þriðjudagur, 30. desember 2008
Millibilsástand
Já það ríkir einhvers konar millibilsástand hjá mér í dag. Eða bara eitthvað skrítið ástand. Í gær var ég að vinna og þurfti þar af leiðandi að vakna milli hálf átta og átta. Eftir að hafa sofið til ca. hálfellefu dagana á undan var ósköp erfitt að vakna í gær og ennþá erfiðara að halda sér vakandi restina af deginum. Enda sofnaði ég á sófanum um áttaleytið í gærkvöldi. Á þriðjudagsmorgnum erum við Sunna vanar að hafa vinnufundi og þá sér Anna um að afgreiða í búðinni á meðan. Þannig að nú stendur hún vaktina í Pottum og prikum en ég sit hér heima, enn í náttfötunum og klukkan að verða ellefu. Ég leyfði mér sem sagt þann munað að sofa út í morgun... drattaðist á fætur fyrir rúmum klukkutíma og hefði alveg verið til í að sofa lengur. Já, þetta skammdegi lætur ekki að sér hæða. Það er nú samt markmiðið að fara í sund áður en ég fer að vinna eftir hádegi. Kemst bara ekki alveg strax því ég er búin að borða morgunmat. Annars er þetta hálf asnalegt allt saman, þetta með hvíld og vinnu. Ég þurfti virkilega á hvíld að halda eftir jólatörnina en ef maður hvílir sig of mikið þá bara veslast maður upp úr sleni og deyfð. Hm, rosalega spennandi pælingar, eða þannig sko.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli