miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Komin heim og byrjuð að blogga...

Líklega nenni ég ekki að skrifa ferðasöguna hér, læt þess bara getið að það var ósköp gott að vera í fríi og mikið sem það var ljúft að vera í sólinni og blíðunni í útlandinu. Það var líka gaman að heimsækja Hrefnu í Kaupmannahöfn og koma til Feneyja. Í Toscana þótti okkur "eldra fólkinu" (okkur Val og Hrefnu) gott að slappa af en þeim bræðrum þótti helst til mikil rólegheit þar.

Heimferðin var ansi skrautleg, við höfðum átt pantað flug Flórens-Stokkhólmur-Kaupmannahöfn á laugardeginum og heim til Akureyrar á sunnudeginum. Flugvélin bilaði hins vegar þegar við vorum rétt lögð af stað frá Flórens og við þurftum að lenda í Bologna og hanga þar allan daginn á flugvellinum. Lentum ekki í Stokkhólmi fyrr en eftir miðnætti og vorum þá löngu búin að missa af fluginu til Köben. Við vorum hálf ráðavillt í smá stund en komumst svo loks í tölvu og gátum bókað nýtt flug næsta morgun. Þegar hér var komið sögu var klukkan orðin eitt og mæting í flugið var klukkan hálf fimm, þannig að það tók því ekki að bóka sig á hótel. Við létum fyrir berast í flugstöðinni og sá eini sem náði aðeins að blunda var Valur en við vöktum allan tímann. Ég náði svo aðeins að dotta á leiðinni til Köben en þar tók síðan aftur við enn meiri bið eftir fluginu til Akureyrar. Það var því ekki fyrr en sú vél fór í loftið, um tvöleytið, að við Valur sofnuðum og steinsváfum alla leiðina. Strákarnir voru hinsvegar orðnir svo spenntir að komast heim að þeir sváfu ekki neitt. Þrátt fyrir þennan tæplega þriggja tíma svefn var ég eins og undin tuska bæði mánudag og í gær og það er fyrst í dag að ég er farin að líkjast sjálfri mér aftur. Ég hef reyndar alltaf vitað að það væri ekki gott fyrir mig að missa svefn en þarna fékk ég það staðfest svart á hvítu. Í gær var ég ennþá alveg glær af þreytu og ekki hægt að sjá að ég væri nýkomin frá útlöndum en í dag er ég komin með lit í kinnarnar aftur - sem betur fer .-)

Engin ummæli: