sunnudagur, 31. janúar 2010

Að vera eða ekki vera - það sem maður vill veraAfter work..., originally uploaded by Guðný Pálína :).
Hahaha, rosalegur titill við þessa mynd, þ.e.a.s. myndin hefur ekkert með efni pistilsins að gera.

Það er mín eilífa barátta við sjálfa mig sem liggur að baki þessari fyrirsögn. Eins og flestir þá hef ég ákveðnar hugmyndir um það hvernig manneskja ég vil vera. Hins vegar tekst mér ekki nógu vel að vera þannig, að minnsta kosti ekki í heildina tekið. Og mér gengur illa að sætta mig við að vera öðruvísi en ég vil vera. 

Samt eru ljósir punktar innan um. Til dæmis í tengslum við vefjagigtina, þá myndi ég segja að ég væri í raun búin að sætta mig við þann fylgifisk, en svo koma stundum dagar eins og í dag þar sem ég hef ætlað að gera svo margt en hef ekki gert neitt. Og þá verð ég svo ægilega vonsvikin yfir sjálfri mér. Sem er ekki gott. Maður á að standa við bakið á sjálfum sér. 

Mig mundi líka langa til að vera duglegri og flinkari í samskiptum við annað fólk, og þá sérstaklega þá sem næst mér standa, en það reynist þrautin þyngri. Þó ég viti hvað mig langar að gera og ætti að gera, þá er ég svo föst í einhverju fari sem ég kemst ekki út úr. Æi, þetta er nú meira ruglið. En maður heldur áfram að takast á við hlutina, gigtina og allt hitt og trúir því að maður þroskist með tímanum ;-)

miðvikudagur, 27. janúar 2010

Öll að braggast - sem betur fer :)

Já það er náttúrulega ekki hægt annað en leyfa fólki að fylgjast með, þar sem ég var nú að básúna slappleika minn í fyrri pistli. Eftir hvíld á mánudaginn og maraþonsvefn aðfaranótt þriðjudags, já og á þriðjudagsmorgni, ákvað ég að drífa mig í vinnu seinnipartinn. Sem ég og gerði. Var nú óttalega drusluleg framan af og dauðþreytt þegar ég kom heim en svo eftir kvöldmatinn fann ég einhverja breytingu og vissi að nú væri ég að hressast. Þannig að í morgun fór ég meira að segja í sund og var nógu hress í vinnunni til að geta lagað aðeins til á lagernum. Mikið sem ég er fegin, það er alltaf svo leiðinlegt að vera veik.

mánudagur, 25. janúar 2010

Heima í dag

- Leiðist.
- Er með móral yfir því að hafa ekki farið í vinnuna.
- Er samt ekki vinnuhæf.
- Að drepast úr "beinverkjum" sem ná frá hnakka niður í rófu.
- Illt í augunum.
- Þung yfir höfðinu og sljó.
- Og svooo slöpp eitthvað.

Ég er í raun búin að vera svona skrítin frá því seinni partinn á föstudaginn, en ég reyndi að harka af mér framan af. Svo eftir að hafa verið aðeins að vinna í geymslunni á laugardaginn fékk ég heimsókn og þá fann ég að ég var orðin verulega skrítin, en reyndi þó að halda haus á meðan konan var hjá mér. Það versta er að ég er með svo mikinn hálsríg eða verki í hnakkanum og í augunum, þannig að ég get eiginlega hvorki verið í tölvu, né lesið eða prjónað. Og ekki get ég lagað til eða eitthvað í þeim dúr, því ég er svo máttlaus eitthvað. Þannig að mér hundleiðist! Og nú er ég ekkert skárri en litlu börnin sem kvarta yfir leiðindum í veikindum. Þannig að ætli sé ekki best að hætta þessu væli, núna þegar ég er búin að fá þessa útrás.

Valur er í fríi í dag og er byrjaður að moka mold út úr geymslunni. Jarðvegurinn þarna inni er orðinn svo niðurþjappaður eftir áratuga vist, að það þarf höggbor til að losa hann sundur. En sem betur fer fékk Valur aðstoðarmenn núna áðan. Þeir Andri og Erlingur eru mættir á svæðið og moka nú með honum.

sunnudagur, 24. janúar 2010

Geymslu-rapport

Hér kemur skýrsla yfir stöðu mála í útigeymslunni sem brátt mun breytast í helli Hals. Hann sjálfur fór út um leið og birti í morgun og hélt áfram við að bera út dót. Ég hins vegar er búin að vera hálf lasin síðan gær og gerði ekki neitt. Tók hann góða rispu og svo þegar Ísak var vaknaður og orðinn nægilega vel smurður til að hreyfa sig héldu þeir feðgar áfram verkinu. Nú er svo komið að ekkert er eftir þarna inni nema gamla fótknúna saumavélin mín.

Á unglingsaldri fékk ég til afnota handsnúna saumavél sem amma hafði átt og saumaði mörg dúkku- og barbídúkkufötin á þá vél. Svo gerðist það einhvern tímann í kringum tvítugt að ég fékk áhuga á að sauma föt á sjálfa mig en þá reið mikið saumaæði yfir bæinn. Mamma átti á þeim tíma Rafha saumvavél með mótor. Ekki man ég af hverju ég fékk hana ekki bara lánaða, en að minnsta kosti fór það þannig að mamma keypti þessa fínu fótknúnu vél á markaði Hjálpræðishersins (á kr. 1.500 á gamla genginu minnir mig) og gaf mér. Það tók mig smá tíma að komast uppá lagið við að stíga vélina með réttum hrynjanda en þegar ég hafði náð tökum á því "töfraði ég fram" hinar ýmsustu flíkur. Já alveg rétt, ég fór líka á saumanámskeið. Sem var haldið í Vouge, en þá var sú verslun örugglega þar sem Siemens búðin er núna. Og mikið sem mér fannst nú gaman að sauma. En þolinmæðin var ekki mikil, þannig að ekki voru nú erfiðustu sniðin valin, og fátt vissi ég verra en þurfa að rekja upp. Þegar við Valur vorum farin að búa, haustið 1987, gaf hann mér svo nýja saumavél í afmælisgjöf ef ég man rétt. Það var Singer, klassísk vél, sem ég á enn. Þá fór ég á annað saumanámskeið og lærði að sauma flóknari flíkur, s.s. fóðraða jakka ofl. Næstu árin saumaði ég aðallega jólaföt á krakkana og einstöku öskudagsbúning en svo hætti ég nánast alveg að sauma. Fór þó ein tvö bútasaumsnámskeið þegar við vorum flutt aftur til Íslands en undanfarin ár hafa það einkum verið gardínur og viðgerðir sem vélin hefur annast. Aðallega hefur hún samt staðið inni í skáp.

Hvað gömlu vélina áhrærir, þá get ég ekki hugsað mér að farga henni. Held raunar að hún sé alveg nothæf ennþá, þó hún þurfi kannski smurningu eftir nærri 25 ára hlé. Þannig að nú þarf bara að finna pláss fyrir hana hér innandyra...

laugardagur, 23. janúar 2010

Nýtt met í bloggskrifum...

Enn blogga ég án þess að hafa nokkuð sérstakt að segja. Það er dauðaþögn í húsinu, heyrist ekkert nema glamrið í lyklaborðinu... hehe, eða þannig. Þá hringdi síminn, þetta var nú eiginlega pínu fyndið. En sem sagt, Andri er hjá Sunnevu, Ísak gisti hjá vini sínum, Valur er í Bónus og kettirnir sofa. Gerist ekki rólegra hér heima. Ég er að peppa mig upp í aðgerðir dagsins, sem felast að mestu leyti í geymslutiltekt. Ætli ég byrji ekki á því að fara í útigeymsluna og bjarga því sem mér finnst að eigi ekki að fara á haugana. Svo þarf að bera alls kyns dót út í bílskúr og einnig þarf að taka allt spýtnadótið sem liggur á gólfinu og fara með á haugana (held ég). Nú læt ég þetta hljóma eins og ég ætli alveg að klára mig á þessu en ætli ég verði ekki skynsöm og geri bara pínu. Á eitt stk. eiginmann sem er á við marga menn og þegar hann er í ham þá vinnast verkin hratt og örugglega. Og já, ætli sé ekki best að koma sér í einhverja leppa svo hægt sé að hefjast handa.

Fallega bogabrúin niðri við Strandgötu


Nature's miracles, originally uploaded by Guðný Pálína :).

Það er alveg merkilegt hvað þessi litla brú lyftir upp umhverfi sínu og gerir það meira aðlaðandi. Ekki spillir náttúran fyrir, með sínu endalausa sjónarspili, allt eftir veðri og vindum hverju sinni.

föstudagur, 22. janúar 2010

Beðið eftir Fjölsmiðjufólki

Já, fjörið heldur áfram. Nú ætlar Valur að innrétta "útigeymslu" í kjallaranum, sem er hið besta mál þannig lagað séð. Fjörið tengist því að það þarf að tæma geymsluna og er nú sitt af hverju þar inni. Eða var. Sumt tóku þeir Ísak um daginn og settu inni í bílskúr og meiningin er að Fjölsmiðjan komi og sæki það dót. Ég var búin að hringja og biðja þau að koma um eittleytið en þar sem það er ansi teygjanlegt, þá er ég búin að bíða frá því tíu mínútur fyrir eitt, þar til núna, tíu mínútur yfir eitt. Þurfti nú reyndar að byrja á því að leita dauðaleit að skrúfum í kojuna og fann þær fyrir rest. Þær voru ekki í kassanum með hinum skrúfunum og þá er voðinn vís þegar hlutirnir eru ekki á vísum stað. Við vorum svo óskaplega dugleg einu sinni við að setja allar svona skrúfur í poka og merkja. En já, ætli liðið sé ekki bara komið núna? Neibb, þetta var bara hávaðinn sem heyrðist þegar gömlu skíðin hennar Hrefnu duttu um koll þarna úti við bílskúrinn.
Annars er bara gott eitt um það að segja að þurfa að tæma svona geymslur, þvílíkt ógrynni af dóti sem maður safnar að sér og engin þörf er á að eiga. Ég á samt í mestum vandræðum með gömul leikföng, finnst eitthvað svo erfitt að láta þau frá mér. Ef maður fengi nú barnabörn og svona... Nú, svo eru meira að segja gamlar dúkkur úti í geymslu frá því við Anna vorum litlar. Já og eldgömul skólataska með bókum í, sennilega barnaskólabókum - og ekki getur maður nú hent svoleiðis dýrgripum. Þá þarf að finna pláss hér innandyra og ætli líklegast til árangurs í þeim efnum sé ekki að raða betur í geymsluna niðri og fá fleiri og betri hillur þar inn. Taka gamla smíðabekkinn og setja hillur þar. Jafnvel rúmfatageymsluna líka. Já, við búum svo vel að eiga hér tvær rúmfatageymslur. Ein er sem stendur í útigeymslunni og gott ef Anna systir notaði hana ekki í sínu herbergi. Hin er niðri í innigeymslu og er enn eldri held ég.

En æi, ég er hætt þessu rausi. Fer og hringi í Fjölsmiðjuna...

miðvikudagur, 20. janúar 2010

Séð frá Fálkafelli í síðustu viku


Magic morning light, originally uploaded by Guðný Pálína :).

Tja, eða á þeim slóðum að minnsta kosti. Held að ég hafi nú verið að nálgast bílinn aftur þegar þessi mynd er tekin. Það er helst þegar maður nálgast öskuhaugana að fulgarnir láta sjá sig, enda nóg af þeim þar. Eiginlega algjör synd að þetta flotta útivistarsvæði skuli vera undirlagt af öskuhaugalykt og fjúkandi rusli. Já, og bílum og öskrandi snjósleðum, sérstaklega um helgar. Það er af sem áður var þegar syngjandi skátar voru nánast þeir einu sem röltu um á þessu svæði. Ástandið við Fálkafell var þannig núna að það var þjóðvegur upp að skálanum (jeppaför) og brekkan bak við skálann var undirlögð í snjósleðaförum.

Ég á frídag í dag og hafði eiginlega hugsað mér að fara út að mynda en veðrið bauð ekki uppá það. Fór nú samt með myndavélina í bílinn og ók út að Krossanesi þar sem ég smellti af nokkrum myndum í brjáluðu roki. Er eiginlega alveg orðin háð því að komast út með myndavélina. Þetta er mitt jóga held ég, því ég næ svo vel að gleyma stað og stund og slappa vel af.

Önnur afrek dagsins eru ekki mörg. Ég vaknaði á löggiltum tíma og sendi Ísak af stað í skólann en fór svo að þrífa baðherbergið þegar ég var búin að borða morgunmatinn. Átti nefnilega von á konu sem var að koma með filmur í baðherbergisgluggann. Það varð nú reyndar smá bið eftir henni en um leið og hún var komin inn og byrjuð að vinna þá stakk ég af. Fór í bankann, þar sem ég ætlaði nú reyndar ekki að komast inn. Dyrnar vildu ekki opnast fyrir mér og verð ég að viðurkenna að mér leið eins og hálfvita þarna fyrir utan. Endaði á því að banka á hurðina og þá hlupu þær til og opnuðu. Það var eitthvað rugl á þessu með sjálfvirku opnunina. Svo skrapp ég til Ástu í Purity Herbs og keypti hjá henni krem og skaust svo aðeins í vinnuna. Þar keypti ég meðal annars glersköfu sem ég ætla að nota til að skafa innanvert glerið í sturtunni. Er nú reyndar ekki komin svo langt ennþá... En já, ég ætlaði líka að þrífa aðeins í stofunni, sem lítur ekki sérlega vel út eftir prófatörn Andra, en er heldur ekki komin svo langt. Það er ótrúlegt hvað dagurinn getur liðið og maður gerir bara ekki neitt... Hah, nú man ég það, ég er búin að þvo tvær þvottavélar, sko mig! Og ég talaði við Hrefnu á Skype til að athuga hvernig henni gekk í verklega prófinu. Sem henni gekk mjög vel í. En nú ætla ég að reyna að hringja í mömmu, það er orðið eitthvað svo langt síðan ég heyrði í henni.

mánudagur, 18. janúar 2010

Ekki beint sú duglegasta að blogga þessa dagana

Engin sérstök ástæða fyrir því nema almenn leti og "hef ekki frá neinu að segja" vandamálið. Ekki að það hafi svo sem alltaf háð mér á þessum vettvangi, maður lætur nú venjulega bara vaða þó ekkert sé frásagnarefnið. Akkúrat núna eru helstu fréttirnar þær að ég er að drepast úr höfuðverk. Kenni þar um stífum vöðvum í hálsi og hnakka eftir prjónaskap á föstudagskvöldið. Þá fór ég til vinkonu minnar með prjónana og við sátum og spjölluðum við eldhúsborðið fram eftir kvöldi. Einungis var gert hlé á prjónaskapnum til að klóra hundinum, henni Emmu, annað slagið ofan á hryggnum. Það finnst henni mikil lúxusmeðferð og er farin að rétta að mér afturhlutann þegar ég kem, svo að ég klóri nú örugglega á réttum stað, rétt þar sem rófan byrjar. Eru hundar annars ekki með rófu? Eru þeir með skott? Ja, nú er mér heldur betur farið að förlast. En það er nú svo sem ekkert nýtt... Minnið er ekki alltaf uppá sitt besta, enda er einn af fylgikvillum vefjagigtarinnar svokölluð "heilaþoka" og þegar hún er yfir manni er ekki von á góðu. Þá man ég oft ekki einföldustu orð. Um daginn var ég að vinna í Excel og gat ekki munað einföldustu atriði - en það gekk nú reyndar fljótt yfir með aðstoð kaffibolla og súkkulaðis.
En já, svo ég haldi nú áfram að skrifa um ekki neitt, þá er ég sem sagt að fara að vinna á eftir. Er seinni partinn í dag. Áður en ég fer í vinnuna þyrfti ég að kíkja í Ellingsen. Við Valur fórum nefnilega þangað á útsölu á laugardaginn, að undirlagi hans, því honum datt í hug að þar gæti ég fengið hlýja skó. Það var smá vandamál í kuldanum um daginn að mér var alltaf svo hræðilega kalt á fótunum þegar við vorum að taka myndir. Þannig að ég fann skó - en þegar ég mátaði þá hér heima fannst mér þeir kannski helst til litlir. Að minnsta kosti þegar ég var komin í tvenna sokka.
Svo þyrfti ég líka að brjóta saman þvott og laga aðeins til í þvottahúsinu en ég er ekki viss um að ég nenni því akkúrat núna. Er samt búin að græja eldhúsið þannig að sá partur er búinn. Jæja, ég er hætt þessu bulli í bili, hafið það gott öll sömul :-)

sunnudagur, 10. janúar 2010

Gamlir vinir

Já það er alltaf gott að hitta gamla vini, það gerir sálinni gott. Við Valur fórum í dag og heimsóttum Stínu og Ásgeir á Ólafsfjörð en þau bjuggu í Tromsö um leið og við. Að hætti Stínu beið eftir okkur veisluborð og eftir kaffið spjölluðum við Stína lengi en Valur og Ásgeir tóku sight seeing um fjörðinn allan.

föstudagur, 8. janúar 2010

Valkvíði

er nú yfirleitt ekki að hrella mig mikið. Tja, jú kannski stundum, fer eftir því hvert tilefnið er. Núna veit ég ekki hvað ég á að taka mér fyrir hendur þar til ég fer að vinna eftir rúma tvo tíma. En klukkan er rúmlega hálf tólf og ég hef ekkert gert í dag. Vaknaði hálf átta af mjög þungum svefni (hafði verið að dreyma einhverja vitleysu) og fór á fætur með Ísaki en þar sem ég átti ekki að fara að vinna strax lagði ég mig aftur. Svaf til að verða hálf ellefu og á þessum rúma klukkutíma hef ég afrekað svo mikið sem að fá mér að borða, lesa blöðin og hanga í tölvunni.

Ég var í smá stund að spá í að hlaupa út með myndavélina því himininn var svo fallega rauður, en það stóð í mér hvar ég myndi fá fallegt sjónarhorn og því fór ég ekki neitt. Þannig að nú stendur valið milli þess að fara í sturtu, fara að prjóna, taka úr uppþvottavélinni, setja í þvottavél - eða fara í ræktina. Annars lít ég svo illa út núna að ég get varla látið sjá mig á almannafæri, heheh. Það er nú verra ef ég þarf að fara í sturtu bara til að geta látið sjá mig í ræktinni.

Svo byrjaði ég loks á lopapeysunni hans Andra í gær og náði þeim glæsilega árangri að fitja upp og prjóna eina umferð. Ég hefði átt að stressa mig meira á að ná því að kaupa garnið fyrir jól... Ég ætlaði nefnilega að vera svo rosalega dugleg í jólafríinu. En það var ekki fyrr en Andri kom heim að ég fór að fitja upp. Var að hugsa um það í gærkvöldi þegar mér gekk illa að sofna (en sofnaði samt fyrir rest, án þess að fara fram) að ég hefði átt að nýta þessar andvökunætur um daginn í að prjóna, það hefði nú verið snjallt hjá mér. En á þeim tímapunkti datt mér ekkert slíkt í hug.

En já, ætli sé nú ekki best að hætta þessu hangsi og koma sér að verki :-)

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Grýlukerti í sólskini

Í annarri bloggfærslu minntist ég aðeins á grýlukertin sem hanga ofan af húsþakinu hjá okkur. Hér kemur mynd af þeim og er hún tekin fyrsta daginn sem sá til sólar hér að nýju, þann 3. janúar.

mánudagur, 4. janúar 2010

Meira ruglið

Já svefnruglið heldur áfram enn um sinn. Ég sofnaði ekki fyrr en uppúr klukkan sex í morgun og vaknaði ekki fyrr en hálf eitt. Sem eru ekki nema rúmir sex tímar í svefni, þannig að mér finnst nú eiginlega að ég hefði átt að geta sofnað í kvöld. En ónei, ekki var það nú svo gott. Fór í háttinn um hálf tólf og las svolítið en lá svo og reyndi að sofna í um einn og hálfan tíma. Gafst þá upp og fór fram. Ætla að sitja hér í smá stund áður en ég fer aftur inn í rúm. Er ekki alveg að nenna þessu rugli - en það er víst ekki spurt að því. Svo er ég með verk í hægra ökklanum og hef ekki hugmynd um hvernig stendur á því. Nema þetta séu samúðarverkir með Val. Hann var svo óheppinn að detta á svelli um daginn og tognaði meðal annars á ökkla. Það var sem betur fer ekki mjög slæm tognun en nóg til þess að hann gengur ekki heill til skógar.

Við fengum óvænta heimsókn í dag þegar Shree og Surekha litu við án þess að gera boð á undan sér. Þau sögðust bara hafa ákveðið að gera eins og í gamla daga, og er það orð að sönnu, nú fara fáir í heimsóknir án þess að vera boðið eða hringja á undan sér. Mér finnst það breyting til hins verra. Það er gaman að fá heimsóknir og maður er svo latur að bjóða heim. Væri gaman ef fleiri "droppuðu" bara við hjá manni. Hins vegar verður maður þá líka að taka því þó húsið sé kannski ekki alveg tipp topp, enda nennir maður ekki að vera endalaust með ryksuguna og tuskuna á lofti.

Annars er farið að styttast í að Andri og þau komi heim og þá byrjar nú næsta fjör, sem eru prófin hjá honum. Prófatímabil eru leiðinda tímabil, bæði fyrir nemendur, foreldra og kennara.

Það verða engin nýársheit hjá mér í ár frekar en fyrri daginn. Ég setti mér raunar hálfgert nýársheit í fyrra og tókst að sjálfsögðu ekki að standa við það. Markmiðið var að verða í betra formi um þessi áramót en þau fyrri og ekki get ég sagt að sú sé raunin. Ég byrjaði reyndar í líkamsrækt í nóvember en það er mjög erfitt að mæta reglulega þangað á háannatíma verslunarinnar. Nú á ég að vísu árskort í Átak því það var svo fínt tilboð fyrir jólin að við Ísak fengum bæði árskort, svo það má vona að mér takist að ná mér á strik í líkamsræktinni. Ef ég fer bara nógu rólega þá gerir það mér gott - og ég er orðin pínu leið á sundinu. Þar er nú samt fínn félagsskapur og því geri ég ráð fyrir að halda áfram þar, meðfram ræktinni.

En já, ég held að ég láti þetta gott heita í bili, vonandi verður ekkert blogg næstu nótt!

sunnudagur, 3. janúar 2010

Jæja...

Það er spurning hvort elli kerling er farin að læsa klóm sínum harkalega í mig. Ef það er ellimerki að vera andvaka þá er hún svo sannarlega að hrella mig núna. Ég bara skil ekki hvernig þetta er hægt! Ég var vöknuð klukkan níu í morgun og lagði mig ekkert í dag þrátt fyrir ákafa þreytu/syfju þegar ég kom heim úr vinnunni. Samt var ég glaðvakandi þegar ég ætlaði að fara að sofa og gafst upp og fór fram eftir að hafa bylt mér í ca. klukkutíma eða rúmlega það. Þá var klukkan að nálgast hálf tvö og ég hékk í tölvunni til að verða fjögur. Var þá orðið hálf óglatt af þreytu (en ekki syfjuð, ónei) og fór aftur inn í rúm en eftir um hálftíma sá ég að þetta þýddi ekki neitt. Var orðin glorhungruð og ekki til syfjuð. Þannig að hér er ég, búin að fá mér 2 hrökkbrauðsneiðar með osti og kakó. Spurning hvort það hressir mig bara enn meira... Ég myndi skilja þetta ef ég væri að drepast úr áhyggjum yfir einhverju, eða það væri brjálað að gera í vinnunni og hugurinn næði ekki að slappa af - en hvorugt er tilfellið.

Úti er afskaplega fallegt vetrarveður. Allt á kafi í snjó og algjört logn. Stærðar klakadrönglar hanga framaf húsþakinu hér í stofunni og það glampar svo skemmtilega á þá í myrkrinu. Kettirnir sofa sem betur fer inni í vaskahúsi, því ef þeir væru vakandi myndi Máni byrja að mjálma og væla og vilja komast fram til mín. Já og hoppa á hurðarhúninn til að reyna að opna.

Hrefna fór aftur til Köben í dag og eins og venjulega er pínu skrítið þegar hún er farin. En svona er þetta, unga fólkið á sitt eigið líf og það er bara eðlilegt að þau fari að heiman. Væri óeðlilegt ef þau gerðu það ekki... Andri er enn á Flórída og maður sér bara myndir af honum á Facebook. Jú jú, og svo er einstaka símtal líka ;-)

Annað gengur sinn vanagang. Við Valur vorum jafnvel að spá í ljósmyndaferð að Goðafossi eða Mývatni í fyrramálið en ég veit nú ekki hvernig það fer ef frúin verður ekkert búin að sofa. Þegar ég dett í þessar andvökur sofna ég stundum ekki fyrr en á milli fimm og sex og þá er nú hætt við því að ég verði mjög mygluð um níuleytið í fyrramálið.

Framundan er svo hefðbundin vörutalning í vinnunni og til að gera hana "skemmtilegri" er búið að hækka virðisaukaskattinn og því þurfum við að breyta vöruverði í leiðinni. Annaðhvort í sjálfu sölukerfinu, eða breyta öllum verðmerkingum á vörum í búðinni, til samræmis við virðisaukahækkunina. Það er nefnilega búið að setja þessa nýju virðisaukaprósentu inn í sölukerfið og hækkar þá allt vöruverð sjálfkrafa án þess að við fáum nokkru um það ráðið. Og þá stemmir vöruverðið í sölukerfinu allt í einu ekki við verðmerkingar á vörunum. Meira ruglið!

Jæja, nóg komið, ætli ég geri ekki enn eina tilraunina til að fara að sofa þar sem klukkan er jú að verða fimm. Verst að geta ekki bara farið út að taka myndir...