þriðjudagur, 23. nóvember 2021

Það er alveg spurning að skrifa uppá dánarvottorð fyrir bloggið mitt ...

Þetta er einungis ellefta bloggfærslan á árinu og þar með augljóst að mér hefur mistekist hrapallega að blása lífi í bloggið með því að setja mér markmið um 100 bloggfærslur. 
 
Samt langar mig stundum að blogga og sest jafnvel við tölvuna og byrja að skrifa - en eitthvað heldur aftur af mér með að klára pistil og birta hann.  
 
Kosturinn við að skrifa um persónuleg málefni, er að það hjálpar mér að hugsa og setja hluti í samhengi í höfðinu á mér. En á sama tíma og mér finnst gaman að hafa lesendur (aðra en fjölskyldu og vini) þá er það líka erfitt því mér fer að finnast að ég eigi að skrifa eitthvað "gáfulegt" úr því ég er að því á annað borð.  
 
Og þar stendur hnífurinn í kúnni! Mér finnst ég ekki hafa neitt gáfulegt fram að færa. Mér hefur reyndar dottið í hug að endrum og sinnum gæti ég miðlað heilsutengdum fróðleiksmolum - en það er áhugamál hjá mér að hlusta á heilsutengda hlaðvarpsþætti - og ef ég myndi nú skrifa hjá mér þó ekki væri nema brotabrot af öllum þeim fróðleik sem ég innbyrði þá hefði ég nú aldeilis eitthvað til að blogga um. En þá yrði ég reyndar að fara að hlusta á þessa þætti að deginum til, ekki bara á kvöldin þegar ég ligg uppi í rúmi og er að fara að sofa ;-)  
 
Hvað sem því líður, þá mun ég sennilega ekki hafa brjóst í mér til að "drepa" bloggið mitt eftir öll þessi ár. 

En hei! Eftir langan ljósmyndadoða fékk ég aftur áhuga og löngun til að fara út með myndavélina, og er mjög þakklát fyrir það.  Við Valur fórum til dæmis í ljósmyndaferð Mývatnssveit um síðustu helgi og það var mjög gaman. Myndin sem fylgir er einmitt tekin þar. 

P.S. Þetta er bloggfærsla 11/100 í (misheppnaðri) bloggáskorun ársins 2021

mánudagur, 11. október 2021

Áhugamál - hæðir og lægðir




Ég hef verið afskaplega löt að taka myndir í ár og veit ekki alveg hver ástæðan er. Ætli það sé nokkuð flóknara en svo að áhugamál koma stundum í "bylgjum" og liggja svo í hálfgerðu dái á milli. En núna nýlega hef ég farið í tvígang út með myndavélina af því mig LANGAÐI til þess, svo ég er kannski á batavegi. 

Í dag fórum við Valur út á Svalbarðseyri og ég tók myndir þar, þó staðsetningin sem slík sjáist nú ekki á meðfylgjandi mynd. En hvönnin í haust/vetrarbúningi er alltaf vinsælt myndefni hjá mér og ekki skemmir fyrir þegar tjörnin fyrir aftan gefur svona fallega bláan bakgrunn.

Annað sem ég hef verið löt að gera, er að blogga. Það dugði ekki einu sinni að útbúa mína persónulegu bloggáskorun - 100 bloggfærslur á árinu. Ef ég á að ná því þá verða fleiri en ein færslur suma daga ;-)

P.S. Þetta er bloggfærsla 10/100 í bloggáskorun ársins 2021

fimmtudagur, 2. september 2021

"Skaut sjálfa mig í fótinn" í gær

 
Ég sem sagt fór í leikfimitíma á þriðjudaginn og var mjög lúin eftir hann, þrátt fyrir að finnast ég ekki gera neitt ... Ákvað þess vegna að taka því rólega í gær svo ég kæmist nú örugglega í leikfimitímann í dag. Það gekk nokkuð vel framan af degi, ég fór bara í sundið og tíndi smá rifsber úti í garði. Missti mig ekki neitt í þrif eða tiltekt hér innanhúss. 
 
Ljósmyndaklúbburinn minn ætlaði að hittast klukkan fimm úti í Krossanesborgum og ég spurði sérstaklega að því hvort þetta ætti að vera ganga eða ljósmyndaRÖLT. Það var hið síðarnefnda  svo ég hugsaði að þá væri mér óhætt að mæta. Við vorum nú bara fjórar og byrjuðum á gangstígnum en færðum okkur fljótlega af honum og uppá klöpp þar sem við sáum betur yfir. Síðan leiddi eitt af öðru, við röltum lengra út í móa, fundum bláber sem var bara dásamlegt - fullt af berjum og við tíndum upp í okkur hverja lúkuna á fætur annarri.

Svo ákváðum við að færa okkur aðeins og fyrr en varði vorum við komnar töluvert langt frá stígnum. Til að komast inná hann aftur þurftum við að klöngrast í þýfðu undirlendi þar sem maður sá ekki "fóta sinna skil" fyrir háu grasi og reyndi mikið á ökkla og hné. Það hafðist nú allt en í gærkvöldi var ég orðin undirlögð af verkjum í fótunum og er enn í dag. 

Ef ég væri "eðlileg manneskja" færi ég í leikfimina þrátt fyrir smá þreytuverki, en eins mikið og mig langar nú að fara þá væri það ekki gáfulegt. Svo ég verð að bíta í það súra epli að láta skynsemina ráða. Hefði reyndar átt að láta hana ráða í gær - en langaði of mikið að hitta stelpurnar 😉 

P.S. Þetta er bloggfærsla 9/100 í bloggáskorun ársins 2021