föstudagur, 30. desember 2011

Hrefna farin aftur, böhöhö...

Já svona er lífið víst. Fólk kemur og fer, sumir alfarnir, en vonandi kemur nú Hrefna okkar aftur :)

Ég er búin að vera frekar ónýt þessa síðustu viku, en fannst ég kannski vera hakinu skárri í dag. Vonandi heldur það bara áfram í rétta átt. Ég er ekki búin að svindla neitt í mataræðinu um jólin, nema ef helst hvað sykurinn snertir. Hef aðeins misst mig í 70% súkkulaðinu... En engar jólasmákökur, enginn ís með eggjum, engin kartöflustappa... Þannig að eiginlega ætti ég bara að vera voða stolt af sjálfri mér - og hætta að skammast þó ég borði einn og einn súkkulaðimola (eða þrjá, eða fjóra).  Það hjálpar auðvitað gríðarlega til að Valur bætir fleiri pottum á eldavélina og ég fæ grænmeti sem meðlæti þegar aðrir borða pasta/hrísgrjón eða kartöflur.

Svo fékk ég alveg svakalega flottar hráfæðisbækur í jólagjöf og hlakka mikið til að fara að prófa rétti uppúr þeim. Þarf bara að safna aðeins meiri orku fyrst.

Mig langar líka til að prjóna mér peysu - og ég á enn eftir að sníða og sauma einn grænan kjól. Efnið í hann bíður (ó)þolinmótt ofan í poka.

Á morgun er ég að vinna frá 10-12 en svo verða rólegheitaáramót hér í húsi. Á þriðjudaginn koma mamma og Ásgrímur með flugi norður. Þau eru að fara í jarðarför Irene Gook, sem lést rétt fyrir jólin.

Og nú er ég að fara að sofa. Hm, eða fá mér aðeins í gogginn fyrst.

þriðjudagur, 27. desember 2011

Spennufall

Já, það er hálf skrítin tilfinning hjá mér núna. Eftir að hafa komist í gegnum desemberannríkið í búðinni, þar sem jólin voru endapunkturinn, þá varð bara algjört spennufall. Ég var í raun frekar hress á aðfangadag... Að minnsta kosti um kvöldið var ég í góðu lagi. Svo á jóladag var ég ennþá nokkuð hress en naut þess þó í botn að hafa löglega afsökun fyrir því að slappa af mestallan daginn. Við Valur skruppum reyndar aðeins út, til að ég gæti prófað nýju linsuna sem hann gaf mér í jólagjöf. Það gekk svona þokkalega, ég þarf að átta mig betur á því hvernig hún virkar, því maður þarf að huga extra vel að forgrunni og víðara umhverfi en maður er vanur. Í gær var ég svo ennþá þreyttari en hina tvo dagana, sennilega vegna þess að ég er hætt að "keyra mig áfram" með góðu eða illu, eins og ég gerði í jólaösinni. Ástandið á mér í gær var frekar dapurt og eins og venjulega þegar ég verð mjög líkamlega þreytt, þá hefur það áhrif á andlegu hliðina. En nú finnst mér eins og ég sé örlítið skárri í dag, og gott að geta hvílt sig aðeins lengur, því Torfi ætlar að vinna fyrir mig í dag og þá get ég leyft mér að taka því rólega einn dag enn.

Hér koma svo nokkrar myndir. Fyrst ein af þeim systkinum við matarborðið á aðfangadagskvöld.
Og svo ein af gamla settinu. Valur með svuntu sem Hrefna gaf honum einu sinni og á stendur "Verdens bedste kokk". Já og hálstauið er gömul slaufa sem ég hjálpaði honum að grafa fram, því nú eru slaufur komnar í tísku aftur. Þessi er ca. 26 ára gömul.

Loks er ein mynd úr fjörunni norðan við Slippinn, rétt hjá ósum Glerár. Hún er tekin með nýju linsunni. Ekki kannski fallegasta mynd sem ég hef tekið. En sýnir vel hversu víð linsan er, því það sem er beint fyrir framan fæturnar á manni kemur jú t.d. með á myndina, þó maður beini myndavélinni ekki beinlínis þangað.

þriðjudagur, 20. desember 2011

Eitt hjól undir bílnum?

Ég er að komast á það stig núna að ég veit varla hvað ég heiti. Framkvæmi hluti í einhvers konar leiðslu og man svo ekkert eftir á hvað ég var að gera. Það er að segja, legg frá mér hluti og man ekki hvar ég setti þá, man ekki hvað ég ætlaði að segja og næ varla að klambra saman heilli setningu. Tja, þetta síðastnefnda er kannski meira kvöld-þreytu vandamál, hef nú verið í lagi í vinnunni. En já, ég þarf víst að halda út aðeins lengur. Ég átti síðast frídag 11. desember, daginn sem tengdamamma átti afmæli, en þegar ég hugsa nánar um það, held ég að við Sunna verið að vinna 3 tíma þann dag við að reikna út laun ofl. Þannig að síðasti frídagur var 7. desember. Sunna er auðvitað líka búin að vera að vinna mikið, bara svo það komi skýrt fram, það er ekki bara ég. En nú á ég að eiga frídag á morgun og markmiðið er nú eiginlega að fara ekkert niður í vinnu þá. Spurning hins vegar hvort það gengur eftir...

Verst finnst mér eiginlega að allur jólaundirbúningur lendir á Val og hann verður svo mikið einn í þessu þegar ég er alltaf annað hvort að vinna eða í þreytukasti hér heima. Jólagjafainnkaup lenda alveg útundan og mér sýnist að engin jólakort verði send í ár, frekar en í fyrra. Valur hjálpar nú reyndar ekki til, með því að neita að skrifa Vinaminnisannál. Hann segir að enginn sakni þess að fá ekki annál, en ég er nú ekki viss um að það sé rétt hjá honum. Mér finnst sjálfri gaman að fá jólakort og lesa þau eftir að hafa tekið upp pakkana á aðfangadag. Þannig að mér finnst hálf öfugsnúið að senda þá ekki frá mér kort handa öðrum að lesa.

Í gærkvöldi var fundur hjá ljósmyndaklúbbnum og ég fór, þrátt fyrir að hafa varla staðið upprétt fyrir þreytu. Ég þurfti auðvitað ekki að standa þar, heldur sitja, en mér fannst ég bara bulla tóma vitleysu og fór frekar snemma heim af því ég var að hugsa um að ég yrði að reyna að ná góðum nætursvefni. En þetta er frábær hópur og það hefði verið gaman að stoppa lengur.

Nú læt ég þessum Vælu-Veinólínu pistli lokið. Búin að fá útrás og get farið að koma mér í sturtu og svo vinnuna kl. 10. Æ já, ég á víst eftir að gera grænan drykk handa mér í nesti líka. En hér á mynd má sjá hvaða dásamlega fallegu veitingar voru reiddar fram í ljósmyndaklúbbnum í gær. Agnes er algjör snillingur að búa til svona vel útlítandi kökur og mat.

sunnudagur, 18. desember 2011

Tvö hjól undir bílnum...

Já, gamla er eitthvað farin að slappast, en held þó haus ennþá. Það er nóg að gera í búðinni, sem er mjög jákvætt. Og skiptir ábyggilega miklu máli að við eigendurnir séum á staðnum, því þótt við séum með harðduglegt fólk í vinnu, þá eru hlutir sem bara við vitum, plús það munar um hvern og einn í vinnu þegar búðin er full af fólki. Hver viðskiptavinur sem labbar út af því hann fær ekki afgreiðslu fljótt og vel skiptir jú miklu máli. Þó það sé bara einn kassi/posi þá munar um að hafa manneskju til að setja í pokana því það flýtir fyrir, og svo geta hinir verið að aðstoða viðskiptavini sem eru að leita að ákveðnum hlut eða vantar upplýsingar.

Ég var eiginlega skrifuð í frí í gær en hafði það alltaf bak við eyrað að ég myndi þurfa að vinna, svona út frá því hvernig laugardagurinn um síðustu helgi var. Þá vorum við þrjú en á vissum tímapunkti óskaði ég þess að við værum fjögur. Þannig að ég fór í vinnuna sem fjórða manneskja í gær og var í ca. 3 tíma. Sem voru afar fljótir að líða því það var svo mikið að gera. Svo var ég náttúrulega ósköp lúin í gærkvöldi og áfram í morgun. En það jákvæða er að ég gat sofið í nótt. Tja, þegar ég var sofnuð, en það var nú ekki fyrr en um tvöleytið.

Svo hef ég ekki gert neitt annað en slaka á í morgun en þarf núna að fara að bretta uppá ermar, því ég er að fara að vinna á eftir. Ætlaði eiginlega að mæta um hálf eitt til að byrja að fylla á vörur og svoleiðis, en miðað við hvað klukkan er orðin þá er ég ekki alveg að sjá það fyrir mér...

En ég er nú búin að taka mynd dagsins fyrir ljósmynda-dagbókina mína svo það er nú ágætt. Svo hefði mig langað að labba einn hring í hverfinu, fara í sturtu, setja í þvottavél og borða. En miðað við tímann sem er aflögu er spurning hvað af þessu verður útundan.

Valur er í geymslunni niðri (nei ég er ekki búin að koma honum fyrir þar endanlega) að setja upp nýjar hillur. Það verður gaman að fá þær í notkun og geta farið að fylla þær af öllu dótinu sem safnast alltaf upp hjá manni ;-)


fimmtudagur, 15. desember 2011

9 dagar til jóla

Úff ég er ekki að fatta að þetta sé svona stutt eftir. Og svo standa jólin yfir eina helgi, það er nú allt og sumt. Ekki eins og maður fái einhver verðlaun í formi hvíldar fyrir að hafa lagt svona hart að sér í desember. Segir ein sem var á fullu frá 10-16 í gær við að taka upp vörur og er hálf lúin í dag, það verður að segjast eins og er. Samt og svo það sé alveg á hreinu, er ég í raun ótrúlega spræk enn sem komið er. Ég meina, ég er lúin en ég er ekki algjörlega úrvinda. Vona bara að það haldist þannig.

Annars er ég að fara í síðasta leikfimitímann fyrir jól núna á eftir. Ég fór ekki á mánudaginn því þá var ég á hárgreiðslustofu. Þrátt fyrir að hafa verið mjög tímanlega í að panta þá átti hún samt engan tíma handa mér (sem skaraðist ekki á við vinnu hjá mér) nema þennan og ég stökk á hann því ekki vil ég vera gráhærð um jólin. Það væri kannski í lagi ef allt væri þá grátt, en sem sagt, ekki fallegt að vera með gráa rót.

Í gærkvöldi fórum við Valur á jólahlaðborð hjá Læknastofum Akureyrar. Þá kemur starfsfólkið sjálft með veitingar á sameiginlegt hlaðborð og á notalega stund saman. Þetta var afskaplega ljúft þó ekki gæti ég borðað margt. Ég fékk mér þó hangikjöt, grænt salat og rauðkál. Var orðin ægilega svöng þegar ég kom heim, hehe ;-) Um jólin ætla ég að borða hangikjöt og svo þarf ég græja eitthvað meðlæti annað en kartöflustöppu. Svona ef ég finn einhvern tíma til að leita að góðri meðlætisuppskrift. Kannski eitthvað sé að finna í nýju uppskriftabókinni hennar Sollu, sem Valur færði mér.

Að lokum kemur hér mynd sem ég tók í gærkvöldi þegar ég áttaði mig á því að ég væri ekki búin að taka neina mynd fyrir daginn. Mig langar að halda áfram að taka mynd á dag, en myndefnið verður þá líka bara hitt og þetta. Málverkið er eftir Óla G. bara svona ef einhver er að spá.

Læt ég nú þessum fremur samhengislausa pistli lokið.


sunnudagur, 11. desember 2011

Ekki fór Valur suður

Því miður höfðu veðurguðirnir sitthvað við þá fyrirætlun hans að athuga, en sökum veðurs gat flugvélin sem átti að fljúga með hann suður, ekki lent hér á Akureyri. Þegar ég var að keyra hann út á flugvöll sáum við að það var farið að blása hressilega að austan og Valur nefndi eitthvað um að vélin væri ekki komin. Ég blés hins vegar á allt bölsýnistal og skildi hann eftir á vellinum en fór sjálf að taka nokkrar myndir við Hoepners bryggju (fyrrverandi bryggju). Þegar ég settist aftur inn í bílinn hringdi síminn og ég mátti gjöra svo vel að snúa við og sækja kappann aftur á flugvöllinn. Leiðinlegt að svona skyldi fara en ekkert við því að gera.

Skömmu eftir að við komum heim aftur fórum við Sunna niður í vinnu. Það átti að vera frekar stutt skrepp til að reikna út desemberuppbót starfsmanna, en svo fórum við líka að borga reikninga og sjóða saman vinnuplan fyrir næstu viku og þegar upp var staðið voru liðnir 3 tímar. Heima á ný hélt ég áfram að reyna að sjóða saman eitthvað vaktaplan fyrir síðustu 7 dagana fyrir jól, en það gekk ekkert sérlega vel. Sunna er eiginlega miklu betri í því en ég. Sú vitneskja stoppaði mig samt ekki í því að hanga alltof lengi að reyna þetta, með vöðvabólgu og höfuðverk sem höfuð-afrakstur þeirrar iðju.

Valur eldaði svo dásamlega kjúklingasúpu í kvöldmatinn og sjónvarpið var helsti vinur minn í kvöld. Svo var meiningin að fara snemma að sofa - en ég er nú aðeins að klikka á því...

Jæja, þá er það byrjað

Arg og garg, get ekki sofnað. Þetta hefur verið venjan síðustu árin á þessum tíma, þegar allt er að verða vitlaust að gera í desember og hugurinn bara nær ekki að slaka á. Alveg sama þó ég liggi og hlusti á slökun af geisladiski. Svo ligg ég andvaka og svo er verð ég svöng og þá er enn erfiðara að sofna. Þannig að núna er ég búin að fara fram og fá mér gulrót með hnetusmjöri og hanga aðeins í tölvunni og næst á dagskrá er að fara aftur inn í rúm og gera aðra tilraun til að sofna.

Það var svo brjálað að gera í vinnunni í dag. Sem er afskaplega jákvætt, en um leið gerir það að verkum að ég settist ekki niður í 5,5 tíma og var orðið óglatt af þreytu þegar ég fór heim. Við vorum þrjú að vinna þegar mesta álagið var, sem betur fer, og hefðum næstum mátt vera fjögur. En það er samt bara einn kassi/posi svo það er takmarkað gagn að því að hafa fleiri starfsmenn. Ég var samt mjög ánægð með daginn, svona rekstrarlega séð, og svo er bara að þrauka næstu 2 vikurnar... þetta hefst. Bara pirrandi að komast aldrei yfir allt sem þarf að gera og ég sé fram á að þurfa að græja ýmislegt á morgun s.s. að reikna út desemberuppbót og panta vörur. Já og við Sunna eigum enn eftir að skipuleggja vinnuna fram að jólum, og ætlum að gera það á morgun. Svo þarf ég að vera á bakvakt, ef ske kynni að það vantaði fleira fólk í vinnu, en þær verða tvær Silja og Kara yfir háannatímann.

Á morgun á líka tengdamamma afmæli. Hún verður 85 ára og ætlar að halda uppá það með því að bjóða fólkinu sínu á jólahlaðborð. Valur flýgur suður í fyrramálið og kemur heim seinnipartinn. Ég fer ekki  með, enda yfirdrifið nóg að stússast + að ég þyrfti nú eiginlega að hvíla mig eitthvað á morgun. En er að sjálfsögðu með samviskubit yfir því að fara ekki... Ég fór reyndar ekki heldur suður þegar mamma átti afmæli - og skammaðist mín líka fyrir það. Mér til afsökunar hélt hún ekki formlega uppá afmælið sitt og ég heimsótti hana skömmu síðar þegar ég var á leiðinni til Köben.

Æ jæja, best að hætta þessu væli og reyna að fara að sofa í hausinn á sér. Spurning hvort þetta endar með uppáskrift á svefnlyf handa frú stresshaus.

föstudagur, 9. desember 2011

Nýtt hobbý

Sem ég veit reyndar ekki hvort ég á eftir að vera dugleg við.. En sem sagt, á netinu er að finna síðu sem er opin fyrir alla blipfoto.com. Gengur hún út á að fólk tekur eina ljósmynd á dag sem það setur inn á síðuna sína. Svo er hægt að skoða síður hjá öðrum og skrifa athugasemdir o.s.frv. Ég sá þetta fyrst hjá Gullu og fannst þetta svo skemmtilegt að mér datt í hug að prófa sjálf. Er nú að vísu bara búin að vera í heila tvo daga... hehe, en ágætt að fá eitthvað annað að hugsa um en vinnuna. Ætli ég verði ekki duglegri að hafa myndavél við hendina og eins að taka myndir af einhverju öðru en landslagi, það má alla vega láta sig dreyma. Blipfoto er enskumælandi samfélag, þannig að textinn sem maður skrifar þarna inn þarf að vera á ensku. Sem er í raun ágætt því ekki veitir af að æfa sig ;-)
En hér er sem sagt tengill á síðuna mína.

Þrjú hjól undir bílnum - en áfram skröltir hann þó ;)

Já já, ég reyni mitt besta til að halda haus í annríkinu í desember. Ef ég á samt að vera alveg hreinskilin þá vildi ég óska að verslunin í búðinni væri aðeins jafnari yfir árið. Mætti vera svona hæfilega mikið að gera alla mánuði ársins og svo heldur meira í desember. Eins og staðan er þá stendur desember fyrir alveg ótrúlega stórum hluta heildarsölu verslana og svo eru nokkrir mánuðir á ári sem eru nánast dauðir og þá er maður sjálfur nánast dauður úr leiðindum...

Núna er það hins vegar álag, streita og þreyta sem eru aðalvandamálið. Við erum eiginlega að tala um meiriháttar dilemma/vandamál þegar kemur að annríkinu í desember. Í fyrsta lagi þá vil ég helst geta unnið sem mest, því það skiptir jú verulegu máli fyrir afkomu verslunarinnar hvernig til tekst með söluna í desember. Í öðru lagi þá vinn ég töluvert meira en ég í raun "get" útfrá ástandinu á mér og reyni að bremsa mig af, þó það takist nú ekkert alltof vel. Sem gerir það að verkum að mér finnst ég ekki vera að standa mig gagnvart Sunnu og sem verslunareigandi. Í þriðja lagi þá verð ég stundum leið á því að eiga aldrei rólegan aðventumánuð og geta bara dúllað mér við bakstur, föndur, kaffihúsaferðir og tónleika.

En svo það sé nú alveg á hreinu þá er þetta ekki bara slæmt. Það er gaman að vera í vinnunni þegar vel gengur. Fólk flest í góðu skapi og við gerum okkar besta til að panta vörur og taka frá fyrir viðskiptavini, svo allir fái nú örugglega "réttu" jólagjöfina handa hverjum og einum.

mánudagur, 5. desember 2011

Að fara öfugu megin framúr

Sumir dagar byrja eitthvað svo öfugsnúnir, þó svo ekkert hafi í raun gerst til að réttlæta það, nema einhverjar vitlausar hugsanir. Í dag var þannig dagur hjá mér. Ég hafði ætlað að fara snemma að sofa í gærkvöldi en var eitthvað svo upprifin þó þreytt væri og sofnaði ekki fyrr en undir miðnætti. Þá hugsaði ég með mér að ég skyldi bara sofa aðeins lengur í dag en stillti samt klukkuna á rúmlega hálf átta til að fylgjast með því að Ísak myndi örugglega vakna í skólann. Sem hann gerir yfirleitt en í dag var hann steinsofandi þegar ég leit inn til hans. Klukkan hafði hringt, hann hafði kveikt ljósið og síðan sofnað aftur.

Eftir að hafa ýtt við Ísaki fór ég aftur inn í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. Svo heyrði ég að hann var með endalaust hóstakjöltur og þá fór ég að hafa samviskubit yfir því að bjóðast ekki til að skutla honum í skólann því það er ansi kalt úti í dag. Samt fór ég ekki á fætur, til þess var rúmið of heitt og notalegt og ég of þreytt og fúl. Svo hringdi síminn og ég heyrði að hann talaði við einhvern en síminn var greinilega ekki til mín, þannig að ég lá sem fastast. Eftir smá stund kom Ísak svo og spurði hvort ég vissi pin númerið á gsm símanum pabba síns. Hann hefði hringt og beðið Ísak að taka símann uppúr skúffunni. Ég sagði nei og skildi ekkert um hvað málið snérist. Ekki dugði þessi ráðgáta þó til að draga mig upp úr rúminu. Svo fór Ísak í skólann en eftir lá ég, glaðvakandi og komin í frekar vont skap yfir því að hafa ekki getað sofið lengur. Fór að rifja upp að það eru skil á virðisaukaskatti í dag og ég er búin að færa allar færslurnar en það var eitt mál sem ég þurfti að kanna nánar áður en hægt er að skila. Þar að auki voru allt í einu komnar einhverjar sölufærslur með 24,5% vsk um daginn, en þar sem vaskurinn á að vera 25,5% mun ég þurfa að leiðrétta þetta, og man ekki í augnablikinu hvernig á að gera það.

Þegar hér var komið sögu sá ég að ekki myndi mér nú takast að sofa meira og best væri að drattast á fætur. Sem ég er að fara fram úr rúminu heyri ég umgang í forstofunni og kalla fram en fæ ekkert svar. Heyri útihurðina lokast og fer fram og sé að Valur er að ganga niður útitröppurnar. Ég átta mig þá samstundis á síma-ráðgátunni, því hann er jú á vakt í dag og hefur greinilega gleymt vaktsímanum heima. Valur gengur í vinnuna þegar of mikill snjór og hálka er til að hjóla, og nú hafði hann sem sagt gengið heim til að sækja símann. Ég kallaði í hann að ég skyldi keyra hann aftur niður í vinnu, en það vildi hann ekki. Hefur ábyggilega ekki viljað gera mér rúmrusk þegar hann talaði við Ísak og svo vildi hann sem sagt ekki draga mig út á náttfötunum til að skutla sér í vinnuna aftur. Sem var vel meint af hans hálfu en mér hefði liðið betur ef ég hefði fengið að skutla honum. Það hefði kannski getað gefið mér þá sýn á sjálfa mig að ég væri nú ágætis manneskja, þrátt fyrir allt, þó ekki hafi ég boðist til að skutla hóstandi syninum í skólann í frostinu...

Þannig var nú það. Sem betur fer er leikfimi núna á eftir og ég bind vonir við að hún dugi til að hressa mig við, bæði andlega og líkamlega.

sunnudagur, 4. desember 2011

Gleymdi aðalatriðinu

Eða að minnsta kosti mikilvægu atriði. Þannig er mál með vexti að fyrstu tónleikarnir sem við Valur fórum saman á, fyrir margt löngu, voru einmitt tónleikar þar sem Vetrarferðin eftir Schubert var í aðalhlutverki. Söngvarinn var Andreas Schmidt og tónleikarnir voru í Borgarbíói hér á Akureyri. Þetta voru ekki bara fyrstu tónleikarnir sem við fórum á saman, heldur fyrstu ljóðatónleikarnir sem ég fór á. Raunar held ég að eina hljómsveitin sem ég hafði áður heyrt í á tónleikum hafi verið Spilverk þjóðanna og svo Bubbi, í Möðruvallakjallara, þetta eina haust sem ég var nemandi við MA hér um árið. Þannig að þessi ferð með mínum heittelskaða í Borgarbíó var svolítið sérstök fyrir ýmsar sakir.

Það er gaman að geta þess að eftir tónleikana nú á laugardaginn, kom til okkar kona, tja eða hún kom nú til Vals öllu heldur, og rifjaði upp að hún hefði setið við hliðina á Val á tónleikunum í Borgarbíói hér um árið. Hann hefur þá greinilega verið umkringdur kvenfólki við það tilefni, því ég sat jú hinum megin við hann.


laugardagur, 3. desember 2011

Sofnaði ekki á tónleikunum

... en það munaði ekki miklu. Við sátum á 3ja bekk og fengum því söng og píanóleik nánast beint í æð. Það var gaman að geta fylgst náið með svipbrigðum þeirra Kristins og Víkings Heiðars, og þannig lagað séð var gaman að sitja svona framarlega. Það er þó ábyggilega betra að sitja á 4-5 bekk, vegna þess að þá er maður í svipaðri hæð og sviðið. Mér finnst eiginlega að enginn ætti að þurfa að sitja á 1-2 bekk því þá fær maður nú bara hálsríg af að horfa uppá sviðið fyrir framan sig. Eiginlega hönnunargalli.

En svo ég víki nú sögunni aftur að tónleikunum sjálfum þá var gaman hvað þeir tveir eru miklar andstæður í útliti. Þrjátíu og fimm ár skilja þá að í aldri og á meðan Víkingur Heiðar er fremur smávaxinn og nettur, er Kristinn þrekinn og stórbeinóttur.  Sá yngri var í aðsniðnum jakkafötum með bindi, gleraugu með dökkri umgjörð og hárið klippt þannig að toppurinn slúttir fram þegar hann hallar sér fram og spilar af ástríðu á píanóið. Sá eldri var í svörtum jakkafötum sem pössuðu honum ekkert alltof vel. Þau voru víð og nokkuð farin að láta á sjá. Innan undir var hann í smókingskyrtu en án hálstaus, sem gaf léttara yfirbragð. En þrátt fyrir ólíkt yfirbragð var samvinnan milli þeirra fumlaus og virðing ríkti greinilega af beggja hálfu fyrir hinum aðilanum. Söngurinn var frábær, Kristinn fór létt með bæði hæstu og lægstu tóna og söng af mikilli tilfinningu. Hið sama má segja um píanóleikinn, alveg fyrsta flokks og vel það.



Það eina sem var að trufla mig var lýsingin. Salurinn sjálfur var myrkvaður en sviðið vel uppljómað og birtan af sviðinu skar mig dálítið í augun. Sennilega af því ég var þreytt. Lausnin var að loka augunum og sitja bara og hlusta með lokuð augu. Sem var afskaplega notalegt, en leiddi til þess að í rólegustu köflunum var ég hreinlega alveg að sofna. Úff, það slapp nú samt fyrir horn. En um leið og heim var komið var sófinn í stofunni skyndilega orðinn minn besti vinur og þar lá ég fram að kvöldmat.

Eftir kvöldmat var ég áfram þreytt og pínu pirruð. Aðallega pirruð yfir því að vera svona þreytt og svo langaði mig út að taka myndir. Það jók eiginlega á pirringinn því ef ég ætlaði út að taka myndir, þá vissi ég að ég þyrfti að nota þrífótinn og taka myndir á tíma. Sem ég geri aldrei! Einhverra hluta vegna þá finnst mér þrífótur hefta mig svo mikið. Það á ekki við mig að standa kyrr á sama stað og láta stöðuna á þrífætinum ráða sjónarhorninu á myndefnið. Ég vil helst vera á röltinu og beygja mig niður eftir þörfum. Vissulega er jú hægt að ganga með þrífótinn með sér, hann er léttur, en ég er svo mikill klaufi við að stilla lappirnar á honum rétt. Svo er myndavélin orðin pikkföst ofan á honum og ef ég vil taka mynd sem er lóðrétt þá þarf enn að breyta stillingu á þrífætinum. Allt hægt samt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég ákvað að mér myndi líða svona þúsund sinnum betur andlega ef ég sigraðist á þreytu og ótta við þrífótinn og drifi mig út. Svo við Valur skelltum okkur í kuldagallann og brunuðum af stað. Fyrst vorum við niðri við Bílasölu Höldurs, en þar höfðum við séð nokkuð skemmtilegt myndefni fyrr um dagin. En ég varð fljótt leið þar og Valur hafði þá hugmynd að fara í kirkjugarðinn. Þar voru mikil rólegheit, allt svo undrakyrrt og næg myndefni. Ég sá fljótt að ég hafði heldur betur miklað of mikið fyrir mér að taka myndir á tíma, þetta var afskaplega einfalt. Í myrkrinu í gær kom best út að taka myndir á sem lengstum tíma, eða 30 sek. Það sem reyndist erfiðast var að standa svona mikið kyrr, enda var 6-7 gráðu frost úti. En við áttum virkilega notalega stund saman þarna í kirkjugarðinum hjónin :-)

Í gær fór Ísak á sína fyrstu árshátíð í MA

Og af því tilefni smellti ég af honum nokkrum myndum. Ég hef lítið æft mig í að taka myndir af fólki, auk þess sem ég kann ekki að taka myndir með flassi... svo þetta er niðurstaðan.

Andri var farinn á jólahlaðborð með SS byggi, en hann fór líka út í svörtum jakkafötum með slaufu. Hann hafði keypt sér slaufu fyrr en þessi sem Ísak er með um hálsinn er gömul slaufa af pabba hans. Alltaf gott að geta fundið gamla fjársjóði og endurnýtt þá :-)


Tónleikar á eftir

Við Valur erum að fara á tónleika á eftir og hlökkum bæði til. Það eru Víkingur Heiðar á píanó og Kristinn Sigmundsson sem syngur Vetrarferðina eftir Schubert. Ég er enginn besserwisser þegar kemur að tónlist, heldur hef bara gaman af að hlusta á eitthvað fallegt.

Í gær var ég að vinna til að verða fjögur og ætlaði þá bæði á pósthús og í banka, en hætti við hvoru tveggja sökum langra biðraða á báðum stöðum. Þá fór ég í staðinn á Flytjanda og sótti mottur sem við höfðum pantað (óséðar) frá Ikea. Svo brunaði ég í Purity Herbs þar sem var fyrirtækjaheimsókn fyrir FKA konur. FKA stendur fyrir Félag Kvenna í Atvinnurekstri og ég var að reyna að sýna smá lit með því að mæta, því ég hef ekki mætt á hina tvo viðburði haustsins. Það var fróðlegt að heyra Ástu segja frá fyrirtækinu og svo fengum við að skoða húsakynnin. Eftir að hafa verið með fyrirtækið í of litlu húsnæði í 17 ár eru þau nýlega búin að stækka við sig. Ásta sagði okkur frá því að í góðærinu hefðu menn frá bönkunum komið að máli við sig hvað eftir annað og boðið henni að taka lán til að kaupa stærra húsnæði. Þegar hún hafði neitað, spurðu þeir hvort hún vildi ekki þá ekki alla vega taka neyslulán, fá peninga til að ferðast, kaupa sér húsgögn og föt, því hún væri jú með svo góð veð! Fáránlegt í einu orði sagt.

Í gærkvöldi var ég satt best að segja nánast rænulaus sökum þreytu og varð því kannski fyrir enn meiri vonbrigðum en ella, þegar Valur tók mottuna sem fara átti í stofuna, úr umbúðunum. Mottan var allt öðruvísi á litinn en ég hafði ályktað út frá ljósmyndinni á netinu. Þar virtist hún vera grábrún, einlit, en í raun er hún dröfnótt, eða yrjótt, brún og hvít. Það er að segja, sumir þræðir eru alveg brúnir og sumir alveg hvítir. Ég skil ekki alveg hvernig þeim tókst að taka ljósmynd sem sýnir mottuna sem einlita. En  ég hafði reyndar hugsað mér að mála (láta þrælinn mála) endaveggina í stofunni í grábrúnum lit og kannski verður í lagi með mottuna þegar búið er að mála... Úff, best að sofa á þessu mottumáli aðeins lengur. Ég er líka oft lengi að venjast breytingum, finnst sumt ljótt í fyrstu en verð svo hæstánægð með það.

Svo var ég farin í háttinn klukkan tíu eða um það bil, og svaf til hálf níu í morgun. Gott að geta sofið þegar maður er þreyttur! Í morgun fór ég að vinna klukkan tíu og vann til rúmlega tólf. Þetta er í raun ekki mín vinnuhelgi en sem sagt, sem verslunareigandi þá þýðir nú lítið að væla um það, hehe. Það var samt notalegt í vinnunni því það var rólegt og ég var að dunda mér við að þurrka af ryk, fylla á vörur, raða reikningum í möppu og svoleiðis. Svo voru nú leikar að æsast þegar ég fór og mig grunar að þær Silja og Sunna fái nóg að gera í dag.


fimmtudagur, 1. desember 2011

Þegar Hrefna átti afmæli um daginn




ætlaði ég að skanna inn gamlar myndir af henni til gamans, en kom því ekki í verk. En nú er skanninn kominn á borðið og tengdur við tölvuna og þar af leiðandi koma hér nokkrar myndir af okkur mæðgunum á fyrstu mánuðunum. Því miður hef ég ekki hugmynd um það hvenær nákvæmlega þessar myndir eru teknar ...

Skammdegið er greinilega komið í hús

Ég svaf til hálf tíu í morgun og fór létt með það. Úti er ennþá rökkur og ég sit hér nánast hálfsofandi. Lítil merki sjást um dagsbirtu, og miðað við útganginn á mér er ekki hægt að sjá að ég eigi að mæta í leikfimi eftir 40 mínútur.

Í gær var ég að vinna frá 10 til 15.45. Þá fór ég heim og hugsaði að nóg væri komið af vinnu þann daginn. Ekki stóð ég nú samt við það, því þegar ég var búin að fá mér aðeins í gogginn settist ég við tölvuna og fór að reikna út launin. Það er dálítið tímafrekt því við skrifum vinnutíma allra upp í Excel skjal og þó Excel sé síðan eldsnöggt að reikna út fjölda tíma (sem við setjum síðan inn í þar til gert launakerfi sem reiknar út sjálf launin, frádráttarliði og slíkt) þá er það alltaf smá handavinna að skrifa tölur inn í Excel og passa að réttar tölur fari á rétta staði. Að því loknu fór ég að skoða vörulista frá Sagaform og klippa þar út myndir af vörum til að auglýsa þær á facebook. Það var líka handavinna því skjalið var á pdf formi og ég þurfti að taka skjámynd af þeim vörum sem ég vildi og vista þær sem jpg skjöl, svo hægt væri að hlaða þeim inn á fb. En þá eigum við líka fleiri myndir í góðum gæðum sem hægt er að nota þegar við erum að auglýsa í Extra dagskránni. Svo fór ég að skoða verðlista yfir nýjar vörur sem við höfðum ekki komist í að vinna úr. Þá þarf að finna mynd af viðkomandi vöru á netinu, skoða hvað hún myndi kosta út úr búð hjá okkur, og ákveða hvort við viljum panta hana og þá í hvaða magni. Þetta síðasta gerum við Sunna raunar yfirleitt í sameiningu og þess vegna hringdi ég í hana eftir kvöldmatinn og við tókum smá syrpu saman.

Þegar hér var komið sögu var ég orðin frekar steikt í höfðinu en Anna systir bjargaði því að ég yrði enn verri með því að hringja í mig á Skype og við spjölluðum aðeins saman. Alltaf gaman að heyra í fólkinu sínu, ég er að verða enn viðkvæmari fyrir því með aldrinum, hvað er langt á milli okkar allra. Ekki þannig samt að ég hugsi um það alla daga... En já það væri notalegt að geta hist oftar. Það gildir líka um fjölskylduna hans Vals en þau eru jú öll í Reykjavík.

Jæja nú er ég hætt þessu bulli. 30 mínútur þar til leikfimin byrjar, ég ekki búin að borða og Birta liggur í fanginu á mér malandi sæl og glöð. Verst að þurfa að henda henni niður á gólf en við það verður ekki ráðið.

þriðjudagur, 29. nóvember 2011

Jæja var dugleg í dag

En ekki dugleg í þeirri merkingu að hafa gert margt og mikið, heldur var ég dugleg að hvíla mig :-) Ég átti ekki að mæta í vinnu fyrr en seinni partinn og ákvað að reyna að sofa eins lengi og ég þyrfti. Með þeim afleiðingum að ég steinsvaf til rúmlega níu og lá í rúminu til hálf tíu. Þá var ég ekkert að æsa mig heldur borðaði morgunmat í rólegheitum, las blöð og gerði fátt. Tja, setti reyndar í eina þvottavél, braut saman þvott, tók úr uppþvottavélinni, gerði við eina peysu, fór í sturtu, bjó til hráfæðis"deig" sem ég setti í þurrkofninn ... en allt þetta gerði ég í afslöppuðum gír. Svo ætlaði ég nú að mæta í vinnuna kl. 13.30 en fékk svo hraustlegar blóðnasir að þær töfðu mig um korter. Það tafði mig líka að finna pakka sem ég ætlaði með í póst í gær en gleymdi, sem leiddi til þess að ég fór á pósthúsið fyrir vinnu og mætti rétt á slaginu tvö í vinnuna. Þar var afskaplega rólegt líka vegna þess að úti var veður vont (jæja semi-vont eins og Ísak myndi kannski segja) og fáir á ferli. Hins vegar hafði komið nokkuð stór sending af vörum og nóg að gera við að taka hana uppúr kössum. Því er nú ekki lokið enn en liggur svo sem ekki lífið á. Það er ekki von á fleiri stórum sendingum í vikunni, svo það þarf ekki að stressa sig eins mikið yfir að taka upp.

Hérna heima var Valur svo búinn að elda pítsur. Ég hafði verið búin að gera pítsubotn handa mér sem er laus við hveiti og þetta kom bara svona ljómandi vel út. Innihaldið er sem hér segir:
4 dl möndlur lagðar í bleyti í sólarhring og afhýddar
1 dl rifnar gulrætur
1 tómatur
1 hvítlauksrif
smávegis salt
1 msk þurrkað oreganó
2 dl fínt möluð hörfræ
Það á að vera hægt að gera einhvers konar ost-líki úr kasjúhnetum en ég er ekki komin alveg svo langt í fræðunum ennþá. Það er pínu skrítið að borða pítsu án osts en það mun ábyggilega venjast. Svo var ég með hummus með henni og það kom líka ótrúlega vel út. Ég er samt ekki að detta í hráfæðisgírinn þó ég sé komin með þurrkofninn, eins og sést best á því að þrátt fyrir að hafa þurrkað pítsubotninn samkvæmt öllum hráfæðisreglum, þá langaði mig í heita pítsu og Valur hitaði mína alveg eins og þeirra. En ég á líka eftir að þreifa mig meira áfram með ofninn t.d. í smákökugerð. Núna er í honum kex sem ég er að þurrka. Í kexinu eru hörfræ, tómatar, paprika, sólþurrkaðir tómatar, hvítlaukur og safi úr einni sítrónu. Ég er nú búin að smakka það og þetta er ótrúlega bragðsterkt.

Í kvöld átti að vera fundur í ljósmyndaklúbbnum en hann féll niður. Í staðinn setti ég upp jólagardínurnar (í hreinu og fínu gluggana sem Valur var búinn að þvo) og þræddi jólaseríur utan um stálhringi sem komu innan úr Ikea krönsunum (sem reyndust ónýtir þegar þeir voru sóttir í geymsluna). Það væri kannski fallegra að hafa eitthvað skraut með seríunum, þetta er afskaplega spartanskt svona, og kannski panta ég skrautlengjur frá einum heildsalanum sem við skiptum við. Svo eru þetta 20 ljósa seríur og gefa ekkert sérlega mikla birtu frá sér, en samt betra en ekki neitt.

Já, í morgun skannaði ég líka inn gamla mynd af mér og Rósu vinkonu, í tilefni þess að Rósa á afmæli í dag. Við vorum bestu vinkonur sem krakkar og erum enn mjög góðar vinkonur, svo mér datt í hug að skanna þessa mynd og setja á facebook hjá henni með afmæliskveðjunni. Og til gamans kemur myndin hér.

sunnudagur, 27. nóvember 2011

Arg!

Þreytt - þreytt - þreytt. Þrátt fyrir 2ja daga helgarfrí er ég ennþá þreytt og verð að viðurkenna að það vex mér ógurlega í augum að eiga að mæta í vinnu á morgun. Kannski verð ég hressari á morgun, það má vona... Reyndar hef ég jú ekki verið alveg í fríi frá vinnu. Var að vinna í bókhaldinu á föstudagskvöldinu og í morgun og svo hefur mér gengið framúrskarandi illa að setjast / leggjast og bara hvíla mig. Ég hef einhvern veginn ekki eirð í mér til að vera kyrr og finnst að ég eigi að vera á fullu að gera eitthvað gáfulegt.

Svo er virkilega erfitt andlega séð að detta aftur niður í svona gríðarlega þreytu, eftir að hafa verið skárri um sinn. Og það er líka erfitt fyrir fólkið í kringum mig. Plús, að ég verð alveg óð í sykur og ég sem ætla ekki að borða sykur. Það er erfitt! Hingað til hef ég látið 70% súkkulaði, hnetur, kaffi og eina og eina döðlu duga, og eins gott að ég falli ekki í freistni nú þegar ég á bara eftir að verða enn þreyttari á næstu fjórum vikum. Þetta er algjör klemma sem ég er í, því ég þyrfti svoleiðis að vera á bremsunni og passa uppá að fá nægilega hvíld og t.d. ekki vinna 6 tíma í einu því ég veit af biturri reynslu að það er alltof mikið fyrir mig. EN - það er ekki hlaupið að því þegar maður er verslunareigandi og það í jólatörninni. Auðvitað munar rosalega um að við Sunna erum tvær, en helst þyrfti að vera manneskja með okkur stærstan partinn af desember ef vel ætti að vera.

Ég er eiginlega dauðfegin að hafa hætt í kórnum. Það er svo brjálað að gera þar núna, fyrst voru afmælistónleikar um daginn og svo verða tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd 8. des. og þetta hefði bara þýtt ennþá meira álag, svo það er gott að ég er hætt þar. Pínu sorglegt samt líka því mér fannst þetta svo skemmtilegt... en það er önnur saga.

Ég finn samt að það gerir mér gríðarlega gott að vera í leikfiminni. Á fimmtudaginn síðasta var leikfimi kl. 14 og ég hafði verið alveg svakalega þreytt allan daginn í vinnunni, og var mikið að hugsa um að sleppa leikfiminni í þetta sinn. Fór samt og var nánast eins og svefngengill allan tímann. Verkjaði endalaust í allan skrokkinn og vantaði allan kraft í vöðvana. Í lokin var slökun og ég náði að slaka nokkuð vel. Fór svo heim og fékk mér kaffi og eftir smá stund var ég bara öll önnur. Leið betur en mér hafði liðið allan daginn. Svo það er greinilega lífsnauðsynlegt að halda áfram í leikfiminni. Bara verst að það er að verða svo mikið að gera í vinnunni að það er varla forsvaranlegt að stökkva út kl. 14 á daginn. En það er nú að vísu bara einu sinni í viku, því hitt skiptið er leikfimin að morgninum. Samt, þá þarf núna endalaust að panta vörur og taka upp vörur, svona á milli þess sem við afgreiðum viðskiptavini, svo það er eiginlega á mörkunum að ég hafi samvisku til að stinga af í leikfimina. En geri það nú samt af því ég veit það gerir mér gott.


Afrakstur myndatöku gærdagsins

Mid-day sunshine by Guðný Pálína
Mid-day sunshine, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Enn eina ferðina tek ég mynd af þessari blessaðri bogabrú niðri við Strandgötu. Ég var nú eiginlega orðin leið á að taka myndir af henni, en þegar sólin er svona lágt á lofti þá er erfitt að finna stað á Akureyri þar sem sólin skín. Ég ætlaði t.d. í Lystigarðinn í gær en þar var engin sól.

laugardagur, 26. nóvember 2011

Frú Guðný á margt eftir ólært í saumaskap

Það þýðir greinilega ekkert að ætla sér að lifa á fornri frægð þegar kemur að saumaskap. Þó frú Guðný hafi saumað ýmislegt hérna í den, þá er ekki sjálfgefið að allt lukkist hjá henni í dag, eftir 20 ára hlé. Þessi staðreynd blasir nú við frúnni, eftir að hafa reynt að sníða langerma bol, sem mistókst svona hrapallega. Hún fylgdi sniði og upplýsingum um mál á sniðinu. Þar var raunar tekið fram að sniðið væri mun minna en eðlilegt gæti talist vegna þess að ætlast væri til að saumað væri úr mjög teygjanlegu efni. Frú Guðný var alveg með teygjanlegt efni - en greinilega ekki nógu teygjanlegt! Og ekki datt nú frúnni í hug að máta sniðið við einhvern langermabol sem hún átti fyrir, ónei. Ekki fyrr en hún var búin að klippa út ermar og bakhluta. Þá fyrst hringdu einhverjar aðvörunarbjöllur í huga hennar. Með smávægilega óþægindatilfinningu sótti hún gamlan bol og staðfesti þær grunsemdir sem vaknað höfðu. Nýi fíni bolurinn yrði sennilega svona 15-20 cm. of þröngur, aðeins!! Verst með fallega efnið sem keypt hafði verið. Það er reyndar aðeins eftir af því en afar ólíklegt að takist að sníða fram- og bakstykki úr því sem eftir er. Frúin hefur hins vegar lagt frekari saumaskap á hilluna í kvöld og því mun ekki fást endanlega skorið úr því máli fyrr en á morgun. Ef veikburða taugar leyfa.

Valur vinnur verkin

af listanum mínum...

Já það er ekki að spyrja að mínum duglega eiginmanni. Eftir að hafa lesið bloggið frá í gær (og jú, við tölum líka saman, svona ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér) dreif hann sig í gluggaþvott í morgun. Hann ætlaði líka að setja upp jólaljósin í gluggana í stofunni en þá kom babb í bátinn. Allir fínu jólakransarnir úr Ikea reyndust ljóslausir. Ein lausn á því vandamáli gæti verið að klippa gamla ljósabúnaðinn utan af krönsunum og vefja þá með nýjum seríum. Spurning hins vegar hvort það svarar kostnaði og fyrirhöfn. Þarf að kíkja í Rúmfó á eftir og athuga verð á seríum.

Af því sem stóð á listanum er ég líka búin að fara út og viðra mig. Ég tók myndavélina með, í fyrsta sinn í sex vikur held ég bara. Það var ágætt svoleiðis. Veðrið mjög gott, stillt og kalt og sólin skein. Ég get hins vegar ekki státað mig af því að hafa framkvæmt meira af þessum lista. Ég er bara ótrúlega lúin eitthvað og nenni engu. Ekki einu sinni að hvíla mig, hehe ;-)

föstudagur, 25. nóvember 2011

Jákvætt í dag

- Ég náði að sofna aðeins aftur, eftir að hafa fyrst vaknað kl. 4.30 og verið vakandi í nærri tvo tíma.
- Ég þreif kattaklósettið.
- Ég hengdi upp sturtuhengið, sem er svo hreint og fínt eftir að ég þvoði það í gær.
- Endurvinnslutunnan var tæmd.
- Við Sunna náðum að taka upp úr öllum kössunum sem komu í gær.
- Það var mikið að gera í Pottum og prikum.
- Ísak færði jákvæðar fréttir úr stærðfræðiprófi.
- Við Valur erum bæði í helgarfríi þessa helgina.


Hlutir sem ég þyrfti að gera um helgina, eða langar til að gera:
- Sníða og helst sauma langerma bol.
- Þvo gluggana í stofunni.
- Setja upp jólaljós í gluggana í stofunni.
- Baka fleiri hráfæðiskökur / kex.
- Skoða uppskriftabækur.
- Viðra mig eitthvað úti.
- Vinna aðeins í bókhaldinu.
- Hvíla mig.


fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Eyðibýli fyrir austan

Memory of summer by Guðný Pálína
Memory of summer, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Sem ég man ekki hvað heitir en Valur segir að heiti Kílakot. Tók myndina í dagsferðinni sem við Valur fórum á Melrakkasléttu í sumar.

Talandi um ferðir þá ók ég á Ólafsfjörð í gær og heimsótti Stínu vinkonu mína en við þekkjumst frá því í Tromsö. Hún er því miður ökklabrotin og mér datt í hug að henni þætti gaman að fá gesti, eftir að hafa verið 6 vikur heima í veikindaleyfi. Sú ályktun reyndist rétt og fannst mér aldeilis ágætt að nota frídaginn minn í að heimsækja hana. Það er þannig með okkur Stínu, að alveg sama hversu langt líður á milli þess að við hittumst (sem er yfirleitt alltof langt), þá er bara eins og við höfum verið að spjalla saman deginum áður. Engin óþægindatilfinning eins og stundum er þegar langt líður á milli "hittinga". Bara svo ósköp ljúft að hittast og rifja aðeins upp hvað hefur á daga okkar drifið síðan síðast. Það er ómetanlegt að eiga svona vini og maður skilur ekki hvernig stendur á því að við hittumst ekki oftar, aðeins 45 mín. á milli okkar, en svona er þetta bara. Mér finnst reyndar fólk almennt tala um það hvað tímarnir séu að breytast. Fólk er hætt að "kíkja í kaffi" án þess að gera boð á undan sér, og flestir eru svo uppteknir af því að lifa þessu dagsdaglega lífi að hlutir eins og að heimsækja vini verða útundan. Lífið snýst bara um að fara í vinnuna og klára allt sem þarf að gera s.s. kaupa í matinn, elda mat, sinna heimilinu og afkvæmunum. Allt í einu er dagur að kvöldi kominn og fólk svo örmagna að það hugsar um það eitt að slaka á eftir amstur dagsins. Ég er engin undantekning, og hef ég verið hálfgerð mannafæla þessi síðustu þreytu-ár í lífi mínu. Vonandi er þessi heimsókn til Stínu fyrstu merkin um að bjartari tímar séu framundan í tengslum við vinina :)

Upp og niður, upp og niður

Það er lýsingin á heilsufari mínu og ef litið er á björtu hliðarnar þá er betra að það sveiflist upp og niður, heldur en að það sé bara niðri.

En eins og venjulega, ef mér hrakar minnstu vitund, þá fer ég á fullt að leita skýringa, og kem með þær ansi margar og misgáfulegar.

  • Kannski var ég alls ekkert betri í skrokknum vegna mataræðisins, kannski var það bara vegna þess hve haustið hefur verið óvenju gott í ár. 
  • Kannski er það streita sem er að fara með mig núna. 
  • Kannski er ástæðan sú að við erum í sífellu að taka upp vörur í vinnunni, sem þýðir að það eru ansi mörg kíló sem maður lyftir upp úr kössum og handfjatlar í nóvember og desember. 
  • Kannski stífnaði ég svona mikið upp á því að keyra til Ólafsfjarðar í hálkunni og krapinu í gær. 
  • Kannski er það mataræðið eftir allt saman. Ég hef aðeins verið að auka kolvetnin, en það er helst í formi þess að borða gulrætur og 70% súkkulaði. Það er samt ekki í því magni að það ætti að koma að sök. 
  • Kannski er ég stíf í mjöðmum og baki eftir að labba upp Kotárbrekkuna í tvígang með stuttu millibili. 


Já svona heldur listinn áfram og ef þetta er ekki ofhugsun þá veit ég ekki hvað. Málið er bara að hugsa sem svo: "Ég er þreytt og mig verkjar í skrokkinn þessa dagana, en það er áreiðanlega bara tímabundið. Ég hressist fyrr en varir og ætla pottþétt að halda áfram með mataræðið sem hefur gagnast mér svona vel."

Og með þessum jákvæðu lokaorðum ætla ég að hætta þessu pári og drífa mig í vinnuna.

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Greitt úr óreiðu í búrinu

Við búum svo vel að vera í húsi þar sem er búr inn af eldhúsinu. Það er afskaplega þægilegt og stutt að fara í frystikistuna og sækja matvörur. Þar inni er líka endurvinnslu-miðstöðin, eða plastkassar sem safnað er í pappír, hörðu plasti, áldósum, gleri, flöskum og mjúku plasti. Endurvinnsludæmið tekur nú sitt pláss og það gera matvörurnar líka því Valur á það til að kaupa mjög hraustlega inn af niðursuðu- og pakkavöru þegar hann fer í Bónus.

Þurrkofninn er svipaður á stærð og örbylgjuofn og einhvers staðar þurfti að koma honum fyrir. Til að byrja með settum við hann þar sem örbylgjuofninn var áður en þá komst ég að því að ég þoli illa að hlusta á hljóðið í honum langtímum saman. Það liggur jú í hlutarins eðli að ef þurrka á matvöru við rúmlega 40 gráðu hita þá getur það tekið óratíma, allt eftir því hvað verið er að þurrka. Viftan er í gangi allan tímann og ofninn er allur mjög opinn (ekki hljóðeinangraður).  Lausnin varð að færa þurrkofninn inn í búr og örbylgjuofninn tilbaka á sinn stað. En til þess að það mætti verða, þurfti frú Guðný að laga til í búrinu og losa tvær troðfullar hillur. Svoleiðis vinna finnst mér reyndar alls ekki leiðinleg því hún krefst smá hugmyndaauðgi. En það var nú samt smá flókið og sumum hlutum þarf að finna nýjan samastað s.s. límbyssu, slatta af mósaíkflísum og kassa sem inniheldur fjársjóði úr fjörunni. Þessir hlutir tilheyrðu föndurtímabilinu í lífi mínu, sem ég gekk í gegnum fyrir margt löngu, þegar Ísak var lítill. Svei mér þá ef það örlaði ekki á smá löngun til að fara að föndra aftur þegar ég handlék þessa hluti. 

Í búrinu fann ég líka gamla mynd sem ég átti sem krakki. Þetta er klassísk mynd af lítilli stúlku að ganga yfir mjóa trébrú. Stúlkan er í rauðu pilsi, hvítri stuttermablússu og brúnleitu vesti. Á handleggnum hefur hún tágakörfu en í hinni hendinni heldur hún á blómi. Undir brúnni er beljandi stórfljót en stúlkan er örugg því yfir henni vakir fallegur engill. Engillinn er kvenkyns, með sítt ljóst hár og í fallegum bláum kjól. Já og með vængi að sjálfsögðu. Úti er dimmt en birtu stafar af englinum og lýsir hún stúlkunni leið. Þetta er voða falleg mynd og hefur kostað 105 krónur en það er skrifað með blýanti aftaná gráan grófan pappírinn á bakhliðinni. Minnið svíkur mig hins vegar þegar kemur að því að vita hver gaf mér myndina og hvenær. Einhverra hluta vegna finnst mér eins og þetta hafi verið gjöf frá Rósu vinkonu en það gæti allt eins verið vitleysa. 

Í búrinu fann ég líka gamla tréskál. Var hún kannski gjöf frá Rósu? Eða var hún frá Önnu systur? En skálin er mjög létt, gæti verið úr bambus m.v. þyngd, gyllt á litinn með máluðu blómamunstri. Efst er rauðbrún rönd en botninn er svartur. Úff, stundum vildi ég óska að ég hefði betra minni. Skil ekki af hverju ég man ekki svona einfalda hluti. 

P.S. Fyrsti baksturinn í ofninum gekk nú ekkert alltof vel. Ég hafði kökurnar of þunnar og það er of mikið bragð af ólífuolíu af þeim. Geri aðra tilraun von bráðar. 

sunnudagur, 20. nóvember 2011

Óreiða í huganum

Samanber söguna hennar Kristínar Marju, "Óreiða á striga". Það koma svona dagar þar sem óreiða er alls ráðandi í huga mínum. Þá er einhvern veginn eins og ekkert "passi saman" og hugurinn æðir viðstöðulaust í allar áttir. Þetta gerist gjarnan þegar ég er þreytt. Stundum verð ég þunglynd þegar ég er þreytt, stundum fer ég í þessa óreiðu, veit eiginlega ekki hvort er verra. Það sem virkar best á hugann þegar ég er í þessu ástandi er að gera eitthað líkamlegt - en það er aftur á móti ekki eins gott þegar þreytan er alls ráðandi. Sem sagt smá dilemma. Ansi oft hef ég farið að laga til þegar ég er í þessu standi, en Valur stoppaði mig af áðan þegar ég ætlaði að byrja á því, og sagði (réttilega) að þá yrði ég bara enn þreyttari eftirá. Þannig að ... úrræðið varð að setjast niður og reyna að róa hugann með því að skrifa.

Talandi um að gera eitthvað líkamlegt, þá fór ég raunar í smá gönguferð áðan. Gekk mjög stuttan hring hér í hverfinu, en merkilegt nokk, ákvað að ganga upp bratta brekku, svona til að sjá hvernig formið væri. Fyrir þá sem til þekkja, þá gekk ég nánar tiltekið upp Kotárbrekkuna, eða það sem er eftir af henni síðan nýja hverfið var byggt. Stoppaði að vísu tvisvar á leiðinni upp en fann samt mikinn mun á mér frá því í vor/sumar. Ég reyndi ekki einu sinni að ganga þennan stíg þegar ég var sem verst.

Annars er það helst að frétta að hér er kominn þurrkofn í hús. Þegar ég var farin að kaupa hráfæðiskex dýrum dómum, datt Vali í hug að betra væri að eiga sinn eigin ofn og yrði það fljótt að borga sig. Mér finnst reyndar hráfæðiskex mjög gott og svo er líka hægt að "baka" smákökur, pizzubotna og fleiri hollustuvörur í ofninum. En merkilegt nokk, þá fæ ég líka smá sting í magann yfir þessum ofni, sem er bara fyndið. Óttast að ég verði ekki nógu dugleg að nota hann (fátt verra en eyða peningum í vitleysu) og svo krefst þetta skipulagningar og þolinmæði sem ég veit ekki hvort ég er fær um. En á sama tíma veit ég að mér líður mjög vel af hráfæði og þá er auðvitað um að gera að reyna að auka þátt þess í mataræðinu.

P.S. Fór í Bónus og ætlaði bara rétt að kaupa pylsur og eitthvað smá en kom með 3 fulla poka út. Svo fór ég í Hagkaup og ætlaði að kaupa grænmeti, en stoppaði óvart hjá snyrtivörunum. Kom út með augnblýant og augnskuggan en ekkert grænmeti... Var dottin í full-time þreytu-breakdown þegar ég kom heim - og fékk smá skammir af eiginmanninum - sem vill mér allt hið besta og finnst að ég eigi að hafa vit á því að falla ekki í svona heimskupytti.

laugardagur, 19. nóvember 2011

Að öðlast nýtt líf er ekki lítils virði

Já mér líður eiginlega eins og ég sé að fá lífið mitt tilbaka eftir næstum 3ja ára þyrnirósarsvefn. Á þessum síðustu árum hefur tilveran einkennst af því að reyna að tóra, reyna að þrauka daginn í dag, eða bara næsta klukkutíma. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta hefur verið ömurlegt ástand, þó lesendur bloggsins hafi áreiðanlega gert sér í hugarlund að ástandið væri ekki gott. Bloggið varð ein leið mín til að höndla þessar aðstæður sem ég var komin í og fannst ég ekki geta rætt um við neinn. Það var samt tvíeggjað sverð, því um leið og það veitti mér fróun að geta tjáð mig hér um þreytuna, verkina og allt sem því fylgdi, þá var það á sama tíma erfitt fyrir mína aðstandendur að lesa þetta efni.

Sem sagt, þrátt fyrir að ekki séu allir dagar jafn góðir, og ég finn að ég er greinilega mjög "viðkvæm" fyrir þreytu og þarf virkilega að passa mig, þá er ég áframhaldandi að hressast. Fólk er farið að tala um að ég líti betur út og bara það að ég er aftur farin að hafa áhuga á að gera eitthvað skapandi s.s. að sauma, er gott merki. Annað dæmi er að á meðan ég var í þessu þreytustandi þá gat sú einfalda athöfn að ákveða í hvaða föt ég ætlaði að fara þann daginn, verið kvalræði fyrir mig. Nú er ég aftur komin með áhuga á að setja saman mismunandi fatnað og langar að líta vel út. Reyndar komin með of mikla fatadellu held ég, því þrátt fyrir að hafa keypt mér skó um síðustu helgi langar mig að kíkja í Mössubúð en þar er 20% afsláttur af öllum skóm núna... Hehe, já já ein alveg sjúk. Svo keypti ég peysu/jakka á 40% afslætti í Benetton núna í vikunni - sem passar svona líka ljómandi vel við nýja heimasaumaða pilsið mitt :-)

Annars gerðist það helst markvert í vikunni að ég fann aftur hálsmen sem er búið að vera týnt í meira en ár. Í fyrrahaust þegar ég byrjaði í kórnum þá var kórbúningurinn / kjóllinn svo fleginn að mér fannst nauðsynlegt að hafa eitthvað fallegt um hálsinn. Ætlaði að nota eina hálsmenið sem ég átti (ég er ekkert sérstaklega glysgjörn að eðlisfari) en fann það þá hvergi og "neyddist" til að fara til Halldórs úrsmiðs og kaupa mér nýtt hálsmen fyrir kórinn. Þegar ég útskýrði málið fyrir Möggu sem þar vinnur  missti hún andlitið þegar hún heyrði að ég ætti aðeins eitt hálsmen, og sagðist ekki vita hversu mörg hún ætti, eða óteljandi mörg sem sagt ;-)

En sem sagt, í vikunni kom maður að lesa af rafmagni og hita hjá okkur. Það er gert á neðri hæðinni og á meðan hann var að lesa af mælunum leit ég í kringum mig og kom auga á dúkkuvöggu sem Hrefna átti þegar hún var lítil. Í fyrrasumar var ég að hugsa um að gefa vögguna, til að rýmka til í geymslunni, en tímdi því svo ekki þegar til kom. Einhverra hluta vegna lenti hún svo á flandri hér innanhúss og var nú stödd á ganginum niðri. Í vöggunni lá dúkkan mín gamla, Kolla, en ofan á henni var fullt af einhverju dóti. Ég kíkti í gegnum þetta dót og viti menn - ofan í vöggunni lá hálsmenið mitt! Svona getur það nú haft gott í för með sér að fá aflestur á hitaveitu- og rafmagnsmælum :-)

P.S. Rétt skal vera rétt. Ég á eitt hálsmen í viðbót, sem Anna systir gaf mér, að því er mig minnir í fertugsafmælisgjöf. Það er mjög fallegt en pent og látlaust, svo það var ekki alveg nógu áberandi við kórkjólinn.

föstudagur, 18. nóvember 2011

Held áfram að fara í gegnum gamlar myndir

Markmiðið er að henda út sem flestum myndum sem eru ónothæfar, því þær taka jú svo mikið pláss í tölvunni. Hér er ein frá því í fyrrahaust, en þá reyndi ég að fara út með myndavélina þegar færi gafst, og viðra mig í leiðinni. Hef voða lítið viðrað mig þetta haustið... Held samt að nú langi mig bráðum að fara að taka myndir aftur.

Á morgun er kórinn minn fyrrverandi að halda tónleika. Mig langar mikið á þessa tónleika en það langar Silju ábyggilega líka, sem er að vinna með mér. Mamma hennar er nefnilega í kórnum. Hins vegar ætlar Anna (sem vinnur hjá okkur og var líka í kórnum) á tónleikana og ekki get ég beðið Sunnu að skipta því hún er nýbúin að skipta við Önnu... svo ég fer ekki neitt. Ekki þar fyrir, ég lifi það alveg af og þar að auki þá hef ég á tilfinningunni að það verði nóg að gera í vinnunni á morgun, svo ekki mun mér leiðast. Annars skil ég ekki alveg hvað þessi mynd verður gul hérna, mér fannst hún ekki svona gul í myndaforritinu áðan...

P.S. Með því að smella á myndina stækkar hún og birtist að auki á svörtum bakgrunni.

miðvikudagur, 16. nóvember 2011

Ég rakst á þessa skemmtilegu mynd

þegar ég var að fara í gegnum gamlar myndir. Hér má sjá Val vera að búa til spaghetti, en heimagert pasta er náttúrulega ekkert líkt þessu sem keypt er í búðum, heldur miklu betra. Því miður er pasta dottið út af matarlistanum mínum og þegar aðrir fjölskyldumeðlimir borða pasta þá borða ég niður-rifinn kúrbít. Sem er í góðu lagi. En já þessi mynd hefur greinilega verið tekin um jólaleytið m.v. rauðu gardínurnar ;-)

mánudagur, 14. nóvember 2011

Pilsið tilbúið

og frúin fór í nýja pilsinu sínu í vinnuna í dag :-) Ég á samt eftir að taka mynd af því til gamans og birta hér.

Annars átti ég víst afmæli á laugardaginn og varð einu árinu eldri eins og lög gera ráð fyrir. Afmælisdagurinn var hinn ágætasti og byrjaði með því að ég fór á fyrirlestur í Eflingu um úrræði við  vefjagigt. Þau snérust að mestu leyti um það hvað maður gæti gert sjálfur s.s. að draga úr streitu og álagi, njóta líðandi stundar, bæta svefninn með slökun ofl., hreyfa sig daglega og huga að mataræðinu. Þarna var ekkert nýtt fyrir mér en þar er samt alltaf gott að hnykkja á sumum hlutum s.s. þessu með streituna. Sérlega mikilvægt núna þegar jólavertíðin er að fara í gang í búðinni og sá tími að koma að ég á mjög erfitt með að hafa stjórn á aðstæðum. Það er að segja, það þarf að panta vörur (sem er mjög tímafrekt), það þarf að taka upp vörur (sem getur verið líkamlega erfitt og stressandi því ekki er hægt að hafa kassa með vörum í marga daga bakvið afgreiðsluborðið) og það þarf að afgreiða viðskiptavinina. Svo þarf eftir sem áður að halda búðinni í þokkalegu standi, þurrka af ryk, ryksuga ofl. Í síðustu viku fengum við t.d. mjög stóra sendingu og þá verðum við bara að vinna á fullu þar til hún er öll komin uppúr kössum og upp í hillur eða inná lager. Enda er ég ennþá lúin eftir það. Ég þarf samt einhvern veginn að ná að vinna betur úr þessum atriðum svo ég drepi mig ekki alveg á jólavertíðinni. Einmitt núna þegar ég er að byrja að hressast þá held ég að það sé mjög mikilvægt að ég reyni að passa mig. En hvort það er hægt, er svo allt önnur Ella.

Eftir fyrirlesturinn fór ég heim þar sem Valur gaf mér kaffi og færði mér líka bók í afmælisgjöf. Áður var hann eiginlega búinn að gefa mér ilmvatn og svo er þurrkofn handa mér á leiðinni í hús, svo maður skyldi halda að ég væri komin með nóg af gjöfum. En aldeilis ekki. Það var eitthvað Tax-free dæmi í gangi í miðbænum og 20% afsláttur í flestum verslunum, svo ég varð náttúrulega að skreppa í bæinn.  Byrjaði í Vouge og keypti mér efni í tvær flíkur til viðbótar. Eitt rosa skræpótt sem ég ætla að sauma langermabol úr, og eitt fallega grænt sem á að verða kjóll. Næsta stopp var í Sirku og þar rak ég augun í tösku sem ég sá á augabragði að yrði alveg fullkomin sundtaska. Grá með ljósum doppum og mátulega stór. Ég er búin að vera með sömu sundtöskuna síðan ég byrjaði að synda svona reglulega og hún var að verða dálítið slitin, auk þess sem hún er merkt lyfjafyrirtæki, og það er náttúrulega ekkert sérlega smart. Næst fór ég í Viking, sem er túristabúð, en þar hafði ég augastað á gærumokkasínum og fékk þær að sjálfsögðu líka með 20% afslætti. Mér er alltaf svo kalt á fótunum á veturna en ef ég er berfætt í þessum inniskóm þá er mér nokkuð hlýtt. Þegar hér var komið sögu var ég að verða ansi lúin en á leiðinni í bílinn datt ég "alveg óvart" inn í tískuverslunina Rexín og sá þar svo fallega skó sem ég féll fyrir. Þeir eru gráir, með smá hæl og bandi yfir ristina (já Hrefna þú last rétt!) og það sem best er, eru með "anti-shock" kerfi sem dregur úr álagi á hrygginn og liðina. Svo skórnir fylgdu mér heim og eru hugsaðir sem skór í vinnuna, þegar ég er í pilsi eða kjól. Síðan ég fékk brjósklosið hef ég ekki getað gengið á neinum hælum sem eru hærri en 2-3 cm. og hef notað svört leðurstígvél við pils og kjóla, en er orðin svolítið leið á þeirri samsetningu.

Um kvöldið fórum við svo út að borða fjölskyldan (sá partur hennar sem býr á Akureyri) og það var bara virkilega vel heppnað. Við fórum á stað sem heitir Goya Tapasbar og maturinn var góður og allir glaðir, svo ekki var hægt að fara fram á neitt meira.

Hér má svo sjá sundtöskuna mína fínu :-)

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Enn ekkert pils...

en hins vegar tókst mér nánast verkfræðilegt afrek í kvöld, er ég skipti um rennilás í vinnubuxum sem Andri á. Rennilásinn gamli var orðinn ónýtur, en það gekk nú ekki þrautalaust að ná honum úr, svo vel festur var hann. Þetta hafðist þó allt fyrir rest en líklega var ég 1,5 tíma að þessu. Það rifjaðist upp fyrir mér að sérstakur rennilása-fótur fylgdi með saumavélinni og var ég nú bara nokkuð ánægð með mig að geta græjað þetta sjálf. Já, það þarf stundum ekki mikið til að gleðja mann.

Annars er bara endalaust fjör í vinnunni við að taka upp vörur. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um leti hér á blogginu í gær, fór ég niður í vinnu í klukkutíma fyrir kvöldmat og lagaði til á lagernum. Mætti svo líka fyrr í morgun og hélt áfram að hagræða hlutum. Enda kom í ljós að ekki veitti af, þegar Pósturinn mætti með 2 stór vörubretti og svo marga kassa að ég nennti ekki einu sinni að telja þá. Til að kóróna ástandið sótti Sunna svo líka vörur á leiðinni í vinnuna í dag, þannig að það er hreinlega allt á floti í vörum hjá okkur. Lagerinn er svo lítill og það er heldur ekki pláss í búðinni fyrir þetta allt saman. Eins gott að nú taki jólaverslunin góðan kipp um helgina :-)

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Ekkert pils komið enn...

og það er nú bara leti um að kenna. Ég var svo lengi í vinnunni í gær að ég var of þreytt til að setjast við saumavélina þegar ég kom heim. Og í dag var ég í klippingu og litun á hárgreiðslustofu - og það er nú eiginlega bara nóg dagsverk. Úff, ég er að verða ótrúlega þreytt á því að lita á mér hárið, en er víst ekki tilbúin til að verða gráhærð, svo ætli ég haldi ekki þessum lita-feluleik áfram. Er samt að spá í að hætta þessu þegar ég verð fimmtug... Hehe, það eru víst ennþá þrjú ár í það, og nægur tími til að skipta um skoðun ;-)

Það er allt að fara á fullt í vinnunni og stórar vörusendingar sem koma þessar vikurnar.  Á morgun er von á einni og ætli ég reyni ekki að mæta eitthvað fyrr í vinnuna til að rýma til fyrir öllum kössunum. Í raun gæti ég eins farið niðureftir núna, en er engan veginn að nenna því. Meiri letin sem ræður ríkjum hér í dag!!

mánudagur, 7. nóvember 2011

Sköpunarþörfin að brjótast fram hjá frúnni

En það gengur nú ekki þrautalaust að fá útrás fyrir hana.

Ég var að hugsa um að prjóna eitthvað, og er búin að kaupa tvö prjónablöð (sem eru nú ekki ókeypis) en fékk einhvern veginn ekki andann yfir mig á því sviðinu. Svo ég fór í Vouge á laugardaginn, rétt fyrir lokun, og byrjaði á því að ráfa um búðina og skoða efni. Spurningin var nú líka hvað ég ætti að sauma, því það var nokkuð ljóst að ég myndi ekki byrja á einhverju flóknu stykki eftir allan þennan tíma. Mér reiknast nefnilega til að ég hafi ekki saumað flík á sjálfa mig síðan við bjuggum í Tromsö. Þá saumaði ég vesti á mig, Hrefnu og Andra fyrir jólin (held það hafi verið 1991, eða kannski einu eða tveimur árum síðar...).

Alla vega, ég gekk um búðina og þuklaði efnin (það er algjört "must" að þreifa á efnunum) og horfði á litina. Féll fyrir prjónuðu efni sem ég sá að gæti orðið prýðis pils með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Keypti efnið og breiða teygju til að hafa í mittið svo ég þyrfti ekki einu sinni að sauma í rennilás. Komst að því þegar ég var heima á ný, að ég hef líklega hent öllum saumablöðunum mínum. Þannig að bókasafnið var næsta stopp. Þangað fór ég og var svo heppin að finna nokkur saumablöð sem ég fékk að láni. Var nú reyndar orðin frekar framlág þegar hér var komið sögu, enda laugardagur og laugardagar eru jú þreytu/hvíldardagar hjá mér.

Stóðst samt ekki mátið og fór að skoða þessi fínu saumablöð og fann snið að barnapilsi (á 12 ára) sem ég sá að ég gæti stækkað örlítið og þá myndi það sennilega passa. Ég sá reyndar fullt af öðrum flottum sniðum, en já ætli sé nú ekki best að klára þetta áður en ég fer að láta mig dreyma um flíkur sem krefjast meiri saumaskapar. Hvað um það, þegar ég lagði efnið á borðið sá ég að það var gallað. Og búðin búin að loka, svo ekkert saumaði ég um helgina, en fór í morgun og fékk nýtt efni. Eftir kvöldmatinn í kvöld tók ég mig til og sneið pilsið og er eiginlega frekar spennt að drífa mig heim úr vinnunni á morgun til að sauma það. Vona að það passi...

sunnudagur, 6. nóvember 2011

Ein frá því fyrr í haust

The center of attention by Guðný Pálína

Hér kemur eitt stykki mynd, bara til að sýna að ég er ekki alveg dauð úr öllum ljósmynda-æðum ;o)

Healing crisis

er faglega heitið á því sem er að plaga mig þessa dagana. Ég pantaði mér um daginn bók um hráfæði sem ég hlóð niður af netinu og hef verið að lesa hana smám saman. Í gær rakst ég á kafla þar sem fjallað er um það sem gerist þegar líkaminn fer að afeitrast og í viðbót við líkamleg einkenni s.s. höfuðverk, útbrot ofl. þá nefnir hann að maður geti upplifað þetta sem kallað er "healing crisis" en þá geta líkamleg og andleg vandamál úr fortíðinni (sem hafa verið djúpt grafin) komið uppá yfirborðið að nýju. Þetta sé eðlilegur hluti ferlisins og maður þarf sem sagt bara að þreyja þorrann, því þetta líður hjá.  Mér finnst þetta allt hljóma hálf fáránlega, en sannleikurinn er sá að eins og mér hefur liðið andlega undanfarið þá líkist það mest hvernig mér leið andlega í kringum tvítugt. En sem sagt, þá er mikilvægt að halda sínu striki og það ætla ég líka að gera.

Af veikum mætti hef ég reynt að sannfæra sjálfa  mig um að sjúkdómsástand sem hefur tekið mörg ár að þróast, lagast ekki á fáeinum vikum. Þar sem þolinmæði er ekki mín sterka hlið, þá vil ég jú helst sjá árangur nánast strax. En í gær fékk ég póst á facebook frá konu sem ég er með í ljósmyndaklúbbnum og það sem hún skrifaði sannfærði mig enn frekar um að ég verð að vera þolinmóð. Þannig var að við Álfkonur erum með lokaða síðu á facebook þar sem við getum haft samskipti án þess að aðrir sjái. Þar inn setti ég þann "status" að ég væri búin að týna ljósmynda-mojo-inu mínu. Já já, sletti ensku eins og mér sé borgað fyrir það. Þetta bara hljómaði meira "kúl" heldur en að segjast vera búin að missa áhugann á ljósmyndun. En áhugi er ekki alveg rétta orðið heldur. Það sem ég er búin að missa er þessi óþreyja, þessi tilfinning innra með mér að nú verði ég að komast út með myndavélina. Jæja, nema hvað, ég fékk nokkur góð ráð frá þeim hinum s.s. að mæta á fundi (búin að sleppa tveimur síðustu af því ég var svo þreytt), og prófa að mynda eitthvað nýtt / gera tilraunir. En svo fékk ég sem sagt þennan einkapóst frá einni sem líka glímir við mataróþol og hefur sleppt mjólk og glúteini úr fæðunni síðustu 12 árin. Það var ekki fyrr en hálfu ári eftir að hún breytti mataræðinu, að hún fann mikla breytinu á sér og síðan hefur henni varla orðið misdægurt. Hún reyndar lýsti því mjög skáldlega hvernig lokahnykkurinn var, en þá var hún stödd í kirkju og fannst allt í einu eins og hún væri að klæða sig úr gamalli kápu og fann þennan gríðarlega létti.

Í ljósi alls þessa, þá þarf ég að:
- Halda mínu striki með mataræðið 
- Hafa trú á að þetta skili mér betri heilsu 
- Temja mér meiri þolinmæði
- Reyna að halda haus þegar þegar ég fæ þreytuköstin mín, í stað þess að missa móðinn






laugardagur, 5. nóvember 2011

Óvænt aukaverkun af minna sykuráti

er óstöðugt skap. Ég þarf víst að horfast í augu við að ég notaði sykur og allt sem gaf svipuð áhrif, sem eins konar deyfiefni. Ef ég var þreytt þá fékk ég mér eitthvað sætt, ef ég var leið þá fékk ég mér eitthvað sætt o.s.frv. Núna hef ég ekki þennan sama möguleika til að detta í huggunarát því það gefur engan veginn sama kikk að borða grænmeti. Sem aftur þýðir að ég þarf að finna mér nýja og heilbrigðari leið til að vinna mig út úr ástandi eins og þreytu og leiða. Hana hef ég hins vegar ekki fundið ennþá. Dettur samt í hug að handavinna sé góður kostur og keypti mér nýtt prjónablað um daginn, en hef ekki haft mig í að byrja á neinu. Eins langar mig alltaf til að byrja að sauma aftur, en hef heldur ekki gert neitt til að láta eftir þeirri löngun.

Í augnablikinu þjáist ég af einhverri ljósmyndafóbíu og hef ekki farið að taka myndir síðan ég fór með ljósmyndaklúbbnum í Mývatnssveit.  Nánast allar myndirnar sem ég tók í þeirri ferð voru misheppnaðar og ég veit ekki hvort það var ástæðan, en eftir það datt ég í stóran forarpytt sem heitir fullkomnunarárátta. Skyndilega fundust mér allar myndirnar mínar lélegar og ekki þess virði að vera að æða út um hvippinn og hvappinn með myndavélina þegar útkoman er ekki betri. Sem er í hrópandi andstöðu við upphaflega markmið mitt með ljósmyndun. Sem var að eyða meiri tíma úti í náttúrunni og ljósmyndunin var verkfærið sem ég notaði til að draga sjálfa mig út úr húsi. Eftir að ég fékk brjósklosið og "lata fót" þá leiðist mér að fara í göngutúra. Sennilega af því ég get ekki rigsað jafn hratt áfram eins og ég var vön (hm, á jafnsléttu að minnsta kosti, ég var nú alltaf lélegri í brekkunum...). En sem sagt, þegar ég er komin með myndavél í hendurnar þá enda ég oft á því að ganga miklu lengra en ég hefði gert, því þegar ég sé eitthvert myndefni í fjarska þá elti ég það.

En já, það hefur sem sagt komið mér á óvart hversu óstöðug ég er í skapinu eftir að ég breytti um mataræði. Svona fyrirfram hefði ég haldið að ég yrði voða geðgóð og fín, étandi grænt í flest mál og búin að taka út allt sem hefur slæm áhrif á líkamann. En í staðinn er skaplyndið farið að minna á veðrið. Það hvessir, það rignir, stundum skín sólin. Og já ég veit ekki alveg hvernig ég á að höndla sjálfa mig undir þessum nýju kringumstæðum þegar ég get ekki lengur notað sætindi til að róa mig niður. Eigum við ekki bara að segja að það sé ágætis byrjun að vera þó búin að átta mig á þessum tengslum - hitt komi pottþétt síðar!

P.S. Þegar ég var að lesa þetta yfir fór ég að velta vöngum yfir þessu með mig og fullkomnunaráráttuna. Það er ekkert nýtt að ég láti hana eyðileggja fyrir mér eitthvað sem ég haft ánægju af. Þegar ég var krakki hafði ég gaman af að teikna, en þegar ég sá hvað aðrir í kringum mig teiknuðu mikið betur, þá hætti ég að teikna. Þegar mig langaði að skrifa smásögur þá hætti ég því þegar mér fundust þær ekki nógu góðar. Og nú er ég að detta í sama gírinn með ljósmyndunina.

Uss, þetta hljómar ekki vel. Eins og ég gefist alltaf upp á öllu um leið og gefur á bátinn. Það er samt ekki alveg rétt lýsing á mér sem persónu. Svo dæmi sé nefnt þá hafði ég t.d. gríðarlega mikið fyrir því að vinna mig í gegnum stærðfræðina þegar ég byrjaði í háskólanum, og hafði fram að því haldið að ég gæti ekki lært stærðfræði eða raungreinar. Einnig hef ég stundað vinnu síðustu tvö, þrjú árin, þrátt fyrir að vera oft örmagna af þreytu/verkjum. Sem er hreint ekki lítið afrek þó ég segi sjálf frá.

Auðvitað er samt fáránlegt að láta fullkomnunaráráttu eyðileggja fyrir sér áhugamálin. Þetta er jú bara gert til að hafa gaman af - ekki eins og það snúist um líf eða dauða hvort manni tekst vel upp eða ekki.


miðvikudagur, 2. nóvember 2011

Eins og pendúll

Já ég held áfram að sveiflast milli hláturs og gráturs (orku og þreytu). Í heildina séð hef ég samt verið miklu betri á ýmsan hátt eftir að ég breytti mataræðinu, þó vissulega sé leiðin stórgrýtt. En það koma dagar sem ég er ótrúlega góð í rauninni og svo aðrir dagar þar sem þreytan hefur yfirhöndina, eins og í dag. En ég vaknaði líka klukkan sex í morgun og sofnaði seint, svo það skýrir ástandið að hluta til.

Ísak er farinn á Hólavatn með bekknum sínum. Þau eru ca. einn sólarhring í ferðinni og markmiðið er að þjappa þeim betur saman og efla hópinn, ef ég hef skilið það rétt.

Andri vinnur 10 tíma á dag núna. Hann var svo heppinn að fá vinnu hjá SS Byggi og er að vinna við Naustaskóla.

Allt gengur sinn vanagang hjá eiginmanninum og hann heldur áfram að sjá til þess að við hin fáum mat á diskana okkar á kvöldin. Bæði með því að vinna fyrir matnum og eins með því að elda hann. Nú þarf hann oft að elda tvöfalt því ég er jú stundum að borða allt annað heldur en karlpeningurinn. Í gær fengu þeir sér t.d. kjúklingavefjur en ég borðaði lambakótilettur. Svo þarf ég alltaf að fá öðruvísi meðlæti heldur en þeir, af því ég borða ekki hrísgrjón, pasta né kartöflur. Í dag fæ ég spergilkál en þeir hrísgrjón með heimagerðu fiskibollunum.

Brjálaða Birta var skárri af athyglissýkinni um hríð, en er eiginlega að versna aftur. Hún á það til að arka eirðarlaus um húsið og mjálma og mjálma, og þagnar þá bara ef einhver aumkar sig yfir hana og fer að klappa og/eða klóra henni.

Þetta voru ekki-fréttir dagsins í boði Guðnýjar.

sunnudagur, 30. október 2011

Tilraun til að borða meiri sykur

Já bara svona til að sjá hvaða áhrif það hefði... skilar mér ropandi og uppþembdri. Nice!

Mig langaði svo mikið í einhverja djúsí köku í dag, svo ég bjó til hráfæðisköku. Í henni voru döðlur, möndlur, valhnetur, kókosmjöl, kókosolía og kakó. Í kreminu ofan á var kókosolía, kakó, agavesýróp og stewia sætuefni. Kakan bragðaðist mjög vel og var alls ekki of sæt á bragðið, enda hafði ég minnkað döðlumagnið töluvert frá því sem uppskriftin hvað á um. Það áttu að vera 200 gr. döðlur en ég var með ca. 80 gr. En já já, líklega hefur græðgin haft eitthvað að segja um líðanina núna, ég borðaði nefnilega þrjár sneiðar ;-)

Fínn dagur í vinnunni í gær

Við Sunna og Anna skiptumst á að vinna laugardagana með helgarstarfsfólkinu okkar. Þannig að þriðja hvern laugardag vinn ég frá 13-17 en helgarfólkið vinnur 10-16 á laugardeginum og 13-17 á sunnudeginum. Stundum er svo lítið að gera á laugardögum að það er eiginlega ekki þörf á tveimur starfsmönnum, en stundum er bara töluvert að gera og þá munar miklu að vera tvær. Í gær var þannig dagur. Það var erill á Glerártorgi, enda Valhopp í gangi (afsláttur í verslunum) og þar að auki hellirigndi allan daginn og þá er jú ágætis afþreying að fara í verslunarmiðstöð. Þegar klukkan var orðin fimm var enn þá svo margt fólk í húsinu að ég ákvað að vera aðeins lengur í vinnunni. Það borgaði sig líka, því ég seldi fyrir nærri 20 þús. í viðbót. Þannig að heim var ég ekki komin fyrr en 17.45 en ánægð eftir góðan dag. Og góður dagur varð enn betri þegar Valur eldaði sína dásamlegu fiskisúpu í kvöldmatinn. Mín súpa var með kókosmjólk í staðinn fyrir rjóma en kom engu að síður mjög vel út. Svo horfðum við í rólegheitum á Barnaby á dönsku stöðinni um kvöldið.

föstudagur, 28. október 2011

Ég fór í svokallaða indíánagufu í gærkvöldi

með kvennaklúbbnum mínum. Við erum nú reyndar nánast að gefa upp öndina sem klúbbur sýnist mér, en við mættum fjórar af sex í gufuna. Þetta er tveggja tíma prógram þar sem skipst er á að vera inni í gufunni og frammi. Það var dekrað við okkur m.a. með nuddi og þurrburstun milli tímans inni í gufubaðinu, og ég mæli svo sannarlega með svona kvöldstund. Ég var alveg endurnærð á eftir, fannst mér.

Svo endurnærð og upprifin raunar, að mér gekk frekar illa að sofna í gærkvöldi, og gerði síðan þau mistök að sofa of lengi í morgun. Hugsaði með sjálfri mér að ég þyrfti á hvíldinni að halda... Hef verið í þeim gír alla vikuna að reyna að hvíla úr mér þreytuna, sem er líklega röng aðferðafræði. Að minnsta kosti virðist það ekki vera að virka sérlega vel.

En í dag er dásamlegt veður og ég afrekaði að fara út að ganga áðan. Alveg heilan hring í hverfinu... hehe. Velti því fyrir mér í smá stund að fara út með myndavélina en ég er bara einhvern veginn ekki í ljósmyndastuði þessa dagana.

Nú styttist hins vegar í vinnu og best að fara að græja sig.

miðvikudagur, 26. október 2011

Þessi mynd af okkur Álfkonum

var tekin fyrir sýningarskrá sem gerð var í tengslum við ljósmyndasýninguna okkar við Hof nú í haust. Ég er nú eiginlega eins og lítill álfur á þessari mynd, hehe :)

Annars er fundur í ljósmyndaklúbbnum í kvöld en ég ætla ekki að fara. Er búin að vera drulluslöpp í allan dag og datt í sjálfsvorkunn eins og mér væri borgað fyrir það. Er reyndar aðeins að lagast af þessu síðarnefnda, en er ennþá slöpp. Ég fór nú samt út að borða í hádeginu með tveimur vinkonum mínum, enda var búið að fresta þeim hittingi þrisvar sinnum og mér fannst ég ekki geta frestað einu sinni enn. Held að mér hafi nú tekist alveg bærilega að halda haus en svo fór ég beint heim að hvíla mig á eftir.

Ég veit að það er gríðarleg tilætlunarsemi að búast við því að verða nánast samstundis frísk, bara af því ég er búin að taka alla óþols-valda út úr mataræðinu. En svona er maður barnalegur. Ég stressast svo upp þegar ég fer að hugsa um það að jólavertíðin fer að skella á og ég ennþá svona léleg til heilsunnar. En - rétt skal vera rétt - ég er þó betri á ýmsan hátt.

þriðjudagur, 25. október 2011

Upptúrar og niðurtúrar

eru þema októbermánaðar. Það er eins og það vanti alveg jafnvægið í mig þessa dagana. Í gær t.d. hélt ég að nú væri ég að fá enn eitt gigtarkastið. Leið eins og ég væri að verða veik og hélt haus með því að troða í mig verkjatöflum og drekka kaffi. Við Valur fórum á jarðarför og þess vegna var ég fyrst að vinna frá 10-12 og svo frá 16-18.30. Það var verið að jarða tengdapabba hennar Sunnu, sem var aðeins 11 árum eldri en Valur. Jarðarfarir eru misjafnar eins og gengur og gerist en þetta var virkilega falleg athöfn. Ræða prestsins góð, lög, textar og flutningur líka. Ég treysti mér samt ekki í erfidrykkjuna á eftir, m.a. vegna þess að ég var svo slöpp og vildi bara fara heim og hvíla mig áður en ég þyrfti að fara aftur í vinnuna.

Eftir vinnu var svo námskeið í Lightroom (forrit til að vinna myndir) í Símey. Áður en ég fór þangað skellti ég í mig enn einni verkjatöflunni og Valur bjó til espresso handa mér. Það dugði þar til rúmlega tíu en þá var ég orðin býsna framlág. Í nótt vaknaði ég svo klukkan fjögur og leið eins og ég væri orðin alveg fárveik. Illt í öllum skrokknum, illt í höfðinu, illt í hálsinum og bara alveg ónýt eitthvað. Fór að hafa áhyggjur af því að komast ekki í vinnuna í dag og ætlaði aldrei að geta sofnað aftur fyrir áhyggjum af þessu ástandi á mér.

Jæja, ég svaf til klukkan níu í morgun og þegar ég fór á fætur fann ég að ég var mun hressari en í nótt. Þannig að ég ákvað að drífa mig í vinnuna, hugsaði ég hlyti að geta haldið haus þar í fjóra tíma. En svo gerðist hið ótrúlega, ég bara hresstist eftir því sem leið á morguninn og var ótrúlega spræk. Engin veikindatilfinning og ég gat þurrkað af ryk og þrifið eins og mér væri borgað fyrir það. Svo steinsofnaði ég reyndar á sófanum þegar ég var komin heim, en það er önnur saga ... :-)

sunnudagur, 23. október 2011

Ýmislegt á sig lagt fyrir listagyðjuna

Ég rakst á þessa mynd áðan. Hún er tekin þegar við Valur fórum í ljósmyndaferð á Melrakkasléttu í sumar. Þar var svo mikið hífandi rok að varla var stætt úti. Við leituðum lengi að stað til að borða nestið okkar á (í skjóli) og ákváðum loks að hreiðra um okkur inni í þessum gömlu húsatóftum. Þegar myndin er tekin erum við reyndar búin að borða og erum að fara að ganga frá nestinu en næst á dagskrá er að taka myndir.

P.S. Með því að smella á myndina sést hún stærri og á dökkum bakgrunni.

laugardagur, 22. október 2011

Leikurinn er ekki búinn ...

... fyrr en dómarinn hefur flautað!

Já mér hefndist all svakalega fyrir þennan fína bjartsýnispistil minn... Hafði ekki fyrr lokið við að skrifa hann en ég skjögraði inn í sófa og steinsofnaði. Er svo búin að vera algjörlega orkulaus síðan og endaði á því að biðja Andra að hella uppá einn espresso handa mér, í von um að hressast. Við vorum nefnilega boðin á opnun á málverkasýningu klukkan þrjú og nú er klukkan að verða hálf fimm, svo það eru síðustu forvöð að taka sig aðeins saman í andlitinu.

Laugardagsmorgunn og Guðný að þrífa!

Það, mínir kæru vinir, er frétt til næsta bæjar!! Ég hef jú iðulega legið í sófanum megnið af laugardeginum, ef ég hef ekki þurft í vinnu. Og í gærmorgun fékk ég þá flugu í höfuðið að bjóða Vali á tónleika með Lay Low í gærkvöldi. Nokkuð sem ég hefði heldur ekki spáð í fyrir nokkrum vikum síðan. Ég reyndar var komin yfir þreytu-þolmörkin í síðustu lögunum á tónleikunum, en þrátt fyrir það, þá er ég öll að koma til. Og jú jú ég var líka ferlega þreytt í vinnunni bæði fimmtudag og föstudag og gerði kannski ekki margt af viti, en það er einhvern veginn annar bragur yfir mér samt.

Mér líður eins og ég sé að öðlast nýtt líf (eða endurheimta það gamla) og það er alveg dásamleg tilfinning. Í morgun t.d. ryksugaði ég eldhúsið og forstofuna, þreif skápinn undir vaskinum í eldhúsinu vel og rækilega, fór í gegnum flöskur og flokkaði í endurvinnsluna, gekk frá mjólkurfernum, áldósum og gleri (líka fyrir endurvinnsluna), þreif kattaklósettið og fór í sturtu. Hljómar kannski ekki svo mikið en fyrir mér er þetta afrek. Hér áður fyrr hefði ég verið alveg búin á því bara eftir að ryksuga. Vissulega var ég orðin lúin eftir allt þetta, en munurinn er sá að nú næ ég að safna mér saman aftur með því að hvíla mig. Áður var ég bara endalaust úrvinda, alveg sama hvað ég hvíldi mig.

Þær breytingar sem ég hef gert eru í tengslum við mataræðið og svo hef ég tvisvar fengið B12 vítamínsprautu, eins og læknirinn í Noregi lagði fyrir um. Ég er ekki enn byrjuð á neinum af þeim bætiefnum sem hún ráðlagði því fæst þeirra fást á Íslandi. Það eina sem fæst hér er Ginkgo Biloba og það ráðlagði hún við heilaþokunni, en ég er bara svo miklu betri af henni, að ég veit ekki hvort það er þörf á að taka það.

Hin efnin eru Inte-zyme (meltingarensím), Immunothione (örvar ónæmiskerfið), Auralife (sem er reyndar bara fjölvítamín en samansett á ákveðinn hátt), Caprystatin (sem á að vinna gegn sveppasýkingunni í þörmunum) og Livertone (á að styrkja lifrina). Ætli ég verði ekki að hafa samband við lækninn í næstu viku og láta reyna á það hvort ég geti fengið þetta sent frá Noregi. Það er um að gera að nýta sér þessi efni ef hún telur að þetta geri mér gott.

fimmtudagur, 13. október 2011

Önnur ferð framundan

Ég var víst ekkert búin að opinbera það hér, en ég er sem sagt að fara til Danmerkur á morgun að heimsækja dótturina. Fer í kvöld til Keflavíkur og gisti hjá mömmu og Ásgrími og tek svo flug kl. 13 á morgun til Köben. Það er gott að þurfa ekki að vera í neinu stressi með að vakna í flugið og enn betra að geta komið við hjá mömmu, því það er víst ekki svo oft að ég er á ferðinni fyrir sunnan, eða hún fyrir norðan. En já, ég ætla að vera í Köben fram á mánudagskvöld, svo þetta eru 3 sólarhringar sem ég fæ með Hrefnu. Ég er svo fegin að veðurspáin er alveg hreint ágæt, eða fremur léttskýjað og í kringum 10 stiga hiti að deginum.

Núna þyrfti ég að vera að brasa ýmislegt, s.s. að pakka niður í tösku eða laga til í húsinu, í stað þess að sitja hér við tölvuna. Svo er ég að vinna á eftir og þarf líka að útrétta svolítið, þannig að það er full dagskrá í dag. Og best að drattast á fætur og halda áfram að gera eitthvað af viti ;-)

sunnudagur, 9. október 2011

Góð ferð

Ljósmyndaferðin var mjög skemmtileg. Ég var að vinna fyrri part á föstudeginum og var einhverra hluta vegna ekki komin heim fyrr en um fjögurleytið. Þá átti ég eftir að útbúa nesti og það tók tímann sinn. Skera niður grænmeti í salat og súpu og steikja / sjóða kjúklingalæri til að hafa í súpunni. Auk þess hafði ég keypt harðfisk, 85% súkkulaði, hráfæðiskex og hnetur til að hafa með í nasl. Já og kindakæfu til að borða með kexinu. En af stað fór ég rétt fyrir sex og var komin austur rétt fyrir hálf átta (með stoppi til að taka bensín og nokkrum ljósmyndastoppum).

Hinar stelpurnar voru flestar komnar og allar hressar og kátar. Við borðuðum kjúklingarétt sem ein okkar hafði keypt hráefnið í og eldaði ofan í okkur. Ég var svo heppin að í honum var ekkert sem ég er með óþol fyrir, en reyndar var ríkulegt magn af púðursykri og svo sveskjur, þannig að ég fékk nú í mig slatta af kolvetnum ;) Eftir matinn sátum við og spjölluðum en fórum svo í Partý Alías, sem er spil sem ég hef aldrei spilað áður en fannst mjög skemmtilegt. Um hálf tólf leytið fór svo kokkurinn að elda eftirréttinn, sem ég bragðaði reyndar ekki á, enda var það súkkulaðikaka. Ég fór í háttinn um hálf eitt en þær hinar voru nú eitthvað lengur á fótum. Ein okkar var reyndar hálf slöpp og var farin fyrr í háttinn.

Svo vaknaði ég um áttaleytið í gærmorgun, með sinadrátt, en einhverra hluta vegna er ég alltaf að fá sinadrátt á nóttunni um þessar mundir. Ekki gaman að vakna við það. Nokkrar hinna voru vaknaðar en ekki var nú gott ljósmyndaveður, slydda eða rigning, rok og lágskýjað. Við sátum lengi við morgunverðarborðið og bara spjölluðum um heima og geima, en svo kom að því að við fórum út úr húsi að taka myndir. Það er að segja, allar nema sú sem var orðin veik, og ein önnur sem ók henni til Akureyrar. Það var leiðinlegt, en veikindi spyrja víst ekki að stund eða stað.

Regngallinn kom að góðum notum og eins var myndavélin klædd í plastpoka. Berglind var búin að undirbúa ljósmyndamaraþon, sem fór þannig fram að hver og ein dró miða sem á stóð t.d. blautt, gamalt, hreyfing, á síðasta snúningi o.fl. og áttum við að fara og taka mynd sem tengdist viðkomandi efni og koma svo aftur og draga annan miða og fá nýtt verkefni. Þetta var ótrúlega gaman, þrátt fyrir kröftugt slagveður undir lokin.

Eftir ljósmyndamaraþonið var komið að því að fá sér eitthvað í svanginn og á meðan við sátum og borðuðum gerðist hið ótrúlega. Það hætti að rigna og sólin braust fram úr skýjunum. Þá var bara eitt að gera, drífa sig aftur í útigallann og koma sér af stað í ljósmyndaferð. Áætlunin var að fara hringinn í kringum vatnið og svo í jarðböðin um fimmleytið. Ég dró í efa að við yrðum það snöggar að fara hringinn, svona ef við ætluðum að taka eitthvað af myndum, enda kom í ljós að ég hafði rétt fyrir mér. Við stoppuðum á þónokkrum stöðum og tókum helling af myndum, en mikið var nú kalt. Ég var orðin svo köld og stíf og stirð þegar við komum loks í hús aftur - og þá var klukkan að verða hálf sjö, en ekki fimm eins og talað hafði verið um. Þær hættu reyndar við að fara í jarðböðin því þar er víst ekki gott að vera í svona miklu roki, því þá kólnar vatnið svo mikið af því þetta er svo grunnt (eða eitthvað í þá áttina).

Ég hafði alltaf ætlað heim á laugardagskvöldi því ég vissi að ég þyrfti að borga ríkulega fyrir svona útstáelsi með þreytu daginn eftir. Stelpurnar reyndu mikið að fá mig til að vera áfram en ég stóð fast á mínu. Enda var ég gjörsamlega ónýt af þreytu í dag og þá var nú eins gott að vera komin heim. En þetta var virkilega skemmtilegur túr og ég er svo ánægð með það hvað þetta er frábær félagsskapur sem ég er komin í.

fimmtudagur, 6. október 2011

Það er til ráð við öllu nema ráðaleysi

Þessi setning sem faðir minn sagði ósjaldan, ómaði í höfðinu á mér áðan. Þannig er mál með vexti að ljósmyndaklúbburinn minn er að fara í ferð í Mývatnssveit um helgina og þær sem vilja geta gist í tvær nætur. Mig langar að fara á föstudeginum (hm, á morgun, þetta er alveg að skella á) og er búin að semja við Andra um að vinna fyrir mig á laugardaginn, þar sem þetta hitti á vinnuhelgi hjá mér. So far so good!

En þá komum við að þessu með matinn... Í ljósi kringumstæðna þá sýnist mér að ég þurfi að nesta mig í ferðina, því ekki er hægt að búast við glútein, eggja, mjólkur og gerlausu fæði ef hópurinn tekur sig saman og eldar t.d. kvöldmat á föstudeginum. Og í augnablikinu er ég eitthvað hálf ráðalaus / andlaus í þessu máli. Ég var reyndar að búa mér til þetta fína kjúklingasoð í gærkvöldi og gæti skellt í það grænmeti og niðurskornum kjúklingi og gert súpu. Þá er komin ein máltíð. Varðandi morgunmatinn þá hef ég verið að steikja beikon og hvítkál / gulrætur / tómata / spínat á pönnu og gúffa því í mig, en undanfarna morgna hefur þessi matur verið að fara eitthvað verr í mig en hann gerði í byrjun. Múslíið sem ég gerði fer ekkert alltof vel í mig heldur... Þannig að ætli ég verði ekki bara að græja sem mest af salati áður en ég fer. Gæti kannski soðið lax líka til að hafa í salati. Æ já já, þetta reddast allt saman!

þriðjudagur, 4. október 2011

Göngutúr í Kjarnaskógi

A walk in the wood by Guðný Pálína
A walk in the wood, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Eftir að hafa næstum steikt á mér heilann í morgun við að reyna að færa bókhald þegar tölvan var með stæla, ákvað ég að tími væri kominn til að anda að mér hreinu lofti. Klæddi mig í kuldagallann, greip myndavélina og ók inn í Kjarnaskóg. Þ.e.a.s. ég lagði nú bílnum á bílastæðinu, bara svo það sé nú á hreinu að ég ók ekki inn í sjálfan skóginn... Komst að því að ég hef greinilega ekki gengið þarna lengi, og líklega ekkert í sumar. Fannst öll trén hafa vaxið svo ógurlega síðan ég var þarna síðast. En það er alltaf gott að komast út í náttúruna og ekki var verra að geta smellt af nokkrum myndum. Annars fannst mér gróðurinn vera að verða ósköp grár, svona í heildina séð, en auðvitað eru jú líka sígræn tré þarna í stórum stíl.

mánudagur, 3. október 2011

Svo ótrúlega ánægð með leikfimina

Já ég er alveg svakalega ánægð með að hafa drifið mig í þessa vefjagigtarleikfimi. Ég man eftir því að hafa séð þetta auglýst í fyrrahaust, en tímarnir hentuðu mér svo illa af því ég vinn til skiptis fyrir og eftir hádegi. Núna er ég komin í það lélegasta form sem ég hef á ævinni verið í, og fæ meira að segja millirifjagigt af því að synda, svo ég sá að við svo búið mátti ekki standa. Ákvað að hafa samband við hana Eydísi sem sér um leikfimina og athuga hvort ég gæti fengið að flakka milli morgun- og eftir hádegishóps, allt eftir því hvernig vinnuplanið mitt er. Ég lýsti mínu ástandi sjálfsagt svo hræðilega, að hún hefur ekki getað annað en sagt já við þessu. Að minnsta kosti samþykkti hún þetta og svo samþykkti Sunna að koma aðeins fyrr í vinnuna þá daga sem leikfimin byrjar kl. 14 (sem er einu sinni í viku), og þá var leiðin greið fyrir mig. Eini gallinn er sá að við Sunna notum oft tímann milli 14 og 15/16 til skrafs og ráðagerða, en ég var komin á það stig að nú varð ég bara að láta heilsuna hafa forgang. Það er hvort sem er afar takmarkað gagn að mér í vinnu þegar ég er alveg handónýt af þreytu og verkjum.

Ég er sem sagt mjög sátt við þær breytingar sem ég er að gera hjá mér varðandi hreyfingu og mataræði. Ekki segi ég nú samt að þetta með mataræðið sé létt, og þá sérstaklega vegna þess að ég er jú ekki bara að taka út t.d. glútein og borða annað mjöl, ég er að taka út allar kornvörur með það að markmiði að sleppa við blóðsykur-rússíbanann. En vá hvað ég hefði viljað getað haldið áfram að borða egg og osta... Valur var að grilla hamborgara í kvöld og var að rífa ost ofan á og það lá við að ég tæki ostaskerann og fengi mér eina sneið, bara svona alveg óvart. Minn hamborgari var sem sagt borðaður "allsber" með blómkáli, gulrótum og beikoni. Ekkert hamborgarabrauð, engin hamborgarasósa (inniheldur egg) og enginn ostur ofaná.

Í hádeginu græja ég mér salat ef ekki eru til neinir afgangar af kvöldmatnum frá því deginum áður. Bara verst að það tekur ótrúlega langan tíma að skera niður í salat (eða ég er svona hægfara) og í morgun ætlaði ég að mæta uppúr níu í vinnuna til að vinna í bókhaldi, en var óralengi að skera salat og kom því seinna í vinnuna en ég ætlaði. Þyrfti náttúrulega að gera þetta kvöldinu áður en ... hm sjáum til með það.

Og nú er ég farin að sofa.