færðu honum :-)

Og svo ég fari nú úr einu í annað þá er ég að reyna að herða mig upp í að taka morgunskammtinn af lýsi. Ég er tiltölulega nýbyrjuð á því, tók reyndar fyrst fiskiolíu frá sama fyrirtæki en ætlaði svo að færa mig yfir í lýsið. Hryllir bara svo mikið við því að mér verður eiginlega hálf óglatt bara að hugsa um að taka það. Spurning að færa sig aftur yfir í fiskiolíuna, hún er ekki alveg jafn slæm á bragðið.

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Önnur mynd af afmælisbarninu...


Þessi er tekin í Rússlandi og mikil er hamingjan að vera úti í náttúrunni og veiða :-)

Hann á afmæli í dag,


Valur, originally uploaded by Guðný Pálína.

hann á afmæli í dag.
Hann á afmæli hann Valur,
hann á afmæli í dag.

Til hamingju með afmælið minn kæri :-)

Hér sést eiginmaðurinn á þeim stað sem hann kann best við sig, þ.e. úti í náttúrunni. Að vísu ekki við veiðiá, heldur er myndin tekin rétt hjá Hraunhafnartangavita á Melrakkasléttu, í dagsferð þangað í ágúst 2005.

Já, og svo eigum við hjónin víst 18 ára brúðkaupsafmæli í dag, það sem tíminn flýgur!

þriðjudagur, 31. júlí 2007

Fórum sem sagt suður

á laugardegi og heim á sunnudegi. Ég fer að setja persónulegt met í suðurferðum, bara alltaf að skreppa. En eins og Sólrún vinkona mín benti mér á þá mættum við kannski stoppa lengur í eitthvert skiptið, svo hægt sé að bjóða okkur í mat :-) Afmælisveislan var á sunnudeginum kl. 17 - 20 og við vorum eiginlega hálfgerðir leynigestir því afmælisbarnið vissi ekki af því að við kæmum. Held að það hafi bara komið honum ánægjulega á óvart. Svo sem sagt brunuðum við norður og með einu eða tveimur pissustoppum þá tók það okkur 4 tíma og 10 mínútur á löglegum hraða. Ég var orðin eitthvað svo upptjúnnuð eftir ferðina að ég ætlaði aldrei að geta sofnað og er eiginlega búin að vera þreytt í tvo daga... Dreif mig nú samt í sund í morgun, þarf endilega að fara að koma meiri reglu á sundið aftur.

Annars gerðist það markvert í dag að Sunnu tókst að fá bæjarstarfsmenn ofan af þeirri hugmynd að planta ruslatunnu beint fyrir framan búðargluggann hjá okkur. Þeir voru búnir að rífa upp hellur og byrjaðir að grafa fyrir tunnunni en mokuðu ofan í aftur og settu hellurnar á sinn stað eftir að Sunna hringdi í yfirmann þeirra hjá bænum. Hann kom og leit á aðstæður og tunnunni var fundinn nýr staður. Flott hjá Sunnu!

föstudagur, 27. júlí 2007

Bara fjör

Við vorum með vinafólk okkar í mat í kvöld, þau Ingu og Dóra sem því miður eru flutt til Reykjavíkur (eins og ansi margir aðrir...) og það endaði með því að pöntuð var ferð til Berlínar í lok október, þannig að það er bara fjör! Barcelona í september og Berlín í október. Við höfuðum reyndar rætt þetta áður svo þetta var nú engin skyndiákvörðun, þannig lagað. Er það ekki dæmigert að maður fer ekkert í heilt ár og svo tvo mánuði í röð? Hm, held nú reyndar að ég hafi aldrei farið til útlanda með svo stuttu millibili áður en einu sinni verður allt fyrst. Svo var hringt í dag og okkur boðið í fimmtugsafmæli á sunnudaginn í Reykjavík. Hjörtur bróðir Vals á afmæli og ætli við skellum okkur ekki bara suður, amk. við hjónin. Þá förum við um hádegi á morgun og komum eftir miðnætti á sunnudaginn (veislan er milli 5 og 8). Ísak sagði að hann myndi nenna að fara ef ferðin tæki svona hálftíma og Andri er ekki búinn að gefa svar ennþá. Hrefna hefur líklega ekki verið spurð ennþá hvort hún vilji koma með, það hefur bara gleymst í öllu atinu í kvöld. Annars er ég farin í háttinn, Guðný gamla...

Göngubrú yfir Glerá


Red and blue, originally uploaded by Guðný Pálína.

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Ég veit ekki alveg

hvað þessi ógurlega bloggleti á að þýða. Líklega er hún merki um eitthvað allsherjar andleysi sem hrjáir mig þessa dagana. Annars er bara allt í góðu, búið að vera heilmikið að gera í Pottum og prikum undanfarið og allir í ágætu standi hér heima.

Ja, nema þá helst kettirnir, Birta lenti í slagsmálum, var bitin í vangann og fékk sýkingu í sárið. Og Máni fékk ofnæmiskast eftir árlega sprautu og ældi "non stop" í sólarhring. Það var þó skárra en í fyrra, þá missti hann þvag og hægðir og fór alveg í mínus. Þá var það ferðin til dýralæknisins sem gerði hann svona hræddan að hann fékk bara hálfgert taugaáfall. Núna fékk ég bóluefni með heim og Valur sprautaði hann, nokkuð sem gekk svo vel að Máni malaði bara á meðan hann var sprautaður. En svo við víkjum aftur að Birtu þá uppgötvaðist hjá dýralækninum að í hana vantaði neðri vígtönnina og til að kóróna það, þá hefur hún einhvern tímann fótbrotnað án þess að við höfum tekið eftir því. Ég man reyndar eftir því að hún var svolítið hölt á tímabili, en það var nú ekki nógu mikið til þess að við kveiktum á perunni með fótbrot. Elfa sagði að við skyldum ekki hafa móral yfir því (ég fór alveg í steik yfir þessu) því það hefði ekkert verið hægt að gera og hún hefði jafnvel ráðlagt okkur að láta lóga henni ef við hefðum komið með Birtu til hennar fótbrotna. En henni gengur ágætlega með sinn brotna fót, það er aðallega minnkuð hreyfigeta sem háir henni örlítið.

Við fjölskyldan (fyrir utan háskólanemann) eigum pantaða ferð til Barcelona 1. september, í eina viku, og ég var að panta gistingu í dag. Verð að viðurkenna að ég hlakka heilmikið til :-)

sunnudagur, 15. júlí 2007

Skítadjobb

er heiti á bók eftir Ævar Örn Jósepsson ef ég man rétt. Þetta var orðið sem mér fannst lýsa því best að þrífa grillið. Eins og grillaður matur er nú góður þá er ekki jafn gaman að þrífa grillið - enda hef ég látið eiginmanninn algjörlega um þá iðju fram að þessu. Eitthvað var hann þó að svíkjast undan merkjum í þetta sinni, nefndi það um daginn hvort ég gæti ekki gert þetta núna. Ég gaf nú lítið fyrir það en ákvað á þessum fagra sunnudegi að nú væri rétti tíminn kominn. (Þreif líka bílinn í gær með Andra svo hér er allt að verða skínandi hreint... hm, þetta voru reyndar ýkjur, það er af nægu að taka í þrifnaðardeildinni.) Allavega, þá sem sagt þreif ég þetta blessað grill og var amk. einn og hálfan tíma að því. Tók allt í sundur, úðaði með grillhreinsi, skrúbbaði með stífum bursta, skolaði með vatni og lét svo þorna í sólinni. Það hafði eiginlega verið á dagskrá hjá mér í dag að þrífa klósettin en ég held að þau fái bara að vera skítug einn dag í viðbót. Ég er farin út að sleikja sólina :-)

P.S. Valur hringdi í mig í dag úr veiðinni. NOkkuð sem út af fyrir sig eru þónokkur tíðindi því hann hefur það ekki fyrir sið að hringja heim úr veiðiferðum heldur notar þær alfarið til að afslöppunar og að kúpla af frá þessu daglega streði. Sem er hið besta mál af minni hálfu, ég bara samgleðst honum að geta komist burt í nokkra daga án þess að þurfa að hafa áhyggjur af heimilisfólkinu á meðan. Allavega, hann hringdi sem sagt til að segja mér að hann hefði veitt 8 punda urriða, þann stærsta sem veiðst hefur í ánni í sumar. Gaman að því!

Njóli við sjóinn


Njóli við sjóinn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór út í gærkvöldi í þeim tilgangi að taka myndir. Ók um bæinn en gekk samt hálf illa að finna myndefni. Vildi nefnilega reyna að hafa kvöldsólina sem lýsingu og hana var bara ekki alls staðar að finna. En hér varpar hún ljóma á þá gróðurtegund sem njóli nefnist, enda skín sólin jafnt á háa sem lága ;-)

föstudagur, 13. júlí 2007

Annað hvort í ökkla eða eyra

Já, ég er að blogga í annað skiptið í dag, eftir að hafa verið afar afkastalítil í þeirri deild undanfarnar vikur. Ástæðan fyrir þessum nýfengna blogg-dugnaði er líklega sú að mér leiðist, í augnablikinu að minnsta kosti. Vissi einhvern veginn ekkert hvað ég átti af mér að gera í dag. Líklega viðbrigðin eftir að hafa haft heimsókn í tæpar tvær vikur og til að auka enn á einmanaleikatilfinninguna þá er eiginmaðurinn í veiði (eins og áður hefur komið fram), dóttirin hefur ekki sést hér heima í dag, eldri sonurinn er farinn í bíó og sá yngri er í heimsókn hjá vini sínum. Þó er ég ekki alveg alein, kettirnir halda mér félagsskap eins og þeim einum er lagið. Þau lágu t.d. bæði ofan á mér meðan ég las 384 bls. bók Árna Þórarinssonar (Tími nornarinnar) en það tók mig sennilega á bilinu 3 til 4 klukkutíma. Og bara svo það komi skýrt fram þá byrjaði ég á byrjuninni og las til enda - kíkti ekkert á endirinn... (Þetta síðasta er sérstaklega skrifað fyrir dóttur mína sem á ekki til orð yfir mömmu sína þegar hún stelst til að lesa endirinn, eða byrjar jafnvel á því áður en hún byrjar á bókinni sjálfri.).

Jamm og jæja, vinna á morgun, annars er ekkert planað. Úti er lágskýjað og rigningarsuddi á köflum, ekki sérlega spennandi veður. Spurning að fara bara að sofa...

Meiri ferðalög...

Já, ég skellti mér yfir Kjöl með Önnu systur, Ísaki og Sigurði. Anna og Sigurður þurftu að komast suður og henni datt í hug að fara með rútu yfir Kjöl. Þá fékk Valur þá snilldarhugmynd að ég gæti bara keyrt þau mæðginin suður og það varð úr.

Við fórum af stað klukkan tvö á mánudaginn (mér að kenna að við fórum svona seint af stað, ég bara get ekki verið fljót að taka mig til í ferðalag). Vegurinn var góður framan af en þegar nálgaðist Hveradali var hann orðinn frekar slæmur og var mjög slæmur megnið af leiðinni eftir það. Þvottabretti og grófur. Samt rosalega gaman að aka þessa leið! Við vorum komnar niður að Gullfossi um níuleytið um kvöldið og fengum okkur að borða á Hótel Gullfossi. Gistum um nóttina að Efsta Dal.

Daginn eftir fórum við að skoða Geysi (hm, eða Strokk öllu heldur) og fórum svo í sund í Reykholti þar rétt hjá. Borðuðum nesti fyrir utan sundlaugina en skelltum okkur svo til Stokkseyrar þar sem við fórum niður í fjöru, Ísak fór að vaða en ég steinsofnaði í smá stund úti í guðsgrænni náttúrunni. Þá voru allir orðnir svangir og við ókum á Eyrarbakka og fengum okkur að borða á veitingastaðnum Rauða húsini. Þar fengu strákarnir sér pítsu en við Anna borðuðum fiskisúpu. Eftir matinn ókum við svo meðfram sjónum alla leið til Keflavíkur og gistum hjá mömmu og Ásgrími um nóttina.

Við Ísak keyrðum svo norður á miðvikudaginn, lögðum af stað frá Keflavík kl. 11.30 og vorum komin til Akureyrar kl.17.10. Stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur að borða en ókum annars nokkurn veginn í einni lotu norður því Ísak þurfti að mæta í afmæli klukkan fimm.

Annars er það bara "business as usual". Valur dreif sig í eina af veiðiferðum sumarsins í dag (ég sleppti því nú víst að skrifa um það en hann fór til Rússlands að veiða um daginn, var í viku) og verður fram á mánudag.

Það gerðist svolítið skemmtilegt í vinnunni í dag. Beta baun (bloggari) birtist allt í einu og verslaði við mig :-) Það er svolítið skrítið að sjá fólk svona "life" eftir að hafa lesið bloggið en aðallega mjög gaman.

fimmtudagur, 5. júlí 2007

Brjálað að gera og enginn tími til að blogga


- Er byrjuð að vinna aftur eftir 2ja vikna sumarfríið - en verð reyndar í fríi á morgun, mánudag og þriðjudag.
- Anna systir og Sigurður systursonur eru í heimsókn hjá okkur núna. Því miður getum við afskaplega lítið sinnt gestunum því:
- Enn eitt mótið (sem hét áður Essomót en heitir núna N1 mótið) er í gangi og Ísak og foreldrarnir frekar upptekin öll sömul í sambandi við það.
- Valur fór klukkan sex í morgun og aðstoðaði við að bera fram morgunmat handa tæplega 900 manns í KA húsinu, ég tók við af honum klukkan átta og var til tíu.
- Ísak er búinn að spila þrjá leiki í dag og einn í gær. Þeir hafa unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli svo það gengur aldeilis vel hjá þeim. Hann skoraði þrjú mörk í fyrsta leiknum og hér sjá mynd af fótboltadrengnum eftir það afrek :-)

sunnudagur, 24. júní 2007

Ferðasagan já...

Fimmtudagur

Við lögðum af stað á fimmtudagsmorgni og ókum sem leið lá vestur í Hrútafjörð. Þar fórum við yfir Laxárdalsheiði en gerðum svo stutt stopp í Búðardal. Ókum smá hring í plássinu og enduðum niðru í fjöru þar sem ég gerði smá tilraunir til að taka "listrænar" ljósmyndir. Þessi mynd af fuglunum átti hins vegar ekki að vera listræn...


Áfram héldum við og stoppuðum næst í Bjarkarlundi þar sem við borðuðum nýveidda bleikju, eldaða af ítölskum kokki staðarins. Eftir matinn fékk Valur sér kaffi og ég fékk te úr þeim stærsta bolla/könnu sem ég hef nokkru sinni drukkið úr. Svo héldum við áfram að þræða firði og heiðar og alls staðar var sérlega fallegt. Við stoppuðum hvað eftir annað til að taka myndir og teygja úr okkur. Valur er mikill áhugamaður um fossa og sést hér fyrir framan eitt stykki foss sem ég get ómögulega munað nafnið á núna í augnablikinu.


Við ókum yfir Dynjandisheiði

og þar var útsýnið ekki amalegt.


Svo skoðuðum við fossinn Dynjanda og teknar voru myndir...


Til Þingeyrar komum við um áttaleytið og vorum þá búin að vera á ferðinni í tíu tíma.



Leituðum að húsinu sem Hjörtur bróðir Vals og Guðbjörg konan hans eru nýbúin að festa kaup á og fundum það.



Hins vegar hafði gestgjöfunum seinkað og við þurftum að bíða aðeins eftir þeim. Eftir að hafa rúntað um staðinn lögðum við bílnum niðri í fjöru og biðum hin rólegustu. Svo birtust þau hjón og Guðbjörg eldaði dýrindis mat handa okkur.

Föstudagur

Eftir morgunmat og sundferð fórum við með Hirti og Guðbjörgu til Ísafjarðar en þar er Guðbjörg fædd og uppalin. Mér fannst gaman að sjá sumarhúsabyggðina fyrir utan bæinn og svo skoðuðum við húsin í Neðstakaupstað



og sjóminjasafnið þar sem þennan loftskeytaklefa var meðal annars að finna.


Við fengum okkur að borða í bakaríi og rúntuðum svo um bæinn og skoðuðum þónokkur af þeim gömlu húsum sem þar er að finna. Mörg þeirra er búið að gera upp og er mikil prýði að þeim. Svo ókum við í gegnum Hnífsdal (þar sem Hjörtur og Guðbjörg kynntust á balli í félagsheimilinu fyrir X mörgum árum síðan). Kirkjugarðurinn í Hnífsdal vakti athygli okkar enda stendur hann á frekar óvenjulegum stað úti við sjóinn.



Áfram héldum við til Bolungarvíkur. Þar skoðuðum við Valur sjóminjasafnið að Ósvör en þar hafa heimamenn reist nýja "gamla" verbúð sem sýnir hvernig þetta var allt í gamla daga. Hér sést Valur við spil sem notað var til að draga sexæringinn upp í fjöru:


Eftir að hafa skoðað Bolungarvík ókum við aftur til Ísafjarðar og þaðan fórum við Valur til Flateyrar en þar var hann að líta fornar slóðir. Hafði einhvern tímann á unglingsárum unnið eitt sumar þar í fiski og að sjálfsögðu var nauðsynlegt að kíkja á "pleisið". Þegar hér var komið sögu voru rigningarskúrar og þungt yfir og hefur það sjálfsagt ekki hjálpað til við skynjun mína á þorpinu. En mér fannst það hálf nöturlegt eitthvað, mikið af húsum í niðurníslu (sbr. þetta hér en þarna bjó Valur á verbúð hérna í den)



og ekki margt að sjá fyrir utan gíðarlegan snjóflóðavarnargarð og minnismerki um fórnarlömb snjóflóðsins sem féll 1995.



Þegar við komum aftur til Þingeyrar var Hjörtur byrjaður að rífa utan af bíslaginu sem svo er kallað en markmiðið hjá þeim er að gera húsið upp í sinni upprunalegu mynd og í því felst að rífa bíslagið (ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér hvað bíslag er þá þýðir það yfirbyggður inngangur eða eitthvað í þá áttina).


Eftir kvöldmat fórum við svo út að ganga í góða veðrinu.

Laugardagur

Hjörtur og Guðbjörg héldu áfram að rífa bíslagið af húsinu



en við Valur skelltum okkur í sund á Suðureyri við Súgandafjörð. Þangað fannst mér mjög sérstakt að koma, þetta er pínulítið þorp með nánast ekkert undirlendi og gamall flugvöllur kúrir uppi í hlíðinni.




Þar hafði Valur þurft að lenda í sjúkraflugi þegar hann var að leysa héraðslækninn á Patreksfirði af eftir fimmta árið í læknisfræðinni. Skyggnið hafði ekki verið gott og hélt hann að flugmaðurinn væri á leiðinni inn í fjallið hreint og beint en allt gekk það nú vel.
Hér sit ég á bekk við flugvallarendann :-)



Sundlaugin var ágæt þó hún væri svolítið "þreytt" og vorum við eina fólkið í lauginni framan af. Þar var líka heitur pottur og var vatnið í honum vel heitt. Sundlaugarvörðurinn kom svo með kaffi handa okkur, þannig að það væsti ekki um okkur í pottinum. Yfir okkur sveimuðu hrafnar og uppi í hlíðinni fyrir ofan sundlaugina voru kindur á beit. Skemmtilega speisað allt saman einhvern veginn. Eftir sundið vorum við orðin glorhungruð en eini veitingastaðurinn á staðnum var lokaður og bensínsjoppan freistaði ekki, svo við renndum aftur til Ísafjarðar og borðuðum taílenskt skyndifæði. Fórum svo á bókasafnið og sátum dágóða stund inni í þeirri vinalegu byggingu sem áður hýsti sjúkrahúsið og glugguðum í blöð og tímarit.



Á leið til Þingeyrar ókum við út Dýrafjörð og kíktum að Núpi þar sem heljarinnar skólabyggingar standa víst auðar núna. Skoðuðum garðinn Skrúð



þar sem brjálaður þröstur gerði margar atlögur að höfðinu á mér en hann var víst bara að verja hreiðrið sitt. Hef lent í þessu með kríur en ekki þresti. Því miður flaug hann svo hratt að hann náðist ekki á mynd...



Eftir smá pásu heima í húsi drifum við okkur aftur út, í þetta sinn ókum við uppá Sandafell, sem er fjallið fyrir ofan Þingeyri, en þar uppi er endurvarpsstöð og frábært útsýni til allra átta. Þar fengum við ýmis veðursýnishorn, meðal annars var blankalogn og sjóðheitt í smá stund og þá var upplagt að fá sér smá kríublund.



Þegar við komum aftur niður í bæinn var Guðbjörg að klippa fíflablöð til að nota í salat.



Hún er frábær kokkur (eins og Valur en í þetta sinn slapp hann alveg við eldamennskuna) og sérstaklega hugmyndarík þegar kemur að salötum. Vildi að ég hefði þó ekki væri nema smá af hennar hæfileikum í salat-deildinni. Finnst nefnilega salöt svo góð. Eftir matinn fórum við út að ganga, meðal annars niður á bryggju þar sem við hittum mann sem var að koma í land. Hafði hann smíðað bátinn sinn eftir teikningu sem hann fann á netinu og tók það bara einn og hálfan dag.

Sunnudagur

Nú var komið að heimferð og lögðum við í hann um níuleytið til að hafa tímann fyrir okkur. Ákváðum að fara aðra leið heim og fórum Djúpið sem kallað er. Í gegnum Ísafjarðarkaupstað og þaðan til Súðavíkur þar sem við skoðuðum minnismerki um snjóflóðið 1995. Ekki laust við að við yrðum hálf döpur í bragði enda margir sem fórust þarna, alveg eins og á Patreksfirði.



En rétt hjá minnismerkinu var þessi fallega fíflabreiða og minnti á að alltaf birtir til um síðir.



Við sáum eynna Vigur úr fjarlægð



og margt fleira bar fyrir augu, svo sem þennan bílakirkjugarð



sem var við sveitabæ í ónefndum firði (þessir firðir renna allir saman í höfðinu á mér).

Síðasta myndin var tekin þar sem við borðuðum nestið okkar, áður en farið var yfir Steingrímsfjarðarheiði.



En svo brunuðum við áfram, yfir heiðina og framhjá Hólmavík en stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur í gogginn. Ókum svo nánast án þess að stoppa alla leið heim en akstursskilyrðin voru reyndar ekki góð því við mættum hundruðum bíla á leiðinni. Allir að koma frá Akureyri þar sem hafði verið margmenni um helgina, á bíladögum ofl. Það gekk þó slysalaust sem betur fer. Heim komum við, átta tímum eftir brottför frá Þingeyri, og var ég aldeilis fegin að komast út úr bílnum. En ferðin var virkilega skemmtileg og við eigum örugglega eftir að fara fljótlega aftur vestur. Þurfum náttúrulega að fylgjast með því hvernig framkvæmdunum við húsið miðar :-)