föstudagur, 24. október 2008
Enn á lífi...
en hef bara ekki verið í neinu bloggstuði undanfarið. Hrefna segir að ég þurfi náttúrulega ekkert að blogga þar sem hún er hér heima... En hér kemur sem sagt bloggtilraun frá frú andlausri. Sem hefur reyndar ekki verið neitt andlaus undanfarið, tja nema í dag og í gær. Í fyrradag var ég rosa dugleg og kláraði allt nema eitt atriði á "þarf að gera" listanum mínum. Enda var ég á þeytingi allan daginn og hef sennilega farið aðeins fram úr sjálfri mér. Þegar við bættist að ég hef sofið frekar illa undarfarnar nætur þá var ég afar drusluleg og þreytt í gær. Fór nú samt í vinnuna og afrekaði meira að segja að heimsækja vinkonu mína seinnipartinn en það er nokkuð sem ég hef ætlað að gera í margar vikur. Ótrúlegt hvað maður er stundum latur að koma sér milli húsa í ekki stærri bæ en Akureyri. Vildi óska að allar vinkonur mínar byggju í 2ja kílómetra radíus frá mér ;-) Í morgun leyfði ég mér þann munað að fara aftur að sofa eftir að Ísak var lagður af stað í skólann og náði að steinsofna svona líka fast. Dreymdi tómt rugl og var eins og vörubíll hefði ekið yfir mig þegar ég vaknaði aftur. Líður reyndar ennþá þannig en verð nú að reyna að taka mig eitthvað saman í andlitinu því ég er að fara í vinnuna eftir 45 mín. Úti er ofboðslega fallegt veður, hvítur snjór yfir öllu og einstaka snjókorn liðast varlega til jarðar. Sólin skín í gegnum skýjahulu og sér til þess að skuggar trjánna teygja sig eftir snjófölinni. Læt ég þessari væmnu veðurfarslýsingu hér með lokið og fer að tygja mig í vinnuna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli