fimmtudagur, 29. apríl 2010

Hrefna segir að ég eigi að blogga um kettina

Líklega finnst henni efnisval móðurinnar þegar kemur að bloggfærslum fremur einhæft. Og hvað get ég þá sagt um kettina? Jú, þau lifa bara kóngalífi hér í Stekkjargerði 7. Fengu meira að segja túnfisk að borða í gær, þar sem maturinn þeirra var búinn og húsfrúin nennti ekki strax af stað að kaupa mat. Það fundust þeim nú ekki slæm skipti, að fá girnilegan túnfisk í olíu í staðinn fyrir þurran pakkamat. Enda sleiktu þau vel og lengi útum. Þau voru örugglega í hálftíma á eftir að sleika sig og snurfusa með þessu fína túnfiskbragði á tungunni.

Annars eru þau voða kát þessa dagana þar sem snjórinn er loks farinn og þau komast óhindrað út að velta sér upp úr jörðinni. Máni hafði nú aldeilis himininn höndum tekið um daginn, en þá gat hann vel sér upp úr miklum rykbing hér úti á stétt. Reyndar breytti hann um lit í kjölfarið og varð drullugrár á litinn frá toppi til táar en honum stóð nokk á sama um það. Mér stóð hins vegar ekki á sama, enda ekki skemmtilegt að fá öll þessi óhreinindi inn í húsið. Hann var í kjölfarið lokaður inni í þvottahúsi á meðan hann þvoði af sér mestu drulluna.

Það er reyndar allt í drullu enn á neðri hæðinni. Svo ótrúlega mikið ryk sem kemur af svona framkvæmdum. Og ég ákvað einhvern tímann í ferlinu að ég ætlaði ekkert að þrífa fyrr en öll óhreinindavinna væri búin. Þannig að það eru ennþá svoleiðs þykk lög af múrryki yfir öllu á ganginum. En nú er þetta allt að klárast svo ég mun ábyggilega fara í að þrífa almennilega í dag eða í síðasta lagi um helgina.

Nú þarf ég að fara að koma mér í sturtu, fá mér morgunmat og græja mig fyrir vinnuna.
Já, og bara svona í óspurðum fréttum, þá er ég búin að klára að prjóna peysuna á Ísak. Á bara eftir að ganga frá endum, lykkja saman undir höndunum og þvo hana. Ætli ég leiti ekki á náðir Hrefnu eldri með að setja rennilásinn í, eins og venjulega.

miðvikudagur, 28. apríl 2010

Nýtt svefnmet

Já þau falla enn og aftur metin hjá mér í löngum svefni. Ég fór í háttinn um tíuleytið í gær og hef líklega verið sofnuð um hálf ellefu. Var reyndar endalaust að vakna í nótt, einhverra hluta vegna. Vaknaði á bakinu og snéri mér á hægri hliðina. Vaknaði aftur liggjandi á bakinu og snéri mér aftur á hliðina - og svona gekk þetta. En sem sagt, ég fór á fætur klukkan hálf átta til að vekja Ísak í skólann og græja nestið fyrir hann (já ég veit, voða góð mamma að sjá um nestið fyrir 15 ára gamlan fullfrískan strák - ég þekki samt eina sem dekrar mun meira en það við dætur sínar). Svo fékk ég mér te og ristað brauð og las bæði blöðin - en skreið svo aftur upp í rúm. Byrjaði á að lesa aðeins en steinsofnaði svo um níuleytið. Og fór ekki á fætur fyrr en að verða eitt. Svaf reyndar frekar köflótt en var samt steinsofandi megnið af tímanum. Ég ætlaði nú að fara að skamma sjálfa mig alveg ægilega fyrir þessa leti en ákvað að sleppa því. Held að það hljóti bara að vera gott fyrir líkamann að fá góðan svefn þegar maður er hálf lasinn. Hins vegar þýðir þessi gríðarlega afslöppun það, að húsið er ennþá allt á tjá og tundri. Það er að segja, ekki er búið að taka úr uppþvottavélinni og ganga frá í eldhúsinu, og ýmis önnur tiltekt sem ég hafði ætlað mér að gera varð ekki að veruleika. Nú er klukkan að verða tvö og ég er búin að mæla mér mót við tvær vinkonur mínar á kaffihúsi klukkan hálf fimm. Þannig að í teoríunni hef ég tvo og hálfan tíma til að fara eins og Ajax stormsveipur um húsið. En einhver lítil rödd segir mér að það sé ekki að fara að gerast. Ég er greinilega drulluslöpp ennþá eftir þessa pesti, þó vissulega sé alveg draumur í dós að vera laus við eyrnaverkinn og augnverkinn sem hrjáði mig í gær. Inni í stofu bíður líka lopapeysan hans Ísaks, ásamt nokkrum blöðum og bókum sem ég tók á bókasafninu í gær, þannig að mér sýnist allt stefna í áframhaldandi rólegheit af minni hálfu.

þriðjudagur, 27. apríl 2010

Líður skár af kvefinu

Sem betur fer. En af því vælubíllinn var að keyra hér framhjá (djók) þá ætla ég samt að væla aðeins. Er nefnilega að drepast úr bólgu í tannholdi og alveg brjáluðum eyrnaverk. Það er nú svo skrítið að parkódín dugar ekki á eyrnaverkinn og þrátt fyrir að hafa verið bryðjandi verkjatöflur í allan dag þá er ég enn með þennan svaka verk í eyranu. Kannski tengist hann tannholdsbólgunni - nú eða þá kvefinu. Skiptir ekki öllu máli, hann er jafn óþolandi fyrir því.

Annars fór ég í vinnu í dag og það gekk bara ágætlega. Var svo "heppin" að það var lítið að gera þannig að ég tók því bara mjög rólega. Kippti með mér lopapeysunni hans Ísaks, sem nú fer alveg að verða búin, og prjónaði nokkrar umferðir. Ætlaði svo að prjóna á fullu þegar ég kæmi heim úr vinnunni en hef ekki snert á þessu ennþá. Hálf undirlögð eitthvað öll af þessu kvefi. Hm, það er nú frekar undarlegt að tala um kvef þegar enginn er hóstinn. En hvað um það. Nú þarf að ákveða hvað á að vera í kvöldmatinn og ég get ekki beint sagt að hugmyndirnar streymi fram. Ef ég hefði verið kokkurinn þá hefði örugglega ekki verið neinn matur í kvöld. En Valur vill yfirleitt alltaf elda mat og finnst "snarl" ekki vera matur. Það krefst þess þá líka að okkur detti eitthvað í hug til að elda. Og helst eitthvað fljótlegt því hann er á fullu niðri að hjálpa smiðnum við að leggja parkettið (held ég). Að minnsta kosti er hann á fullu að gera eitthvað, því ekki slappar hann af frekar en fyrri daginn. Afslöppun finnst ekki í hans orðaforða. Svo má alltaf deila um það hve hollt það er að halda stöðugt áfram og keyra sig alltaf á 100% afköstum - en það er nú önnur saga.

mánudagur, 26. apríl 2010

Í sól og sumaryl - inni í herbergi...

Það er alveg yndislegt veðrið úti en sem sagt, ég sit hér inni og get ekki annað. Ja, eða get og get. Ég gæti svo sem farið út en vandamálið er að ég er búin að krækja mér í einhverja pesti og er svo hrikalega slöpp að ef ég hreyfi mig örlítið þá er ég alveg búin á eftir.

Þetta er nú búið að vera smá stund að malla í mér. Á fimmtudaginn eftir vinnu var ég t.d. alveg að drepast úr "beinverkjum" og eins á föstudagsmorgninum. En ég harkaði af mér og fór að dunda mér við að færa til hluti búðinni og tókst að gleyma mér við það. Fór svo í konuklúbb en þurfti að hafa virkilega fyrir því að halda andlitinu þar. Svo á laugardaginn var ég að vinna en var þá orðin ansi framlág á tímabili. Te og sykursæt smákaka náðu að bjarga mér fyrir horn samt og lyfta orkunni aðeins þannig að ég hélt haus til klukkan fimm. En um kvöldið var ég alveg að drepast úr verkjum í augunum og svoleiðis full af hori. Og í gær gerði ég nákvæmlega ekki neitt nema hvíla mig. Lá í rúminu megnið af deginum. Fór reyndar og sótti brauðstangir handa okkur í kvöldmatinn.

Valur var nefnilega líka drulluslappur í gær. Hann reyndar vaknaði hress um sjöleytið og fór niður að vinna í herberginu sínu en um hádegisbilið var hann orðinn frekar grár í framan og fullur af hori. Já, þetta eru skemmtilegar lýsingar... ég veit. En eins og hans er von og vísa þá dreif hann sig í vinnu í morgun, en ég fékk Önnu til að taka helminginn af minni vakt á móti mér. Þannig að ég fer ekki að vinna fyrr en rúmlega fjögur. Stefni á algjöra afslöppun þangað til. Mér fannst ég samt vera hressari í morgun þegar ég vaknaði (eftir að hafa legið í rúminu í ca. 12 tíma) en um leið og ég fékk mér að borða þyrmdi yfir mig aftur. Greinilega of mikil vinna fyrir líkamann að halda mér uppréttri og melta mat á sama tíma ;)

Æ, ég veit að þetta er óskaplegt væl en eins og venjulega eftir að hafa vælt aðeins, þá líður mér betur.

Og nú ætla ég að leggjast inn í stofu með tærnar upp í loft.

fimmtudagur, 22. apríl 2010

Gleðilegt sumar


Gleðilegt sumar, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég hefði reyndar getað farið út og tekið mynd af "sumrinu" hér á Akureyri, svona eins og það lítur út þessa stundina (snjór, blár himnin og sól), en valdi eina gamla í staðinn. Eins og þið sjáið er minnst af henni í fókus en það þykir voða fínt hjá sumum ljósmyndurum að hafa myndirnar þannig.

Sú var tíðin að á sumardaginn fyrsta fór ég í skátaskrúðgöngu, svo í skátamessu og loks heim að borða lambalæri með fjölskyldunni. Those were the days... :) Núna er fátt sem gerir þennan dag sérstakan. Enn fara þó skátarnir í skrúðgöngu og messu, og ég velti því jafnvel fyrir mér í smá stund áðan að skella mér í messuna kl. 11. En þar sem ég er að vinna kl. 13 þá fannst mér að ég myndi lenda í tímahraki, því ég þarf jú að komast heim og borða í millitíðinni og ekki veit ég hvað messan stendur lengi. Varla lengur en klukkutíma þó, svona þegar ég fer að velta því betur fyrir mér. En jæja, ég fer samt hvergi. Ætla að reyna að prjóna nokkrar umferðir, það er helsta markmið dagsins. En þar sem ég hef verið með svo bólgna eitla undir höndunum undanfarið (og verki út frá þeim, sem leiða niður meðfram síðunni), þá hef ég ekki mikið úthald í prjónaskap. Þá eru það bara "lítil skref" sem blíva. Að setjast oftar niður og gera minna í einu. Segið svo að ég læri aldrei af reynslunni :)

þriðjudagur, 20. apríl 2010

Lélegur bloggari

Já annað hvort blogga ég daglega, eða ekki neitt svo dögum skiptir. Sennilega fer það ekki einu sinni eftir því hvort eitthvað er í fréttum eða ekki, ætli það sé ekki bara spurning hvort ég er með munnræpu eða ekki. Svo finnst manni kannski hálf kjánalegt að vera að blogga um sitt litla líf þegar eldgos er að trufla líf svo margra annarra. En alla vega, ég er á lífi og allir í kringum mig líka :) Mér finnst reyndar stórundarlegt að veturinn skuli bráðum vera á enda og styttist í próf og svoleiðis leiðindi. Og svo kemur sumarið með sínum endalausu spurningum um sumarfrí, afleysingar í vinnu o.s.frv.  Vonandi líka einhverjum skemmtilegum upplifunum :)

fimmtudagur, 15. apríl 2010

Sáttari í dag :)

Vaknaði á viðeigandi tíma og fór í sund um áttaleytið. Mikið sem það var nú gott :) Og gaman að hitta kellurnar og spjalla aðeins í búningsklefanum. Svo var mér boðið að vera með í leikfiminni (þessu sem voru einu sinni Mullersæfingar en eru aðallega teygjur og styrktaræfingar) en ég afþakkaði í þetta sinn. Kannski seinna...

miðvikudagur, 14. apríl 2010

Ekki mjög sátt við sjálfa mig í augnablikinu

Málið er að ég á frí í dag og ætlaði að nota tímann í eitthvað gáfulegt. Hafði hugsað mér að fara í sund og svo ætlaði ég meðal annars að fara í Bónus og helst að hitta vinkonu mína. Þegar ég vaknaði í morgun var ég hins vegar svo óskaplega þreytt að ég orkaði ekki að fara í sund og fór aftur upp í rúm um hálf níu leytið. Sofnaði nú reyndar ekki strax en svaf svo hvorki meira né minna en til hálf tólf! Geri aðrir betur. Og af því þetta var svona öfugsnúin byrjun á deginum þá á ég svo erfitt með að koma mér í gírinn. Samt er klukkan ekki orðin eitt og enn langt eftir af deginum. Ég heyrði líka í þessari vinkonu minni og hún gat ekki hitt mig, svo þá er það bara Bónusferðin sem stendur fyrir dyrum. Já og það að þvo einhverjar fjórar þvottavélar eða svo. Einnig væri ekki úr vegi að nýta sér vorvindana sem blása úti og fá smá súrefni í blóðið.

Jahá, þá er Birta lögst í sólbað uppi á skrifborðinu mínu. Það útskýrir betur hvernig stóð á því að skrifborðið var óvenju mikið útatað í kattarhárum þegar ég kom heim frá Reykjavík. En jæja, ætli sé ekki best að drífa sig í að reyna að bjarga andlitinu og reyna að koma sér að verki.

þriðjudagur, 13. apríl 2010

Frábært veður úti

og ég sit inni við tölvuna. Fussum svei, eins og Soffía frænka í Kardimommubæ hefði örugglega sagt. Ég gekk í og úr vinnu í gær og fannst það æðislegt. En í dag er ég bara eitthvað svo lúin og er engan veginn að nenna út þó ég viti að ég hefði gott af því. Já, ég veit að ég hefði gott af svo mörgu, en það er ekki það sama og að framkvæma þá. Nú langar mig hreinlega mest til að fá mér hænublund. Það er hvort sem er ekki matur strax því Valur er að aðstoða smiðina í kjallaranum. Máni sefur við hliðina á mér og Birta sefur á ofninum inni í þvottahúsi. Enginn skammar þau fyrir að sofa þó það sé sól úti...


Annars gekk suðurferðin vel í alla staði.  Á leiðinni suður mættum við óteljandi bílum fullum af ungmennum á leið norður, en söngvakeppni framhaldsskólanna var jú um helgina. Eftir að hafa komið okkur fyrir á hótelinu fór Ísak í sturtu og svo drifum við okkur í Perluna, þar sem sunnanliðið (foreldrar Vals, bræður, makar og einhver barnabörn + þeirra makar) biðu eftir okkur. Maturinn heppnaðist ágætlega, þó vissulega hefði borðhaldið verið afar langdregið, því við þurftum að bíða svo lengi eftir hverjum rétti fyrir sig. En það var bara gaman að vera þarna með þessum hópi og ekki fyrr en í lokin að tímalengdin var farin að segja til sín. Við gistum á íbúðahóteli við Laugaveginn, við hliðina á tveimur skemmtistöðum, en sváfum samt eins og steinar (eða nálægt því alla vega).

Á laugardeginum fórum við á kaffihús og fengum okkur morgunmat en svo fór Valur í ýmsar útréttingar og við Ísak fylgdum með. Um tvö/þrjúleytið var ég orðin þreytt og Ísak leiður á flandri, svo við fórum heim á hótel. Þar steinsofnaði ég og svaf að minnsta kosti einn og hálfan tíma. Var alveg rotuð þegar ég vaknaði. Svo skruppum við aðeins til Guðjóns og Eddu, því þar var Hrund með litla Guðjón Atla sem fæddist á afmælisdeginum mínum. Svo fórum við út að borða og í bíó um kvöldið því Ísak langaði í bíó. Skruppum reyndar örstutt til Hjartar og Guðbjargar eftir bíóið.
 
Á sunnudagsmorgni fórum við í morgunmat til tengdó, og brunuðum svo heim á leið. Vorum komin heim fyrir fjögur, sem var ágætt því þá gat gamla konan náð að hvíla sig aðeins.

Ég tók myndavélina með og smellti af nokkrum myndum,  bæði á leiðinni suður og eins í afmælinu. Þetta mótíf þekkja sennilega allir.
Séð yfir Skagafjörð. Svo fallegur blár litur :)
Stórt rigningarský yfir Borgarnesi.
Svona var veðrið orðið þegar við nálguðumst höfuðborgina. Hér að fara í göngin.
Gunna og Matti skoða matseðilinn.
Arnaldur, sonur Hjartar og Guðbjargar, með Ólöfu kærustunni sinni.
Dagur Hjartarson og Helena kærastan hans. Gunna og Matti í baksýn.
Guðjón bróðir Vals, Edda konan hans og svo Ísak Freyr.
Hér sést í hnakkann á Guðjóni, vangasvipurinn á Vali og svo Guðbjörg, Hjörtur og sonur þeirra Marteinn.
Með eftirréttinum fylgdi þessi fína "kerta"skreyting sem skíðlogaði fyrir afmælisbarnið :)

fimmtudagur, 8. apríl 2010

Úff ég er alveg að sofna

Og klukkan ekki orðin átta. Þannig að það er víst einum of snemmt að fara að hátta...

Það tekur greinilega á að byrja aftur að vakna klukkan hálf átta á morgnana, eftir letidaga um páskana. Og geisp!! Þetta er hrikalegt. Ég sem ætlaði að fara að gera við peysur af mér, einar þrjár, hvorki meira né minna. Þar af eru tvær frá því í fyrravetur, sem ég hef ekkert getað notað í vetur af því það eru göt undir höndunum á þeim. Meira framtaksleysið. En það hefur orðið útundan hjá mér að þvo af sjálfri mér undanfarið og sífellt erfiðara að finna föt til að fara í í vinnuna. Svo ég neyðist víst til að þvo og staga í göt ;)

Annars stendur til að við Valur og Ísak skreppum suður á morgun. Það verður víst bara stutt skrepp eins og venjulega, en kom óvænt uppá þar sem Valur átti að vera á helgarvakt en fékk skyndilega frí. Þá datt honum í hug að fara og ég ákvað að skella mér með honum sem sérlegur ráðgjafi í sófamálum. Hann ætlar nefnilega í Ikea að skoða sófa fyrir hljóðstofuna sína sem bráðum verður tilbúin. Þetta verður nú bara laugardagurinn í Reykjavík og ekki margt hægt að gera á einum degi, það er nokkuð ljóst.

Svo datt Val líka í hug að bjóða pabba sínum og mömmu út að borða annað kvöld, því á morgun verður pabbi hans 85 ára. Það varð úr að þeir bræður munu allir fara ásamt mökum, foreldrum og einhverjum börnum, þannig að allt stefnir í hina ágætustu afmælisveislu á morgun.

En já, ætli sé ekki best að koma sér í þessar peysuviðgerðir.

miðvikudagur, 7. apríl 2010

Páskadagur

Svona var veðrið fallegt seinni partinn á páskadag. Annars var ekki sérlega gott veður þessa páska, svona í heildina tekið. Hins vegar er alveg yndislegt veður akkúrat núna, eða bara svipað og sést á þessari mynd :) Ég er að hugsa um að labba smá hring úti í góða veðrinu. Vá, og fór líka í sund í morgun... bara dugleg í dag :)

sunnudagur, 4. apríl 2010

Lata stelpan...

var heiti á bók sem Hrefna átti þegar hún var lítil. Stelpan var svo löt að hún var alltaf ógreidd, í skítugum fötum og hjá henni var líka allt skítugt. Ekki man ég hvað það var sem leiddi hana á rétta braut, en að lokum sá hún villu síns vegar og snarbreytti um lífshætti. Ekki man ég heldur af hverju ég fór að hugsa um þessa bók núna. Sennilega vegna þess að ég hef verið að gagnrýna sjálfa mig fyrir leti í dag. Og það eru sko engar ýkjur að segja að ég sé löt. Nenni bókstaflega engu. Er ekki búin að fara í bað og þó það hafi hvarflað að mér að gaman gæti verið að fara í sund þá nennti ég því ekki. Svo var sól og fallegt veður og mér datt í hug að það gæti nú verið hressandi að fara út að ganga - en ónei, ekki nennti ég því. Nú svo sit ég fyrir framan tölvuna af því ég ætlaði að fara að færa bókhald en ... nenni því ómögulega. Veit samt að ég mun gera það eftir smá stund. Það er bara alltaf erfiðast að byrja.

Ég er líka eitthvað dösuð eftir gærdaginn. Þá var ég fyrst að vinna og fór svo í Íþróttahöllina að fylgjast með úrslitum í módelfitness, en Sunneva kærastan hans Andra var að keppa þar. Það var reyndar verið að keppa til úrslita í fleiri fitness greinum, svo þetta tók allt dálítið langan tíma. En henni gekk mjög vel stelpunni, lenti í öðru sæti í sínum hæðarflokki og allir glaðir með það.

Annars er merkilegt hvað maður þarf alltaf að vera að skilgreina sig út frá því hvað maður er duglegur. Ef maður gerir fátt, er maður þá eitthvað síðri fyrir vikið? Mér finnst margir vera svona, ekki bara ég, að vera sífellt í einhverri vörutalningu.. búinn að gera þetta, búin að gera hitt, þá hlýt ég að vera frábær manneskja. Og ef listinn er ekki þeim mun lengri... þá er eitthvað að manni. Jamm og jæja, gleðilega páska öllsömul :)

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Vatns-strætó-stoppistöðVenetian bus stop, originally uploaded by Guðný Pálína.
Ég skrapp áðan út í Intersport og keypti mér nýjar "heimabuxur". Það eru buxur sem þurfa ekki að vera sérlega fallegar, en umfram allt þægilegar. Önnur skilyrði eru þau að liturinn þarf helst að vera ljós svo kattarhárin, sem óhjákvæmilega munu setjast á efnið, sjáist ekki jafn vel. Í gær fór ég með Val í Byko að velja kalkmálningu fyrir herbergið hans niðri og þá kíkti ég aðeins í Intersport og sá þessar fínu gráu joggingbuxur en hafði ekki tíma til að máta þær. Ákvað sem sagt að drífa mig áðan og máta þær og sem betur fer smellpössuðu þær. Þannig að nú sit ég hér í þessum ljómandi þægilegu ljósgráu buxum og er voða ánægð :)

Valur ætlar að prófa nýja uppskrift að lambalæri á eftir. Þetta er ítölsk uppskrift sem var í Mogganum í dag (og já við kaupum ennþá Moggann þrátt fyrir alla vitleysuna með ritstjórnina á blaðinu) og verður spennandi að smakka eitthvað nýtt.

Að öðru leyti er allt meinhægt. Dagurinn hefur farið í innkaup og prjónaskap hjá mér og sparslvinnu hjá Val. Ísak er alltaf í sinni tölvu"vinnu" og Andri horfir á íþróttaleiki milli þess sem hann skreppur í sína tölvu. Kærastan hans er að fara að keppa í módelfitness á laugardaginn og er upptekin við undirbúning. Hrefna er úti í Köben, og sökum þess hve páskafríið hennar er stutt og ekki flogið beint til Akureyrar yfir veturinn, fannst henni ekki taka því að koma heim um páskana. Það hefði verið notalegt að fá hana en það verður víst ekki á allt kosið.

Með þessum pistli mínum fylgir mynd frá Feneyjum sem ég tók þegar við fórum þangað sumarið 2008.

Hvað er þetta með matarinnkaup fyrir páskana?

Fólk verslar inn eins og það sé að búa sig undir vist í neðanjarðarbyrgi, eða eitthvað álíka. Ég kom keyrandi að Bónus tíu mínútum eftir opnun og viti menn, bílastæðið var að verða fullt. Í þetta skiptið ákvað ég að láta slag standa og versla, þrátt fyrir vanlíðunartilfinningu sem fór um mig þegar ég sá hvers kyns var. Ástandið var sýnu verst í grænmetiskælinum og ég hreinlega datt út í smá stund þar inni. Ákvað svo bara að draga andann djúpt og bíða eftir að mesta ösin færi þaðan út. Var svo heppin að hitta konu sem ég þekki og gat aðeins spjallað við hana. Hún var reyndar með manninum sínum en hann var snöggur að láta sig hverfa þegar hún var farin að spjalla. Þau höfðu líka ætlað  að versla í gær en snúið frá vegna mannmergðar. Svo í dag ætluðu þau rétt að fara í Bónus og mættu strax kl. 11 og svo ætluðu þau á skíði. En þrátt fyrir þokkalegt veður í morgun var nú komin stórhríð, það er eiginlega eina orðið yfir það. Þannig að hún sagði að ekkert yrði úr skíðaferðinni í bili. Svona er þetta víst, það eru engin garantí hvað veðrið á Íslandi snertir ;)

Á leið í Bónus

Ég ætlaði eiginlega í Bónus í gær en bílastæðið var hreinlega fullt svo ég lagði ekki til atlögu - gat ekki hugsað mér að fara í búðina í þeim kringumstæðum. Það lá heldur ekki svo mikið á innkaupaferðinni að ekki mætti hún bíða til morguns. En nú opnar sem sagt klukkan ellefu og mér er því ekki til setunnar boðið að gera aðra tilraun.