Ekki á hún Gunna gott
að gifta sig í þessu.
Ekki er ég á leiðinni í brúðkaup en þessi vísa kom upp í hugann þegar ég sat og horfði út um gluggann. Það er svona "þægileg" rigning úti og alveg blankalogn, sem sagt fallegt rigningarveður. Ég ætla að drífa mig út að ganga á eftir (í nýja regnjakkanum að sjálfsögðu :-)
Félagar mínir, þau Birta og Máni, eru hins vegar ekki hrifin af þessu veðri og þeirra viðbrögð eru að sofa megnið af sólarhringnum. Eiginlega er ég bara fegin því þau gera þá ekki eins mikið af sér á meðan. Þau hafa nefnilega tekið upp á þeim ósóma að "merkja" húsið svo það sé nú alveg ljóst hver eigi heima hér. Það bar svolítið á þessu í fyrrasumar en ekkert í vetur. Svo byrjaði fjörið á nýjan leik nú í sumar. Þau eru ekki að pissa í þeimi skilningi, heldur spreyja smá skvettu á veggina (sem svo lekur niður á gólf) en afleiðingin er sú sama: ólykt. Sérstaklega ef skaðinn uppgötvast ekki í tíma.
Þannig að ég er stöðugt á varðbergi og keypti sérstakt lyktar- og blettaeyðandi spray til að nota í þessu samhengi. Ef ég næ að uppgötva "slysið" nógu snemma og get notað þetta efni þá kemur hvorki lykt né blettur. En það tekst ekki alltaf. Það er líka hægt að kaupa Feliway (lyktarhormón) sem á að virka róandi á ketti og láta þá hætta þessu en það efni er rándýrt og mér fannst það nú ekki virka neitt rosalega vel í fyrra þegar við prófuðum það.
Hins vegar gengur þetta náttúrulega ekki svona, ég er að breytast í einn stresshnút út af þessu og það er búið að takmarka aðgang kattanna að stórum hluta hússins, sem fer gríðarlega í taugarnar á þeim (sérstaklega Birtu þó). Ætla að tala við dýralækni og sjá hvort einhver fleiri ráð eru í stöðunni. Er ekki alveg tilbúin að láta lóga þessum heimilismeðlimum vegna þessa - en mun líklega neyðast til þess ef ekki finnst einhver lausn. Þetta er erfitt líf!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli