þriðjudagur, 30. október 2007

Var bara alein í sundlauginni um tíma í morgun

Það hefur orðið einhver breyting á bæði fólki og tímasetningum frá því í fyrravetur og einhvern veginn annar rytmi í þessu öllu saman. Sumar konurnar sem ég voru á sama tíma og ég í búningsklefanum eru farnar að mæta fyrr, aðrar seinna og enn aðrar hættar að mæta. En sundið sem slíkt stendur alltaf fyrir sínu, þrátt fyrir bólgið hné og aðra annmarka mína. Svo þegar ég kem heim þá er mér fagnað af köttunum sem eru hálfpartinn lagstir í hýði enda veturinn að skella á af alvöru. Stundum vildi ég óska að ég gæti lagst í hýði yfir veturinn, mér finnst myrkrið svo leiðinlegt (ég fyllist alltaf hálfgerðum kvíða á haustin þegar fer að dimma, eins fáránlegt og það er). Þyrfti að breyta hugarfarinu gagnvart myrkrinu. Gera eins og allir hinir, kveikja á kertum og njóta skammdegisins (held nú samt að ég þurfi að taka mig verulega mikið á til að það verði að veruleika). Jamm og jæja, maður lifir þetta víst allt saman af og fyrr en varir verða komin jól, svo páskar og svo vorar á ný :-)

Engin ummæli: