sunnudagur, 5. október 2008

Mývatn



Mývatn, originally uploaded by Guðný Pálína.
Við Valur skruppum í hans ástkæru Mývatnssveit í dag og tókum nokkrar myndir. Það er að segja, hann tók fullt af myndum og prófaði sig áfram með mismunandi ljósop og hraða en ég tók fáar myndir og flestar bara á sjálfvirkum stillingum. Var einhvern veginn ekki í stuði fyrir ljósmyndatilraunir í dag. En þetta var samt góð ferð þó ótrúlega napurt væri úti. Við kíktum m.a. til vinafólks sem er að byggja sumarbústað við vatnið og skoðuðum Fuglasafn Sigurgeirs í Ytri-Neslöndum. Það var ótrúlega gaman að sjá alla fuglana þar og ekki spillti útsýnið út á vatnið fyrir. Tíminn leið hratt og við vorum ekki komin heim fyrr en um fimmleytið. Þá tók við eldamennska hjá bóndanum en ég hélt áfram að lesa bók um hráfæði sem ég keypti í gær. Er nú ekki á leiðinni í þetta mataræði held ég, bara gaman að kynna sér þessa hugmyndafræði. Finn hvað það gerir mér gott að borða meira af ávöxtum og grænmeti. Svo ætla ég að prófa að vera á glútenlausu fæði í 2 vikur og sjá hvað það gerir. Bakaði meira að segja glútenfrítt brauð í gær sem bragðaðist svona líka vel.

Engin ummæli: