þriðjudagur, 31. janúar 2012

Það mætti halda að ég sæti föst í höfuðborginni

að minnsta kosti ef tekið er mið af því hve langt er síðan ég bloggaði síðast.

Við Valur gerðum góða ferð til Reykjavíkur. Við gistum á fínasta íbúðahóteli, nýlega uppgerðu á hinn smekklegasta hátt, og vel staðsettu. Það er við Hverfisgötu og þangað er afskaplega stutt að ganga á Laugaveginn og niður í bæ. Við vorum ekki með neina fyrirfram gefna dagskrá, enda var markmiðið fyrst og fremst að slappa af og njóta þess að vera í fríi. Þannig að dagarnir fóru að mestu í að rölta um miðborgina, versla aðeins, fara á kaffihús og út að borða.

Svo var okkur reyndar boðið í mat til Hjördísar og Sighvats, vinahjóna okkar sem fluttu frá Akureyri fyrir sjö árum síðan og við höfðum aldrei heimsótt þau á þeim tíma. Ég var líka með samviskubit yfir að hafa ekki farið í fimmtugsafmælið hennar Hjördísar í apríl s.l. en þá var ég hreinlega svo léleg til heilsunnar að ég treysti mér ekki. En sem sagt, við fórum í mat til þeirra og skoðuðum húsið sem þau fluttu inn í á síðasta ári. Það er ægilega gaman að koma inn í svona glæný hús, allt svo glansandi fínt. Það var ekki síðra að hitta þau tvö, og eftir matinn fórum við svo og heimsóttum Sólrúnu og Odd, önnur sameiginleg vinahjón sem einnig áttu heima hér á Akureyri, nema hvað það er enn lengra síðan þau fluttu suður. Og þar sem við Valur förum svo sjaldan suður höfum við nánast aldrei heimsótt þau heldur. Það er að segja, líklega einu sinni áður, sem er náttúrulega bara skandall. En ástæðan er líka sú að þegar við erum í Reykjavík þá leggjum við fyrst og fremst áherslu á að hitta ættingjana, foreldra Vals og bræður og mömmu og Ásgrím. Þau þó sjaldnar því yfirleitt stoppum við svo stutt að það gefst ekki nægur tími til að fara í allar þær heimsóknir sem maður vildi fara í.

Hm, þetta var nú aldeilis langloka hjá mér. Sprottin út úr vissri vanlíðan yfir því að í þetta sinn hittum við hvorugan bróður Vals og ekki fórum við nú heldur til Keflavíkur að heimsækja mömmu. Á móti kemur að við vorum nýlega búin að hitta þau, þegar þau komu norður í jarðarför í byrjun mánaðarins.

Við náðum sem sagt að slappa vel af í ferðinni og þrátt fyrir vissa ferðaþreytu kom ég endurnærð til baka. Það er samt gallinn við allar svona ferðir, að maður nær ekki að lifa nógu lengi á þeim. Fljótlega tekur daglega lífið við aftur, með allri sinni þreytu og streitu, og allt fer aftur í sama farveg. En það breytir því ekki að góðar minningar gleymast ekki.

Annars er það helst í fréttum að ég er búin að fá tíma í 2ja vikna prógram á endurhæfingardeildinni á Kristnesi. Ég veit nú ekki ennþá almennilega sjálf hvað þetta gengur út á, en markmiðið er að komast að því hvernig ástandið er á frúnni og hvað er hægt að gera til að bæta það. Dagskráin samanstendur af viðtölum, fræðslu og æfingum. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að vera búin að bíða eftir þessu í nærri heilt ár, þá stressaðist ég þvílíkt upp þegar búið var að ákveða dagsetningu á þetta, eða 13. febrúar.

Á morgun fer ég reyndar í viðtal við lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraþjálfa og iðjuþjálfa (minnir mig) og er það undirbúningur fyrir það sem koma skal. Ætli þau vilji ekki hitta mig og taka púlsinn á mér (ekki kannski í bókstaflegri merkingu samt). Ég fór að hafa áhyggjur af því að ég væri nú alls ekki nógu slæm til að fá að koma þarna inn, en Valur var fljótur að spyrja hvort ég væri búin að gleyma því hvernig ég hefði verið undanfarnar vikur. Þar með stakk hann upp í mig. Ég finn það líka í leikfiminni hjá Eydísi að um leið og hún lætur okkur gera æfingar sem reyna á að hjartað dæli meira en venjulega, þá fer mér að líða illa og í þrígang hef ég þurft að setjast niður því ég fæ svima og hálfgerða ógleði. Þannig að það er alveg ljóst að mér veitir ekkert af ráðleggingum varðandi það hvernig ég get best reynt að koma mér í form aftur. Ef það er þá hægt þegar maður er alltaf svona þreyttur... Hehe, en nei ekkert svartsýnisraus, nú er það bjartsýnin sem gildir!

miðvikudagur, 18. janúar 2012

Gamla settið ætlar að skella sér suður

Það kom skyndilega upp að Valur hafði áhuga á að fara suður á fyrirlestur í tengslum við vinnuna, og í framhaldinu kom upp sú hugmynd að ég myndi fara með honum. Það er orðið langt síðan við höfum farið eitthvert saman tvö og mig langar að fara þrátt fyrir að ég sé ekki alveg eins hress og ég vildi vera.  Það er alltaf gott að skipta aðeins um umhverfi og við munum ábyggilega taka því frekar rólega, þó það sé auðvitað alltaf einhver þvælingur á manni þegar farið er í borgarferð.

Kvöldið fór að stærstum hluta í að snúast í kringum sjálfa mig - en markmiðið var að pakka niður í tösku. Ég veit ekki hvað gerist með mig þegar kemur að því að pakka fyrir ferðalög. Öll skynsemi virðist gufa upp úr kollinum á mér og skyndilega veit ég varla hvað ég heiti. Þar sem ég veit ekki hvað við erum að fara að gera fyrir sunnan, vissi ég ekki heldur hvers konar fatnað ég ætti að taka með. Svo er það buxnavandamálið ógurlega. Ég er búin að grennast heldur mikið og er farin að skrölta innan í öllum buxunum mínum. Hugsanleg lausn er að vera þá í pilsi, en þá er spurning með skófatnað... Þá þarf ég að vera í leðurstígvélum, en þau eru nú ekki besta skótauið í snjó og slabbi, a.m.k. ekki til lengri gönguferða. Hehe, já þetta er erfitt líf... En alla vega, ég pakkaði bara nógu miklu og get þá valið úr. Og nú er ég farin að sofa.

fimmtudagur, 12. janúar 2012

Horft til norðurs - og suðurs

Í götunni okkar, einhvern tímann um hálf tólf leytið í morgun.

Birtan er svo ólík og mér finnst þessi blái litur í norðrinu svo sérlega fallegur. 

þriðjudagur, 10. janúar 2012

Að ganga á línu - og detta í sífellu

Þannig finnst mér að best sé hægt að lýsa sjálfri mér og ástandinu á mér.

Ef allt hefði verið með felldu þá hefði verkefnalisti dagsins litið svona út:
* Borða morgunmat
* Fara í sturtu
* Setja í þvottavél og hengja upp
* Taka úr uppþvottavélinni
* Prjóna nokkrar umferðir í peysunni á Val
* Taka niður jólaskrautið
* Skila bókum á bókasafnið
* Kíkja í búðir í leit að passandi buxum
* Borða hádegismat
* Mæta fyrr í vinnuna, til að telja vörur

Hljómar vel ekki satt? Það sem ég er búin að gera:
- Borða morgunmat
- Leysa krossgátu að hluta til
- Hanga í tölvunni
- Setja í þvottavél og hengja upp

Ég er ekki að sjá að ég geri margt af hinu, nema borða jú og mæta í vinnuna.
Ástæðan? Leikfimin byrjaði í gær eftir mánaðar hlé, og eins gott það var að fara og hreyfa aftur stífa og stirðnaða vöðva, þá hefur þessi rólegi leikfimistími verið í það mesta fyrir mig m.v. ástandið á mér. Ég ætlaði ekki að geta sofnað í gærkvöldi fyrir þreytuverkjum í fótum og vaknaði svo af sömu ástæðu í nótt. Fór þá og tók verkjatöflur og náði að sofna aftur. Í dag er ég bara öll undirlögð einhvern veginn. Ofboðslega þreytt og lúin, svona heilt yfir.

Þetta er eiginlega ennþá súrara vegna þess að á sunnudaginn var ég hressari. Svo hress reyndar að ég var á fullu að brasa eitthvað megnið af deginum - sem var ekki gáfulegt líkamlega, en gaf mér mikið andlega þann dag. Ég var nefnilega að laga til í vinnuherberginu mínu, sem er búið að vera í drasli síðan í haust. Þegar Ísak byrjaði í MA fannst mér að það yrði að laga aðeins til og grisja leikföng ofl. út úr herberginu hans, og einhverra hluta vegna endaði allt klabbið inni hjá mér. En á sunnudaginn fór ég með þetta allt niður í geymslu og var mjög ánægð með dagsverkið.

En svo ég endi nú þetta væl á jákvæðari nótum, þá var Valur að skoða gamalt blogg (sitt eigið) um daginn og fann þar þessar línur: "Gleðstu yfir góðum degi, gleymdu því sem miður fer". Þetta finnst mér alveg frábær speki og ætla að reyna að hafa meira í huga í framtíðinni. Valur sendi mér svo ljóðið sem inniheldur þessa laglínu:

Heilræði ömmu

Æviskeið mitt, ungi vinur, 
ætla má að styttist senn. 
Harla fátt af fornum dómum 
fullu gildi heldur enn. 
Endurmeti sínar sakir 
sá er dæmir aðra menn. 

Gleðstu yfir góðum degi, 
gleymdu því sem miður fer. 
Sýndu þrek og þolinmæði 
þegar nokkuð útaf ber. 
Hafi slys að höndum borið 
hefði getað farið ver. 

Aldrei skaltu að leiðum lesti 
leita í fari annars manns 
aðeins grafa ennþá dýpra 
eftir bestu kostum hans. 
Geymdu ekki gjafir þínar 
góðum vini - í dánarkrans.


Heiðrekur Guðmundsson

sunnudagur, 8. janúar 2012

Sunnudagur til sælu

Það er ágætt að byrja daginn á smá bjartsýni... Ég ákvað að setjast niður og reyna aðeins að koma skipulagi á kollinn á mér með því að blogga.

Mamma og Ásgrímur eru farin suður aftur, fóru í gær. Það var voða notalegt að hafa þau en allt tekur víst enda, líka heimsóknir ættingja. Eftir að hafa keyrt þau á flugvöllinn skrapp ég aðeins í bæinn. Byrjaði í Pennanum þar sem ég keypti nýju prjónabókina (stóru) en ég hef verið með hana í láni af bókasafninu. Í henni eru margar fallegar uppskriftir og þar sem ég ætla að fara að prjóna peysu á Val uppúr bókinni, og langar auk þess að prjóna fleiri, þá ákvað ég að gaman væri að eiga þessa bók. Næst ranglaði ég inn í Amarohúsið og þar fór ég inn í Christu. Það var 40% afsláttur af útsöluvörum en yfirleitt versla ég ekki föt í þessari búð því mér finnst allt svo dýrt þar. En í gær rak ég sem sagt augun í þvílíka fallega sparikjólinn og stóðst ekki að máta hann. Þar sem hann smellpassaði og er þar að auki mjög klassískur, ákvað ég að kaupa hann. Reyndar er ekki oft sem ég hef tækifæri til að klæðast svona sparilegum kjól, en þegar tækifærið kemur næst þarf ég ekki að væla yfir því að eiga ekki sparikjól ;-)

Eftir að hafa komið við heima og fengið mér steikt beikon og grænmeti dreif ég mig út með myndavélina. Aðallega langaði mig að fá mér smá súrefni, en líka að halda áfram að gera tilraunir með nýju linsuna sem Valur gaf mér í jólagjöf. Það var ágætt. Fyrst fór ég út að tjörninni austan við Leiruveg og svo niður að höfninni við Slippinn. Veðrið var svo milt og það var voða gott að vera bara ein með sjálfri sér og myndavélinni í smá stund.

Í gærkvöldi eldaði Valur pitsu og svo horfðum við á mynd með Ísaki. Maður þakkar bara fyrir hvert andartak sem þessir unglingar nenna að vera með foreldrum sínum :-)

Núna er höfuðið á mér í svo miklu rugli því það er svo margt sem mig langar til að gera en þarf í fyrsta lagi að forgangsraða og í öðru lagi er ég enn þreytt eftir jólatörnina, þannig að þreytan hefur vissulega áhrif á það hvað yfir höfuð er hægt að framkvæma af þeim hugmyndum sem ég fæ.

En já mig langar til að:
- Prjóna peysu á Val
- Prjóna peysur á mig
- Sauma græna kjólinn
- Sauma nýjar eldhúsgardínur
- Mála panelinn í eldhúsinu
- Mála endaveggina tvo í stofunni í hlýjum gráleitum lit
- Laga til í geymslunni niðri, þar sem Valur er búinn að setja upp nýjar hillur
- Mála bekkinn í forstofunni
- Taka upp fúguna í eldhúsi/forstofu og láta setja nýja.

Það er nú rík ástæða fyrir þessu síðast talda. Þegar við flísalögðum eldhúsið og forstofuna létum við setja svo ljósa fúgu á milli flísanna og þar að auki er mjög breið fúgan. Svo kom bara í ljós að þessi blessuð fúga er alltaf skítug og í staðinn fyrir ljósa fallega fúgu erum við núna með dökka, blettótta, skítuga fúgu. Eina ráðið til að þrífa hana er að nota sterka sápu og skríða á gólfinu með skrúbb og skrúbba hvern einasta sentimetra. Það gerði ég síðast vorið 2008, rétt áður en ég fékk brjósklosið, og mun ekki gera oftar held ég.

Jæja nú er ég hætt þessu kellingabloggi (eins og Valur myndi kalla það). Njótið dagsins :-)fimmtudagur, 5. janúar 2012

Eftir á að hyggja...

Þá sýnist mér að ég detti í þreytu- og verkjakast undir lok hvers mánaðar. Ég fór að velta þessu fyrir mér og skoða bloggfærslur (segið svo að bloggið sé ekki nothæft til einhvers) frá því í lok október og nóvember, og sá að þar var mjög svipað ferli í gangi og byrjaði núna í lok desember. Þann 26. október er ég að kvarta um þreytu og slappleika og 27. nóvember er sama þema í gangi hjá mér. Núverandi þreytukast byrjaði 26. desember - svo ég sé ekki betur en hér sé eitthvað munstur í gangi.

Ég var reyndar ekki alveg jafn slæm í dag, enda bauð dagurinn ekki uppá mikil læti. Fyrst skrapp ég í vinnuna frá 10-12.30 og dúllaði mér þar við að telja vörur. Svo fór ég heim og borðaði aðeins en rúmlega eitt fór ég svo með mömmu og Ásgrími á jarðarför Irene Gook. Við vorum ekki komin heim aftur fyrr en rúmlega fjögur, og eftir það gerði ég fátt.

Jæja, en alla vega, það verður spennandi að sjá hvort:
a) Ég er áfram að hressast?
b) Hvort ég dett í þreytu og verkjakast í lok janúar?


miðvikudagur, 4. janúar 2012

Áminning til sjálfrar mín !!

Það er ekki heimsendir þó ég sé í slæmu gigtarkasti. Ég dett niður í þvílíka heimsenda-hugsunarháttinn og finnst eins og þessi breyting á mataræðinu, sem lofaði svo góðu, hafi bara verið loftbóla sem sprakk. En ég ætla nú samt ekki að gefast upp á mataræðinu. Ég fann það alveg sjálf þegar annirnar byrjuðu í vinnunni að ég var viðkvæm fyrir þessu viðbótarálagi, þrátt fyrir að vera orðin töluvert mikið betri en áður, og ég verð bara að gefa sjálfri mér tíma til að safna mér saman aftur, án þess að truflast úr stressi yfir þessu öllu saman. Hm, mjög góð íslenska þetta "að truflast úr stressi", eða hitt þá heldur. Í þessum skrifuðu orðum er ég að borða þurrkað kex með reyktri þorskalifur. Lifrin er nú eiginlega svo feit, að það er ekki hægt að borða mikið af henni í einu og kannski ekki það besta í magann svona rétt fyrir nóttina. En lifrin er hinsvegar stútfull af omega 3, svo það hlýtur nú að vera afskaplega gott að úða þessu í sig.

Mamma og Ásgrímur eru niðri núna. Ég hef víst ekki verið sérlega góður gestgjafi í kvöld, var svo ógurlega lengi að ganga frá í eldhúsinu og þrífa alls skyns dósir og dót fyrir endurvinnsluna. Síðan þurfti að taka af snúrunum og setja í þvottavél og hengja upp. Já og hanga aðeins í tölvunni og hringja í Sunnu. Og allt í einu er kvöldið á enda og ekki er ég búin að sníða kjólinn minn ennþá.

Ég hefði nú kannski átt að geta sniðið hann í dag en þá var ég bara svo ógurlega undirlögð öll, að ég gerði fátt. Svaf til rúmlega níu og tók því mjög rólega framundir hádegi. Hef hreinlega ekki hugmynd um í hvað tíminn fór, því það eina sem ég gerði var að skreppa aðeins í vinnuna og keyra mömmu og Ásgrím út í Kjarnalund. Á meðan þau heimsóttu konu þar fór ég í Bónus og gerði svona miðlungs stór innkaup. Svo skutlaðist ég heim með vörurnar og sótti þau aftur og hélt svo áfram að gera ekki neitt þar til ég eldaði kvöldmatinn. Það kom nú til vegna þess að Valur kokkur var ekki heima.

En já, mikið vona ég nú samt að þetta verði stutt og laggott gigtarkast!

Hér fylgir mynd sem ég tók af "engu" á leiðinni frá Kjarnalundi í dag.


mánudagur, 2. janúar 2012

Rannsókn á útgjöldum heimilanna

Ég svaraði játandi þegar í mig var hringt og ég var beðin að taka þátt í rannsókn á útgjöldum heimilanna. Þessi rannsókn er á vegum Hagstofu Íslands, og er einn helsti tilgangur hennar að apfa upplýsinga til að hægt sé að reikna út vísitölu neysluverðs. Sem sagt, afskaplega göfugt og gott að taka þátt í þessu. Svo kom nú póstur frá Hagstofunni, þar sem talað var um að mjög mikilvægt að allir fjölskyldumeðlimir eldri en 12 ára tækju þátt í að skrá innkaup sín. Þetta hafði ekki verið nefnt í bréfinu sem stílað var á mig upphaflega. Jæja, rúsínan í pylsuendanum var þó sú, að ætlast var til þess að hver og einn fjölskyldumeðlimur hefði litla bók með sér, svo hægt væri að skrá innkaupin jafnóðum. En - einungis ein bók var í umslaginu - og hér eru jú 4 manns í heimili, öll yfir 12 ára aldri. Maður skyldi nú ætla að Hagstofan, eitt helsta upplýsingasafn landsmanna, byggi yfir þeirri nútímatækni að geta talið hve margir hausar eldri en 12 ára væru skráðir til viðkomandi heimilis...

Annars er bara allt meinhægt. Ég hefði átt að vera að vinna seinni part í dag, en við Sunna höfðum ákveðið að vera saman fyrripartinn og fá Torfa til að vinna seinni partinn. Það var ýmislegt sem þurfti að gera og við vorum að vinna í auglýsingamálum, græja launin fyrir desember ofl. Svo ætluðum við líka að taka skurk í vörutalningu en það fór svo mikill tími í hitt dótið, að við töldum ekki neitt.

Eftir vinnu kíkti ég aðeins í Benetton aftur, bara svona til að sjá hvort ég gæti gert fleiri kjarakaup... en sá nú ekkert svona í fljótheitum. Var líka orðin svo lúin og steikt í hausnum að ég hugsaði að best væri að koma sér heim. Valur gaf mér svo kaffi um hálf fimmleytið þegar hann kom heim, og við það hresstist ég aðeins. Nógu mikið til að setjast hér og blaðra frá mér allt vit. Ég ætlaði nú eiginlega að fara að draga upp sniðið að kjólnum sem ég á alltaf eftir að sauma, og kannski ég geri það bara þegar ég stend upp frá tölvunni.

Á morgun koma mamma og Ásgrímur og ég á eftir að skipta á rúminu niðri, má ekki gleyma því. En hér má sjá efnið í kjólinn, já og sniðið. Ég tók þessa mynd í gær fyrir ljósmyndadagbókina. Það getur nú verið pínu snúið að eiga að "framleiða" mynd á dag. Í gær var ég t.d. nærri búin að gleyma að taka mynd dagsins...

sunnudagur, 1. janúar 2012

1. janúar 2012

Einn af þessum dögum sem maður vildi geta veifað töfrasprota og breyst úr hálf þunglyndum letingja í manneskju sem er full af orku og framkvæmir hluti í stað þess að hugsa bara um þá. Hm, hljómar nú kannski ekki vel að byrja nýja árið á þessum nótum, veit ekki alveg hvaða melankolia vofir yfir mér í dag. Sennilega hefur það eitthvað með málið að gera að ég hef verið óvenju slæm af vefjagigt og þreytu undanfarið og ég kann ekki frekar en venjulega að vinna úr tilfinningunum sem því fylgir.

Gærdagurinn var ósköp rólegur. Ég var að vinna frá 10-12.30 og eftir vinnu gerðist fátt markvert. Ég reyndar lagaði aðeins til í húsinu og var eitthvað að stússast, og fór svo í göngutúr með Rósu vinkonu sem er hér stödd núna. Það er alltaf gaman að ganga með góðri vinkonu og spjalla saman. Eftir göngutúrinn var ég aðeins að æfa mig í ljósmyndun, þ.e.a.s. að nota þrífótinn og taka myndir á tíma. Náði einni ágætri sem ég tók hér af tröppunum fyrir aftan hús.

Valur sá um kvöldmatinn, lambafillé, sem var afskaplega bragðgott. Í forrétt var hörpudiskur en kaffi og koníak í eftirrétt. Ísak drakk nú hvorki kaffið né vínið, bara svo það komi skýrt fram ;)  Enginn hafði lyst á rjómaís eða öðrum sætindum. Við vorum svo bara hér heima í rólegheitum og ekki einu sinni neinir flugeldar sprengdir. Það var nú kannski ekki alveg við hæfi svona á gamlárskvöldi, en ég fór í eldhúsþrifa-æðiskast eftir kvöldmatinn og þreif bæði eldavélina og ofninn. Það er svona þegar þrifa-andinn kemur yfir mann, þá er ekki spurt að stund né stað.

Eftir miðnætti fór Andri á flandur, Ísak í tölvuna og við gamla settið fórum tiltölulega snemma í háttinn. Það bjargaði því samt ekki að í dag var ég svo þreytt og hálf fúl eitthvað. Kannski svaf ég bara of lengi frameftir. En vá hvað ég vildi eiga svona töfrasprota eins og ég óskaði eftir að nota í upphafi færslunnar. Það tekur alltof mikið á að eyða heilum degi í leti og aumingjaskap, hehe ;)

Ég gæti nú til dæmis lesið eitthvað skemmtilegt þegar ég er í fúllyndishorninu, í stað þess að væla og vorkenna sjálfri mér. Ég reyndar kláraði að lesa Gamlingjann á jóladag og verð að segja að eftir ágætis byrjun, fór mér að leiðast sú bók. Frásagnarmátinn sem í upphafi var bara nokkuð skemmtilegur og minnti á Góða dátann Svejk, varð einhvern veginn of yfirgengilegur og hélt ekki athyglinni hjá mér nema ósköp takmarkaða stund í einu. Svo fékk ég bók, sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu, frá Sunnu í afmælisgjöf og á alveg eftir að lesa hana. Ég gæti líka sniðið kjól, því ég á bæði efni og snið. Talandi um kjóla þá keypti ég kjól með 40% afslætti í Benetton 30. des. og er mjög ánægð með hann, svo það ætti nú að geta glatt mig. Annað sem ég gæti gert er að ákveða eitthvað prjónaverkefni. Ég á t.d. bæði bláan plötulopa og slatta af svörtum léttlopa og gæti gert eitthvað úr þeim efnivið. Mig langar að prjóna peysu á sjálfa mig en veit bara ekki hvernig peysu mig langar mest í. Enn eitt sem ég gæti gert er að laga til í geymslunni niðri. Valur keypti nefnilega nýjar hillur rétt fyrir jól og setti þær upp, en það á alveg eftir að fara í allsherjar tiltekt og raða fínt í hillurnar.

Og nú er ég barasta búin að skrifa mig í betra skap - svo allir geta varpað öndinni léttar ;-) Kannski ég fari þá bara að framkvæma eitthvað af öllum þessum atriðum hér að ofan.