sunnudagur, 28. desember 2008

Áframhaldandi afslöppun

Já ekki eru mörg verkefnin sem liggja fyrir þessa frídaga. Eða kannski væri nær að segja að ekki séu mörg verkefnin sem frúin nennir að sinna. Maður dettur í einhvern letigír og ég nennti meira að segja ekki í sund í morgun. Fór reyndar í gærmorgun og það var ægilega gott. Núna langar mig meira út að ganga, veðrið er svo yndislegt. Það er blankalogn og hlýtt og smám saman birtir af degi. Ég hef nú ekki látið reyna á það lengi hvort ég kemst hringinn í Kjarnaskógi. Síðast þegar ég gekk þennan hring var ég nánast farin að draga fótinn þegar leiðin var rúmlega hálfnuð og það voru svo mikil vonbrigði að ég hef ekki viljað leggja það á mig aftur. En núna langar mig út í Kjarnaskóg. Auðvitað þarf maður ekkert að labba þennan blessaða hring. Það er alveg eins hægt að ganga einhverja skógarstíga og snúa bara við þegar fóturinn er orðinn lúinn.

Svo þyrfti ég eiginlega að þrífa aðeins og þvo þvott. Já og laga til. Og fara yfir nokkur söluuppgjör sem ég tók með mér heim úr vinnunni í gær af því þau stemma ekki. Þá held ég að það sé upptalið. Í kvöld ætlum við svo að borða saman "stórfjölskyldan". Hehe, það er nú enginn brjálaður fjöldi samt. Hrefna og Erlingur verða í mat og svo kemur Sunneva kærastan hans Andra. Á matseðlinum er humar sem Valur ætlar að matreiða af sinni einstöku snilld. Í gærkvöldi var Rósa vinkona hjá okkur í mat og þá töfraði Valur líka fram kræsingar eins og honum er lagið. Í forrétt var hörpudiskur (uppskrift úr bókinni hans Rúnars Marvinssonar sem kom út núna fyrir jólin) og í aðalrétt var indverskur kjúklingaréttur. Eftirrétturinn var nú "bara" kaffi og konfekt. En þetta var voða ljúft allt saman, bæði maturinn og félagsskapurinn :-)

Engin ummæli: