fimmtudagur, 18. október 2007

Er hálf "lost" eitthvað í dag

Hvort sem það er vegna síðbúinnar þreytu eftir sýninguna, eða bara vegna þess að ég byrjaði ekki daginn á því að fara í sund eins og venjulega. Ísak var að fara í samræmt próf, þurfti þess vegna ekki að vakna fyrr en klukkan átta og ég ákvað að láta það eftir mér að sofa aðeins lengur fyrir vikið. Vaknaði samt fyrir sjö þegar klukkan hringdi hjá Val og gat ekkert sofnað aftur. Eftir að Ísak var farinn í skólann væflaðist ég um húsið og kom mér ekki að því að gera neitt gáfulegt. Las blöðin og hékk í tölvunni en svo um tíuleytið bað menntaskólaneminn mig að skutla sér í skólann og þá fór ég út í Kjarnaskóg og gekk rösklega einn hring. En ekki dugði það nú til að koma blóðinu í mér almennilega á hreyfingu og ekki hafði ég orku til að gera fleira af viti. Tja, nema þvo eina vél af þvotti. Nú styttist hins vegar í að ég þurfi að fara að vinna þannig að það er eins gott að fara að taka sig saman í andlitinu.

Það styttist líka í Berlínarferðina, ein vika til stefnu. Það verður gaman að bregða sér út fyrir landsteinana enda erum við að fara með skemmtilegu fólki. Bara stór galli að búa úti á landi og þurfa alltaf að bæta ferðum til og frá Reykjavík við ferðalagið.

Engin ummæli: