miðvikudagur, 30. janúar 2013

Gekk bara nokkuð vel hjá tannlækninumÍ gærdag var ég að stressa mig yfir fyrirhugaðri tannlæknaheimsókn, enda vissi ég að það þyrfti að rótardrepa. Og þar sem það hafði gengið svo illa síðast (ég fékk ógurlegan verk í báða kjálkana) þá kveið ég fyrir. Í gærkvöldi ákvað ég svo að gefa þessu séns. Áhyggjur skila jú engu nema verri líðan og ég hugsaði með mér að kannski myndi þetta bara ganga vel. Gat meira að segja sofið ágætlega í nótt, þrátt fyrir allt.

Ég fékk nú samt dúndrandi hjartslátt þegar ég settist í stólinn og beið eftir því að tannlæknirinn kæmi. Þegar hann svo lét sjá sig, tók ég á móti honum með þeim orðum að nú værum við ekki í góðum málum. Útskýrði að ég hefði ekki getað tuggið vinstra megin síðan ég  var hjá honum í nóvember og síðust vikur hefði verkurinn versnað til muna og væri ég með stanslausan seyðing vinstra megin í munninum og út í eyrað. Sagði honum líka að ég gerði mér grein fyrir því að það þyrfti að rótardrepa tönnina og af því mér hefði verið svo illt í kjálkunum síðast þá hlakkaði ég ekki beint til. Klykkti svo út með því að segja að ég væri með gigt og búin að vera í einu alls herjar gigtarkasti megnið af janúarmánuði, og þá versnuðu allir verkir til muna. Til dæmis ef ég rek hendina í, þá er það miklu sárara ef ég er í gigtarkasti, heldur en aðra daga. Ég hafði nú ekkert ætlað að fara út í þessa gigtar-sálma en hugsaði með mér að kannski myndi það hjálpa honum að sjá heildarmyndina.

Þá stakk hann uppá þeirri snilldarlausn að setja gúmmídúk utan um tönnina sem hann væri að vinna í. Dúkurinn og einhver stálgræja sem sett er utan um sjálfa tönnina sjá þá um að halda munninum hæfilega opnum og ég þarf ekki að gapa eins mikið. Plús að öll efnin sem hann er að vinna með, leka þá ekki ofan í kok á mér, með tilheyrandi óbragði. Þetta dugði til. Mér var nánast ekkert illt í kjálkunum og gat bara slakað á meðan hann gerði gat á nýju fínu fyllinguna, og opnaði niður í rótargöngin. Þar skrapaði hann ræturnar burt með þessum "skemmtilegu" grófu nálum sem tannlæknar nota og skellti svo bráðabirgðafyllingu í. Þvílíkur munur frá því síðast! Það lá við að ég færi bara glöð í bragði heim, hehe.

Í morgun hafði ég líka samband við manninn sem prentaði myndirnar fyrir sýninguna okkar, og bað hann um að prenta út nýtt eintak fyrir mig. Var búin að lýsa nýju myndina töluvert, svo hún kæmi (vonandi) betur út. Samt var ég ekki alveg viss um það hvort ég ætti að tíma því að prenta uppá nýtt en æi, ákvað nú samt að gera það.

Í gærkvöldi heyrði ég í Hrefnu minni á Skype. Það er búið að vera svo mikið að gera hjá henni í vinnunni núna í janúar að ég lítið heyrt í henni. Og af því Skype er svo frábært þá gat hún sýnt mér hvað allt er orðið huggulegt hjá þeim í íbúðinni. Já og nýju heimaskyrtuna sína. Hehe, ég keypti einu sinni köflótta flónelskyrtu þegar við bjuggum í Tromsö, og Hrefna fékk svo þá skyrtu og notaði sem heimaskyrtu í mörg ár. Núna hafði hún svo keypt sér nýja köflótta flónelskyrtu en hún er nú reyndar miklu fínni en sú gamla, enda tískuflík.

Jæja ætli ég segi þetta ekki gott í bili. Ciao!

P.S. Myndin er næstum því nákvæmlega 4ra ára gömul, tekin niðri við smábátabryggju í lok janúar 2009. Ég var eitthvað að hræra í litunum á henni því þeir voru svo skrítnir, með þeim afleiðingum að nú eru þeir enn skrítnari... hehe ;)


þriðjudagur, 29. janúar 2013

Mig langar til að skrifa eitthvað mikið og merkilegt

og langar að GERA eitthvað mikið og merkilegt - en er eiginlega hálf andlaus í augnablikinu ...

Ég fékk símtal áðan þar sem mér var tilkynnt að ég gæti látið prenta myndina mína út aftur og fengi þá prentun á 7.000 kr. Ég veit ekki hvort þetta skiptir mig það miklu máli að ég vilji eyða þeim peningi í að fá betri mynd. En ég þarf víst að ákveða mig í dag, svo það þýðir ekki að velta þessu lengi fyrir sér.

Annars er það bara áframhaldandi bókhaldsvinna og svo langar mig að halda áfram að laga til í skápum hér heima og henda/losa mig við það sem ekki kemur lengur að notum. Ég fer ekki ofan af því að þetta hefur hreinsandi áhrif og mér líður alltaf betur eftir að hafa náð að losa okkur við eitthvað af öllu því dóti sem við höfum sankað að okkur í gegnum tíðina.

Á morgun er ég að fara til tannlæknis. Get ekki beint sagt að ég hlakki til, enda er tönnin sem hann gerði við síðast búin að vera mér til mikils ama. Líklega þarf að rótardrepa hana og vá hvað ég nenni ekki að standa í þessu.

sunnudagur, 27. janúar 2013

Ljósmyndasýningin opnaði í gær


Ég gat nú reyndar ekki tekið eins mikinn þátt í undirbúningnum og ég hefði viljað. Það var einhver lumbra í mér og er enn. Þó er ég örlítið hressari í dag, sem betur fer.

Mér finnst þetta að sumu leyti heildstæðasta sýningin okkar og hún kemur ágætlega út í þessu rými. Hins vegar vorum við nokkrar sem lentum í því að myndirnar okkar prentuðust ekki nógu vel út, þ.e.a.s. urðu mun dekkri en þær áttu að vera. Mín mynd t.d. missir mikið við þetta, græna grasið er brúnleitt og legsteinninn í hægra horninu sést ekki nema rýna í myndina. Skuggarnir eru meira eins og dökkar klessur, heldur en gegnsæir skuggar. Jamm, ég er pínu spæld yfir þessu en nenni þó ekki að vera með vesen. Fólkið sem skoðar sýninguna veit náttúrulega ekki hvernig myndirnar "eiga" að vera, og það getur bæði verið kostur og ókostur.

Annars hef ég bara sofið alveg ótrúlega mikið undanfarna daga og nætur. Kom t.d. heim úr vinnunni um hálf fjögur á föstudaginn, og ætlaði eiginlega að mæta í konuklúbb klukkutíma seinna. Var hins vegar svo ónýt að ég boðaði forföll og svaf í staðinn í heila tvo tíma á sófanum. Svo bauð ég Vali og Ísaki út að borða í tilefni bóndadagsins.

Við fórum á nýlegan veitingastað sem starfræktur í Laxdalshúsi. Það eru tveir Spánverjar sem reka staðinn og eru með matseðil frá Kanaríeyjum. Í viðbót við þá rétti sem eru á matseðlinum, taldi þjónninn svo upp fjóra aðra rétti sem einnig voru í boði. Einn þeirra hljómaði nokkuð vel, eða "kjúklingabollur með chorizo pylsu og söltuðum svínarifjum". Þjónninn sagði kjúklingabollur á íslensku en hitt á ensku. Við pöntuðum okkur öll þennan rétt - og gátum ekki varist hlátri þegar maturinn kom á borðið. Þá voru þetta kjúklingabaunir en ekki bollur. Dálítill munur þar á. Baunarétturinn bragðaðist samt ágætlega og það var ágætis tilbreyting að fara á þennan stað.

Nú er bara að vona að ég haldi áfram að hressast því það verður að segjast eins og er að andlega hliðin má ekki við þessu. "Fröken Væla Veinólínó" kemur í heimsókn þegar ég er svona slöpp og sloj, og ég fór t.d. að hugsa um að ég gæti bara ekki verið í ljósmyndaklúbbnum lengur. Alltaf lasin þegar eitthvað er um að vera, hvort sem það eru sýningar eða ljósmyndaferðir.

En eins og ég segi þá er ég mun skárri í dag en undanfarna daga, sem er reyndar eins gott því ég þarf að fara á fullt í bókhaldsvinnu, enda eru skil á virðisaukaskatti eftir 8 daga.

P.S. Fyrir Önnu: Þetta er myndin sem ég valdi fyrir sýninguna.

mánudagur, 21. janúar 2013

Borte er bra men hjemme er best :)


Það er alltaf gott að skipta aðeins um umhverfi, en eins gott og það er að fara í burtu í smá stund, þá er alltaf voða notalegt að koma heim aftur.

 Við Valur fórum sem sagt suður á fimmtudaginn, bara svona til að lyfta okkur örlítið upp í skammdeginu. Hann var nú reyndar orðinn efins um það hversu góð hugmynd það væri, því ég er jú búin að vera býsna þreytt eftir jólin. En mér fannst ekki annað hægt en að drífa sig, því við vorum búin að skipuleggja ferðina með nokkrum fyrirvara.

Á fimmtudagskvöldinu fórum við í Borgarleikhúsið og sáum leikritið Gullregn eftir Ragnar Bragason. Við höfðum bæði mjög gaman af því en vissulega var þetta fremur súrsætt gaman. Verkið fjallar um konu sem er "atvinnusjúklingur" og hefur þar að auki alið son sinn upp í þeirri trú að hann væri líka veikur. Hún sjálf var "bara" með asma, mígreni og mjög slæma "vöðvagigt" en henni hafði tekist að troða mun fleiri sjúkdómsgreiningum uppá soninn. Þau lifðu bæði á bótum en hún hafði kynnt sér lög og reglugerðir í þaula, í því skyni að hafa sem allra mest út úr sjúkratryggingunum.

Það var margt gott í þessu leikriti og ýmislegt sem vakti mann til umhugsunar. Ég hugsa samt að fólk sem hefur fordóma gagnvart öryrkjum hafi ekkert sérlega gott af því að sjá þetta verk, því það styrkir eflaust bara þær ranghugmyndir sem sumir gera sér um öryrkja. Ég sjálf átti nú bágt með mig á köflum. Til dæmis þegar aðalpersónan gerði sér upp "slæma daga" til að ráðskast enn meira með fólkið í kringum sig. Þó er ég hvorki öryrki né geri mér upp mína vefjagigt, hvað þá að ég noti hana til að kúga fólkið í kringum mig.

Á föstudeginum fórum við m.a. í morgunmat til tengdaforeldra minna og ókum seinni partinn til Keflavíkur og heimsóttum mömmu og Ásgrím. Þar kíktum við líka á húsakynnin hjá Andra en hann býr á Ásbrú, í íbúðahverfi sem byggt var af bandaríska hernum. Svo kom Andri með okkur til Reykjavíkur og við fórum þrjú saman út að borða um kvöldið. Við höfðum lesið mjög góðar umsagnir um veitingastaðinn Sjávargrillið og forrétturinn stóð svo sannarlega undir væntinum, en hið sama gilti ekki um aðalréttinn, því miður. Það var alltof miklu hrúgað á diskinn, af mismunandi hráefni og gladdi hvorki augu né maga.

Á laugardeginum höfðum við ætlað okkur að rölta um á Laugaveginum, kíkja á kaffihús og taka því rólega, en sú hugmynd fauk bókstaflega út í veður og vind, því það var ekki hundi út sigandi. Við fórum þess í stað í nokkrar (hm, eða margar) húsgagnaverslanir af því okkur langar til að endurnýja stofusófann okkar. Úrvalið er mjög keimlíkt alls staðar og ekki fundum við sófa sem við féllum fyrir. Að minnsta kosti ekki svona í fyrstu atrennu.

Svo fórum við í kaffi til Hjartar og Guðbjargar, en Hjörtur er bróðir Vals. Það var voða gaman að hitta þau, enda alltof sjaldan sem við hittumst. Það sama gildir reyndar um alla sem við þekkjum í Reykjavík, enda erum við ekki oft á ferð í höfuðborginni. Um kvöldið vorum við svo boðin í mat til Guðjóns (hins bróður Vals) og Eddu konunnar hans. Þau búa núna í raðhúsaíbúðinni sem foreldrar Vals bjuggu í þegar við kynntumst, en í millitíðinni er búið að umturna íbúðinni og það er pínu skrýtið finnst mér að vera í sama húsinu, en þó ekki.

Á sunnudagsmorgni fórum við aftur í morgunkaffi til tengdaforeldra minna og ég kveikti of seint á perunni að um hádegisbilið hefði verið upplagt að kíkja í heimsókn til Rósu vinkonu, ef hún hefði verið heima. Í staðinn fórum við snöggan hring í Kringlunni, án þess þó að kaupa neitt, og flugum svo norður aftur kl. 15.

Það verður að segjast eins og er, að ég var hálf framlág megnið af tímanum, en við því var ekkert að gera. Maður stjórnar víst ekki þreytu og verkjum með viljastyrk einum saman. Þrátt fyrir það var samt gaman að bregða sér aðeins af bæ og gott að hitta fólkið okkar.

P.S. Valur tók þessa mynd af okkur Birtu fyrr í haust.

miðvikudagur, 16. janúar 2013

Búin að skrá mig á námskeið í skrifum


Bloggið getur verið til ýmissa hluta nytsamlegt. Einu sinni skrifaði ég um það að okkur Sunnu vantaði starfskraft í Potta og prik, og viti menn, daginn eftir kom ung stúlka sem sagði að mamma sín hefði sent sig ... Þetta var hún Nanna og síðan hefur líka Silja systir hennar unnið hjá okkur. Aldeilis flott að fá svona sendingar :)

Nýlega bloggaði ég um að mig langaði til að gefa skriftum meiri séns og þá kom athugasemd frá Þórdísi sem býr í Kópavogi (og les bloggið mitt ;) þar sem hún benti mér á námskeið í skrifum. Þetta námskeið heitir "Úr neista í nýja bók", er á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands og er haldið bæði í Hofi hér á Akureyri og í gegnum fjarfundabúnað. Eini gallinn er sá að ég á reyndar að vera að vinna þann laugardag sem mesta kennslan fer fram, en það er nú ekki fyrr en 16. mars, svo það hlýtur að vera hægt að bjarga því.


mánudagur, 14. janúar 2013

Ert þú með gigt?Vefjagigtarleikfimin hjá Eydísi Valgarðs var að byrja aftur eftir jólafrí. Reyndar byrjaði leikfimin í síðustu viku, en ég sá auglýsinguna of seint og missti af fyrsta tímanum. Þannig að ég dreif mig í morgun kl. 9:30. Sá um leið og ég mætti á staðinn að tíminn myndi líklega ekki byrja fyrr en 9:45 því það var annar hópur að nota lokaða salinn okkar. Ákvað þá að setjast og hjóla í  smá stund. Hafði ekki hjólað lengi þegar ég fann að formið var ekki uppá sitt besta. Bæði þoldi ég illa hávaðann í salnum (margt fólk á hlaupabrettum + í tækjum og þar að auki var verið að ryksuga) og eins fóru hjartsláttartruflanir að gera vart við sig. Þannig að eftir fimm mínútur stóð ég upp og beið bara eftir að tíminn byrjaði.

Þegar við komum svo inn í salinn og stilltum okkur upp sá ég að við erum orðnar töluvert fleiri en fyrir jól og það voru þó nokkrar nýjar konur í hópnum. Við hliðina á mér var kona sem ég þekki aðeins. Hún leit á mig undrunaraugum og spurði: "Ert þú með gigt?" "Já, það er ég" var eina svarið sem hún fékk, því þá byrjaði tónlistin og upphitunin.

Ég veit náttúrulega alveg af hverju hún spurði að þessu, enda sést vefjagigt ekki utan á fólki, og þeir sem sjá mig t.d. í vinnunni sjá bara konu sem lítur út fyrir að vera í þokkalega góðu formi. Og auðvitað er þetta "vandamál" með sjúkdóma sem ekki sjást utan á fólki, ekki eingöngu bundið við gigtarsjúkdóma, heldur marga aðra sjúkdóma.

En svo fór gamanið að kárna. Eftir að hafa verið í laufléttum upphitunaræfingum í ca. 10 mín. var hjartslátturinn hjá mér kominn í einhverja vitleysu, ég fékk svima, varð flökurt og óttaðist að það væri að líða yfir mig. Þá var ekkert annað í stöðunni en setjast á hækjur sér í smá stund. Það dugði samt ekki alveg til, svo Eydís bauð mér að setjast á bolta á meðan ég væri að jafna mig. Síðan fór ég fram og skvetti framan í mig köldu vatni og lét kalt vatn renna á úlnliðina og gat svo fljótlega tekið þátt í leikfiminni aftur.

Þessi uppákoma varð samt til þess að í smá stund fór "hamfara-hugsana-myllan" í gang.
Oh, Guðný, þú ert alltof þreytt eftir jólatörnina. Nú verður þú fram á vor að jafna þig. Og þú sem varst komin á svo gott skrið í haust. Ekki nema furða að sjúkraþjálfarinn væri að skamma þig. Búin að fara í endurhæfingu á Kristnes og komast aðeins áfram í bataferlinu en eyðileggur svo allt .... Og hvað ætli konurnar hérna í hópnum haldi um mig? Næstum því liðið yfir mig í fyrsta leikfimitímanum.... Það hefur heldur örugglega ekki hjálpað til að svindla svona á mataræðinu. Nú verð ég að taka mig á!
Ojá, það vantar ekkert uppá dugnaðinn þegar kemur að því að ásaka sjálfa mig og skammast. Það hjálpar hins vegar alls ekki neitt og gerir bara illt verra. Það er lykilatriði að geta sýnt sjálfri sér skilning á því að vera ekki fullkomin, enda er enginn fullkominn. Nú verð ég bara að taka mér þann tíma sem ég þarf til að ná mér aftur á strik. Hvíla mig mikið og hætta að verða svona pirruð þegar ég er þreytt. Sleppa því að fá samviskubit þó allir frídagar fari í hvíld. Færa mataræðið smátt og smátt til betri vegar. Fara í stutta göngutúra því ég finn að það gerir mér svo gott að fá súrefni/vera úti.

Annars erum við Valur að fara suður um helgina, svo öll þessi fögru fyrirheit verða að bíða þar til við erum komin heim aftur. Já og þá tekur reyndar við bókhaldsvinna því það eru skil á virðisaukaskatti 5. febrúar. Hehe, já þetta er greinilega ekki alveg jafn einfalt og það átti að vera ;-)

sunnudagur, 13. janúar 2013

Fyndið!

Ég var jú að skrifa þessa bloggfærslu um einfaldara líf í dag. Núna áðan sá ég svo eftirfarandi setningu í stjörnuspá sporðdrekans fyrir árið 2013:
"Go confidently in the direction of your dreams! Live the life you've imagined. As you simplify your life, the laws of the universe will be simpler."  - Henry David Thoreau
Haha, ég gat nú ekki annað en hlegið, að minnsta kosti svona innra með mér. En spáin byrjaði sem sagt á þessari tilvitnun, en svo var reyndar löng lesning í viðbót.  Ekki þar með sagt að ég trúi yfirhöfuð mikið á stjörnuspár en ef einhvern langar að kíkja á sína eigin spá fyrir árið þá er hérna spá fyrir öll stjörnumerkin en að vísu á ensku.

Einfaldara líf


Ég hef verið að lesa dálítið undanfarið um Simple living, Minimalism, Slow living ofl. Þetta eru ólíkar stefnur sem hafa þó ákveðna sameiginlega þætti, s.s. að lifa einfaldara lífi, eiga minna af veraldlegum hlutum og kaupa ekki nýja nema þig vanti þá (hér er gerður greinarmunur á þörfum og óskum). Fólk sem aðhyllist slíkt minnkar oft við sig húsnæði og í kjölfarið þarf það minna af peningum til að lifa af, sem aftur leiðir til aukins fjárhagslegs öryggis og þess að fólk getur jafnvel minnkað við sig vinnuna. Minni vinna þýðir aukinn frítími sem hægt er að nota á uppbyggilegan hátt t.d. með því að njóta samveru við vini og ættingja, eða stunda áhugamál sín.

Tammy Strobel og Logan Smith eru ung hjón sem bjuggu í stórri íbúð og áttu tvo bíla en náðu varla að láta enda ná saman. Þau búa núna í örlitlu húsi (svipuðu litlu hjólhýsi á íslenskan mælikvarða), eiga ekki bíl og njóta þessa nýja lífsstíls síns. Húsið þeirra er reyndar svo ofboðslega lítið að ég stórefast um að mér gæti liðið vel í þetta litlu rými.

Joshua Becker var að laga til í bílskúrnum á sólríkum sumardegi og búin að bera helling af dóti út á bílaplanið, þegar nágranni hans sagði, að kannski þyrfti hann ekki að eiga allt þetta dót. Þessi setning varð honum umhugsunarefni og í kjölfarið tóku þau hjónin sig til og losuðu sig við helling af dóti. Þau búa að vísu enn í stóru húsi og eiga tvo bíla en eru hætt að "safna" dauðum hlutum sem ekki bæta líf þeirra. Joshua heldur líka úti blogginu Becoming Minimalist þar sem hann skrifar greinar og kemur með góð ráð til þeirra sem vilja taka upp svipaða lifnaðarhætti.

Á netinu er hægt að finna alls konar fleiri bækur, sögur, blogg og vefsíður fólks sem hefur ákveðið að lifa einfaldara lífi. Ég kannski set inn fleiri tengla á þær síður við tækifæri.

Ástæða þess að ég er að velta þessum hlutum fyrir mér er væntanlega sú að við erum orðin þrjú sem búum í risastóru húsi. Á neðri hæð er sjónvarpsherbergi, skrifstofa Vals, tónlistarherbergi, gestaherbergi og baðherbergi. Á efri hæð er þvottahús, baðherbergi, gestasnyrting, eldhús, búr, stofa og fjögur svefnherbergi. Já ég gleymdi að segja frá geymslunni niðri og bílskúrnum. Í þessu plássi öllu er töluvert af alls konar dóti, sem sumt hvert gæti kannski öðlast framhaldslíf annars staðar. Þó hef ég verið nokkuð dugleg við það í gegnum árin að henda og gefa dót/hluti/fatnað sem er ekki lengur í notkun.

Svo kostar hellings pening að reka svona stórt hús. Fyrir utan afborganir af lánum þá eru há fasteignagjöld og töluverður rafmagns- og hitunarkostnaður.

En - þetta er húsið sem ég ólst upp í - og börnin mín eru alin upp í - svo það eru töluverðar tilfinningar tengdar því. Að auki er það vel staðsett í rólegu og góðu hverfi og við erum með fína nágranna. Garðurinn er stór og við erum með útsýni upp að Súlum. Jamm, margir plúsar.

Tilfinningalega séð þá er ég ekki ennþá tilbúin að selja húsið og fara í minna. En það sakar kannski ekki að byrja að losa sig við dót sem ekki er í notkun, svo það verði minna að flytja þegar þar að kemur ;-)

laugardagur, 12. janúar 2013

Lata Guðný


Já ég veit, þetta fer kannski að verða ofnotaður titill á bloggfærslum hjá mér ... En ég er bara svo löt í dag. Nenni gjörsamlega engu - en þarf að fara að vinna. Veit reyndar að ég hressist ábyggilega um leið og ég kem niður í vinnu, enda næg verkefni sem bíða þar. Aðallega vörutalning þó. Við Sunna höfum verið að telja í rólegheitum og þetta tekur alltaf tímann sinn. Í dag ætla ég að nota tækifærið til að telja inni á lager, því við erum tvær að vinna, og þá getur Kara verið frammi í búð að afgreiða viðskiptavini á meðan.

Annars tókst mér að skera mig í fingurinn, enn einu sinni, í vinnuni í gær. Mér finnst ég alltaf vera að skera mig en ætli þetta sé ekki þriðja skiptið, að minnsta kosti. Síðast skar ég mig á laukskera en í gær var ég að ganga frá hnífi sem ég var að sýna manni, og leit andartak í burtu meðan ég setti hnífinn ofan í kassa, með þessum afleiðingum. Ég fann strax að þetta var frekar djúpur skurður en tókst að klemma sárið fast saman á meðan ég kláraði að tala við viðskiptavininn. Svo hljóp ég í apótekið og keypti steri-strip til að líma sárið saman. Það dugar ekki að setja venjulegan plástur á svona skurði. En það breytir því samt ekki að það er ótrúlega óþægilegt að skera sig svona og ég var að drepast í puttanum í allan gærdag.

Jæja nú þýðir ekki þessi leti lengur. Ég verð að drattast með minn lata rass í sturtu og svo á ég líka eftir að borða eitthvað og helst hefði mig langað að ganga í vinnuna af því það er svo gott veður úti. Miðað við tímann sem ég hef til aflögu þá er það reyndar ekki raunhæfur kostur. En svona já, á fætur með þig kona!!

P.S. Myndin sem fylgir er tekin í apríl 2009, við Leirhnjúk í Mývantssveit.

fimmtudagur, 10. janúar 2013

Enn ein ljósmyndasýningin

Já það er svona að vera í ljósmyndaklúbbi ... því fylgir víst sýningarhald. Og ég er eitthvað svo löt núna. Nenni engan veginn að finna myndir, eða öllu heldur, er óánægð með þær myndir sem ég á. Þemað á að vera haustlitir og ég á alveg ótrúlega fáar fallegar haustmyndir. Svo er alltaf spurningin, ef maður er ekki 100% ánægður með sitt framlag, á maður þá kannski frekar að sleppa því að taka þátt? Eða á maður frekar að hugsa sem svo að aðalatriðið sé að vera með?

Úff, ég veit, ég flæki hlutina stundum óþarflega mikið fyrir mér, í stað þess að bara "go with the flow" og láta gossa. Mér finnst samt eiginlega, að þar sem ég er á annað borð í þessum frábæra félagsskap, þá skipti máli að vera með í þeim sýningum sem haldnar eru, svo framarlega sem einhverjir ófyrirsjáanlegir þættir hindra það ekki. Og vá hvað þetta var löng setning ...

Þetta eru þær fjórar myndir sem ég er helst að spá í, í tengslum við sýninguna.


Mér finnst þessi pínu skemmtileg, en kannski helst til drungaleg fyrir sýningu í Safnaðarheimilinu (sem er mest notað fyrir erfidrykkjur).


Ég var voða ánægð með þessa fyrst eftir að ég tók hana. Birtan er falleg og skemmtilegir skuggar. 


Einu sinni var ég voða hrifin af þessari mynd, en hún er ekki alveg að gera sig hjá mér núna.


Þessi var í uppáhaldi hjá mér fyrr í haust, en mér fannst myndin sem ég var með á sýningunni í Lystigarðinum (og var líka macro mynd eins og þessi) ekki vera að koma nógu vel út.

Allar ábendingar eru vel þegnar :)

sunnudagur, 6. janúar 2013

Spíra ekki öll fræ um síðir?


Segir Edda Heiðrún Backman í viðtali í Morgunblaðinu 23. des. 2012. Ég ber mikla virðingu fyrir Eddu Heiðrúnu og dáist að því hvernig hún hefur tekist á við sjúkdóminn MND og það að vera lömuð af hans völdum. Hún var jú áður fyrr leikkona en málar núna með munninum, alveg hreint dásamlega fallegar myndir. Í viðtalinu segir hún að vinkona hennar, Auður Ava Ólafsdóttir (rithöfundur og listfræðingur) hafi sagt við hana fyrir rúmum tuttugu árum síðan að Edda Heiðrún væri á rangri hillu í lífinu. Hún ætti að vera listmálari. Þá hló Edda Heiðrún bara að bullinu í vinkonu sinni enda átti leiklistin hug hennar allan.  " En spíra ekki öll fræ um síðir?" segir hún svo.

Þessi setning kallaði á mig, enda hef ég lengi alið í mér ákveðið fræ sem ég hef ekki gefið tækifæri til að blómstra, og mokað ákveðið yfir það ef smá spíra hefur gægst uppúr moldinni.

Mitt fræ sem ekki fær að blómstra er þörfin/löngunin til að skrifa. Alveg frá því ég var krakki hefur mig langað að skrifa og það hafa vissulega komið tímabil sem ég hef verið örlítið nær því en ella. Það sem þá hefur gerst, er að um leið og ég fer að gefa þessu smá séns, þá koma alls kyns órökréttar hugsanir og tilfinningar upp á yfirborðið, og ég lúffa fyrir þeim.

Ég hef þó farið á tvö námskeið í skapandi skrifum og haft óskaplega gaman af þeim báðum. Hið fyrra var fyrir 16-17 árum og leiðbeinandi þar var Björg Árnadóttir. Það var fínt námskeið og hún lagði áherslu á verklegar æfingar. Þar skrifaði ég eina smásögu og byrjaði á annarri sem ég kláraði svo skömmu síðar.

Seinna námskeiðið var haustið 2004 og þá var Þorvaldur Þorsteinsson leiðbeinandi. Námskeiðið hjá honum bar ekki jafn góðan árangur, svona afurðalega séð, en hins vegar kviknuðu alls kyns ljós í kollinum á mér og margt af því er enn að grassera. Eitt af því sem hann nefndi var t.d. að ef eitthvað grípur þig í efni sem þú ert að lesa, t.d. ein setning sem virðist öðlast sjálfstætt líf og á einhvern hátt kalla á þig, þá áttu að gefa þeirri setningu gaum. Til dæmis með því að skrifa hana hjá þér. Það er ekki að ástæðulausu að við veitum sumum hlutum meiri athygli en öðrum, þó við gerum okkur ekki alltaf strax grein fyrir ástæðunni.

En Þorvaldur talaði líka um fræ sem þyrftu að fá pláss til að spíra og verða að fallegum plöntum. Ef garðurinn er fullur af t.d. illgresi eða öðrum plöntum þá er ekki pláss fyrir það sem gæti orðið falleg planta. Þannig getur þurft að grisja til að gefa nýju lífi pláss. Hann t.d. var listmálari en þegar hann hætti að mála þá fór hann að skrifa og skrifaði m.a. bækurnar um hann Blíðfinn. Og eins og Edda Heiðrún, hún hefði líklega aldrei farið að mála nema af því hún gat ekki leikið lengur.

Annars er þetta orðið gott af pælingum í bili.... Ég náði þó alla vega að róa mig svolítið niður með þessu. Var nefnilega á þreytu-pirrings-langar til að gera eitthvað en hef ekki orku - stiginu. Held að mér líði betur núna ;-)

laugardagur, 5. janúar 2013

Skamm, skamm, skamm!!

Oh, ég er ferleg, búin að svindla alltof mikið á mataræðinu undanfarið.

Þeir sem hafa fylgst með mér og/eða þekkja mig vita að:
a) Ég er með óþol fyrir eggjum, glúteini og mjólkurvörum.
b) Ég er búin að vera voða dugleg í ca. eitt ár að sleppa því að borða mat sem inniheldur eitthvað af þessum atriðum.
En núna er ég orðin alltof kærulaus. Hugsa sem svo að einn biti saki nú ekki, og svo breytist bitinn í einn sælgætismola og þar næst í eina smáköku og núna áðan borðaði ég tvær smákökur með kaffinu. Og í þessum smákökum var allt sem ég á að forðast. Ég hef líka fundið það undanfarið að ég hef verið einhvern veginn sljórri yfir höfðinu og hef safnað á mig meiri vökva en venjulega. Svo nú er komið að því að hætta þessari vitleysu.

Það er eitthvað svo algjörlega fáránlegt að borða mat sem maður veit að fer ekki vel í mann. Hm, ætli það sé ekki svipað og að reykja þó allir viti að reykingar skaða heilsuna. En það er þessi litli en samt háværi púki á öxlinni, sem segir að þetta sé nú svo lítið magn, og ég sé nú orðin miklu betri en ég var og ég hljóti að þola smávegis egg/hveiti/smjör o.s.frv. Nú verð ég að hætta að hlusta á þennan púka og hlusta framvegis á rödd skynseminnar.

Að hluta til er þetta leti um að kenna. Ég var komin með uppskrift að jólasmákökum sem ég má borða, en nennti aldrei að baka þær. Yfirhöfuð þá er ég alltof löt að finna nýjar og spennandi uppskriftir til að prófa. Ekki vantar uppskriftabækurnar í húsið, onei það er ekki vandamálið.

Jæja, nú hlýt ég bara að snúa til betri vegar, svona eftir að hafa skrifað um vandamálið hér ;-)

Prófa að blogga úr farsímanum

Halló sól :) Já loks sjáum við til sólar á ný, héðan úr húsinu. Þessi blessuð mynd er reyndar rammskökk en hvað með það ;)
miðvikudagur, 2. janúar 2013

2013


Það tekur alltaf svolítið á að byrja að skrifa nýtt ártal. Maður er jú búinn að skrifa þetta gamla svo oft, en já þá er bara að byrja að æfa sig, hehe ;)

Annars er ekkert nýtt í fréttum síðan síðast. Hvíld, bóklestur og notaleg samvera við fjölskyldumeðlimi hefur verið þema jóla og áramóta, en nú er víst komið að því að hefja daglegt líf að nýju. Mér finnst stundum svo skrítið að mæta aftur til vinnu eftir lengri frí, en svo er það fínt um leið og ég er komin þangað. Maður verður víst bara "yfirsig" latur og langar helst að halda letilífinu áfram.

En já eins og ég sagði þá fer lífið að ganga sinn vanagang. Hrefna og Egil fara til Danmerkur á morgun, Ísak byrjar í skólanum á föstudaginn og Andri fer bráðlega aftur suður í skólann. Ég reikna fastlega með því að það verði hálf tómlegt í húsinu þegar farfuglarnir verða farnir aftur til síns heima, en þannig er það víst bara.

Ég er aðeins byrjuð að nota ljósmyndadagbókina (Blippið) aftur, mér til gamans. Þar er markmiðið að birta eina mynd á dag, sem þarf að vera tekin sama dag og hún er sett inn á vefinn. Þar  stendur hnífurinn í kúnni, eða gerði það í fyrra, þegar mér tókst nú samt að setja inn mynd nánast daglega frá því í byrjun desember og fram í apríl. En þá datt líka botninn úr tunnunni hjá mér. Það er meira en að segja það að 1) muna eftir því að taka mynd á hverjum degi og 2) að finna myndefni þegar dagarnir eru hverjum öðrum líkir.

Svo var ég að skoða gömlu færslurnar mínar um daginn og fannst pínu gaman að skoða myndirnar og lesa textann, og ákvað að gefa þessu annan séns. Núna er ég líka komin með smáforrit í símann minn sem gerir mér kleift (ef ég vil) að taka mynd á símann og senda beint í Blippið. Þetta sama smáforrit sendir mér líka skilaboð í kringum kvöldmatarleytið og minnir mig á að taka mynd dagsins.

Hm, þá dettur  mér bara ekkert fleira í hug til að segja, nema að myndin sem fylgir er tekin af svölunum hjá okkur á gamlárskvöld og sýnir smá brotabrot af allri flugeldadýrðinni sem fyrir augun bar í kringum miðnættið.