Við lögðum af stað á fimmtudagsmorgni og ókum sem leið lá vestur í Hrútafjörð. Þar fórum við yfir Laxárdalsheiði en gerðum svo stutt stopp í Búðardal. Ókum smá hring í plássinu og enduðum niðru í fjöru þar sem ég gerði smá tilraunir til að taka "listrænar" ljósmyndir. Þessi mynd af fuglunum átti hins vegar ekki að vera listræn...
Áfram héldum við og stoppuðum næst í Bjarkarlundi þar sem við borðuðum nýveidda bleikju, eldaða af ítölskum kokki staðarins. Eftir matinn fékk Valur sér kaffi og ég fékk te úr þeim stærsta bolla/könnu sem ég hef nokkru sinni drukkið úr. Svo héldum við áfram að þræða firði og heiðar og alls staðar var sérlega fallegt. Við stoppuðum hvað eftir annað til að taka myndir og teygja úr okkur. Valur er mikill áhugamaður um fossa og sést hér fyrir framan eitt stykki foss sem ég get ómögulega munað nafnið á núna í augnablikinu.
Við ókum yfir Dynjandisheiði
og þar var útsýnið ekki amalegt.
Svo skoðuðum við fossinn Dynjanda og teknar voru myndir...
Til Þingeyrar komum við um áttaleytið og vorum þá búin að vera á ferðinni í tíu tíma.
Leituðum að húsinu sem Hjörtur bróðir Vals og Guðbjörg konan hans eru nýbúin að festa kaup á og fundum það.
Hins vegar hafði gestgjöfunum seinkað og við þurftum að bíða aðeins eftir þeim. Eftir að hafa rúntað um staðinn lögðum við bílnum niðri í fjöru og biðum hin rólegustu. Svo birtust þau hjón og Guðbjörg eldaði dýrindis mat handa okkur.
Föstudagur
Eftir morgunmat og sundferð fórum við með Hirti og Guðbjörgu til Ísafjarðar en þar er Guðbjörg fædd og uppalin. Mér fannst gaman að sjá sumarhúsabyggðina fyrir utan bæinn og svo skoðuðum við húsin í Neðstakaupstað
og sjóminjasafnið þar sem þennan loftskeytaklefa var meðal annars að finna.
Við fengum okkur að borða í bakaríi og rúntuðum svo um bæinn og skoðuðum þónokkur af þeim gömlu húsum sem þar er að finna. Mörg þeirra er búið að gera upp og er mikil prýði að þeim. Svo ókum við í gegnum Hnífsdal (þar sem Hjörtur og Guðbjörg kynntust á balli í félagsheimilinu fyrir X mörgum árum síðan). Kirkjugarðurinn í Hnífsdal vakti athygli okkar enda stendur hann á frekar óvenjulegum stað úti við sjóinn.
Áfram héldum við til Bolungarvíkur. Þar skoðuðum við Valur sjóminjasafnið að Ósvör en þar hafa heimamenn reist nýja "gamla" verbúð sem sýnir hvernig þetta var allt í gamla daga. Hér sést Valur við spil sem notað var til að draga sexæringinn upp í fjöru:
Eftir að hafa skoðað Bolungarvík ókum við aftur til Ísafjarðar og þaðan fórum við Valur til Flateyrar en þar var hann að líta fornar slóðir. Hafði einhvern tímann á unglingsárum unnið eitt sumar þar í fiski og að sjálfsögðu var nauðsynlegt að kíkja á "pleisið". Þegar hér var komið sögu voru rigningarskúrar og þungt yfir og hefur það sjálfsagt ekki hjálpað til við skynjun mína á þorpinu. En mér fannst það hálf nöturlegt eitthvað, mikið af húsum í niðurníslu (sbr. þetta hér en þarna bjó Valur á verbúð hérna í den)
og ekki margt að sjá fyrir utan gíðarlegan snjóflóðavarnargarð og minnismerki um fórnarlömb snjóflóðsins sem féll 1995.
Þegar við komum aftur til Þingeyrar var Hjörtur byrjaður að rífa utan af bíslaginu sem svo er kallað en markmiðið hjá þeim er að gera húsið upp í sinni upprunalegu mynd og í því felst að rífa bíslagið (ef einhver skyldi vera að velta því fyrir sér hvað bíslag er þá þýðir það yfirbyggður inngangur eða eitthvað í þá áttina).
Eftir kvöldmat fórum við svo út að ganga í góða veðrinu.
Laugardagur
Hjörtur og Guðbjörg héldu áfram að rífa bíslagið af húsinu
en við Valur skelltum okkur í sund á Suðureyri við Súgandafjörð. Þangað fannst mér mjög sérstakt að koma, þetta er pínulítið þorp með nánast ekkert undirlendi og gamall flugvöllur kúrir uppi í hlíðinni.
Þar hafði Valur þurft að lenda í sjúkraflugi þegar hann var að leysa héraðslækninn á Patreksfirði af eftir fimmta árið í læknisfræðinni. Skyggnið hafði ekki verið gott og hélt hann að flugmaðurinn væri á leiðinni inn í fjallið hreint og beint en allt gekk það nú vel.
Hér sit ég á bekk við flugvallarendann :-)
Sundlaugin var ágæt þó hún væri svolítið "þreytt" og vorum við eina fólkið í lauginni framan af. Þar var líka heitur pottur og var vatnið í honum vel heitt. Sundlaugarvörðurinn kom svo með kaffi handa okkur, þannig að það væsti ekki um okkur í pottinum. Yfir okkur sveimuðu hrafnar og uppi í hlíðinni fyrir ofan sundlaugina voru kindur á beit. Skemmtilega speisað allt saman einhvern veginn. Eftir sundið vorum við orðin glorhungruð en eini veitingastaðurinn á staðnum var lokaður og bensínsjoppan freistaði ekki, svo við renndum aftur til Ísafjarðar og borðuðum taílenskt skyndifæði. Fórum svo á bókasafnið og sátum dágóða stund inni í þeirri vinalegu byggingu sem áður hýsti sjúkrahúsið og glugguðum í blöð og tímarit.
Á leið til Þingeyrar ókum við út Dýrafjörð og kíktum að Núpi þar sem heljarinnar skólabyggingar standa víst auðar núna. Skoðuðum garðinn Skrúð
þar sem brjálaður þröstur gerði margar atlögur að höfðinu á mér en hann var víst bara að verja hreiðrið sitt. Hef lent í þessu með kríur en ekki þresti. Því miður flaug hann svo hratt að hann náðist ekki á mynd...
Eftir smá pásu heima í húsi drifum við okkur aftur út, í þetta sinn ókum við uppá Sandafell, sem er fjallið fyrir ofan Þingeyri, en þar uppi er endurvarpsstöð og frábært útsýni til allra átta. Þar fengum við ýmis veðursýnishorn, meðal annars var blankalogn og sjóðheitt í smá stund og þá var upplagt að fá sér smá kríublund.
Þegar við komum aftur niður í bæinn var Guðbjörg að klippa fíflablöð til að nota í salat.
Hún er frábær kokkur (eins og Valur en í þetta sinn slapp hann alveg við eldamennskuna) og sérstaklega hugmyndarík þegar kemur að salötum. Vildi að ég hefði þó ekki væri nema smá af hennar hæfileikum í salat-deildinni. Finnst nefnilega salöt svo góð. Eftir matinn fórum við út að ganga, meðal annars niður á bryggju þar sem við hittum mann sem var að koma í land. Hafði hann smíðað bátinn sinn eftir teikningu sem hann fann á netinu og tók það bara einn og hálfan dag.
Sunnudagur
Nú var komið að heimferð og lögðum við í hann um níuleytið til að hafa tímann fyrir okkur. Ákváðum að fara aðra leið heim og fórum Djúpið sem kallað er. Í gegnum Ísafjarðarkaupstað og þaðan til Súðavíkur þar sem við skoðuðum minnismerki um snjóflóðið 1995. Ekki laust við að við yrðum hálf döpur í bragði enda margir sem fórust þarna, alveg eins og á Patreksfirði.
En rétt hjá minnismerkinu var þessi fallega fíflabreiða og minnti á að alltaf birtir til um síðir.
Við sáum eynna Vigur úr fjarlægð
og margt fleira bar fyrir augu, svo sem þennan bílakirkjugarð
sem var við sveitabæ í ónefndum firði (þessir firðir renna allir saman í höfðinu á mér).
Síðasta myndin var tekin þar sem við borðuðum nestið okkar, áður en farið var yfir Steingrímsfjarðarheiði.
En svo brunuðum við áfram, yfir heiðina og framhjá Hólmavík en stoppuðum í Staðarskála til að fá okkur í gogginn. Ókum svo nánast án þess að stoppa alla leið heim en akstursskilyrðin voru reyndar ekki góð því við mættum hundruðum bíla á leiðinni. Allir að koma frá Akureyri þar sem hafði verið margmenni um helgina, á bíladögum ofl. Það gekk þó slysalaust sem betur fer. Heim komum við, átta tímum eftir brottför frá Þingeyri, og var ég aldeilis fegin að komast út úr bílnum. En ferðin var virkilega skemmtileg og við eigum örugglega eftir að fara fljótlega aftur vestur. Þurfum náttúrulega að fylgjast með því hvernig framkvæmdunum við húsið miðar :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli