sunnudagur, 28. september 2008

Heima er best

Eða a.m.k. þá er rúmið okkar hér heima allra best..

Við flugum suður eftir þónokkra seinkunn á föstudagsmorguninn og lentum í höfuðborginni í þvílíkri ausandi rigningu að flugbrautin var gjörsamlega á floti. Valur fór beint á aðalfund læknafélagsins en ég byrjaði á því að hitta Rósu vinkonu og borðuðum við saman góða fiskisúpu í hádeginu og spjölluðum um heima og geima.

Eftir matinn kíkti ég í Smáralindina og fór góðan hring þar í fatabúðunum, aðallega þó Debenhams og Zöru. Var svo ljónheppin að það var 50% afsláttur á eldri fötum í Esprit (sem er eiginlega mitt uppáhaldsfatamerki þessa dagana) og það fannst mér nú ekki verra. Náði í þessa fínu buxnadragt á hálfvirði.

Þegar Valur var búinn á fundinum kom hann til fundar við mig og við fórum að kíkja á gleraugu handa honum. Það fylgja því töluverðar pælingar að fá sér ný gleraugu og eftir að hafa spáð og spekúlerað og farið og fengið okkur kaffi/tebolla í millitíðinni, valdi hann sér loks þessi fínu gleraugu.

Næst lá leiðin heim á "hótel" en það var gisting sem ég fann á netinu, smá stúdíóíbúð í Bolholti. Við vorum hálf dösuð eftir daginn en ákváðum að fara út að borða og duttum inn á þennan fína stað, Orange, þrátt fyrir að þekkja sama og ekkert til veitingahúsaflórunnar í höfuðstaðnum. Eftir matinn skruppum við svo í heimsókn til tengdó og áttum notalega stund með þeim.

Það var þó ekkert notalegt við það að þegar við fórum í háttinn sáum við að rúmið var varla meira en 1.20 á breidd og þó hvorugt okkar sé sérlega stórvaxið þá var plássið ekki nægilegt til þess að við næðum nokkurri hvíld að ráði. Ég ætlaði aldrei að geta sofnað og svo vöknuðum við bæði örugglega hundrað sinnum, ýmist til að hagræða okkur í rúminu eða af því maður var við það að detta framúr.

Laugardagsmorguninn rann upp og við ætluðum að fara fram í "continental breakfast" sem auglýstur er á heimasíðunni - en hlaðborðið samanstóð þá af nokkrum samlokubrauðsneiðum, osti, skinku og einni fernu af eplasafa. Engin aðstaða var til að borða (nema þá inni á herberginu), ekkert te, ekkert kaffi og enginn starfsmaður var heldur sjáanlegur til að spyrja nánar út í morgunmatinn. Þannig að við drifum okkur í næsta bakarí og fengum okkur í svanginn.

Svo fór Valur aftur á aðalfundinn og ég hélt áfram að dingla mér. Ætlaði að bruna í Njarðvík að heimsækja mömmu og Ásgrím og lagði af stað þangað, en þegar ég ók framhjá Hafnarfirði fékk ég þá skyndihugdettu að líta inn til Sólrúnar vinkonu minnar. Kunni þó ekki við annað en hringja á undan mér og gerði það af bílaplaninu. Það var svolítið fyndið að þegar ég spurði hvað hún segði gott þá sagði hún "allt gott, það er loksins uppstytta hér á höfuðborgarsvæðinu" og þá sagði ég "ég sé það, ég er hér fyrir utan hjá þér". Hehe, hún varð nú svolítið hissa en líka voða glöð og það var virkilega gaman að heilsa aðeins uppá þau hjónakornin.

Eftir klukkutíma hélt ég svo áfram til mömmu og fékk þar fyrst hina bestu kjötsúpu að borða og svo seinna te og hjónabandssælu. Kíkti aðeins á tölvuna með mömmu því hún á stundum í smá basli við tæknina - en mér finnst nú bara svo flott hjá henni að hafa tekið tölvutæknina í sína þjónustu þrátt fyrir að vera fædd í torfbæ, mikið sem mamma og hennar jafnaldrar hafa upplifað miklar breytingar.

Í gærkvöldi fórum við Valur svo aftur út að borða (bara lúxus á okkur) og fengum okkur indverskan mat á "Indian Mango". Eftir matinn langaði okkur í bíó og eftir smá byrjunarörðugleika enduðum við á því að sjá nýjustu mynd þeirra Cohen bræðra í Smárabíói og höfðum gaman af.

Síðan tók við nótt nr. 2 í horror-rúminu og vorum við bæði fegin að tékka okkur þaðan út í morgun. Höfðum verið boðin í morgunmat til vinafólks okkar, þeirra Ingu og Dóra, og þar beið dekkað borð eftir okkur. Ekki var félagsskapurinn síðri og áttum við góða stund saman áður en við drifum okkur út á flugvöll um hádegið.

Þannig var nú þessi suðurferð, nóg að gera allan tímann (líklega sýnu skemmtilegra hjá mér en hjá Val sem sat á fundi tvo heila daga í röð).

En mikið verður gott að fara að sofa í eigin rúmi í kvöld!

Engin ummæli: