Já, þetta er önnur nóttin í röð sem ég sef langt frameftir þó ég hafi farið tiltölulega snemma að sofa. Sofnaði svona ca. hálf eitt og vaknaði ekki fyrr en hálf ellefu. Ég held reyndar að það sé engin tilviljun að ég vakna á þeim tíma því þá er akkúrat farið að birta úti. Ætli það sé ekki einhver innri klukka í mér sem segir að þá sé kominn rétti tíminn til að vakna. En síðan hef ég bara legið í leti. Tók mér góðan tíma í að borða morgunhristinginn og leysti krossgátu á meðan og hef svo hangið í tölvunni í smá stund. Er eiginlega á leiðinni í sturtu en leiðin þvert yfir ganginn er greinilega mjög löng.
Út um gluggann sé ég gullroða ský. Sólin er þarna einhvers staðar fyrir aftan fjallahringinn í suðri og varpar geislum sínum upp í skýin en annars er nokkuð þungt yfir. Skýjað á köflum og grámi. Og þar sem jólasnjórinn fór allur á Þorláksmessu er líka grátt um að litast á jörðu niðri.
Frammi í eldhúsi spjalla Valur og Kiddi yfir kaffibolla. Ég lét mig hverfa þegar Kiddi boðaði komu sína þar sem ég var enn á náttbuxunum og með þetta skemmtilega "nývöknuð og úldin" útlit. Og nú er ég farin í sturtu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli