mánudagur, 30. nóvember 2009

Nú "outsoursa" ég bara alveg á fullu

Og svona fyrir þá sem ekki hafa lært viðskiptafræði, þá þýðir þetta að fá aðra til að vinna verkefni fyrir sig. Þykir afskaplega gáfulegt að reyna ekki að komast yfir að gera allt sjálfur, því oft er ódýrara að fá aðra til að vinna verkið, s.s. að fá aðra til að vinna bókhald ef maður kann það ekki sjálfur. Eða fá aðra til að þrífa, o.s.frv. Ég ákvað að fá Hrefnu, ömmu hennar Hrefnu minnar, til að setja rennilás í peysuna mína. Það er reyndar kannski ekki ódýrara en þá slepp ég við að vita af því að peysan bíði endalaust eftir rennilás - og get farið að nota hana. Hrefna vildi að vísu ekki taka neitt fyrir að gera þetta en ég mun borga henni eitthvað.
Svo þvoði Valur stofugluggana og setti jólaljósakransa þar (já ég veit, ég er búin að segja það áður) og líklega mun ég reyna að fá einhvern annan en mig til að þvo eldhúsinnréttinguna. Nú, svo mætti þjálfa Ísak upp í að baka smákökur...

Annars er ég að fara í bókhaldið í þessum skrifuðu orðum - en það er alveg makalaust hvað er erfitt að koma sér að því verki. Ekki vegna þess að það sé svo leiðinlegt, þetta er bara verk sem þarf að vinna, svona eins og þurrka af ryk eða eitthvað þvíumlíkt. En engu að síður er alveg ótrúlega erfitt að koma sér í gang. Og ég fer iðulega að gera eitthvað allt annað en akkúrat það.. Svona eins og laga til, nú eða blogga ;-) En nú er ég hætt að blogga og farin að vinna.

Bara eitt enn.. ég þvoði eldhúsgluggana í kvöld og setti upp jólagardínur og aðventuljós - þetta get ég!

sunnudagur, 29. nóvember 2009

Tók þessa mynd í fyrradag

Það sá ekki til sólar hér í bænum, allt grátt og yfirskýjað, en eitthvað var það sem lýsti svona skemmtilega á fjallstindana þarna hinum megin. Tekið á klöppinni fyrir aftan húsið þeirra Sunnu og Kidda.

laugardagur, 28. nóvember 2009

Dösuð eftir daginn - en það er nú ekkert nýtt ;)

Jólaösin er loks byrjuð á Glerártorgi og meira en nóg að gera á öllum vígstöðvum í tengslum við vinnuna. Við Sunna komumst varla yfir það sem þurfti að gera í vikunni og eigum t.d. ennþá eftir að setja upp jólaskraut í búðina og velja og panta nýjar vörur + endurpanta vörur sem klárast. Svona er þessi bransi bara, annað hvort í ökkla eða eyra.

Svo er alltaf áætlunin hjá mér að vera voða dugleg og klára jólagjafainnkaupin snemma. Það hefur aldrei gengið eftir og því er ólíklegt að það gangi í ár. En Valur þvoði gluggana í stofunni í dag og setti upp jólaljósakransa, þannig að eitthvað er byrjað á heimavelli. Það er nú ekki margt sem er á dagskránni í jólaundirbúningi. Ég vildi helst ná því að þvo eldhúsinnréttinguna að utan og baka nokkrar smákökusortir. Þá held ég að það sé upptalið, svona fyrir utan jólagjafakaup og matarkaup. Jú, ætli jólakort verði ekki líka send. Og Valur gerir jólaísinn og skreytir jólatréð, og eldar matinn og bakar líklega, þannig að það er ekki margt sem fellur í minn hlut. Aðallega almenn tiltekt hugsa ég og svo set ég reyndar upp jólagardínur + aðventuljós í eldhúsið. Það er sem sagt markmiðið að gera sem minnst og helst stressa mig sem minnst því nóg stress verður í vinnunni. Okkur vantar t.d. ennþá starfsmann/menn í staðinn fyrir Andra og svo er auðvitað opið til tíu á kvöldin síðustu vikuna fyrir jól...

Annars er bara "allt í gúddí" eins og sagt var einu sinni.

sunnudagur, 22. nóvember 2009

Birta og Máni í svart/hvítu

Óskalisti dagsins

Já ég er ein af þessum manneskjum sem elska að búa til lista. O jæja, það er kannski fulldjúpt í árina tekið reyndar að ég elski það. En listar hjálpa mér að koma reiðu á óreiðuna í huganum á mér, ég held að það sé skýringin. Og ég hef líka tekið eftir því að um leið og það er komið á blað sem ég þarf/ætla að framkvæma, þá aukast líkurnar til mikilla muna á því að það verði virkilega framkvæmt. Samt tekur það vissulega mislangan tíma að verða að veruleika. Stundum langar mig líka til að gera meira en líkaminn getur í raun gert, eins og í dag. Ég er ennþá þreytt eftir æfinguna í gær + vinnuvikuna en langar samt að gera ótalmargt - en veit að ég mun aðeins gera sumt. Svo er bara spurningin hvað það verður. En alla vega... óskalisti dagsins hljóðar svona:
- Laga til í eldhúsinu og finna nýjan stað fyrir ýmsa hluti sem áttu áður heimili í skápnum fyrir ofan ísskápinn. Sá skápur, ja og ísskápurinn reyndar líka, er farinn vegna þess að nýr og hærri ísskápur er kominn á heimilið.
- Taka bækurnar mínar úr bókahillu í vinnuherberginu hans Vals, en þar hafa þær verið síðan þetta var vinnuherbergið mitt/okkar fyrir mörgum árum síðan.
- Setja rennilás í peysuna... úbs! ekki búin að því ennþá.
- Setja gamlar kiljur sem mig langar ekki að eiga lengur í kassa. Síðan ætla ég að gefa þær í Hertex eða Fjölsmiðjuna.
- Fara í gegnum stóran kassa með ungbarnafötum, sortera og gefa megnið af þeim.
- Klára að prjóna gormatrefilinn með öllum sínum 1600 lykkjum í umferð, áður en ég verð brjáluð.
- Fá brilliant hugmyndir að jólagjöfum. Allar ábendingar eru vel þegnar!
- Byrja á einhverju nýju prjónaverkefni.
- Hringja í tengdaforeldrana og mömmu.

Þetta var sem sagt óskalistinn. Nú er það listinn yfir hluti sem þarf að gera, ekki allt í dag samt:
- Færa bókhald. Það styttist í virðisaukauppgjör þann 5. des. og ég er ekki byrjuð á bókhaldinu fyrir þessa tvo mánuði sem eru til uppgjörs.
- Kaupa gjöf handa litla krílinu þeirra Hrundar og Sævars sem fæddist á afmælisdaginn minn.
- Bera olíu á stofuborðin og skenkinn og leðuráburð á borðstofustólana.
- Þvo eldhúsinnréttinguna að utan.
- Þvo gluggana að innan, svo hægt sé að setja jólaljósahringina í þá og það sjáist í ljósin fyrir skít...
- Fara með kettina í sprautu.
- Gera við sundbolinn minn.
- Þvo gólfmottuna í búrinu.
- Laga betur til í geymslunni niðri og helst henda ennþá meira dóti.
- Vera duglegri að hitta vinkonur mínar.
- Bjóða fólki í mat.
- Byrja að baka fyrir jólin.

Svei mér þá, ég held bara að mér detti ekki fleira í hug í bili. Að minnsta kosti ekki tengt mér sjálfri og heimilinu. En þar sem jólaannríkið er byrjað í vinnunni er alveg ljóst að margt af þessu mun bíða þar til eftir jól...

laugardagur, 21. nóvember 2009

Úff, púff og æ, æ...

Ég fór í ræktina í dag í 3ja skiptið. Sem ætti ekki að vera í frásögur færandi, nema hvað að ég er gjörsamlega að drepast í skrokknum. Samt var ég með tækin stillt á léttustu stillingu (flest hver a.m.k.). En N.B. þá fór ég og fékk æfingaáætlun fyrir byrjendur, sem ég fór eftir, en áður gerði ég bara þær æfingar sem ég kunni frá því áður. Og ef einhver skyldi halda að þetta væru "einfaldir" strengir, þá er það ekki rétt. Þetta lýsa sér eins og heiftarlegir vefjagigtarverkir, nánast í öllum skrokknum. Já, alls staðar nema í magavöðvunum, þar er ég nefnilega með góða gamaldags strengi frá því á fyrstu æfingunni, en þá ætlaði ég að sýna Vali að ég væri nú bara með nokkuð góða magavöðva þrátt fyrir að gera ekki neitt nema synda.
En hvað sem öllum þessum  verkjum líður (og já, þeir munu dofna með tímanum), þá er ég ánægð að vera byrjuð að æfa aftur eftir einhverra ára hlé. Mér finnst ég nefnilega svo dásamlega "normal" þegar ég er í æfingasalnum með öllu hinu "normal" fólkinu. Eini gallinn er sá að allt þetta normal fólk er svo ótrúlega alvarlegt á svipinn eitthvað þegar það er að æfa. Ég skil það ekki alveg. Er þetta svona leiðinlegt, eða bara svona háalvarlegt mál?
Svo ég tali nú um eitthvað annað, þá er jólaverslunin loksins komin af stað fyrir alvöru. Þannig að nú byrjar fjörið og stendur fram til 24. desember. Sem er gott, því það er gaman í vinnunni þegar það er mikið að gera. Maður á samskipti við marga og tíminn líður hratt. En það er líka erfitt því það fer mikill tími í að panta vörur og maður nær ekki alltaf að taka þær upp eins hratt og maður hefði viljað, því það þarf jú að afgreiða viðskiptavinina líka ;) Já og það er líka erfitt því okkur vantar fleira afgreiðslufólk fyrir jólin þar sem hann Andri tók upp á því að ætla til Flórída um jólin með kærustunni og hennar fjölskyldu. Og það er alltaf pínu mál að þjálfa nýtt fólk og það tekur tíma fyrir nýja starfsmenn að komast inn í þetta allt. Sveinn sem vann hjá okkur er farinn til Ástralíu og Nanna er flutt til Danmerkur. Hehe, þetta hljómar aldeilis vel, eða hitt þá heldur. Fyrrverandi starfsfólk Potta og prika flýr land... Gæti verið fyrirsögn í slúðurblaði...
Æ, jæja, þetta mun allt reddast, og kosturinn við að hafa færra starfsfólk er jú að þá fær maður sjálfur að vera meira á staðnum og skemmta sér í jólaösinni ;) Nú þarf bara að drífa sig í jólagjafainnkaup og svoleiðis. Það er alltaf meiningin að vera snemma í því - en gengur aldrei. Nema árið í ár verði undantekningin frá reglunni.

miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Vá, hvað ég er löt að blogga þessa dagana

Hef einhvern veginn alveg nóg með að koma mér í og úr vinnu... Geri a.m.k. ekki mikið meira en það. Fór samt í ræktina í dag í annað skipti síðan ég keypti mér kort þar síðasta laugardag.

Svo er ég líka að prjóna einhvern trefil sem kallast gormatrefill. Maður byrjar með 200 lykkjur og prjónar garðaprjón í 4 umferðir, eykur þá út í hverri lykkju og prjónar aðrar 4 og eykur svo aftur út í hverri lykkju og endar sem sagt í 1600 lykkjum. Það er varla pláss fyrir allar þessar lykkjur á hringprjóninum og pínu leiðinlegt að þurfa að prjóna svona voðalega margar lykkjur til að klára eina umferð. Svo er garnið mjög fíngert og átti að prjóna á prjóna nr. 2,5 en ég nennti því nú engan veginn og er með prjóna nr. 3,5. O jæja, þetta klárast einhvern tímann.

Hið sama vona ég að gerist með lopapeysuna sem er reyndar fullprjónuð en á eftir að setja í rennilás. Þannig hefur ástandið verið í a.m.k. 2-3 vikur núna (vonandi ekki 3-4...). Svo er auðvitað önnur hver kona í bænum komin í svona peysu enda var hún í prjónablaði Ístex og því mjög aðgengileg uppskrift. En það er hollt og gott að hafa smá handavinnu í gangi, manni líður vel af því.

Svo tek ég nú auðvitað alltaf myndir og hef gaman af því líka. Þannig að eitthvað geri ég nú. Og nú tek ég eftir því að ég er að ofnota orðið "nú" eins og mér sé borgað fyrir það! En ég held að ég hafi svo sem ekkert fleira í fréttum, ef fréttir skyldi kalla. See you later alligator!

sunnudagur, 15. nóvember 2009

Sunnudagsleti

Enda varla annað hægt í þessu leiðindaveðri sem er úti núna. Slydda og slabb með rigningu í bland. Annars held ég reyndar að hann hangi þurr akkúrat þessa stundina.
Að öðru leyti er fátt í fréttum. Ég átti jú reyndar afmæli í vikunni eins og flestir ef ekki allir lesendur þessarar síðu vita. Nennti samt ekki að baka eða bjóða uppá veitingar í tilefni dagsins en við fórum út að borða á Greifann um kvöldið. Þar prófaði ég saltfiskpítsu sem bragðaðist vonum framar. Það var nú svolítið gaman að því að Hrund bróðurdóttir Vals eignaðist son á afmælisdaginn minn. Bróðir Hrundar, hann Óli Valur, er fæddur 2. ágúst eins og Valur, svo þetta er aldeilis afmælisdagasamkrull.
Svo átti Hrefna auðvitað afmæli daginn á eftir mér, en sökum fjarlægðar var víst ekkert afmæliskaffi hjá henni þetta árið... Hún eyddi nú reyndar afmælisdeginum í að bíða eftir að fara í skurðaðgerð á litla putta en þar sem sú aðgerð er ekki mjög brýn miðað við margar aðrar þá hefur henni verið frestað aftur og aftur.
Ég hef verið í fríi þessa helgina og hafði ætlað að gera margt og mikið - en hef ekki gert neitt nema hvíla mig. Í dag ætlaði ég að fara í gegnum gömul ungbarnaföt og gefa í Rauða krossinn, en ég get nú ekki séð að ég muni framkvæma það. Ekki í dag a.m.k. Skil samt ekki alveg hvað ég hef verið að geyma mikið af þessu dóti. Það eru bráðum 15 ár síðan Ísak fæddist og ungbarnatískan breytist ört eins og önnur tíska, þannig að fyrir utan fáein plögg sem hafa extra mikið tilfinningalegt gildi, þá er engin ástæða til að vera að halda uppá þetta.
Og nú þegar ég er pakksödd eftir vöfflur sem Valur bakaði áðan, langar mig mest að halla mér aðeins ;)

þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Fallegur dagur

Já, svona var fallegt um að litast á Gáseyri á sunnudaginn var. Við Valur fórum út að taka myndir því ég var gjörsamlega að andast úr andleysi og þurfti nauðsynlega að fá mér súrefni. Hann hafði reyndar farið fyrr um morguninn út, meðan ég svaf enn þyrnirósarsvefni - en sem sagt fór með mig aftur seinna um daginn til að viðra mig. Það var reyndar fullt af fólki þarna á þessum tíma. Kafarar, kajak-ræðarar, hundaeigendur og hundar (sem reyndar teljast ekki til fólks strangt til tekið). Hundarnir voru alveg rosalega æstir og hlupu á ógnarhraða fram og aftur í eltingaleik. Sem betur fer er hvorugt okkar Vals með hundafóbíu en okkur varð hugsað til manneskju sem við þekkjum sem þjáist af þeim sjúkdómi á alvarlegu stigi. Henni hefði ekki verið vært þarna þennan dag.
Annars er lítið í fréttum. Ég er upp og niður og aðallega niður af gigtinni. Aðrir eru nokkuð hressir. Kettirnir eru alla vega mjög hressir og ef eitthvað er, að verða enn hændari að mér en nokkru sinni fyrr. Máni eltir mig á röndum hvert sem ég fer og Birta mænir á mig eins og húsbóndahollur hundur.
Varðandi þessa mynd, þá var hún ennþá skýrari, en ég var að vinna hana eitthvað í tölvu og klúðraði því greinilega. Að minnsta kosti er hún ekki eins alveg eins og hún átti að vera.