Annars hafði ég mælt mér mót við vinkonu mína seinnipartinn, við ætluðum að kíkja á dagskrá Akureyrarvöku, sem við og gerðum. Þá var að vísu hætt að rigna en ég dúðaði mig í flíspeysu og regnjakka þrátt fyrir það. Við röltum um miðbæinn, frekar stefulaust og kíktum inn þar sem okkur datt í hug. Það var svo sem ekkert sérstakt sem vakti athygli mína öðru fremur og vinkonan varð fljótt þreytt því hún er með brjósklos í bakinu. Þannig að við fórum heim til hennar og spjölluðum yfir kaffi/tebolla í góða stund.
Ég átti samt eftir að fá meiri félagsskap því um kvöldmatarleytið hringdi síminn og kona spurði mig hvort ég vissi hver hún væri. Mér heyrðist þetta vera Didda, mamma stráks í bekknum hans Ísaks, en ekki var það nú rétt hjá mér. Kannski ekki skrýtið að ég skyldi ekki þekkja röddina því þetta var hún Helga (sem bjó í Tromsö um leið og við en býr nú á Sauðárkróki) og ég hef ekki hitt hana nema ca. þrisvar síðustu 12 árin. En hún var sem sagt stödd á Akureyri og kíkti í heimsókn. Það var virkilega gaman að fá hana og við röbbuðum lengi saman. Þegar við bjuggum í Tromsö þá komu hinir Íslendingarnir í stað stórfjölskyldunnar og samskiptin voru mikil en rofnuðu því miður eftir að heim kom. En þrátt fyrir að langur tími líði á milli þá er alltaf jafn gaman að hittast og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.
Ef einhvern skyldi undra að ég hef hvergi minnst á eiginmanninn í tengslum við þessa upptalningu á viðburðum dagsins þá er það vegna þess að hann er farinn í síðustu veiðiferð sumarsins og verður fram á mánudag.
Hér með læt ég þessu maraþonbloggi lokið og sleppi því að birta nokkrar ljósmyndir í þetta sinn :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli