Ég fór í Bónus í dag. Passaði vel og vandlega að hafa með mér í bílinn gulu innkaupapokana sem ég keypti í þeirri sömu verslun á tvöhundruð kall stykkið (eða var það þrjúhundruð?) og rúma marga lítra af mjólk hver, auk annarra hluta. Mér finnst þessir pokar algjör snilld en áður en þeir fóru að fást í Bónus reyndi ég alltaf að taka kassa undir vörurnar. Eini gallinn við þetta allt saman er sá að mér tekst alltaf að gleyma pokunum í bílnum meðan ég fer og versla. Svo stend ég við kassann og byrja að setja vörurnar á bandið og þá fyrst man ég eftir pokunum í bílnum. Tvisvar sinnum hef ég verið með bílinn svo nálægt að ég hef getað hlaupið út og sótt þá á meðan kassadaman (eða drengurinn ef svo ber undir) klárar að renna vörunum í gegn, en í dag (og oftar) var bíllinn svo langt undan að það kom ekki til greina. Þannig að heim kom ég með þrjá plastpoka í hendi (engir kassar til í dag) og fínu innkaupasekkirnir lágu óhreyfðir í aftursæti bílsins. Þannig fór um sjóferð þá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli