laugardagur, 29. desember 2007

Ákvarðanir

eru miserfiðar, allt frá því að vera mjög auðveldar (eins og hvaða tegund af tannkremi við ætlum að kaupa) uppí að vera mjög erfiðar (eins og þegar við erum að ákveða hvað við ætlum að "verða þegar við verðum stór"). Það tímabil sem fer í hönd þegar við erum að ákveða milli tveggja eða fleiri valkosta getur stundum verið erfitt, eins og sést best á málshættinum sem allir þekkja "sá á kvölina sem á völina".

Við Valur lentum í hálfgerðri krísu í gær og í dag þegar við vorum að ákveða hvort við ættum að fara suður í brúðkaup bróðurdóttur hans sem er haldið núna í kvöld, laugardagskvöld. Við höfðum svo sannarlega ætlað okkur að fara og vorum bæði búin að skipuleggja frí frá vinnu vegna ferðarinnar. Fyrst var reyndar ætlunin að fara á föstudegi og heim á sunnudegi en meðal annars vegna Andra og Ísaks sem vildu stoppa sem styst í Reykjavík ákváðum við að fara frekar í dag og heim á morgun. Þá bar svo við að veðurspáin fyrir sunnudaginn var afar leiðinleg, spáð var roki/stormi og rigningu og ekki spennandi tilhugsun að keyra heim í slíku veðri. Sérstaklega þar sem snjór er núna yfir öllu og ljóst að yrði mjög hált þegar færi að hlána. Valur þurfti að vera kominn norður þann 30. því hann er á vakt á sjúkrahúsinu þann 31. og þá var aðeins eftir sá kostur að keyra heim um nóttina, eftir að hafa verið í veislunni. Ég gat varla hugsað mér að keyra norður um miðja nótt um hávetur. Fyrir utan að komast hvergi á klósett (og ég er ekki beint með samkvæmisblöðru) og að þetta færi ekki vel með bakið á mér (sem er slæmt fyrir) þá væru líka fáir á ferli ef eitthvað kæmi uppá hjá okkur.

Skynsemin sagði okkur að best væri að fara hvergi en hins vegar langaði okkur bæði afskaplega mikið að mæta í veisluna, þannig að við vorum í úlfakreppu. Valur lá á netinu og skoðaði veðurspár og færð á vegum og við vonuðum að spáin myndi breytast til hins betra. En í morgun var alveg sama spáin og ákvörðun endanlega tekin um að vera heima. Þrátt fyrir að við vitum bæði að þetta hafi verið skynsamlegasti leikurinn í stöðunni þá erum við bæði hálf ósátt við þetta og hálf vængbrotin eitthvað. Jamm og jæja, svona fór um sjóferð þá.

Engin ummæli: