þriðjudagur, 3. október 2006

Lífsgleði

er eiginleiki sem ég hrífst mjög af hjá fólki. Kannski af því mér finnst ég ekki alltaf nógu lífsglöð sjálf, kannski af því að lífið er nú einu sinni til að lifa því og það er varla hægt að segja að maður lifi lífinu ef maður gætir þess ekki að gleðjast þegar ástæða er til og jafnvel þó engin sérstök ástæða sé fyrir hendi. Með þessu er ég ekki að segja að fólk eigi alltaf að vera á útopnu, heldur bara hafa augu og eyru opin og gleðjast yfir litlu hlutunum sem láta ekki alltaf svo mikið yfir sér en geta gefið manni svo mikið ef maður bara tekur eftir þeim.

Ein vinkona mín t.d. á við ýmsa erfiðleika að stríða en það er alveg sama hve svart útlitið er hjá henni, alltaf kann hún samt að gleðjast. Hún gleðst yfir fuglunum sem syngja í trjánum, yfir gróðurlyktinni, yfir sólinni sem skín o.s.frv.

Önnur kona sem beinlínis er stútfull af lífsgleði vinnur núna í sundlauginni hér á Akureyri. Hún er alltaf í góðu skapi, býður öllum góðan daginn með bros á vör og sýnir sérdeilis lagni við börn og gamalmenni.

Um helgina var ég t.d. að klæða mig í búningsklefanum og þar var líka móðir með tvo litla stráka. Sá yngri var svangur og þreyttur eftir sundið og mamman ákvað að gefa honum brjóst til að róa hann. Þá varð sá eldri (ca. 3ja ára) afar óþolinmóður og fór að láta öllum illum látum. Kemur þá konan sem áður er getið og fer að spjalla við strákinn. Hún nær athygli hans og hann spyr hvað hún sé að gera (hún var með moppuskaft í hendinni). Hún segist vera að þrífa gólfið en nú ætli hún að gera svolítið annað. Stráksi horfir opinmynntur á hana, spenntur að sjá hvað hún ætlar að gera. Það kemur brátt í ljós, því án þess að hika bregður hún sér "á bak" moppuskaftinu og tekur á rás inni í búningsklefanum. Sælubros breiddist um andlit stráksins og ég gat ekki annað en hlegið hjartanlega, hún var hreint út sagt óborganleg þar sem hún "reið á hestbaki" um klefann brosandi og glöð. Þau spjölluðu svo aðeins meira saman og stráksi varð ekki til meiri vandræða fyrir mömmu sína í þetta sinnið.

Engin ummæli: