og það er ekki spurning hvort er gáfulegra, að blogga eða fara að sofa. Hins vegar er spurning af hverju maður velur alltof oft þann valkostinn sem er síður gáfulegur í svona kringumstæðum? Jólin eru alveg að skella á, eða það finnst mér að minnsta kosti, og við á síðustu stundu með þetta allt saman... vorum að búa til jólakortin í tölvunni í kvöld (þ.e. Valur bjó þau til, ég var aftursætisbílstjóri, eins og þeir eru nú skemmtilegir) en ekki gafst tími til að skrifa inní þau. Eigum líka eftir að klára eina gjöf sem á að fara suður og pakka þremur suðurlands-gjöfum en eins og alþjóð veit væntanlega þá er síðasti öruggi skiladagur fyrir póst og pakka innanlands á morgun. Hvað eigum við nú eftir fleira? Jú, við eigum eftir að kaupa jólagjafir handa börnunum og hvort öðru, eftir að kaupa í matinn, eftir að baka úr piparkökudeiginu sem við Ísak bjuggum til í kvöld, eftir að búa til "kúk" (sem er marsipan-núggat-súkkulaðihjúpuð sælgætisrúlla sem Valur kallar þessu skemmtilega nafni), eftir að búa til jólaísinn, eftir að kaupa jólatré, eftir að skreyta húsið..... og þá held ég að þetta sé svona nokkurn veginn upptalið. En jólin koma nú alltaf sama hvort maður er tilbúinn eða ekki og alltaf hefst þetta allt að lokum. Stundum hefur jólamaturinn reyndar dregist nokkuð fram á kvöldið, eins og árið sem við vorum að taka efri hæðina á húsinu í gegn og eldhúsinnréttingin kom í hús á Þorláksmessu. En svo höfum við líka haldið jólin á Þorláksmessu einu sinni, þegar við bjuggum í Bergen í Noregi og Valur var á vakt á aðfangadag. Þannig að við erum ýmsu vön í jólahaldinu :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli