föstudagur, 30. janúar 2009

Í fjörunni


Í fjörunni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Nenni ekki að blogga og birti þess vegna bara myndir... Það er bara svo lítið í fréttum þessa dagana, hreint og beint.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Fallegur dagur


Fallegur dagur, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já, það var svo sannarlega fallegt veðrið hér í dag. Sérlega fallegt reyndar í kringum hádegisbilið en þá skrapp ég smá rúnt og tók nokkrar myndir. Það sjá víst allir Akureyringar hvar þessi mynd er tekin en svona fyrir aðra, þá er þetta Slippurinn þarna í baksýn. Hvaða tankar eða turnar þetta eru þarna til hægri veit ég hins vegar ekki.
Annars var ég í fríi í dag (alltaf annan hvern miðvikudag, algjör lúxus) og fór í leikfimi (hehe, ef leikfimi getur kallast, þetta eru nokkrar æfingar í tækjasal og teygjur, já og ganga á bretti) og svo í búðarráp eftir hádegið. Ég held að ég hafi þrætt flestar verslanir miðbæjarins en það var fátt sem freistaði mín. En svona til að fá útrás fyrir kaupsýkina þá keypti ég mér bómullarhettupeysu til að vera í þegar ég fer í ræktina, svona utanyfir hlýrabol. Peysan var með 40% afslætti svo ég var bara nokkuð sátt.
Svo styttist aftur í skil á virðisaukaskatti. Alveg merkilegt hvað þetta kemur alltaf aftan að manni þó ég viti auðvitað fullvel að bókhaldið þarf að vera klárt annan hvern mánuð, þá byrja ég aldrei á að færa þetta fyrr en á síðustu stundu. Ótrúleg dama.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Annar í þreytu

Arg, ég þoli það ekki þegar ég er svona þreytt. Við erum að tala um að vera örmagna af þreytu og orka ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Samt fer maður áfram á þrjóskunni, lagar til í eldhúsinu, brýtur saman þvott, tekur af rúminu og setur í þvottavél. Meðan á því stendur er hjartslátturinn alltof hraður og vöðvarnir svo linir að manni finnst eins og maður komi til með að lyppast niður á hverju andartaki. Í ofanálag verkjar mig í allan skrokkinn, augun eru þurr og fingurnir vilja ekki hlýða þegar þeir eiga að ferðast um lyklaborðið á tölvunni. Næst á dagskrá er að fara í sturtu og fara svo í Bónus. Mest langar mig samt til að fara aftur upp í rúm og liggja þar í allan dag. Geri það samt ekki því ég veit að mér mun ekki líða neitt betur af því, jafnvel verr ef eitthvað er. Jamm, það er stuð að vera með vefjagigt!

P.S. Þessi pistill er bara skrifaður til að fá útrás fyrir pirring, ekki til að fá svona "Æ, aumingja þú" viðbrögð.

laugardagur, 24. janúar 2009

Þreytudagur í dag

Já eftir að hafa staðið upp á endann lungann úr gærdeginum við undirbúning konuklúbbsins og átt erfitt með að sofna í gærkvöldi þá er ég barasta drulluþreytt í dag (afsakið orðbragðið). Lét mig samt hafa það að fara í sund í morgun, já og klippa eiginmanninn, en þar fyrir utan er ég bara búin að lesa dagblöðin og hanga á netinu. Það eru svo sem engin aðkallandi verkefni í augnablikinu en ég hafði ætlað að kíkja aðeins á útsölur þar sem ég er í fríi í dag. Svo ætlaði ég að skoða blöð og tímarit í leit að hugmyndum. Það standa nefnilega fyrir dyrum herbergjaflutningar hér í húsinu (eina ferðina enn) og ætlum við að skipta um herbergi við Andra. Hann er í stærsta herberginu en notar það nánast aldrei, en það er frekar þröngt um okkur í hjónaherberginu og þegar aldurinn færist yfir (hehe) þá er þægilegra að hafa rýmra um sig. En það er enginn fataskápur í Andra herbergi og við þurfum að fá fataskáp, og svo langar mig að mála. Þannig að þá þarf aðeins að fara að pæla í því hvernig skáp við myndum vilja og hvaða lit við viljum hafa á veggjunum. Svo þyrfti reyndar líka að skipta um ofna alls staðar í svefnherbergisganginum, þeir eru bara ekki að virka eins og þeir eiga að gera og það er oft svo kalt í herbergjunum. Jæja, ég held að ég láti þetta gott heita í bili, ciao.

föstudagur, 23. janúar 2009

Kvennaklúbbur Akureyrar mun halda fund hjá mér á eftir

Já, það er ekkert smá nafn á pínulitlum klúbbi :-) Við týnum alltaf tölunni vegna flutninga félagskvenna til Reykjavíkur og erum bara 6 núna en höfum mest verið 12 eða 13 minnir mig. Það var á þeim árum þegar flestar okkar voru líka með lítil börn og fylgdu þau oft með í klúbbinn, þannig að þá gat orðið virkilega fjölmennt. En sem sagt, börnin flest orðin stór og mömmurnar orðnar svo svakalega uppteknar við ýmislegt, þannig að í staðinn fyrir að hittast vikulega líða nú oft 2, 3 eða jafnvel 4 vikur milli funda. Það breytir því þó ekki að það er alltaf jafn gaman og góð afslöppun að koma saman nokkrar kellur að háma í sig góðgæti og skrafa saman. Eini gallinn á gjöf Njarðar er sá að maður þarf að láta sér detta eitthvað í hug til að bjóða uppá í þau skipti sem maður er sjálfur gestgjafinn. Í þetta sinnið verður eintóm hollusta á borðum hjá mér; eiturgræn spínatbaka, jarðarberjaterta og eplakaka, allt glúteinlaust og nánast sykurlaust (svindlaði og bætti smá hrásykri í eplakökuna, fannst hún helst til bragðdauf). Og það sem meira er, ég er nánast tilbúin með þetta allt saman og ennþá er klukkutími þar til dömurnar mæta á svæðið. Á bara eftir að græja jarðarberjafyllinguna í kökuna og bræða saman kakó, kókosolíu og agavesíróp ofan á hana. Já, og laga aðeins til og leggja á borð... Ætli sé ekki best að halda áfram.

föstudagur, 16. janúar 2009

Pollurinn


Pollurinn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessi er tekin á heimleið úr Kjarnaskógi í dag.

Í Kjarnaskógi


IMG_9785a, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég skrapp út í Kjarna um hádegisbilið og ætlaði að taka myndir því það er svo skemmtilegt hvernig snjórinn liggur yfir öllu. Birtuskilyrðin voru hinsvegar afar erfið og himininn í takt við allt hitt, þ.e. hvítur. Ég klöngraðist nú samt um í snjónum í smá stund og hafði gaman af.

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Hrakfallabálkur í dag

Eða þannig... Svo sem ekkert slæmt sem henti mig, bara svona samsafn af smáum óhöppum.

Dagurinn byrjaði á því að það brotnaði hjá mér tannfylling sem skildi eftir sig stórt skarð í viðkomandi jaxli - en engin tannpína fylgdi í kjölfarið því það er löngu búið að rótardrepa tönnina. Bara tannholdið sem er aumt.

Í vinnunni var vesen á tölvupóstinum og hafði enginn póstur farið frá okkur alla vikuna (en við vissum ekki neitt). Sunna skildi ekkert í því hvað ein pöntunin var lengi að berast en þegar hún hringdi í gær í heildsalann kom í ljós að hann hafði aldrei fengið póst frá okkur. Ég hringdi svo í dag í Símann og þá kom í ljós að allur póstur frá okkur hafði lent í "sóttkví" og verið stöðvaður af netþjóni Símans. Ástæðan er sú að fyrirtæki fá úthlutaða tilviljanavalda ip-tölu, þannig að í hvert sinn sem við kveikjum á routernum fáum við nýja ip-tölu. Það eitt og sér finnst mér stórfurðulegt. En við bætist að ip-talan sem við höfðum fengið úthlutað síðast hafði áður tilheyrt einverri tölvu sem annað hvort hafði verið vírussýkt eða verið að senda ruslpóst og var þess vegna á válista hjá Símanum. Skil ekki alveg af hverju þessi ip-tala er þá ekki bara tekin úr umferð... Það hefði a.m.k. verið skárra ef við hefðum fengið einhvern sjálfvirkan póst frá netþjóninum þar sem okkur hefði verið sagt að ekki hafi gengið að senda póstinn frá okkur. Meira ruglið.

Eins og þetta væri ekki nóg þá lenti ég í heljarinnar brasi með útreikninga á tryggingargjaldi en það er gjald sem allir atvinnurekendur þurfa að greiða, um leið og þeir greiða staðgreiðsluskatta til ríkissjóðs. Ég er með formúlu í Excel sem reiknar þetta út en svo er líka hægt að reikna þetta út á heimasíðu rsk.is. Vandamálið var bara að það stemmdu aldrei tölurnar hjá mér og rsk og ekki séns að ég gæti fundið hvar villan lá, þrátt fyrir að fara ítrekað yfir þetta allt saman.

Eftir vinnu fór ég svo í Hagkaup og þá vildi ekki betur til en ég rak ökklabeinið í eitthvert járnstykki sem stóð út úr hillurekka við kassann, þannig að við lá að ég ræki upp heljarinnar öskur af sársauka (það er svo hræðilega vont að reka bein í) en ég beit á vörina, gat nú ekki verið þekkt fyrir annað ;-)

Í bílnum á heimleiðinni var svo einhver ansi mikið utan við sig og ók af stað á rauðu ljósi og virtist ekki sjá bílinn sem var á sama tíma að aka yfir gatnamótin á grænu ljósi. Ökumaður þess bíls virtist nú ekki taka eftir neinu heldur en sem betur fer var ég vakandi og flautaði á þann sem ók yfir á rauðu, svo hann snarstoppaði. Eða svo gott sem, það var reyndar fljúgandi hálka svo hann stoppaði nú ekki alveg einn, tveir, þrír - en slapp að minnsta kosti við að klessa á.

Þetta blogg fer í flokk með því sem Valur kallar "kellingablogg" en það verður bara að hafa það.

mánudagur, 12. janúar 2009

Þarf að gera:

- Klára að ganga frá jólaskrautinu
- Strauja eldhúsgardínurnar og setja þær upp
- Kaupa kítti og kattasand
- Athuga með buxur í 66 norður
- Kaupa rafhlöður fyrir Val
- Hætta að borða sykur

Svona hljómar "to do" listinn minn fyrir daginn í dag. Haldið þið að ég muni ekki fara létt með þetta?

sunnudagur, 11. janúar 2009

Sami sundstíll í 30 ár

Ég fór í sund í hádeginu í dag sem er mjög óvenjulegur tími því ég fer yfirleitt á morgnana, líka um helgar. Venjulega syndi ég fyrstu ferðina á skriðsundi og í dag var engin undantekning frá því. Þegar ég kom svo að bakkanum hinum megin sá ég að í næstu braut við hliðina var karlmaður sem stóð við bakkann. Ætlaði að bjóða góðan daginn eins og ég geri venjulega en þá sá ég að þetta var "strákur" (tveimur árum eldri en ég) sem var alltaf í sundi þegar ég var unglingur. Og áður en ég fengi sagt nokkuð gall í honum: "Já, mér sýndist þetta vera þú. Sundstíllinn hefur ekkert breyst". En það eru sem sagt tæp 30 ár síðan ég sá hann síðast í sundi, þannig að mér þykir hann hafa gott minni! Hehe, eða sundstíllinn minn í skriðsundi er svona sérstakur :-)

laugardagur, 10. janúar 2009

Það kemur dagur eftir þennan dag


Horft til himins, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já sem betur fer situr maður ekki bara fastur í sama deginum að eilífu. Í dag er svona dagur hjá mér þar sem ég er þreytt og öll eitthvað öfugsnúin. Kannski vegna þess að ég svaf rosalega lítið í fyrrinótt og fór svo offorsi í tiltekt í vinnunni í gær. Í gærkvöldi var ég orðin yfir mig þreytt og gekk illa að sofna en það hafðist nú fyrir rest. Svaf til hálftíu og maður hefði nú haldið að það ætti að vera nóg. En nei nei, um eittleytið fór ég aftur upp í rúm og lá þar í tvo tíma. Svaf nú ekki alveg allan tímann en svona mestmegnis. Og er ennþá þreytt! Hvernig er þetta hægt? Af gamalli reynslu veit ég að ég kem til með að vera eins og drusla restina af deginum en vakna vonandi hressari á morgun. Eins og ég sagði þarna í upphafi, það kemur dagur eftir þennan dag!

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Jæja þá er ég byrjuð að efna áramótaheitið :-)

Fór áðan í fyrsta tímann hjá sjúkraþjálfaranum og hann setti upp æfingaprógram fyrir mig. Skoðaði mig reyndar fyrst og var svona ægilega ánægður með það hvað ég var mikið betri heldur en í haust þegar ég var síðast hjá honum. Hann vill að ég haldi endilega áfram að gera það sem ég er að gera (synda + teygja á hverjum degi) því það sé greinilega að virka vel fyrir mig. Varðandi latafót þá segist hann hafa trú á að fóturinn muni koma til og ég verði bara að halda áfram að vera bjartsýn á það. Ég sagði honum að ég hefði gefist upp á gönguferðum því það hefði bara gert illt verra og hann sagði að ég skyldi bíða með það þangað til ég væri orðin styrkari. En sem sagt, ég er voða glöð að hafa drifið mig að panta tíma hjá honum og vera komin í gang með þetta allt saman.

miðvikudagur, 7. janúar 2009

Gufubaðshitamælir

Mér finnst eiginlega ekkert varið í að fara í gufubað nema það sé nokkuð vel heitt. Ég var víst búin að nefna það áður að á tímabili fannst mér gufan aldrei nógu heit. Þegar ég var eitthvað að barma mér yfir því benti einhver karlmaður mér á að það væri ekki sama hitastig alls staðar í gufubaðsklefanum. Það er mun heitara vinstra megin en hægra megin þegar inn er komið. Þetta var bæði satt og rétt en alveg ný vitneskja fyrir mér. Hef ég að sjálfsögðu haldið mig vinstra megin síðan. En þrátt fyrir það er stundum alls ekki nógu heitt og finnst mér betra að vita það fyrirfram, þá verð ég ekki eins vonsvikin þegar inn er komið. Leiðin sem ég hef fundið til að sjá hitastigið í gufunni er nú kannski frekar undarleg. En aðferðin er sú að skoða aftanverð lærin á konunum sem eru að koma uppúr og eru í sturtu á sama tíma og ég er að fara ofan í. Ef lærin eru eldrauð og sjá má förin eftir sætið í gufunni, þá er hitastigið fínt fyrir mig ..... ;-)

þriðjudagur, 6. janúar 2009

Þema vikunnar er vörutalning

Eins og það er nú skemmtileg iðja... Það flýtir reyndar fyrir að slatti af vörum eru uppseldar hjá okkur og þá er afskaplega þægilegt að þurfa bara að skrifa 0 í viðeigandi reit og sleppa við að telja ;-)

sunnudagur, 4. janúar 2009

Smá ljósmyndatilraun


Smá tilraun, originally uploaded by Guðný Pálína.

Áramótaheit?

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að strengja áramótaheit, aðallega vegna þess að ég hef ekki treyst mér til þess að standa við þau. Núna hef ég samt svolítið verið að velta þessu fyrir mér og hef ákveðið að setja mér markmið í tengslum við áramótin. Markmiðið er að verða líkamlega sterkari og heilbrigðari í lok ársins 2009 en ég er núna - og mun ég gera það sem í mínu valdi stendur til að svo megi verða. Ætli ég byrji ekki á því að hafa aftur samband við sjúkraþjálfarann og fái hann til að sýna mér æfingar fyrir bakið og "lata fót". Í framhaldinu stefni ég á að byrja að æfa aftur með lóðum eða í tækjasal og styrkja alla þá vöðva sem ekki styrkjast í sundinu. Vonandi mun þetta hafa þau áhrif að líkamsstyrkurinn aukist í heildina og að ég muni aftur geta farið að gera hluti sem latur fótur og lélegt bak kemur í veg fyrir að ég geti gert, s.s. að fara í lengri gönguferðir heldur en 10 mín. á jafnsléttu (og jafnvel fjallgöngur, það væri æði!)

laugardagur, 3. janúar 2009

Blundur með Birtu og Mána

var helsti viðburður dagsins hjá mér. Úff, ég hef ekki gott af því að slappa svona mikið af.

Og ég hef ekki heldur gott af því að borða þessar smákökur sem bíða mín inni í búri. Á tímabili langaði mig mest til að henda þeim öllum út í tunnu en ekki gat ég nú gert öðru heimilisfólki þá skráveifu. En hafi ég efast um að glúten- og sykurlaust mataræði væri rétt fyrir mig þá efast ég svo sannarlega ekki lengur. Er aftur byrjuð á mínu "skemmtilega" magaveseni (útbelgd af lofti og ropa eins og mér sé borgað fyrir það) og það er engum öðrum en sjálfri mér að kenna. Vandamálið er að þegar ég er einu sinni sprungin á limminu þá á ég svo rosalega erfitt að komast aftur á beinu brautina. En svo ég segi nú eitthvað jákvætt líka þá hef ég reynt vera dugleg að borða salat og grænmeti með jólamatnum - en hef hins vegar ekki verið nógu dugleg að hreyfa mig. Nóg um það.

Aðrir fjölskyldumeðlimir eru bara í nokkuð góðum gír held ég:

Ísak er loks að skána af kvefpestinni sem hefur hrjáð hann síðan fyrir jól. Þó fær hann ennþá þvílíku hóstaköstin en ekki er seinna vænna því skólinn fer að byrja aftur.

Andri er byrjaður að læra undir próf sem byrja hjá honum í næstu viku. Við foreldrarnir munum vart eftir því að hafa séð slíka takta hjá drengnum áður og raunar var það einu sinni svo að hann lærði nánast ekki neitt fyrir próf - en batnandi mönnum er best að lifa.

Hrefna er á Akureyri en þau Erlingur halda reyndar til heima hjá foreldrum hans svo við sjáum minna af þeim skötuhjúum. Svo er líka brjálað að gera hjá Hrefnu í félagslífinu því þær vinkonurnar úr MA hafa mikið verið að hittast yfir jólin. En þau Erlingur fara sem sagt aftur út í byrjun næstu viku og þá styttist víst í próf hjá skvísunni.

Valur stendur vaktina á "hælinu" þessa helgina og hefur líka staðið eldhús-vaktina í Vinaminni yfir hátíðarnar sem og endranær. Hann fékk nýjan giftingarhring í jólagjöf, hafði týnt þeim gamla enda alltaf að taka hann af sér í vinnunni. Eini gallinn er sá að nýi hringurinn er ekkert líkur mínum hring þrátt fyrir að minn hringur væri sá sem gullsmiðurinn sá og átti að smíða eftir. Þannig að núna sjáist að við erum bæði gift (sem sagt bæði með hring á baugfingri), þá er ekki augljóst að við séum gift hvort öðru. Ætli það endi ekki með því að ég láti breyta mínum hring, svo við verðum í stíl ;-)

föstudagur, 2. janúar 2009

Máni heppinn að fá klapp