mánudagur, 17. febrúar 2020

Ferða(til)raunir


Einhver hefur kannski séð að ég var að auglýsa eftir því á facebook í dag hvort fólk væri nokkuð á leið til Kaupmannahafnar í fyrramálið og gæti tekið með sér vegabréf. Ég sleppti því þó að segja að vegabréfið var mitt eigið. Eiginlega ætti ég nefnilega að vera í Dubai núna.

Við Valur vorum búin að skipuleggja ferð til Dubai 15. - 27. febrúar, að heimsækja þau Andra, Freyju og Matthías. Á laugardagsmorgni flugum við til Kaupmannahafnar og lentum þar um 11:30. Klukkan 14:20 áttum við bókað flug til Dubai með Emirates flugfélaginu. Þar sem Andri er flugmaður hjá þeim, gátum við fengið sæti á fyrsta farrými fyrir afar hóflegt verð og ákváðum að nýta okkur það.

Það var dásamleg upplifun að fljúga á fyrsta farrými. 3ja rétta máltíð, hægt að færa sætið alveg niður ef maður vildi leggja sig og alls kyns önnur fríðindi, eins og heitur klútur til að þvo sér um hendur. Við nutum ferðarinnar og hlökkuðum mikið til að komast á áfangastað og hitta Andra og þau.

Allt gekk eins og í sögu þar til við áttum að fara í gegnum vegabréfaskoðun við komuna til landsins. Kom þá í ljós að frúin hafði týnt vegabréfinu sínu!! Það hafði horfið einhvers staðar frá því brottfararspjaldið var skannað við hliðið og þar til komið var að því að sýna vegabréfið við skoðun. Upphófst nú mikið fát og fum meðan frúin gramsaði í bakpokanum, sem geymdi sitt lítið af hverju og ekki auðvelt að finna neitt þar. Ekki var vegabréfið í hólfinu sem það er venjulega geymt í og þó allt væri tæmt úr pokanum fannst það ekki.

Nú voru góð ráð dýr. Við fórum að þjónustuborði Emirates og útskýrðum vandamálið. Vonuðum innilega að vegabréfið væri í flugvélinni. Þá tók við löng bið meðan starfsfólk flugfélagsins leitaði af sér allan grun - nei vegabréfið var ekki þar. Og vegabréfslaus komst ég ekki inn í landið. Þetta voru mikil vonbrigði eftir alla tilhlökkunina og þessa góðu flugferð á fyrsta farrými. Ekkert hægt að gera nema spyrja hvað væri þá gert? Jú, ég átti að fara með fyrstu mögulegu vél aftur til Danmerkur. Ekki var samt hægt að senda mig þangað skilríkjalausa, nema fá leyfi fyrst hjá viðeigandi yfirvöldum á Kastrup flugvelli.

Við Valur kvöddumst, hann fór út í bíl til Andra og ég fylgdi starfsmanni Emirates ótrúlega langa leið, að einhverri skrifstofu sem myndi núna hafa mig og mín vandamál á sinni könnu. Starfsmenn þar sögðust ætla að senda tölvupóst til Danmerkur og athuga hvort ég gæti komið með næstu vél kl. 8:20 morguninn eftir. Andri var búinn að bóka fyrir mig. Þegar hér var komið sögu var komið fram á nótt og ég var bæði svöng og þreytt. Ekki var nein sérstök aðstaða fyrir mig að bíða en ég mátti vera í einhverju sem var kallað hvíldar- og bænaherbergi kvenna. Þar var hins vegar engin leið að láta fara vel um sig. Ég mátti alveg fara og fá mér að borða (var nú ekki í neinu varðhaldi) og gekk sömu löngu leiðina tilbaka og upp á aðra hæð þar sem ég keypti mér eitthvað vont salat á McDonalds. Og rölti svo sárfætt til baka, en leið aðeins betur með mat í maganum. Nóttin leið og aldrei kom svar frá Köben. Snemma morgninn eftir hafði ég samband við Andra sem gat seinkað fluginu um einn sólarhring. Já og hringdi líka í neyðarþjónstu utanríkisráðuneytisins og hitti þar á mjög almennilegan mann, en þar sem Ísland er hvorki með sendiráð né sendiráðsfulltrúa í Dubai, þá var ekki hægt um vik fyrir hann að aðstoða mig.

Þegar hér var komið sögu var ég nú orðin frekar framlág, enda hafði ég bara sofið 4 tíma nóttina áður og var búin að vera vakandi í nærri 24 tíma. Mér tókst nú samt að halda haus þó það hafi verið orðið tæpt og þegar einhver yfirmaður sem mætti á morgunvaktina sá hvað ég var þreytt stakk hann upp á því að ég færi á hótel. Var þá hótel inni í flugstöðvarbyggingunni og ég fékk fyrir náð og miskunn að skrá mig þar inn. Það er nefnilega bannað, að taka við gestum sem eru ekki með skilríki. En ég var með ljósmynd af vegabréfinu mínu og það gerði mikið. Fyrir hálfgerð mistök fékk ég stærðarinnar svítu (sem kostaði nú alveg sitt) en vá hvað það var gott að komast þar inn. Geta komist í heitt bað og nudd. Já, það var rafdrifinn nuddstóll í herberginu og þvílíka flotta græjan. Ég valdi náttúrulega eitthvað slökunarnudd og veitti ekki af. En það dugði samt ekki til, mér gekk illa að sofna, svaf bara í 1,5 tíma og vaknaði um hálf tólf. Þá reyndar fór ég og fékk mér að borða og fór svo í H&M og keypti mér bol og nærbuxur, því ekki fékk ég farangurinn minn afhentan.

Þeir voru nú ekkert of upplýsingaglaðir hjá þessari skrifstofu sem fór með mín mál en þegar ég gekk á þá fékk ég að vita að yfirmaðurinn væri að tala við einhvern í sendiráðinu. Hvaða sendiráði vissu þeir nú ekki. Ég reyndi að fá nafn yfirmannsins svo Íslendingurinn í neyðarþjónustunni gæti hringt í hann, en það fékk ég ekki. Fattaði svo eftir dúk og disk (já heilastarfsemin alveg í lagi á þessum tímapunkti) að það var símanúmer á einhverjum litlum miða sem þeir höfðu látið mig fá þegar ég fór að kaupa mat þarna um nóttina. Það var nefnilega svo erfitt að rata og ég átti bara að sýna miðann og fá aðstoð við að komast í rétta átt (nokkuð sem virkaði reyndar vel). Ég sendi símanúmerið á neyðarþjónustu manninn og skömmu síðar hringdi hann og sagði að það væri komið vilyrði fyrir því að ég mætti fljúga skilríkjalaus til Köben næsta dag (í dag).

Það voru góðar fréttir og ég varði restinni af deginum í slökun (fór aftur í nuddstólinn og aftur í bað). Sofnaði í 3 tíma um kvöldið, vaknaði og vakti í nokkra tíma, en sofnaði svo í 3 tíma undir morgunn. Eftir morgunmat var mér fylgt út að hliði og þar beið eftir mér starfsmaður Emirates með pappíra sem ég átti að sýna við komuna til Köben. Flugið tók næstum 7 tíma en um leið og ég var komin út af flugvellinum tók ég taxa í íslenska sendiráðið. Þar sótti ég um nýtt vegabréf og var það útbúið á mettíma hjá þjóðskrá í Reykjavík. Ísak fékk umboð til að sækja það og hófst þá leitin að einhverjum sem gæti mögulega tekið það með sér í flug frá Keflavík til Köben í fyrramálið. Hrefna skrifaði inn á grúppuna Íslendingar í Danmörku (eða álíka) og viti menn, það voru tvær konur sem svöruðu henni og buðu fram aðstoð. Önnur þeirra þekkti mann sem er að koma með þessu flugi og hann var tilbúinn að taka vegabréfið með sér. Mikið er dásamlegt að ókunnugt fólk er tilbúið að gera svona góðverk!

Staðan núna, að kvöldi 17. febrúar (sem er afmælisdagur Andra, hann er 30 ára í dag), er sú að ég ætla að freista þess að ná flugi til Dubai á morgun. Ef Icelandair vélin verður á áætlun (hún þarf reyndar helst að vera á undan áætlun) þá ætti það að takast. Flugið til Dubai er 14:20 en maður þarf að tékka sig inn í síðasta lagi 12:50.

Ef ég næ því ekki á morgun, þá hinn ... Ég leyfi ykkur að fylgjast með :)

P.S. Myndin sýnir svítuna og hinn ómissandi nuddstól þarna í horninu. Ah, ég hefði ekkert á móti því að komast í hann núna. En já ég er sem sagt í íbúðinni þeirra Hrefnu og Egils í Köben.

P.P.S. Við skulum ekkert tala um það hvað ég þarf að kolefnisjafna mikið fyrir öll þessi flug mín!

Engin ummæli: