mánudagur, 6. ágúst 2007

Lét mig hafa það í dag

að lufsast upp að Hraunsvatni ásamt bóndanum. Ég var frekar þreytt þegar við lögðum af stað og þurfti virkilega að hafa fyrir því að hreyfa annan fótinn fram fyrir hinn megnið af leiðinni. Við fórum upp hjá bænum Hrauni í Öxnadal, beint af augum upp þúfur, hóla og hæðir og það tók okkur töluverðan tíma að komast að vatninu. Valur var með GPS tæki með sér og mældi leiðina, ég ætlaði varla að trúa því að þetta hefðu bara verið 2,6 kílómetrar en það er náttúrulega ekki sama hvort gengið er á jafnsléttu eða í hæðóttu landslagi.

Annað sem kom okkur á óvart var magn mýflugu á leiðinni og meira að segja Valur sem er öllu vanur í þeim efnum kommenteraði flugurnar oftar en einu sinni. En hann stóð sig eins og hetja að bíða eftir "gömlu" konunni sinni og sem sagt, við komumst alla leið. Fórum reyndar ekki alveg niður að vatninu, þar var hópur fólks og vð vorum svo mikilir félagsskítar að við nenntum ekki að hitta það.

Það varð úr að við gengum niður að Hálsi (mun styttri leið, tæpur kílómetri) og fengum okkur kvöldverð á veitingastaðnum Halastjörnunni. Í og með vegna þess að ég gat ekki hugsað mér að ganga eitt skref til viðbótar en einnig vegna þess að Valur hefur í allt sumar hugsað sér gott til glóðarinnar að borða þarna. Það var vel tekið á móti okkur, jafnvel þó við útskýrðum að við værum peningalaus, bíllinn með peningaveskinu væri á næsta bæ, og við fengum afskaplega ljúffengan mat. Eftir matinn skutlaði veitingamaðurinn Val yfir að Hrauni á meðan ég beið og drakk te. Svo gerðum við upp skuldir okkar og ókum heim í kvöldsólinni.

Engin ummæli: