miðvikudagur, 26. desember 2007

Jólin komin og farin... eða næstum því

Búðarkonan var hvíldinni fegin, sofnaði ekki ofan í súpuna á aðfangadagskvöld (enda engin súpa í matinn) en féll nærri því í ómegin sökum hita og þreytu þegar verið var að útdeila pökkunum. Var áfram þreytt í gær, jóladag, og leið eins og afturganga um húsið megnið af deginum þrátt fyrir að hressast um stund eftir gönguferð með æskuvinkonu sinni. Svaf nærri tólf tíma síðustu nótt og var ægilega ánægð í svolitla stund þar sem hún hélt að nú væri hún úthvíld. Var svo hress að hún stakk uppá gönguferð með bóndanum og út fóru þau í snjóinn og rokið. Síðasti hjalli leiðarinnar reyndist henni hins vegar ofviða. Um litla brekku var að ræða og snjóþæfingur gerði henni svo erfitt fyrir að þegar heim var komið leið henni eins og hún hefði verið í fjallgöngu, alveg úrvinda og illt í baki og hné. Já, nú er illt í efni og ljóst að búðarkonan verður að taka sjálfa sig í algjöra yfirhalningu á nýju ári. Góðu fréttirnar eru þær að það var mikið verslað í Pottum og prikum fyrir jólin og búðin greinilega að stimpla sig inn hjá bæjarbúum.

Að öðru leyti ganga jólin fyrir sig eins og við er að búast. Hamborgarahryggur, hangikjöt og humar eru á matseðlinum og heilar tvær smákökusortir. Engar tertur, engin fjölskylduboð, bara konfekt og afslöppun. Valur fékk skemmtilega bók, viðtalsbók við rithöfunda, sem ég hef haft gaman af að glugga í. Búin að lesa viðtöl við Kristínu Mörju Baldursdóttur og Guðrúnu Helgadóttur og hlakka til að lesa meira. Fleiri bækur rötuðu í hér í hús og búið að lesa sumar og fletta öðrum en aðrar eru óopnaðar.

Hrefna og Erlingur eru varla komin fyrr en þau eru að fara aftur til Danmerkur. Það er próf hjá henni 2. janúar og dugar víst ekki að slæpast lengur... Þau ætla að keyra suður yfir heiðar fyrri partinn á morgun og út seinnipartinn. Aðstandendur eru pínu stressaðir yfir veðri og færð en vonandi gengur allt vel hjá þeim.

Mikið er ég annars fegin að daginn skuli vera farið lengja aftur!

Engin ummæli: