sunnudagur, 14. desember 2008

Kvenkyns Ragnar Reykás

Já eða bara fröken öfugsnúin eitthvað. Í morgun svaf ég út og vaknaði ekki fyrr en að verða hálf tíu. Var bara nokkuð sátt við það enda orðin lúin eftir 10 daga vinnutörn. Fékk mér morgunmat með bóndanum og dúllaði mér svo við að lesa blöðin og var aðeins í tölvunni. Svo settist ég inn í stofu og fór að prjóna og hlusta á tónlist. Hugsaði með mér hvað það væri nú gott að slappa af og gera ekki neitt stundum. En Adam var ekki lengi í paradís. Fyrr en varði voru annars konar hugsanir farnar að ásækja mig. Hvurslags leti var þetta eiginlega? Af hverju var ég ekki á fullu að gera eitthvað nytsamlegt? Af hverju dreif ég mig ekki í að baka, hengja upp þvott, eða bara út að ganga í góða veðrinu....? Já, allt í einu var ég ekki lengur í minni notalegru hvíld sem ég átti skilið - heldur hafði breyst í letingja og hálfgerðan ræfil. Eftir smá stund áttaði ég mig samt á því hvað ég var mikill Ragnar Reykás og reyni nú að finna einhvern milliveg í þessu öllu saman.

P.S. Hvað Ragnar Reykás snertir þá hef ég ekki horft á Spaugstofuna í nokkur ár og veit ekki hvort hans karakter kemur þar ennþá fram... en hann byrjaði yfirleitt á því að hafa ákveðna skoðun á einhverju máli en talaði sig svo í 180 gráður og endaði á alveg öndverðum meiði.

Engin ummæli: