fimmtudagur, 31. janúar 2008

Snjór, snjór, snjór

Já, það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum Akureyringum að það snjóaði bara töluvert í nótt. Ég lét það ekkert á mig fá og fór í sundið eins og venjulega. Viðurkenni samt að það hvarflaði að mér þegar ég gekk (í snjókófinu) frá bílnum og inn í laug, að ég væri sennilega hálfgerður sundfíkill úr því ég nennti að leggja þetta á mig. Komst að því inni í búningsklefanum að ég er þá alls ekki eini sundfíkillinn á svæðinu því flestar af fastakonunum voru mættar. Ein þeirra hafði reyndar lent í miklum hrakningum á leiðinni og fest bílinn svo rækilega að það tók hana 45 mínútur að komast utan úr þorpi og að sundlauginni. Þegar ég var búin í sundinu blés ég hárið á mér eins og venjulega og greiddi mér voða fínt (greiðslan tókst sem sagt alveg sérlega vel í dag) en eftir að hafa sópað af bílnum og mokað frá bílskúrnum heima þá var hárgreiðslan fokin út í veður og vind. Svo setti ég á mig húfu þegar ég fór í vinnuna því ég vissi að mín biði það verkefni að moka frá gangstéttinni fyrir framan verslunina - og þegar húfan var búin að sitja ofan á röku hárinu í smá stund - tja, þá var ekki mikið eftir af fínu hárgreiðslunni...

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Eru allir hættir að fara í heimsóknir án þess að hringja á undan sér?

Já, ég bara spyr. Ég þekki sjálf ekki svo margar konur sem mér finnst ég geta skroppið "óvænt" í heimsókn til, hins vegar þekki ég margar sem ég færi aldrei til án þess að gera boð á undan mér. Í dag fékk ég skyndilega löngun til að kíkja eitthvert í heimsókn en þessar þrjár konur sem ég þekki það vel að geta heimsótt án fyrirvara (o.k. ég þekki reyndar fleiri en mundi ekki eftir þeim akkúrat þá), voru ekki heima. Þá fór ég að velta því fyrir mér að það "droppar" nánast aldrei neinn óvænt inn hjá mér og þegar ég hef rætt þetta við konurnar í kvennaklúbbnum þá er það sama uppi á teningnum hjá þeim. Þannig að þetta er sem sagt ekki bara mitt vandamál, ef vandamál skyldi kalla. Mér finnst þetta samt hálf sorglegt.

mánudagur, 28. janúar 2008

Frú fótaköld

áttaði sig loks á því hvernig hún átti að bregðast við þeim vanda að geta ekki sofnað á kvöldin fyrir fótkulda. Hún gróf fram gamlan hitapoka sem hún stingur í samband og leggur nú á hverju kvöldi til fóta í rúminu ca. klukkutíma áður en hún ætlar í háttinn. Það er tilhlökkunarefni að koma að hlýju og góðu rúmi og sé henni kalt á fótunum þegar hún leggst uppí, hlýnar henni von bráðar :-)

sunnudagur, 27. janúar 2008

Taugatitringur

Það hefur verið margt í gangi undanfarið, á fleiri en einum vígstöðvum, og satt best að segja finn ég fyrir því að vera orðin svolítið andlega þreytt á allri þessari streitu.

Hrefna var að leita sér að íbúð í Kaupmannahöfn og er loks búin að fá jákvætt svar við sínu síðasta tilboði, þannig að það mál ætti að vera komið í réttan farveg. Það var ekki alveg einfalt mál að setja sig inn í það hvernig íbúðakaup ganga fyrir sig í Danmörku og erfitt að vera að reyna að aðstoða hana, verandi á Íslandi. Þetta var svona "learning by doing" aðferðin og allt hafðist þetta að lokum.

Valur og félagar í Læknastofum Akureyrar hafa verið að vinna á fullu í því að koma glænýrri skurðstofu á koppinn og eins og venjulega þá er það íslenska leiðin sem er farin (enn verið að vinna á fullu og fyrstu aðgerðirnar á morgun). Það er hins vegar ekki við þá að sakast, heldur var húsnæðið ekki tilbúið fyrr en í gær og þá fyrst var hægt að hefjast handa við að innrétta og ganga frá tækjum og tólum.

Það styttist óðum í að Pottar og prik flytji á Glerártorg. Við fáum rýmið okkar afhent um mánaðamótin mars/apríl og 2. maí á allt að vera klárt. Hönnunarvinnan er í fullum gangi en margir lausir endar ennþá og pínu stress í kringum þetta allt saman. Það þarf að velja gólfefni, ákveða úr hvaða efnivið hillurnar eiga að vera og pæla þar fyrir utan í alls kyns smáatriðum, svo verslunin verði bæði falleg útlits og gott að vinna í henni.

Ísak er búinn að vera ótrúlega mikið veikur í vetur, er alltaf að fá einhverjar pestar og við skiljum hreinlega ekkert í þessu, hann hefur nú yfirleitt verið frekar hraustur. Hann var heima megnið af síðustu viku, örugglega í fimmta skiptið í vetur sem hann er lasinn.

Andri er búinn í prófunum og útkoman er í samræmi við hans væntingar. Núna áðan var hann að keppa í handbolta á móti ÍR og töpuðu KA strákarnir því miður með einu marki. Ég var eiginlega alveg búin á því eftir leikinn, það var mikill taugatitringur í gangi á báða bóga og á tímabili sauð uppúr hjá andstæðingunum með þeim afleiðingum að þjálfarinn var rekinn uppí stúku og hverjum leikmanninum á fætur öðrum var vikið af velli í tvær mínútur, þannig að í smá tíma voru bara þrír útileikmenn hjá ÍR.

Jamm, annað hvort er ekkert blogg svo dögum skiptir, eða ég fæ munnræpu (skriftarræpu) þegar ég byrja... Held ég segi þetta gott í bili, þarf að fara í búð því það fékkst engin léttmjólk í Bónus.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Klukkan gengur enn...

en það mætti halda að ég væri hætt að ganga - ef miðað er við hversu langt er síðan ég bloggaði síðast.

laugardagur, 19. janúar 2008

Dyntótt klukka

Það hangir klukka uppi á vegg hérna í Pottum og prikum. Einhvern tímann fyrir jólin stoppaði hún og ég dró þá ályktun að rafhlöðurnar hlytu að vera búnar. Fann rafhlöður í óuppteknum pakka og skipti. Klukkan fór að ganga aftur og ég var voða glöð. Ekki hafði hún þó gengið lengi þegar hún stoppaði aftur. Ég skoðaði rafhlöðurnar í pakkanum betur og sá að þær voru eldgamlar og farið að leka úr sumum. Þannig að ég sótti nýja rafhlöðu heim og setti í klukkuna. Aftur fór hún að ganga og ég hélt að nú væri þessu klukkumáli lokið. Ekki aldeilis. Eftir einhverja daga stoppaði klukkan enn og aftur. Þá komumst við Sunna að þeirri niðurstöðu að klukkuskömmin hlyti bara að vera biluð, tókum hana niður af veggnum í búðinni og geymdum fyrir aftan. Eitthvað var hún samt að þvælast fyrir okkur svo hún var hengd á nagla við hliðina á vaskinum. Þar hefur hún hangið síðan. Nema hvað, áðan leit ég á klukkuna og sá mér til mikillar furðu að hún bæði gekk og var líka rétt. Og nú skil ég ekki neitt í neinu. Er reyndar búin að hengja hana upp aftur frammi í búð, svo nú er viðbúið að hún hætti að ganga!

föstudagur, 18. janúar 2008

Er alltaf á leiðinni að fara að æfa þarna


IMG_4958, originally uploaded by Guðný Pálína.

en mikið agalega sem leiðin er löng...

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Smá pása frá bókhaldinu...

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að allt sem við lærum um ævina nýtist okkur á einn eða annan hátt, þótt síðar verði. Það nýtist mér t.d. núna að hafa lært bókhald í Háskólanum, þrátt fyrir að hafa fundist það afar leiðinlegt og talið að ég myndi aldrei koma nálægt bókhaldi ótilneydd... Ég er reyndar nánast viss um að hafa fjallað um þetta efni áður á blogginu - en það verður bara að hafa það :-)

Annars skruppum við Valur suður um síðustu helgi. Fórum keyrandi á fimmtudagskvöldi og komum heim aftur á laugardagskvöldi. Þetta var fín ferð, fyrir utan heljarinnar kulda á hótelherberginu fyrri nóttina. Þegar við komum þá var glugginn opinn og skrúfað fyrir ofninn og hreinlega frost í herberginu. Til að kóróna ástandið voru ekki almennilegar sængur heldur bara þunnar sumarsængur og engin teppi. Ég gat ekki sofnað fyrir kulda og það var ekki fyrr en ég klæddi mig í flíspeysu um tvöleytið um nóttina að ég náði að festa blund. Þrátt fyrir stutta ferð náðum við að heimsækja ættingjana, kíkja aðeins á útsölur (ég fór á útsölur, ekki Valur)og fara út að borða á Austur-Indíafélagið. Það að breyta aðeins um umhverfi gerir manni alltaf gott.

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Stundum er afskaplega langur vegur milli hugsana og framkvæmda

- en maður skyldi þó ekki örvænta. Hugsanir eru til alls fyrstar.

Komst að því í morgun að fúlegg ber nafn með rentu

Ég held svei mér þá að þetta sé í fyrsta sinn á ævinni sem ég lendi í því að sjóða fúlegg og eftir þá reynslu vona ég að það verði langt þangað til næst.

mánudagur, 7. janúar 2008

Birta datt í lukkupottinn í gær


þegar hún var svo lánsöm að renna á lyktina af harðfiski sem ég hafði keypt í Bónus. Öfugt við það sem ég geri venjulega gekk ég ekki strax frá öllum vörunum því ég var svo þreytt í hnénu. Lét duga að setja það í ísskáp sem þangað átti að fara og var yfir höfuð ekkert að velta þessum blessaða harðfiski fyrir mér. Í gærkvöldi vorum við Valur niðri að horfa á sjónvarpið í smá stund og þegar við komum upp aftur lagði harðfisklykt um alla efri hæðina. Valur gekk á lyktina og fann rifinn pokann inni í stofu. Eitthvað hafði hún náð að háma í sig en talsvert var þó eftir. Þannig að ég tók það sem var næst pokagatinu og ætlaði að leyfa Birtu og Mána að borða það inni í þvottahúsi. Máni hafði sofið allt fjörið af sér og var ekki almennilega vaknaður þegar honum buðust þessar kræsingar, þannig að hann snerti varla á sínum hluta. Birta var þá ekki lengi að slarfa í sig hans fisk, nema hvað hún skildi óvart eftir smá bita. Máni horfði á hana éta og áttaði sig loks á því að hér væru kræsingar á ferð. Hann náði þessum síðasta litla bita, fannst hann greinilega góður og snusaði því næst um allt gólf að leita að meira gómgæti en því miður var ekki meira að hafa. Þannig að ég sleppti því að ryksuga upp fiskruslið í stofunni og ákvað að kettirnir gætu bara ryksugað það á sinn hátt... Máni fengi þá meira að smakka. Og hér fylgir mynd sem Valur tók af Birtu við fótsnyrtingu, því eins og allir vita er nauðsynlegt að vera hreinn á tánum, sama hvort fæturnir eru tveir eða fjórir :-)

sunnudagur, 6. janúar 2008

Arg og garg

Mér gengur svo hræðilega illa að hætta aftur að borða sykur. Ég veit ekki fyrri til en ég er búin að háma í mig þrjár smákökur eða fimm konfektmola, þetta gerist bara ósjálfrátt. Finn samt hvað ég er öll orðin útbelgd eitthvað, með bjúg og verri í húðinni - en það dugar ekki til... Skil ekki hvernig mér tókst þetta í haust. Til að kóróna ástandið er ég að drepast í öðru hnénu eftir að ganga í vinnuna um daginn. Ég var á fjallgönguskóm af því ég hafði gleymt léttari gönguskónum niðri í vinnu. Svo var ég að flýta mér, þannig að ég gekk eins hratt og ég gat, með þeim afleiðingum að vöðvafestur innanvert á hægra hné bólgnuðu upp og skerða hreyfigetu mína, auk þess að gefa leiðinlega verki. En þrátt fyrir sykurfíkn, bólgið hné og niðamyrkur úti þá er ég í ágætis formi og horfi bara nokkkuð björtum augum á lífið, svona í augnablikinu alla vega :-)

Það er helst að frétta af öðrum fjölskyldumeðlimum að Valur og félagar voru að flytja Læknastofur Akureyrar í gær, úr Hofsbótinni yfir í Krónuna þar sem verða líka skurðstofur, þær fyrstu einkareknu á Akureyri og því er um stóran áfanga að ræða. Hrefna var í prófi 2. jan. og gekk ágætlega. Svo á hún munnlegt próf eftir og við sendum henni baráttukveðjur! Andri er í Reykjavík að keppa í handbolta og styttist í próf hjá honum í Menntaskólanum. Ísak gisti hjá vini sínum í nótt og er bara hress og kátur. Birta og Máni hafa leikið á alls oddi undanfarið, líklega vegna þess að við höfum verið svo mikið heima og þau elska félagsskap. Þessa dagana vita þau líka fátt betra en að drekka vatnið af jólatrénu í stofunni, þannig að Valur hefur þurft að vökva jólatréð ansi oft þessi jólin.

Læt ég nú þessari langloku lokið!

fimmtudagur, 3. janúar 2008

Löngu búin að laga til á skrifborðinu...

og ótrúlegt nokk þá er ekki allt komið í drasl strax aftur.

Svo ég skipti mjög snöggt um umræðuefni þá hef ég verið hvíldinni fegin þessa jóla- og áramótafrídaga en hlakka samt til að komast í hefðbundna rútínu aftur. Mataræðið fór í algjöra vitleysu hjá mér (hef úðað í mig sykri frá morgni til kvölds) og meira að segja sundið hefur mátt víkja fyrir letinni. Þegar ég þarf ekki að vakna til að koma Ísak á fætur, þá er svo agalega gott að sofa lengur... Já, það verður spennandi að sjá hvernig gengur að koma strákunum á fætur á morgun. Ísak hefur verið að sofa svona til ellefu á morgnana en Andri hefur verið að sofa til tvö/þrjú á daginn.

Annars finnst mér eins og ég þurfi að taka ákvarðanir um einhverjar breytingar á nýju ári, vera duglegri að hreyfa mig meira, gera eitthvað fyrir sjálfa mig, gera eitthvað fyrir aðra, hitta vini mína oftar o.s.frv. en ég hef nú hingað til ekki beint verið manneskjan sem strengir áramótaheit. Svo veit ég líka að það mun verða nóg að gera í tengslum við flutningana á Glerártorg, þannig að ég veit svo sem ekki hve mikinn tíma ég mun yfir höfuð hafa fyrir sjálfa mig. O jæja, þetta kemur bara allt í ljós.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Óreiðan á skrifborðinu mínu pirrar mig

Þar eru reikningar sem búið er að greiða, reikningar sem á eftir að greiða, mappa fyrir Andrésblöð (sem Ísak á), útvarp (sem Ísak á), jólasveinahúfa (sem Ísak á), ljósmyndir í ramma, kattarhár, dagatal frá 2007, límbandsrúlla, ipod (sem Ísak á), reiknivél, afþurrkunarklútur, auglýsingapési sem fylgdi Morgunblaðinu (20% afsláttur af miðaverði á myndina The Golden Compass ef greitt er með korti frá Spron), ilmvatnsprufa frá Jil Sander, mosavaxinn steinn sem ég fann einhvers staðar en man ekki hvar, pennabaukur klæddur að utan með bútasaumsefni, geisladiskar með námsefni á dönsku (sem Ísak er með í láni), ævisaga föður míns í tveimur bindum, tölvuleikur (sem Ísak á), aðventuhjarta úr rauðu efni með ísaumuðum gylltum perlum (sem Val var gefið), vörulisti A4 fyrir árið 2008, gjafabréf í slökunarnudd (jólagjöf frá Andra og Ísak til mín)... Þið skiljið hvað ég er að fara.

Tvennt vekur athygli mína, annars vegar sú staðreynd að Ísak á ansi marga hluti á skrifborðinu mínu, hins vegar að mig vantar nýja möppu fyrir reikninga. Og nú er ég hætt þessu rausi og farin að laga til.