þriðjudagur, 23. nóvember 2021

Það er alveg spurning að skrifa uppá dánarvottorð fyrir bloggið mitt ...

Þetta er einungis ellefta bloggfærslan á árinu og þar með augljóst að mér hefur mistekist hrapallega að blása lífi í bloggið með því að setja mér markmið um 100 bloggfærslur. 
 
Samt langar mig stundum að blogga og sest jafnvel við tölvuna og byrja að skrifa - en eitthvað heldur aftur af mér með að klára pistil og birta hann.  
 
Kosturinn við að skrifa um persónuleg málefni, er að það hjálpar mér að hugsa og setja hluti í samhengi í höfðinu á mér. En á sama tíma og mér finnst gaman að hafa lesendur (aðra en fjölskyldu og vini) þá er það líka erfitt því mér fer að finnast að ég eigi að skrifa eitthvað "gáfulegt" úr því ég er að því á annað borð.  
 
Og þar stendur hnífurinn í kúnni! Mér finnst ég ekki hafa neitt gáfulegt fram að færa. Mér hefur reyndar dottið í hug að endrum og sinnum gæti ég miðlað heilsutengdum fróðleiksmolum - en það er áhugamál hjá mér að hlusta á heilsutengda hlaðvarpsþætti - og ef ég myndi nú skrifa hjá mér þó ekki væri nema brotabrot af öllum þeim fróðleik sem ég innbyrði þá hefði ég nú aldeilis eitthvað til að blogga um. En þá yrði ég reyndar að fara að hlusta á þessa þætti að deginum til, ekki bara á kvöldin þegar ég ligg uppi í rúmi og er að fara að sofa ;-)  
 
Hvað sem því líður, þá mun ég sennilega ekki hafa brjóst í mér til að "drepa" bloggið mitt eftir öll þessi ár. 

En hei! Eftir langan ljósmyndadoða fékk ég aftur áhuga og löngun til að fara út með myndavélina, og er mjög þakklát fyrir það.  Við Valur fórum til dæmis í ljósmyndaferð Mývatnssveit um síðustu helgi og það var mjög gaman. Myndin sem fylgir er einmitt tekin þar. 

P.S. Þetta er bloggfærsla 11/100 í (misheppnaðri) bloggáskorun ársins 2021

mánudagur, 11. október 2021

Áhugamál - hæðir og lægðir




Ég hef verið afskaplega löt að taka myndir í ár og veit ekki alveg hver ástæðan er. Ætli það sé nokkuð flóknara en svo að áhugamál koma stundum í "bylgjum" og liggja svo í hálfgerðu dái á milli. En núna nýlega hef ég farið í tvígang út með myndavélina af því mig LANGAÐI til þess, svo ég er kannski á batavegi. 

Í dag fórum við Valur út á Svalbarðseyri og ég tók myndir þar, þó staðsetningin sem slík sjáist nú ekki á meðfylgjandi mynd. En hvönnin í haust/vetrarbúningi er alltaf vinsælt myndefni hjá mér og ekki skemmir fyrir þegar tjörnin fyrir aftan gefur svona fallega bláan bakgrunn.

Annað sem ég hef verið löt að gera, er að blogga. Það dugði ekki einu sinni að útbúa mína persónulegu bloggáskorun - 100 bloggfærslur á árinu. Ef ég á að ná því þá verða fleiri en ein færslur suma daga ;-)

P.S. Þetta er bloggfærsla 10/100 í bloggáskorun ársins 2021

fimmtudagur, 2. september 2021

"Skaut sjálfa mig í fótinn" í gær

 
Ég sem sagt fór í leikfimitíma á þriðjudaginn og var mjög lúin eftir hann, þrátt fyrir að finnast ég ekki gera neitt ... Ákvað þess vegna að taka því rólega í gær svo ég kæmist nú örugglega í leikfimitímann í dag. Það gekk nokkuð vel framan af degi, ég fór bara í sundið og tíndi smá rifsber úti í garði. Missti mig ekki neitt í þrif eða tiltekt hér innanhúss. 
 
Ljósmyndaklúbburinn minn ætlaði að hittast klukkan fimm úti í Krossanesborgum og ég spurði sérstaklega að því hvort þetta ætti að vera ganga eða ljósmyndaRÖLT. Það var hið síðarnefnda  svo ég hugsaði að þá væri mér óhætt að mæta. Við vorum nú bara fjórar og byrjuðum á gangstígnum en færðum okkur fljótlega af honum og uppá klöpp þar sem við sáum betur yfir. Síðan leiddi eitt af öðru, við röltum lengra út í móa, fundum bláber sem var bara dásamlegt - fullt af berjum og við tíndum upp í okkur hverja lúkuna á fætur annarri.

Svo ákváðum við að færa okkur aðeins og fyrr en varði vorum við komnar töluvert langt frá stígnum. Til að komast inná hann aftur þurftum við að klöngrast í þýfðu undirlendi þar sem maður sá ekki "fóta sinna skil" fyrir háu grasi og reyndi mikið á ökkla og hné. Það hafðist nú allt en í gærkvöldi var ég orðin undirlögð af verkjum í fótunum og er enn í dag. 

Ef ég væri "eðlileg manneskja" færi ég í leikfimina þrátt fyrir smá þreytuverki, en eins mikið og mig langar nú að fara þá væri það ekki gáfulegt. Svo ég verð að bíta í það súra epli að láta skynsemina ráða. Hefði reyndar átt að láta hana ráða í gær - en langaði of mikið að hitta stelpurnar 😉 

P.S. Þetta er bloggfærsla 9/100 í bloggáskorun ársins 2021

 

            

miðvikudagur, 1. september 2021

Hvað eru margir dagar eftir í árinu?

 

Já það hefur ekki gengið vel með 100 daga bloggáskorunina mína. Búin að blogga sjö sinnum - "bara" 93 skipti eftir ... Veit ekki alveg hvort ég á að hlægja eða gráta. 

En nú er ég hætt í vinnunni (held ég hafi reyndar aldrei skrifað um vinnuna mína fyrir Heilsubankann hér, geri það kannski seinna) og hef allan tíma í heiminum til að blogga. Svo nú duga engin vettlingatök!! 

Akkúrat núna er ég reyndar á leiðinni í höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun (skemmtilega langt heiti á íslensku yfir það sem heitir craniosacral therapy á ensku). Þetta meðferðarform hentar mér afskaplega vel og ég hlakka mikið til að fara, enda fyrsti tíminn minn í tvo? mánuði. 

Í gær byrjaði ég í nýrri leikfimi hjá Gaman saman. Ég hef stundum áður daðrað við tilhugsunina um að prófa þetta en ekki fundist ég í nógu góðu formi held ég. Hins vegar þarf ég að gera eitthvað annað en fara í sund á morgnana, styrkja mig betur og svo er stór plús að æfingarnar fara fram utandyra. Þá valdi ég að vera í tíma kl. 12, til þess að geta verið úti þegar bjartast er að deginum í myrkasta skammdeginu í vetur. Þetta var hress hópur kvenna og mér líst mjög vel á þjálfarana. Ekki er verra að allir eru hvattir til að gera bara eins og þeir geta, ekki fara fram úr sér. 

Jæja ég þarf víst að drífa mig svo ég komi ekki of seint í tímann. Myndin sem fylgir var tekin í sumarfríinu okkar, þetta eru Valur og Erik á göngu í Skaftafelli. 

        P.S. Þetta er bloggfærsla 8/100 í bloggáskorun ársins 2021

fimmtudagur, 28. janúar 2021

Konan var komin með kofaveiki

Ef það er hægt að tala um kofaveiki (e. cabin fever) þegar maður er í raun ekki innilokaður. Og ég kemst í sund og út að ganga og í verslanir og ... En engu að síður er ég orðin þreytt á tilbreytingarleysinu sem fylgir þessu covid ástandi, það verður bara að segjast eins og er. Það er kannski hálf fyndið í ljósi þess að ég er alls ekki manneskjan sem er út um allt svona dags daglega. Við lifum frekar rólegu lífi. 

Ég fann það samt um daginn þegar ég fór suður að heimsækja fólkið mitt (mömmu og Andra og fjölskyldu), hvað það léttist á mér brúnin þegar ég var lögð af stað keyrandi suður yfir heiðar. 

Eiginlega finnst mér það hálfgert vanþakklæti að vera svona leið á þessu - það hefur enginn mér nákominn veikst og við Íslendingar höfum haft það ótrúlega gott miðað við margar aðrar þjóðir. En það breytir því samt ekki hvernig mér líður. 

Ég var eitthvað að ræða þetta við Val í kvöldmatnum fyrr í vikunni og þá stakk hann uppá því að við færum út á Svalbarðseyri eftir matinn og tækjum myndir í myrkrinu. Það fannst mér hin ágætasta uppástunga og við drifum okkur af stað. Og viti menn - pirringur og leiði breyttist fljótt í núvitund og slökun. Það var frost úti og blankalogn, sjórinn gutlaði upp við fjörusteinana og vitinn lýsti taktfast upp umhverfið. Dásamlegt alveg hreint! 

P.S. Þetta er bloggfærsla 7/100 í bloggáskorun ársins 2021

miðvikudagur, 6. janúar 2021

Ekki var ég alveg sannspá hvað nætursvefninn varðaði

 Það byrjaði eitthvað svefnrugl á mér í haust og ég hélt fyrst að dægurklukkan hefði ruglast í ríminu þegar daginn fór að stytta - en svo heldur þetta bara áfram. Sum kvöld næ ég rétt að festa svefn en hrekk svo upp skömmu síðar og er alveg glaðvakandi. Þá þýðir ekkert annað en fara aftur fram og gera aðra tilraun til svefns eftir 1-2 tíma. Svo vakna ég nokkrum sinnum yfir nóttina og stundum gengur mér líka illa að sofna aftur um miðja nótt. Ég er með símann við hliðina á rúminu og með hljóðbækur eða podcöst tilbúin, því mér finnst skást að sofna út frá einhverju slíku. En já það eru orðnar ansi margar næturnar í vetur sem ég er bara að ná 5-6 tíma svefni og það er alls ekki nóg fyrir mig ... Gamla gamla ... Skyldi þetta tengjast breytingaskeiðinu? Ekki veit ég. Man samt að Palli bróðir átti lengi vel við svipað vandamál að stríða og ekki var hann nú á breytingaskeiði 😆. O jæja það má vona að þetta lagist með hækkandi sól - lagast ekki allt þá?

Eftir langan zoom vinnufund í morgun fór ég svo til mömmu eftir hádegið. Á leiðinni inn á deildina rakst ég á Þuríði sem er forstöðumaður Nesvalla og Hlévangs. Hún sagði mér í óspurðum fréttum að mamma væri hress eftir bólusetninguna og hið sama mætti segja um alla íbúa hjúkrunarheimilanna í Reykjanesbæ. Svo það eru nú góðar fréttir. Mamma var reyndar ótrúlega hress og virkilega glöð að sjá mig. Annað en síðast þegar ég kom því þá áttaði hún sig alls ekki strax á því hver ég var - enda með grímu í framan og mamma þar að auki frammi í setustofu að drekka kaffi. En já við áttum bara góða stund saman mæðgurnar. Skoðuðum gömul myndaalbúm og hún gat nefnt fólk frá uppvaxtarárunum í Hornafirði með nafni, en svo fór að halla undan fæti með að þekkja fólkið á nýrri myndum. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa hitt svona vel á hana. En það getur verið mjög mikill dagamunur á henni.

Eftir að hafa heimsótt mömmu fór ég rakleiðis í næstu fjölskylduheimsókn, til Andra, Freyju, Mattíasar og Vals Kára. Það var SVO gaman að sjá þau öll og fá að hnoðast aðeins með Val Kára. Hann er nýorðinn 4ra mánaða og hefur heldur betur þroskast og dafnað síðan ég sá hann síðast. Matthías var að "taka niður jólin" með pabba sínum og dálítið upptekinn við það. Þau ætla svo að koma inn til Reykjavíkur á laugardaginn og þá hittumst við aftur. Þá verður líka Valur kominn (hann kemur með flugi á morgun) þannig að hann fær að hitta þau líka :)





P.S. Þetta er bloggfærsla 6/100 í bloggáskorun ársins 2021

þriðjudagur, 5. janúar 2021

Það gekk eins og í sögu að keyra suður

en ég tók því reyndar mjög rólega - fór Svínavatnsleið og stoppaði svo lengi við Grábrók í Borgarfirði. Gekk þar upp í dásamlegu veðri og fékk svona "Palli var einn í heiminum" tilfinningu. Upplifði algjöra slökun og friðsæld. Þegar ég var á niðurleið kom þokuslæða og skömmu síðar fór að snjóa aðeins en það hætti svo fljótlega. Nú ligg ég eins og skata uppi í sófa og bíð eftir því að klukkan verði nógu margt til að það sé löglegur háttatími. Ég hef nefnilega sofið svo illa síðustu tvær nætur. Hlýt að sofa eins og steinn í nótt :) 


P.S. Bloggfærsla 5/100 á árinu 2021

mánudagur, 4. janúar 2021

Mamma er orðin 94ra ára

og farin að tapa býsna miklu af sinni líkamlegu og andlegu færni. Það hefur hallað nokkuð hratt undan fæti hjá henni þetta covid ár, þó ekki viti ég hvort það er samhengi milli skorts á félagslegri örvun og heilabilun. 

Ef ég á að vera hreinskilin þá er þetta búið að vera erfitt ár fyrir okkur aðstandendur mömmu. Lengi var lokað fyrir heimsóknir en svo mátti heimsækja og þá einn aðili í einu og helst alltaf sá sami. Anna systir lét sig hafa það að koma frá Noregi í sumar og bíða í 14 daga eftir því að mega heimsækja mömmu, en þannig voru reglurnar þá. Svo hún stoppaði á Íslandi í ca 3 vikur, bara til að geta heimsótt mömmu í örfá skipti þessa síðustu viku. Það fannst mér vel gert hjá henni. 

Ég náði að heimsækja mömmu í janúar og svo í febrúar þegar við komum heim frá Dubai en svo var öllu skellt í lás og ég komst ekki í heimsókn fyrr en í maí. Einnig heimsótti ég hana í júní, júlí og ágúst en í september fékk ég einhverja leiðinda pesti sem ég ætlaði aldrei að losna við. Ekki má koma í heimsókn á hjúkrunarheimili ef maður er veikur, svo það var ekki fyrr en í nóvember sem ég komst næst. 

Þannig að nú finnst mér kominn tími á heimsókn - og ætla að keyra suður á morgun. Ég verð reyndar á jeppanum en ekki Volvonum, af því það er brotinn einhver gormur (sem hefur með dempara að gera) í honum. Ég hef sennilega ekki keyrt jeppann milli landshluta síðan við keyptum Volvoinn, svo það verða smá viðbrigði. Hahaha ég er orðin svo góðu vön ;) en jeppinn er alveg fínn sko.


P.S. Þetta er færsla 4/100 í bloggáskorun ársins 


sunnudagur, 3. janúar 2021

Að eltast við birtuna í skammdeginu


er nokkuð sem ég hef lagt mikið uppúr síðan ég áttaði mig á mikilvægi þess fyrir mína andlegu líðan. Og þar sem ég hef stjórnað tíma mínum sjálf í bráðum sjö ár núna, þá vel ég að fara út að ganga á þeim tíma dagsins sem birtan er sem mest. Í morgun var ég samt í bráðri þörf fyrir súrefni og við Valur drifum okkur út á Gáseyri áður en birti. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til bleikur himinn í norðri benti til þess að nú væri sólin farin að mjaka sér ofar á himninum í suðri. 

Þar sem ég hef ekki stundað vetraríþróttir í mörg ár og myrkrið gerði mig þunga og þreytta, leiddist mér veturinn. En eftir að ljósmyndun varð hluti af lífi mínu þá fór ég að sjá og átta mig betur á þessum dásamlegu bleiku og bláu litatónum sem fylgja sólarupprás og sólsetri - og nú hef ég allt annað viðhorf til vetrarins. Er það ekki magnað hvernig við getum haft ólíkt viðhorf til sama hlutarins, allt eftir því hvernig við veljum að horfa á hann?


P.S. Bloggfærsla 3/100 á árinu 

laugardagur, 2. janúar 2021

Enginn 2020 annáll í dag heldur

eða það sýnist mér ekki. Ég opnaði samt ljósmyndaforritið í símanum og fór að skoða myndir, í því skyni að velja eina fyrir hvern mánuð - en fyrir utan myndir af landslagi og fjölskyldu, þá voru myndir af mat og matvörum mest áberandi. Helgast það af því að í janúar byrjaði ég að vinna aftur eftir afskaplega langt hlé. Vissulega bara hlutastarf í verktakavinnu, nokkuð sem hentar mér mjög vel. 

Og hvar fór konan þá að vinna? Jú ég sagði einhvern tímann frá því hér á blogginuég fór á námskeið hjá Hildi í Heilsubankanum þar sem ég tók mataræðið algjörlega í gegn og vonaðist eftir bættri heilsu í kjölfarið.  Sú heilsubót lét vissulega á sér standa, en rúmu ári síðar var ég hins vegar farin að sjá verulega breytingu á mér til hins betra. Ég hefði líklega aldrei þraukað þetta lengi nema af því Valur tók þátt í þessu nýja mataræði með mér og var svo glaður með sinn árangur að fyrir honum var það augljóst mál að halda þessu áfram. Þannig að í nóv/des 2019 var ég orðin það orkumikil að mér var farið að leiðast og datt í hug að skrifa Hildi og spyrja hvort hana vantaði nokkuð manneskju í vinnu. Ég gæti t.d. þýtt greinar fyrir Heilsubankann eða gert annað tilfallandi. Um miðjan janúar 2020 hafði Hildur svo samband og bauð mér vinnu :) Verkefnin sem ég sinni eru afskaplega fjölbreytt og sumt er ég að gera í allra fyrsta sinn s.s. að klippa myndbönd ;) en það er engin lognmolla og ég er afskaplega glöð að geta komið að gagni.

Og hvar koma matarmyndirnar inn í þetta? Jú eitt af því sem felst í vinnunni hjá mér er að halda utan um facebook hópa fyrir fólk sem er á námskeiðunum. Og þar sem allir eru að gera svo miklar breytingar á mataræðinu þá er matur og uppskriftir að nýjum réttum fyrirferðamikið umræðuefni í hópunum. Eins var farið í það á árinu að útbúa vandað uppskriftahefti og þá vantaði ljósmyndir að ýmsum réttum - sem ég átti nokkrar - en aðra rétti bjó ég til og ljósmyndaði sérstaklega. 

Eitt af því sem fylgir því að vera á sérfæði er að þurfa að sýna fyrirhyggjusemi þegar farið er í ferðalög. Kaupa inn, útbúa fyrirfram, baka brauð, gera nesti ... Þannig að ég ætla að ljúka þessum pistli með mynd sem Valur tók af mér í einni hjólhýsaferð sumarsins, þar sem ég er að fara að gæða mér á brauði, rækjusalati og sultu, öllu heimatilbúnu. Og allt laust við mjólkurvörur, glúten og egg. Ef ekki væri fyrir rækjurnar þá væri þetta vegan ;) en við erum ekki vegan - borðum fisk og stundum lambakjöt :) 


P.S. Bloggfærsla 2/100 á árinu 2021.


föstudagur, 1. janúar 2021

Að standa við stóru orðin



Já þá er komið að því ... Ég þykist ætla að blogga 100 sinnum á árinu - svo það er ekki seinna vænna að byrja. 

Þetta verður samt einungis örfærsla því ég er á leiðinni í háttinn. Ég hafði eiginlega ætlað að skoða aðeins árið 2020 - eða "taka stöðuna" núna í upphafi nýs árs - en ég er víst ekki í stuði til þess í dag. Kannski á morgun ... 

En svona leit himininn út við sólsetur í dag. Ekkert slor. Já og gleðilegt nýtt ár :)


P.S. Þetta er bloggfærsla 1 af 100 í minni eigin bloggáskorun ;)