mánudagur, 10. nóvember 2008

Svartur skammdegishiminn

Já, allt í einu hellist skammdegið yfir. Í morgun var ég ótrúlega þung á mér og langaði gífurlega að halda áfram að kúra undir minni hlýju sæng. En það var víst ekki í boði svo ég dreif mig á fætur og í sund um áttaleytið. Það var rigningarsuddi og þegar ég var komin út í laug og byrjuð að synda tók ég eftir því að himininn var alveg kolsvartur. Það er engin launung að mér er hálf illa við myrkrið og skammdegið, aðallega vegna þess að ég hef áður átt við skammdegisþunglyndi að stríða. En ég synti minn venjulega skammt og fór svo í heita pottinn og gufu. Í þann mund sem ég gekk inn í gufubaðið heyrði ég konu sem ég þekki segja við karlmann sem var í pottinum: "Mikið sem er notalegt þegar það er svona dimmt úti". Þessi setning ómaði í huga mér í smá stund og ég fór að hugsa um það hvað viðhorf okkar hefur mikið að segja um það hvernig við metum marga hluti. Þetta eru svo sem engin ný sannindi en þörf áminning til mín núna í morgun þegar ég ætlaði svona hálfpartinn að fara að leggjast í volæði yfir vetrarmyrkrinu. Nú þarf ég bara að finna út úr því hvað er jákvætt við myrkrið og veturinn svo ég geti breytt viðhorfi mínu ;-)

Engin ummæli: