þriðjudagur, 9. september 2008

Frí í dag og ég í letikasti

Já ég á frí í dag og veit ekki alveg hvað ég á af mér að gera því allir aðrir eru jú í vinnu eða skóla. Heimilisverkin bíða reyndar eftir mér en það er nú önnur saga...

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég hef að vísu verið alveg sérlega slæm af vefjagigtinni undanfarið og í ofanálag hefur lati fótur verið að stríða mér. Þannig að það er auðvelt að leggjast í sjálfsvorkunn og skiptir þá litlu máli þó maður viti að það sé fullt af fólki sem hefur það margfalt verra en maður sjálfur. Maður verður alveg ótrúlega sjálfhverfur þegar maður á bágt.

Ég áttaði mig samt á því þegar ég sat í heita pottinum áðan að ég mætti nú bara alveg hrósa sjálfri mér stundum. Þó ekki væri nema fyrir það að hafa viljastyrk til að fara á fætur á morgnana, synda og fara í vinnuna, þegar líkaminn er allur undirlagður úr stirðleika og verkjum, þreytan er yfirgengileg og heilastarfsemin er ekki uppá sitt besta. Það væri ótrúlega auðvelt í rauninni að gefast bara upp á þessu ástandi og leggjast í rúmið fyrir fullt og allt. En ég veit að ég er ekki alltaf svona slæm svo það er bara að þreyja þorrann í þeirri fullvissu að þetta fari skánandi.

Sem betur fer tekst mér yfirleitt að gleyma vanlíðaninni í vinnunni og líður vel ef það er mátulega mikið að gera. En það þýðir þá líka að öll orkan er búin þegar ég kem heim svo það er afar heppilegt að minn ástkæri eiginmaður sér um matseldina á þessu heimili. Ég þarf ekki að gera neitt nema setjast að borðinu og ganga frá eftir matinn. Svo set ég kannski í eina þvottavél og þá er það upptalið.

Einhverra hluta vegna hef ég reynt að tala sem minnst um vefjagigtina á þessum blogg-vettvangi. Kannski er ég hálfpartinn með fordóma gagnvart mínum eigin sjúkdómi. Finnst þetta innst inni vera einhver aumingjaskapur, að ég ætti nú að vera fær um að "hrista þetta af mér" og verða frísk. Eftir að hafa verið með þessa gigt í mörg ár er ég farin að átta mig á því að ég get ekki sveiflað töfrastaf og látið hana hverfa. En nú er ég bara eitthvað svo innilega leið á þessu ástandi að ég fann þörf hjá mér til að skrifa um þetta.

Svo ég endi þetta nú á skemmtilegri nótum, þá vorum við Valur boðin í mat á laugardagskvöldið síðasta. Þannig var mál með vexti að vinafólk okkar sem flutti suður fyrir þremur árum voru stödd í sumarbústað yfir í Vaðlaheiði og þau buðu okkur og öðrum vinahjónum í grillaðan mat. Það var humar í forrétt og lax í aðalrétt, hvoruteggja afar ljúffengt. Ekki var nú síðra að hitta gamla vini og spjalla um heima og geima langt fram á kvöld.

Andri og Sunneva eru komin heim frá útlöndum og hafði Andri meðferðis glaðning handa mömmu sinni og pabba og litla bróður. Ég fékk hvorki meira né minna en hlýja peysu fyrir veturinn, Ísak fékk bol og Valur... já hann fékk Superman nærbuxur ;-)

Engin ummæli: