miðvikudagur, 25. september 2013

Leitin endalausaLöngu áður en ég var formlega greind með vefjagigt, var ég farin að afla mér upplýsinga um það hvað ég sjálf gæti gert til að bæta ástand mitt. Á þeim tíma voru reyndar ekki jafn miklar upplýsingar í boði um vefjagigt og/eða síþreytu og netið ekki jafn öflugt og í dag. En ég komst fljótt að því, að þar sem svo lítið er vitað um orsök vefjagigtar þá voru það mikið til getgátur, hvaða leiðir væru vænlegar til betri líðunar.  Sumt var þó búið að sýna fram á með rannsóknum að hjálpaði s.s. hæfileg hreyfing, hollt mataræði og að fá nægan svefn. Þetta með svefninn er reyndar ekki alveg auðvelt viðureignar, því eitt aðaleinkenni vefjagigtar er slæmur svefn. Fólk vaknar ekki endurnært eftir nóttina. Læknar skrifa oft uppá Amilín fyrir fólk, en það er gamalt geðlyf sem gerir það að verkum að fólk nær dýpri svefni. Þetta lyf virkar vel fyrir suma en hjá mér var það þannig að ég þurfti alltaf stærri og stærri skammt til að fá sömu áhrif, svo ég hætti einfaldlega að taka það.

Einhvern tímann síðar prófaði ég lyfið Cymbalta sem var þá nýlega búið að samþykkja í Bandaríkjunum sem lyf við vefjagigt. Það var nákvæmlega sama sagan, fyrst í stað fannst mér það gera mér gott en eftir því sem tíminn leið dvínuðu áhrifin, ég þurfti stærri skammta og hætti svo bara. Þetta var fyrir meira en 10 árum og síðan leið langur tími þar til ég tók aftur lyfseðilskylt lyf við vefjagigtinni. 

Svo kom tímabil þar sem ég prófaði aragrúa af hinum ýmsu vítamínum og bætiefnum, og troðfyllti heila hillu í eldhússkápnum af þessu dóti öllu. Núna er er ég búin að tæma hilluna og gefa vítamínin upp á bátinn. Það er að segja, allt nema eina fjölvítamíntöflu á dag, krillolíu (omega3), D vítamín og svo reyndar byrjaði ég að taka Q10 um daginn og ætla að halda því áfram (rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi þess við vefjagigt).

Ég hef stundað hóflega hreyfingu (sund, gönguferðir, leikfimi fyrir vefjagigtarfólk) og reglusamt líferni. Eins hef ég tekið mataræðið í gegn og hélt fyrst eftir að ég greindist með mataróþol fyrir glúteini, mjólkurvörum og eggjum að þar væri lausnin loks fundin, en það var víst ekki svo gott. Samt líður mér á margan hátt mun betur þegar ég sleppi því að borða þessa óþolsvalda - sem ég geri í 95% tilfella.

Þreytan, úthaldsleysið og gigtarköstin héldu samt áfram að vera hluti af lífi mínu og þar sem breytt mataræði var ekki lausnin á öllum mínum vandamálum, þá hélt ég áfram að leita. Fyrir rúmu ári síðan ákvað ég að prófa LDN en það er lyf sem hefur reynst sumum vel, t.d. sjúklingum með MS en einnig virðist það hafa góð áhrif á sumt fólk með vefjagigt. Svefninn skánaði töluvert eftir að ég byrjaði á þessu lyfi og kannski var ég örlítið orkumeiri framan af en í raun hef ég ekki séð þann árangur sem ég vonaðist eftir.

Ég er löngu hætt að hlaupa eftir öllum töframeðulum (og hef reyndar aldrei gert) en núna nýlega sá ég samt umfjöllun um eitthvað sem mér fannst að gæti hugsanlega hjálpað mér. Það er fyrirbæri sem kallast „Earthing eða grounding“ á ensku og snýst um að „jarðtengjast“ ef svo má að orði komast. Til dæmis með því að ganga berfætt(ur) á jörðinni, eða nota sérstakar mottur og/eða lök sem hönnuð hafa verið til að ná sömu áhrifum.

Það var maður að nafni Clint Ober sem áttaði sig á því að við mannfólkið göngum jú í skóm og skósólar úr gúmmíi einangra okkur frá jörðinni. Ober vann á árum áður við að leggja sjónvarps-kapalkerfi í Bandaríkjunum og það var ekki fyrr en síðar, þegar hann var hættur í þeim bransa, að hann eiginlega óvart áttaði sig á nauðsyn þess að „jarðtengja“ fólk á sama hátt og rafmagnstæki. Hann gerði smá tilraun á sjálfum sér, sem fólst í því að hann vafði einangrunarlímbandi utan um rúmið sitt, festi vír við það og leiddi vírinn út í garð, þar sem hann stakk pinna í jörðina. Viti menn, hann svaf vært í fyrsta sinn í mörg ár. Í kjölfarið fór hann að jarðtengja ættingja og vini, og allir fundu mikinn mun á sér. Fólk hvíldist betur og fannst það finna margvíslegan annan ávinning.

Ober áttaði sig fljótt á því að hann hefði gert stórmerkilega uppgötvun, þó hann vissi svo sem ekki af hverju þetta virkaði svona vel (hvað nákvæmlega gerðist í líkamanum). Það tók hann töluverðan tíma að ná athygli fræðimanna með þessa uppgötvun sína, en það hafðist fyrir rest, og gerðar hafa verið vísindalegar rannsóknir sem sýna fram á góð áhrif jarðtengingar.

Ég rakst fyrst á umfjöllun um „Earthing“ fyrir 1-2 árum síðan. Það var hjá Dr. Mercola en ég gerði ekkert meira með það þá. Svo fyrir nokkrum vikum síðan hnaut ég aftur um þetta efni einhvers staðar á netinu og fann svo bók á pdf formi, sem ég las og lét í framhaldinu sannfærast um að þetta væri sniðugt. Byrjaði að fara berfætt út í garð og spígspora þar fram og aftur. Var þakklát fyrir að lóðin okkar er nokkuð lokuð af, því ég hafði pínu ponsu áhyggjur af því hvað fólk sem sæi mig kynni að halda. Sérstaklega þegar farið var að kólna í veðri, enda frekar fyndið að vera úti í dúnúlpu með húfu og vettlinga - berfætt :-) Hehe, þar fyrir utan er mér nú annars nokkuð sama hvað fólk heldur um mig. Samt kom sér vel að geta staðið og tínt rifsber af runnunum, og slegið þannig tvær flugur í einu höggi, því rifsberjauppskeran hefur aldrei verið jafn mikil, og ég kunni eiginlega betur við að hafa eitthvað að gera meðan ég var að tengjast jörðinni þarna úti á lóð.

En málið er að mér fannst þetta hafa góð áhrif á mig. Bæði varð ég orkumeiri og ég er ekki frá því að þetta hafi jafnvel haft góð andleg áhrif líka. Þannig að eftir að hafa prófað þetta í ca. 1-2 vikur ákvað ég að láta slag standa og panta mér lak í rúmið, og mottu sem hægt er að hafa á gólfinu t.d. þegar unnið er í tölvu. Í lakið eru ofnir silfurþræðir og lakið er síðan tengt við jarðtengda innstungu. Það er samt ekki rafmagnið sem er verið að nota sem slíkt, bara jarðtengingin. Eins fylgir stálpinni sem hægt er að leiða út um gluggann og stinga í jörðina fyrir utan svefnherbergisgluggann, svona ef maður vill frekar nota þá aðferð.

Nú er ég búin að sofa með þetta lak í 1 viku og áhrifin eru bæði góð og slæm. Ég sef mun betur, sem er gott. Er greinilega að ná dýpri svefni og vakna bara einu sinni á nóttu en ekki tvisvar eða þrisvar eins og ég var vön. Hins vegar virðist ég vera að upplifa það sem fjallað er um í bókinni:
Some people suffering with chronic inflammation, fibromyalgia, fatigue, anxiety, and depression, or who are taking many pharmaceutical drugs, may feel malaise or flu-like symptoms when they initially ground themselves at night. They may, of course, actually have the flu, which has nothing to do with the effects of Earthing. But if not, it is very likely that the grounding has triggered a detoxification response in the body and promoted the release of toxins. As toxins pass through and out the system, a positive process, you could feel as if you had a flu, with perhaps some nausea or even diarrhea. When this happens, it may be advisable to cut back on the grounding, and start with perhaps an hour a day, and then slowly increase the time.
Ég byrjaði á því að vera með slæman höfuðverk í 3 sólarhringa samfleytt, í gær var ég orðin mjög slöpp, og í dag kom höfuðverkurinn aftur, með brjáluðum beinverkjum og mikilli veikindatilfinningu. En eigum við ekki bara að segja að fall sé fararheill? - Ég hef að minnsta kosti ennþá miklar væntingar um að þetta geti verið eitthvað sem muni gagnast mér. Og af því ég hef trú á þessu, þá langaði mig að skrifa um þetta hér, svona ef fleiri vildu kynna sér málið og gætu hugsanlega notið góðs af.

OK þetta er orðinn býsna langur pistill hjá mér, en hérna rétt í lokin er myndband sem skýrir Earthing/grounding í frekar stuttu máli.

3 ummæli:

Fríða sagði...

Þetta hljómar eins og mín líðan þegar ég hætti skyndilega að drekka kaffi.Þ.e. áhrifin af að sofa á þessu laki.

Álfheiður Karlsdóttir sagði...

Þetta finnst mér mjög áhugavert Guðný! Hvar og hvernig fær maður sér svona lak og dýnu. Ég hef alltaf haft mikla trú á náttúrunni og að tengjast henni eins og þú lýsir svo vel hér að ofan. Hefði gaman af að lesa meira um þetta :-)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Ég pantaði mér lak í rúmið og mottu sem hægt er að nota hvar sem er (t.d. við skrifborðið, eða þegar horft er á sjónvarp) hjá http://www.earthing.com/Default.asp Núna sé ég að tengillinn sem ég setti inn á bókina sem fjallar um Earthing er ekki virkur lengur, en það er hægt að fá heilmiklar upplýsingar með því að gúggla "earthing" eða "grounding". Svo fékk ég reyndar senda bók með pöntuninni, og það er alveg sjálfsagt að lána þér hana.