Venjulega er ferlið hjá mér þannig að ég byrja af miklum ákafa og næ jafnvel að klára megnið af flíkinni á afar skömmum tíma. Þá hins vegar gerist eitthvað sem ég kann ekki alveg að útskýra, en nánast undantekningarlaust kemur bakslag í seglin og ég legg prjónana til hliðar (á yfirleitt að vera tímabundið) og það geta liðið vikur, mánuðir eða ár þar til ég tek þá fram að nýju.
Fyrir nokkrum árum síðan kom prjónalöngun yfir mig og ég ætlaði að rjúka til og kaupa mér garn en datt í hug að kíkja fyrst í prjónakörfuna mína. Þar fann ég peysu sem var nánast fullkláruð, átti aðeins eftir að prjóna aðra ermina og sauma hana saman. Þar fann ég líka hálfkláraðan trefil, nærri fullkláraðan barnasamfesting sem ég byrjaði á þegar Andri var lítill og "norska" peysu sem átti að vera á Ísak (bara bokurinn búinn á henni). Ég tók peysuna upp og kláraði hana en hitt dótið liggur ennþá í körfunni. En bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er þessi árátta, að hætta við verkefni í miðju kafi, aðeins tengd prjónaskap og ég klára allt annað sem ég tek mér fyrir hendur! Eða það held ég að minnsta kosti...
Bæti því við hér að ósk eiginmannsins að mín bíða speltvöfflur í eldhúsinu, bakaðar af honum, og nú er ég farin að borða vöfflur með rjóma :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli