----------------------------------------------------------------------------------------
"Að vinnudegi loknum ferðast eiginmaðurinn heim með almenningsvagni. Reyndar kemst hann varla inn úr dyrunum vegna skófatnaðar, úlpna, vettlinga og ullarsokka sem liggja á víð og dreif út um alla forstofuna. Hann ryður sér leið í gegnum þvöguna og rennur á lyktina og óhljóðin sem berast úr eldhúsinu. Þar stendur þreytuleg eiginkona hans við pottana meðan börnin tvö orga hvort í kapp við annað. Þau hafa nefnilega verið í skóla og hjá dagmömmu allan daginn og þurfa nú á athygli MÖMMU að halda.
Hann andvarpar en brettir síðan upp á ermarnar og hefst handa við uppþvottinn síðan í gær, svo hægt sé að borða af hreinum diskum í þetta skiptið. Kvöldverður er síðan framreiddur og fer fram svona nokkurn veginn stórslysalaust. Að vísu bítur stóra systir litla bróður í kinnina og hann klórar hana, full kanna með ávaxtasafa veltur um koll og eitt glas brotnar en þetta er nú ekki í frásögur færandi.
Eftir matinn eru allir svo örmagna að pabbi og mamma fá óáreitt að horfa á sjónvarpsfréttirnar, með afkvæmin hálf meðvitundarlaus í sófanum við hlið sér. Þetta er þó einungis stundarfriður því nú ákveður stóra systa að rétti tíminn sé runninn upp til að leika við litla bróa. Fara þau í feluleik og á sá stutti að leita, en þar sem talsverður munur er á aldri þeirra systkina finnur hann aldrei systur sína nema þegar henni þóknast og endar leikurinn með því að hann fer að hágráta yfir vanmætti sínum.
Eltingaleikur er næstur á dagskrá og þar stendur sá stutti betur að vígi. Berst leikurinn um allt hús og áður en yfir lýkur hafa öll þau húsgögn sem ekki eru skrúfuð föst við gólfið oltið um koll, allar gólfmottur eru komnar í einn haug og sængurfötin úr hjónarúminu hafa fundið leiðina niður á gólf. Að lokum dettur svo litli kútur í öllu draslinu og rekur upp þvílíkt öskur að ekki hafa önnur eins óhljóð heyrst í blokkinni fyrr en ÍSLENDINGARNIR fluttu inn. Næsti hálftíminn fer svo í að róa drenginn niður og koma honum í háttinn og eftir að hafa fengið lesið fyrir sig fer stelpan sömu leið.
Mesta draslið er týnt saman, tennur eru burstaðar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um lestur námsbóka og innfærslu í heimilisbókhaldið, lokkar rúmið þau til sín og sætur svefninn tekur yfirhöndina. Á morgun er nýr dagur!"
----------------------------------------------------------------------------------------
Jamm og jæja, þannig var nú það. Ég ætlaði sem sagt að fara að vinna í pappírum en fór einhverra hluta vegna að laga til í tölvunni í staðinn (dæmigert fyrir mig). Rakst á þessa örsögu og datt í hug að "leka henni á netið". Spurning hversu þakklátir mér aðrir fjölskyldumeðlimir verða... Þannig að ég ítreka enn og aftur að þetta er afskaplega ýkt frásögn af "eðlilegu" kvöldi í lífi okkar á þessum tíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli