sunnudagur, 17. september 2006

Handbolti

hefur verið þema helgarinnar hér í Vinaminni. Andri var að keppa og til tilbreytingar fór mótið fram hér á Akureyri, nokkuð sem gaf okkur tækifæri til að fylgjast með leikjunum. Það hafði reyndar ekki góð áhrif á röddina í mér sem var nú tæp fyrir. En ég bara get ekki mætt á leiki án þess að hvetja. Í fyrravetur var ekki eitt einasta mót fyrir norðan heldur þurftu strákarnir að fara margsinnis suður til að keppa. Já, svona er að búa úti á landi... Annars hefur Andri hafið nám í þeirri virðulegu menntastofnun MA og fetar þar með í fótspor systur sinnar. Ja og mín líka, nema hvað ég var algjör aumingi og hætti þar námi eftir nokkra mánuði á sínum tíma. Ég treysti því að hann taki ekki upp á slíkum heimskupörum... Annars má segja að líklega hefðum við Valur aldrei hist ef ég hefði ekki hætt í MA svo eiginlega var það bara til góðs þegar upp er staðið. Held að ég láti þetta gott heita í bili, sjáumst síðar.

Engin ummæli: