laugardagur, 10. júní 2017

Að finna röddina sína


Ég á við þann ágalla að stríða að langa til að skrifa. Skrifa hvað? Sögur? Greinar? Viðtöl? Skáldsögu? Bara eitthvað. Kannski er þetta ekki einu sinni sértæk löngun til að skrifa, kannski bara þörf fyrir að tjá mig.  
En sama hvaða nafni það kallast, þá er þetta búið að vera vandamál hjá mér í allmörg ár. Vandamál segi ég af því mér tekst hreinlega ekki að leysa úr þessu á fullnægjandi hátt. Hvað á ég við með því? Jú, mig langar til að skrifa en geri það ekki!!!  Stórfurðulegt! Ég hef að vísu í gegnum tíðina skrifað örfáar smásögur og byrjað á enn fleirum, en eftir því sem tíminn líður þá er ég farin að örvænta um að þessi draumur minn verði nokkurn tímann að veruleika.  
Málið er að mig langar að skrifa en eitthvað stoppar mig. Líklega hræðsla. Hræðsla við að mistakast? Það er frekar aulaleg ástæða, sérstaklega af því ég hef engan draum um að skrifa metsölubók eða þvíumlíkt. Í raun má segja að þetta snúist meira um löngun eða þörf heldur en draum. En það er þetta ósýnilega afl sem stoppar mig. Í hvert sinn sem ég sest niður og reyni að koma einhverju frá mér þá fer mér nánast að líða líkamlega illa. Eftir örstutta stund læt ég undan vanlíðaninni og opna facebook eða einhverja aðra vefsíðu og fer að slæpast.  
Meðan ég var í vinnu þá var þetta ekki svo stórt vandamál. Vinnan tók alla mína orku og þar að auki var  ég (og er) að kljást við vefjagigt og hafði þannig nægar afsakanir fyrir því að skrifa ekki. Núna, þegar ég hef ekki unnið utan heimilis í þrjú ár, þá eru afsakanir af skornum skammti og ég er farin að skammast mín fyrir framtaksleysið. Mér líður eins og alka sem ætlar að hætta að drekka, eða manneskju sem ætlar í megrun - Á morgun ætla ég að byrja! - og svo líður næsti dagur og ekki byrja ég.  
Til að kóróna ástandið, þá hefur þetta áhrif á sjálfstraustið. Mér finnst ég vera að svíkja sjálfa mig og ekki standa við neitt sem ég „lofa“ og fer að sjá sjálfa mig sem óáreiðanlega manneskju sem nennir ekki að leggja sig fram. Svo hefur það líka áhrif á sjálfstraustið að vera ekki í vinnu, ég verð að viðurkenna það. Og mér leiðist hreinlega. Sérstaklega er seinni hluti vetrar og fram á vor erfiður tími hjá mér.  
En ég hef ljósmyndunina þó það áhugamál gangi líka í gegnum hæðir og lægðir. Hef stundum velt því fyrir mér að ef ég hefði notað jafn mikinn tíma í skriftir eins og ljósmyndun síðustu 10 árin þá gæti ég verið búin að skrifa nokkrar bækur ...  
Ein ástæðan fyrir því að ég byrjaði að blogga á sínum tíma var sú að þá myndi ég þjálfa skriftar„vöðvann“ eða hann myndi amk ekki stirðna á meðan - en svo hætti ég að blogga. Veit ekki einu sinni af hverju. Kannski af því mér fannst ég vera farin að „væla“ svo mikið um vefjagigtina. En bloggið var alltaf fyrst og fremst hugsað fyrir sjálfa mig, þannig að þá hefði vefjagigtarvæl ekki átt að stoppa mig.  
En kannski hætti ég að blogga af því ég var bara svo tóm. Innantóm. Og er það að einhverju leyti ennþá þó ég hafi svo ótal margt sem ég er þakklát fyrir. Fjölskyldan og barnabörnin þrjú sjá að minnsta kosti til þess að ég hef eitthvað að gera og til dæmis þá er Hrefna að koma núna eftir viku með börnin sín, þau Erik (sem verður 3ja ára í júlí) og Dagmar (sem verður 1. árs í nóvember), þannig að þá verður stuð.  
Ég er að hugsa um að byrja aftur að blogga fyrir sjálfa mig. Mér líður alltaf betur við að koma orðum á blað (þó rafrænt sé) og þannig lagað séð þá er þetta eins konar sjálfsþerapía. Ef aðrir hafa áhuga á að lesa það sem ég skrifa þá er það bara bónus :)