þriðjudagur, 28. ágúst 2007
Það styttist í Barcelonaferðina
og í dag fékk ég ábendingu frá "innfæddum" um tvær verslanir sem selja svipaðar vörur og við í Pottum og prikum, svo það er um að gera að kíkja þangað. Spurning hvort Valur og strákarnir geti ekki farið að skoða fótboltavöll á meðan (eða eitthvað...). En þetta var nú annars svolítið fyndið. Það komu tvær konur í búðina sem voru að skoða Pulltex vínvörurnar og spurðu hvaðan þær vörur væru. Frá Spáni sagði ég (samskiptin fóru fram á ensku). Þær voru eitthvað efins um það og þá mundi ég eftir því að í vörubæklingi sem við eigum er skrifað nafn sölumanneskjunnar og undir því stendur Barcelona. Ég sýndi þeim bæklinginn og þegar þær sáu hann sögðu þær báðar "Aaa, Barþelona" með þvílíka spænska hreimnum, brostu og sögðu svo: "We are from Barcelona". Þá stóðst ég ekki mátið og svaraði: "And next saturday I am going to Barcelona". Það fannst þeim skemmtileg tilviljun og fóru sem sagt að segja mér frá tveimur búðum þar sem ég skyldi endilega skoða. Þær skrifuðu niður nöfnin á búðunum og staðsetningu, svo ég myndi nú örugglega finna þetta. Og áður en þær fóru létu þær mig hafa nöfn sín og símanúmer og okkur er velkomið að hafa samband við þær ef við þurfum einhverja aðstoð eða upplýsingar. Ekkert smá indælar.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli