miðvikudagur, 19. júní 2013

Stundum er þessi vefjagigt eiginlega bara fyndin


Já það er eins og ég megi gjörsamlega EKKERT gera, þá fer skrokkurinn á mér að kvarta og kveina. Núna er ég t.d. byrjuð að synda aftur eftir langt letitímabil, og var þess mjög meðvituð að ég þyrfti að fara hægt og rólega af stað til að ofgera mér ekki. Þannig að ég synti bara 6 ferðir til að byrja með, svo 8 í einhvern tíma og er nýlega komin upp í 10 ferðir. Undanfarið hef ég svo smám saman verið að fá meiri og meiri verki í vinstra lærið framanvert. Ég skildi ekkert í því hvað þetta gæti verið og nefndi þetta svo loks við Val. Þá var ég búin að  vera að þreifa lærið og fann að ég var með grjótharðan streng í öllum vöðvanum sem liggur framanvert á lærinu, frá hné og upp úr. Valur spurði hvort ég hefði verið að gera spark hreyfingar með fætinum. Fyrst var ég nú ekki að kveikja á perunni, en jú jú þegar ég lyfti fætinum og sparkaði frá mér (svona eins og í bringu- og baksundi) þá áttaði ég mig á samhengi hlutanna.

Annað sem er fyndið (eða þannig) er að ég er stundum að hlusta á slökunardiska og þvíumlíkt þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin. Þetta er þá yfirleitt einhver sem talar/leiðir slökunina og ég reyni að fylgja fyrirmælum. Á það nú til að vera komin á kaf í eigin hugsanir en t.d. ein konan sem ég hlusta á er með svo þægilega rödd að það er mjög notalegt að sofna út frá henni. Sú hin sama er með fyrirmæli í einni upptökunni sem hljóða þannig að maður á að finna stað á líkamanum sem manni líður vel í. Þetta getur t.d. verið hönd, fótleggur eða eitthvað annað. Málið er að þegar ég leggst upp í rúm á kvöldin og er þreytt í skrokknum eftir daginn, þá getur verið afar erfitt að finna verkjalausan stað. Það er ekki óalgengt að mig verki í fæturna, alveg frá tám upp í nára. Í handleggina, alveg frá fingrum upp í axlir. Í bakið frá rassi upp í axlir. Svo er ég oft stíf í hnakkanum og verkjar í augun. Hehe, já þetta er bara fyndið, því eini staðurinn sem mig verkjar þá ekki neitt í, er nefið. Svo það er nú aldeilis ágætt að geta a.m.k. fundið einn stað :-)

Annars er ég bara nokkuð spræk akkúrat í dag. Það er frídagur hjá mér og ég byrjaði daginn á að fara í sund, sem var hressandi að venju. Þarf bara að passa vinstri fótinn núna, að ofgera mér ekki, og það gekk svona sæmilega. Ég hitti líka Ísak eftir sundið. Hann er að vinna í Sundlaugargarðinum núna og ég lét hann hafa sólarvörn, því hann hafði brunnið aðeins í gær.

Hrefna er farin aftur heim til Kaupmannahafnar en sem betur fer er Andri kominn heim og þar að auki styttist í næstu gesti. Það er alltaf svo tómlegt þegar börnin fara aftur eftir að hafa verið heima um stund. En aðal atriðið er jú að það er gaman að fá þau, og að þau hafa það gott þó þau séu staðsett annars staðar.

ÁLFkonur ætla að skella í enn eina ljósmyndasýninguna núna en ég tók þá ákvörðun að vera ekki með að þessu sinni. Það er svo mikið að gera hjá mér í tengslum við vinnuna, og ég ákvað að bæta ekki meiri streitu í líf mitt.

Sunna er í sumarfríi og það munar talsvert um að vera bara ein að gera hluti eins og að panta vörur t.d. Ég hef nú verið að gera það heima líka á kvöldin því þá er meiri friður, en það skilar sér í pínu fyndnum pöntunum, þegar maður er að gera þetta eftir minni (reyna að rifja upp hvort vantar þetta eða hitt). Það var frekar stór helgin síðasta (útskriftir úr HA og MA og brúðkaup) þannig að ég þurfti að passa uppá að nóg væri til af vörum í búðinni fyrir helgina.

Svo eru skil á virðisaukaskatti einmitt þegar ég er í sumarfríi (eða öllu heldur í lok frísins) og mig langar að vera búin að vinna mér í haginn svo ég þurfi ekki að eyða miklu af fríinu í bókhaldsvinnu. Ég var líka að átta mig á því um daginn að við eigum ennþá eftir að skrá vörutalningar-tölurnar inni í Excel skjal svo hægt sé að leggja saman andvirðið, og það er nú töluverð vinna því þetta eru svo mörg vörunúmer sem við erum með.

Já já, bara stuð. En við Valur erum sem sagt ekki ennþá búin að ákveða hvað við ætlum að gera í sumarfríinu. Reynslan frá í fyrra var sú að ég var svo örmagna af þreytu þegar ég fór í frí, að ég gat nú lítið annað gert en hvíla mig. Við fórum samt í stutta ferð austur á land, sem lukkaðist ekki alveg nógu vel sökum þreyttrar konu ... og svo í lok ágúst skelltum við okkur í 3ja daga helgarferð vestur á Strandir, sem var eiginlega bara mjög vel heppnuð.  Þannig að nú er spurningin, hvað á að gera í sumar? Ég er að reyna að passa uppá að taka mér reglulega frí í vinnunni svo ég verði ekki alveg úrvinda þegar sumarfríið byrjar, og vonandi lukkast þessi áætlun mín. En já ferðast innanlands eða utan? Valur var búinn að stinga uppá því að við gætum farið eitthvert til útlanda, þar sem væri heitt og ég gæti legið í leti og hvílt mig. Það er í sjálfu sér góð hugmynd, en við erum orðin frekar sein með að panta ferð sýnist mér. Við vorum aðeins að skoða ferðir og það er mjög mikið orðið upppantað, enda fyrirvarinn orðinn frekar stuttur. En já þetta kemur allt í ljós.

Og vá hvað þetta er orðin löng bloggfærsla. Myndin sem fylgir er tekin á Hjalteyri, þegar við Valur skruppum smá bíltúr eftir mat að kvöldi 17. júní.

sunnudagur, 9. júní 2013

Ljósmyndarölt með ÁLFkonum

Síðasta miðvikudag var ljósmyndarölt hjá ÁLFkonum. Sennilega hefur veðrið haft sitt að segja, því það var metþáttaka þetta kvöld. Meira að segja ég mætti á svæðið, þrátt fyrir að hafa hugsað með sjálfri mér að líklega væri „gáfulegra“ fyrir mig að vera heima og hvíla mig. En já við röltum í rólegheitum af stað, fyrst í Laxagötu, þar sem gömludansa-tónlist ómaði út á götu úr húsi einu og í ljós kom að þar inni var einhver hljómsveit að æfa sig. Þaðan fórum við niður í Glerárgötu og vöktum mikla athygli flestra vegfarenda, því sú gata er mjög fjölfarin. Þar rakst ég m.a. á skemmtilegt hjólhýsi og rauða fallega túlipana. Svo röltum við enn lengra og stelpurnar voru að æfa sig að „pana“ þegar mótorhjól óku framhjá. Þá nær maður mótorhjólinu eins og kyrru en umhverfið er allt á hreyfingu. Ég var víst orðin frekar lúin þegar hér var komið sögu og sleppti öllu pani. Og þegar ég fann að mig var farið að svima, þá settist ég fyrst inn í strætóskýli og hvíldi mig, en hugsaði svo að ég yrði víst að komast til baka í bílinn aftur ... svo ég ákvað að láta þetta gott heita. Þá hafði ég verið tæpan klukkutíma með stelpunum og haft mjög gaman af.

Ég tók reyndar ótrúlega fáar myndir á þessu ljósmyndarölti og þó að magn sé ekki sama og gæði, þá bara dæli ég þeim hér inn til gamans.


Rétt lagðar af stað. Strax farnar að sjá myndefni.


Gömul hús í Laxagötu. Þetta var „trip down memory lane“ fyrir sumar, sem höfðu átt heima þarna í götunni sem barn.


Mjög frumleg sjálfsmynd eða þannig ... ég endurspeglast í hjólkoppnum á gamla Opelnum.


Þarna kennir ýmissa grasa. Gula húsið í bakgrunni var víst kirkja einhvers trúfélags hér áður fyrr. Þegar við gengum framhjá var hljómsveit að æfa einhvers konar gömludansa-tónlist þar inni og við dilluðum okkur í takt, enda skemmtilega súrrealískt svona á sjóðheitu sumarkvöldi.

Gamli blái Opel Record minnti mig á gamla daga, því pabbi og mamma áttu svona bíl þegar ég var krakki. Nema bara okkar var laxableikur á litinn.


Hér má sjá Glerárgötu og Ráðhús Akureyrar þarna hægra megin bakvið tréð. Mér fannst þetta hjólhýsi eitthvað svo skemmtilega krúttlegt og stóðst ekki mátið að smella mynd af því.


Rauðir túlipanar klikka ekki sem myndefni, sérstaklega ekki með kvöldsólina í bakgrunni.


Hér var ég á leið aftur í bílinn, en þá voru komin svona skemmtileg ský, þannig að ég smellti mynd af þeim, þó forgrunnurinn væri ekkert sérlega spennandi.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ísaki gekk vel í prófunum og Andri var líka í prófum hjá flugmálastjórn en á eftir að fá út úr þeim. Hann útskrifast svo formlega úr bóklega flugnáminu á föstudag í næstu viku. Við foreldrarnir höfðum nú ekki verið búin að átta okkur á því að það yrði útskrift úr skólanum, því hann á jú eftir að safna mörgum flugtímum áður en hann er orðinn löglegur atvinnuflugmaður, svo Valur er í veiði á þessum tíma og ég að vinna.

Hrefna kom heim í gær og stoppar fram til 18. júní. Hún er m.a. að halda uppá 10 ára stúdentsafmælið sitt. Það er alltaf svo gaman að fá börnin sín heim :-)

Ég var að vinna í gær og þó ég hafi verið í fríi síðasta miðvikudag þá var ég býsna lúin þegar ég vaknaði í gærmorgun. Þá datt mér það snjallræði í hug að athuga hvort Jón Stefán (sem átti að vinna frá 10-16) væri til í að vinna fyrir mig síðasta klukkutímann, þannig að ég væri bara þrjá tíma í stað fjögurra. Og viti menn, það gerði gæfumuninn. Ég var ekki jafn úrvinda þegar ég kom heim eftir 3ja tíma vinnu, eins og ég er venjulega eftir 4ra tíma vinnu á laugardögum. Það var nú reyndar líka frekar rólegt, en ég notaði tímann til að þrífa eldhúsið og snyrtinguna, og laga aðeins til á lagernum.

Í gærkvöldi var ég meira að segja það hress að ég, Valur og Hrefna fórum út á Svalbarðsströnd og gengum töluverðan spotta, eða frá vitanum í norðurátt og alveg eins langt og hægt var að komast. Já og til baka líka ... ;-)

Svo var ég vöknuð uppúr klukkan sjö í morgun og finn það núna þegar klukkan er að verða ellefu að ég er að verða frekar framlág. En ég er svo sem ekki með neina dagskrá í dag aðra en hvíla mig, og get þá bara gert það.

miðvikudagur, 5. júní 2013

Litagleði náttúrunnar


Ég átti frí í dag og ákvað að taka daginn snemma í góða veðrinu. Dreif mig í sund um áttaleytið og naut þess að synda í sólinni. Eftir sundið fór ég heim og skellti í mig einum berja-búster en dreif mig svo út aftur.

Í þetta sinn fór ég í Lystigarðinn og tók myndavélina með mér. Var með makrólinsuna á, því ég hafði hugsað mér að taka blómamyndir. Sem ég og gerði. Reyndar ekkert óskaplega margar myndir en svo sat ég líka á bekk í smá stund og virti fyrir mér mannlífið.

Af nægu var að taka því ekki aðeins var Lystigarðurinn stappfullur af ferðafólki af skemmtiferðaskipum, heldur voru einhverjir leikskólar þar líka. Mér finnst eiginlega alltaf hálf fyndið hvað það er mikil ilmvatnslykt af konum á ferðalagi. Þær virðast svoleiðis úða á sig rándýrum ilmum og miðað við lyktina í Lystigarðinum, þá get ég rétt ímyndað mér hvernig það hlýtur að vera í rútunum sem keyra fólkið um.

Svo hitti ég nokkrar litlar skottur sem gengu um og heilsuðu útlendingunum með eftirfarandi setningu: "Hello. What's your name?" og ég fékk sama ávarp, enda auðvelt að draga þá ályktun að ég væri útlendingur líka, með mína stóru myndavél.

En já ég stoppaði svo sem ekki lengi í Lystigarðinum en nógu lengi til að taka nokkrar myndir og svo dreif ég mig bara heim. Svo fór ég þangað aftur seinna í dag, að hitta tvær vinkonur mínar, og þá sátum við í sólinni í nærri tvo tíma. Sem var nú alveg hámarkstími fyrir óvana ...

Ljósmyndaklúbburinn er síðan að fara að hittast á eftir og spurning hvort ég verð í standi til að fara enn eina ferðina út úr húsi.

Myndin sem fylgir er samsett úr þremur myndum sem ég tók í dag. Til að gera svona samsetningu, nota ég forrit sem heitir Fotor og er hægt að fá ókeypis á netinu. Ég er búin að setja þessa sömu mynd á facebook, svo þeir sem eru vinir mínir þar þurfa víst að þola að horfa enn og aftur á sömu myndina ;-)

þriðjudagur, 4. júní 2013

Leikur að litum


Þegar ég var svona 10-12 ára hafði ég mjög gaman af því að teikna og lita. Gerði kannski ekkert óskaplega mikið af því samt, og steinhætti einhvern tímann þegar ég komst á það stig að finnast ég alveg hæfileikalaus á þessu sviði. Aðallega vegna þess að bæði Anna systir mín og Rósa vinkona voru svo miklu flinkari en ég. En núna er ég loks að ná þeim þroska að ég get haft gaman af því að gera hluti, ánægjunnar vegna, en þetta þarf ekki að vera frábært eða fullkomið. 

Um helgina dró ég fram trélitina mína og dundaði mér við að gera tvær myndir. Svo kom að því að trélitirnir voru ekki nógu „effektívir“, svo ég fann gamla klessuliti og er búin að lita tvær myndir með þeim. Og það sem ég hafði gaman af því. Var ekkert að velta mér uppúr formum eða litum, leyfði þessu bara að flæða. Mæli með þessu :-)