mánudagur, 29. ágúst 2011

Smá úttekt á virkni LCHF mataræðis

Það er svona ca. mánuður síðan ég byrjaði að borða í grófum dráttum samkvæmt "Lítið af kolvetnum - mikið af fitu" mataræðinu. Þar af leiðandi finnst mér upplagt að gera smá úttekt á því hvernig þetta nýja mataræði hefur nú farið í mig. Það er líka ágætt fyrir mig að eiga þetta einhvers staðar á blaði.

Fyrstu tvær vikurnar gengu vel, ég var ótrúlega hress og saknaði sykurs, hveiti, kartaflna, pasta og hrísgrjóna nánast ekki neitt. Svo fór hins vegar aðeins að halla undan fæti. Þreytan kom aftur og með henni löngun í allt sem gefur skjótfengna orku. Ég verð nú samt að segja að ég hef verið ótrúlega dugleg að falla ekki í sykurpyttinn, þrátt fyrir allt. En sem sagt, þreytan hefur enn sem komið er ekki minnkað. Á tímabili hélt ég kannski að ég væri að ná mér hraðar upp eftir hvert þreytu-breakdown, en eftir að hafa legið í rúminu í allan gærdag og verið eins og drusla í dag (þegar ég átti frí og ætlaði að gera eitthvað skemmtilegt), þá er sú skoðun á undanhaldi. Verkir í skrokknum eru líka svipaðir. Ég hef heyrt/lesið að vöðvaverkir eigi að lagast mikið á þessu mataræði, en það er ekki mín reynsla enn sem komið er. Það sem hins vegar er betra, er hin svokallaða heilaþoka. Ég er ekki alveg jafn sljó yfir höfðinu, svona dags daglega, eins og ég var. Meltingin hjá mér var líka mun betri fyrstu 2-3 vikurnar, en síðustu 5-7 dagana hef ég verið skelfileg í maganum, svo það er greinilega ekkert til að treysta á. Kannski vegna þess að ég stórjók inntöku mína af mjólkurvörum...? Eða bara vegna þess að ég datt í stresskast vegna ljósmyndasýningar og fleiri hluta?

Æ jæja, það hvarflaði sterklega að mér í gær þegar ég lá í heiladauðu ástandi í sófanum að gefast upp á þessu mataræði. Mér fannst það svo sem ekki vera að gera það mikið fyrir mig. En þá áttaði ég mig á þessu með hugarstarfsemina sem er aðeins betri, og ekki veitti nú af. Er ekki frá því að ég sé líka aðeins minna gleymin... Þannig að, já ég ætla að þrjóskast við enn um sinn.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að ég er mun betri af hárlosinu sem hefur verið að hrjá mig frá því um áramót. Já og eitt annað og enn mikilvægara. Ég sef miklu betur - að minnsta kosti svona í heildina séð. Sef fastar og vakna ekki eins oft á nóttunni. Stundum næ ég því meira að segja að sofa non stop frá miðnætti og til ca. 7 eða 8 næsta morgunn.

5 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Í bókinni eftir Gary Taubes talar hann um "aukaverkanir" meðan líkaminn sé að venjast mataræðinu. Mér finnst hann reyndar útskýra margt mjög vel í sambandi við orkubúskap líkamans, hvað gerist þegar maður borðar, efnafræðilega séð, hvað fer í gang o.s.frv.

Anna Sæm sagði...

p.s. ég er samt ekki að reyna að halda því fram að þetta mataræði sé allra meina bót fyrir þig......

Guðný Pálína sagði...

Ég tók því ekki heldur þannig :) En hvaða aukaverkanir talar hann um? Einhverjar sérstakar sem þú manst eftir?

P.S. Fór á vigtina í sundlauginni af því mér finnst ég hafa grennst aðeins. Hún sýnir ennþá mínus eitt kíló, svo það er betra að skoða bara hvernig maður passar í fötin sín, heldur en þyngdina ;)

Anna Sæm sagði...

Hann telur upp: Weakness, fatigue, nausea, dehydration, diarrhea, postural hypertension. Þetta sé vegna þess að líkaminn sé að venjast því að brenna fitu í staðinn fyrir kolvetni. Sum einkennanna gátu líka verið vegna of mikils magns af próteinum miðað við feiti. - Fann út að hann er með blogg (ekki margar færslur) og með erindi eða í viðtölum á YouTube. kk Anna systir

Guðný Pálína sagði...

Ég kíki á Gary Taube við tækifæri :) Annars var ég svo mikill snillingur að mér tókst að eyða út öllum vefsíðunum um LCHF sem ég var með í "bookmarks", ein þeirra var ábyggilega síðan hans. Ég þarf bara að finna þetta allt aftur :)

Varðandi aukaverkanirnar, þá þjáðist ég nú af þessu öllu nema ofþornun og niðurgangi fyrir... Hehe :)