fimmtudagur, 6. desember 2007

Vá, hvað er stutt til jóla

Hvað verður eiginlega um tímann? Þetta líður svo rosalega hratt allt saman. Ég var t.d. í afmæli í gær hjá 2ja ára stelpuskottu og mér finnst svo stutt síðan mamma hennar var að kenna, kasólétt, í háskólanum. Annars var það nú eiginlega bara fyndið að upplifa svona smábarnaafmæli á nýjan leik, ég er greinilega alveg komin út úr þessu. Lenti í stökustu vandræðum með að kaupa gjöf handa litlu dömunni, það eru 22 ár síðan ég átti stelpu á þessum aldri og ég hafði ekki hugmynd um hvað þessi aldurshópur væri að leika sér með. Horfði í smá stund á barbídúkkur en komst að þeirri niðurstöðu að líklega væru hún heldur ung fyrir svoleiðis. Endaði á því að kaupa Fischer Price leikföng (dúkkuna Dóru, lítið hús, rennibraut ofl - sem kostaði ekki nema 1.299 í Hagkaup þrátt fyrir allt innihaldið) sem ætluð voru 3ja ára og eldri. Hafði reyndar smá áhyggjur af því að mamman myndi halda að ég vissi ekki hvað barnið væri gamalt, en alla vega þá gat ég ekki séð betur en þetta félli vel í kramið hjá litlu skottunni.

Nanna, dóttir Fríðu bloggara og maraþonhlaupara, bjargaði mér með því að vinna fyrir mig svo ég komst í afmælið. Mér hefði þótt leiðinlegt að komast ekki því mér var boðið í 1 árs afmælið í fyrra en þá var ég að vinna og gat ekki mætt.

En nú er best að fara að elda grjónagrautinn sem á að vera í kvöldmatinn!

Engin ummæli: