sunnudagur, 21. desember 2008
Loksins sundferð í björtu
Já, ég nennti ekki í sund um leið og ég vaknaði í morgun og fór ekki fyrr en um ellefuleytið. Kosturinn við það var sá að það var a.m.k. næstum því bjart en gallinn var sá að ég hafði fengið mér morgunmat áður en ég fór og var hálf bumbult á meðan ég var að synda. Það helgaðist nú líka af því að þegar ég kom inn í sturtuklefann var þar alveg skelfilega megn lykt. Hún minnti mig helst á lyktina af líkamspúðri með ilmefnum sem gamlar konur notuðu sumar ótæpilega hérna í den. Sums staðar finnst manni bara að mikil lykt eigi ekki við. Eins og t.d. reykingalykt úti í náttúrunni og ilmvatns- eða rakspíralykt ofan í sundlauginni. Já og reykingalykt í búnings- og sturtuklefanum í sundlauginni. Það kemur stundum fyrir að ég veit nákvæmlega hvaða kona hefur verið á ferðinni á undan mér því reykingalyktin sem fylgir henni er svo mikil að maður finnur ólyktina strax við skóhillurnar frammi. Síðasta vetur var líka kona sem vandi komur sínar í laugina á morgnana og kom þá beint úr hesthúsinu með allan ilminn með sér og það var ekki sérlega vinsælt hjá öðrum sundlaugargestum. Ég reyndar viðurkenni að ég er sérlega viðkvæm fyrir megnri lykt, sem og miklum hávaða og skæru ljósi, þannig að ég er víst ekki alveg hlutlaus í þessum efnum. Og nú er ég hætt að blogga og farin að gera eitthvað nytsamlegt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli